Sunnudagur 13.03.2011 - 09:00 - Rita ummæli

Samvinna í verki

Samvinnustefnan byggir á þremur lykilstoðum. Að fólk geti náð meiri árangri með því að vinna saman en sem einstaklingar. Að eina leiðin til tryggja sanngirni í samfélaginu sé að dreifa valdi, án tillits til auðs, stéttar, kyns eða hörundslitar. Að unnið sé að því að hvetja til reksturs samvinnu félaga og annarra sameignar félaga sem hafi hagsmuni meðlima að leiðarljósi fremur en það eitt að hámarka hagnað.

Fram undan er mikil vinna við uppbyggingu íslensks atvinnulífs. Hér tel ég að höfuðborgarsvæðið geti lært af reynslu landsbyggðarinnar. Landsbyggðin hefur barist árum saman við samdrátt og fólksfækkun og er að mínu mati aðeins tvennt sem hefur borið verulegan árangur. Annað er uppbygging menntakerfisins, þ.e. framhaldsskóla, fræðslu- og símenntunarmiðstöðva og háskóla á landsbyggðinni.

Hitt eru vaxtarsamningarnir, sem byggja á hugmyndum Michael Porters um samvinnu í samkeppni, eða uppbyggingu klasa. Fyrirtæki, stofnanir, hið opinbera og einstaklingar skilgreina saman hver sé styrkleiki atvinnulífsins á svæðinu og vinna síðan markvisst að því að styrkja þá þætti enn frekar í samstarfi. Í raun ætti að endurnefna samningana og kalla þá samvinnusamninga, því þeir byggja á samvinnuhugsuninni og endurspegla skýrt hversu miklu sterkari við erum þegar við vinnum saman, en ekki sem einstaklingar.

Samþjöppun valds hefur einkennt íslenskt samfélag. Eignarhald fyrirtækja hefur safnast á æ færri hendur og það sama hefur gerst hjá hinu opinbera. Í stjórnarskránni kemur skýrt fram að við stofnun íslenska lýðveldisins var ætlunin að tryggja þrískiptingu valds í framkvæmdavald, dómsvald og löggjafarvald. Forsetinn hefur framkvæmdavaldið en framselur það til ráðherranna, Alþingi á að setja lög og dómstólar að úrskurða samkvæmt þeim. Af þessum eru bara forsetinn og Alþingi kosin beinni kosningu af almenningi. Hefð hefur síðan skapast fyrir þingræði, og forsetinn hefur orðið nánast valdalaus innan íslenskrar stjórnskipan.

Til að ná fram sanngirni í samfélaginu verðum við að dreifa valdi, og það gerum við ekki nema með róttækum breytingum á íslenskri stjórnskipan. Á síðustu tveimur mánuðum hefur kristallast hversu veikt löggjafarvaldið er orðið gagnvart framkvæmdavaldinu, og samráð er nánast haft til málamynda við þingmenn og þingnefndir um skuldbindingar, samninga og stefnumörkun ríkisstjórnarinnar.

Þær breytingar sem þarf að gera til að treysta þrískiptingu valdsins eru meðal annars að banna að ráðherrar sætu jafnframt sem þingmenn. Ef þingmenn tækju að sér ráðherraembætti yrðu þeir að segja af sér þingmennsku, en sú leið er einmitt farin í Svíþjóð. Ganga mætti lengra og sameina hlutverk forseta og forsætisráðherra.

Forsætisráðherra yrði þá kosinn beinni kosningu og hann svo velur ráðherra sem yrðu að hljóta samþykki þingsins, líkt og gert er í Bandaríkjunum. Ráðherrar veldu sér síðan ráðuneytisstjóra og helstu trúnaðarmenn inn í viðkomandi ráðuneyti. Þannig væru völd embættismanna í ráðuneytum, sem enginn hefur kosið, einnig takmörkuð. Annar varnagli gegn samþjöppun valds væri að kjörnir fulltrúar gætu aðeins setið samfellt tvö kjörtímabil, enda eiga 8 ár að duga ágætlega til að koma hugmyndum sínum og hugsjónum á framfæri.

Endurskoða þarf löggjöfina um samvinnurekstur og aðlaga hana að nútímasamfélagi. Opna þarf fyrir rekstur samvinnulánastofnana, styrkja stöðu sparisjóðanna og nýta skattakerfið til að umbuna fyrirtækjum sem sýna samfélagslega ábyrgð og vitund í rekstri.

Græðgisvæðing íslensks samfélags reið því nærri að fullu. Ofuráhersla á hagnað, hagræðingu, vöxt og samþjöppun valds gerði það að verkum að auðgildið var sett ofar manngildinu. Til að rata út úr þessum ógöngum þurfum við að endurskoða stjórnskipan landsins, tryggja valddreifingu, jafnt stjórnvalds sem viðskiptalífs og byggja upp nýtt samfélag á grunni samvinnu, sanngirni og jafnréttis. Þar mun samvinnustefnan gegna lykilhlutverki.

(Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19.12.2008)

Flokkar: Samvinnuhugsjónin · Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur