Laugardagur 12.03.2011 - 09:00 - 3 ummæli

Við þurfum samvinnu

Á götum úti heyrist kallað eftir nýrri hugsun og nýjum hugmyndum fyrir nýtt Ísland.

Vinstri grænir segja að best sé að gera ekki neitt, á meðan Samfylkingin telur að Evrópusambandið leysi öll heimsins vandamál. Sjálfstæðisflokkurinn neitar að gera upp við frjálshyggjuna og skilur ekki hvað hugtakið að axla ábyrgð þýðir og Frjálslyndi flokkurinn veit ekki hvort hann er að koma eða fara. Eini flokkurinn sem virðist ætla að svara kalli almennings eftir endurnýjun og uppgjör við fortíðina er Framsóknarflokkurinn.

Ný forysta verður valin í janúar og sú forysta verður að endurspegla gildi samvinnustefnunnar um sjálfshjálp, sjálfsábyrgð, lýðræði, jafnrétti, sanngirni og samstöðu. Móta þarf stefnu flokksins upp á nýtt og byggja hana á áherslum um sjálfsábyrgð hvers og eins, lýðræðislegum vinnubrögðum og jafnrétti þar sem allir hafa málfrelsi og jafnan atkvæðisrétt, sjálfstæði einstaklinganna, mikilvægi menntunar og fræðslu, samvinnu og umhyggju fyrir samfélaginu. En hvernig útfærir maður falleg orð yfir í stjórnmálastefnu?

Samvinnustefnan leggur mikla áherslu á ábyrgð einstaklinganna á sjálfum sér og sínu lífi. Er það meitlað í stein að skólar eða heilsugæsla eigi að vera rekin af hinu opinbera, þótt þeir séu fjármagnaðir með skattfé? Foreldrar og kennarar sem hafa áhuga á mótun skólastarfs í sínu samfélagi eiga að geta stofnað skóla. Þetta hefur verið gert í nágrannalöndum okkar, þar á meðal Bretlandi og Svíþjóð. Þar hafa verið stofnuð samvinnufélög um skólana þar sem meðlimir velja fulltrúa í stjórn og nemendur, kennarar og foreldrar taka þannig virkan þátt í stjórnun þeirra. Námið er svo skipulagt í samræmi við þarfir viðkomandi samfélags á grunni hugsjóna um sjálfshjálp, samfélagslega vitund og sanngirni.

Ýmsir möguleikar eru varðandi þróun heilbrigðisþjónustu þar sem hægt er að byggja á samvinnu og samfélagslegri vitund. Þannig er hægt að hætta að einblína á „hagræðingu“ og „styttingu biðtíma“ og fara í staðinn að hugsa um val sjúklinga og möguleika þeirra til að hafa áhrif á þá þjónustu sem þeir fá. Heilbrigðisstarfsmenn og almenningur gætu þannig tekið sig saman og stofnað t.d. heilsugæslu, fæðingarheimili, mæðravernd eða endurhæfingarstöðvar. Sjúkratryggingar Íslands settu svo kröfur fyrir greiðslu, sem gætu m.a. verið að eigendur yrðu meðlimir í samvinnufélagi, en ekki hluthafar, lýðræði ríkti meðal meðlima og þeir tækju virkan þátt í rekstrinum miðað við framlag þeirra. Tilgangur samvinnufélagsins væri þannig að hámarka þjónustu, en ekki bara hagnað.

Jafnrétti og jafnræði hefur alltaf verið ofarlega í huga samvinnumanna og hefur sú stefna endurspeglast mjög skýrt í stefnu Framsóknarflokksins. Eitt stærsta skrefið í átt að jafnrétti á vinnumarkaði var tekið með lögum um Fæðingarorlofssjóð auk þess sem mikil áhersla er lögð á jafnrétti í öllu flokksstarfi, sem hefur m.a. leitt til þess að nú eru konur í meirihluta í þingflokki Framsóknarflokksins. En betur má ef duga skal. Útrýma þarf kynbundnum launamun, jafna hlut karla og kvenna á vinnumarkaði og auka fræðslu um jafnréttismál. Samvinnuhugsjónin er öflugt tæki til þess.

Til að ná árangri þurfum við að gera samvinnu og samstöðu að lykilhugtökum í íslensku samfélagi.

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 16.12.2008)

Flokkar: Samvinnuhugsjónin · Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (3)

  • Ert þú ekki í vitlausum flokki?
    Þetta er einkavæðingarstefna sjálfstæðisflokksins sem þú ert að kynna hérna.

  • Sigurður E. Vilhelmsson

    Það er mikill munur á einkarekstri með gróðasjónarmiði eins og Sjálfstæðisflokkurinn predikar og svo samfélagsrekstri með aðkomu þeirra sem veita og njóta þjónustunnar og ekki er ætlað að skila fjárhagslegum hagnaði.

  • Tek heilshugar undir að það þurfi að endurvekja samvinnuhugsjónina. Samvinnustefnan var ein langmikilvægasta umbóta og framfarastefna 20 aldarinnar, og þó að íslenska samvinnuhreyfingin hafi á endanum hrunið eftir að hafa tapað lífsviljanum og öllum þrótti, m.a. vegna langvarandi glímu við banvænt krabbamein sem síðan hélt áfram að grafa um sig í rústum hreyfingarinnar, er óumdeilanlegt að hún var gríðarlega mikilvæg í því að byggja hér upp lífvænlegt, réttlæatt og nútímalegt samfélag.
    Spurningin er hins vegar hvernig á að endurvekja samvinnuhugsjónina. Mér hefur sýnst að það vanti mjög mikið upp á skilning á því hvað fólst eða ætti að felast í samvinnuhugsjóninni. Ég held að eitt fyrsta skrefið sé að áhugamenn um samvinnustefnuna ræði hvernig íslensk samvinnuhugsjón 21 aldarinnar eigi að líta út.
    Já, og eitt mikilvægt atriði: Ef það á að vera hægt að endurvekja samvinnuhugsjónina verður að gera það utan stjórnmálaflokka. Það er ekkert sem mælir gegn því að samvinnumenn séu flestir í einum flokki. Í Svíþjóð og Þýskalandi voru þeir t.d. flestir sósíaldemókratar. Hér Framsóknarmenn. En þær samvinnuhreyfingar sem best gengu gættu þess þó að vera pólítískt sjálfstæðar. Ég held að of náin tengsl Framsóknarflokks og samvinnuhreyfingarinnar hafi einmitt verið ein mikilvægasta ástæðan fyrir því að íslenska samvinnuhreyfingin dó. Ég fagna því að innan Framsóknarflokksins sé fólk sem vilji endurvekja samvinnuhugsjónina, en það verður að að gæta þess að endurvakin samvinnuhreyfing verði ekki einhverskonar armur framsóknarflokksins.
    Mbk,
    Magnús Sveinn Helgason
    Sagnfræðingur

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur