Aðalfrétt RÚV í hádeginu var að jafnréttisstýra taldi að einstæðar mæður væru hugsanlega að eignast fleiri börn til að fá hærri framfærslustyrk. Síðan var talið upp í fréttinni að ekki aðeins ættu einstæðar mæður í meiri fjárhagsvandræðum heldur sýndu tölur frá Barnaverndarstofu að börnin þeirra eru líklegri til að eiga í áfengis- og vímuefnavanda (þriðjungur) og vera undir eftirliti barnaverndarnefnda (40%).
Hvers konar umfjöllun er þetta eiginlega, – að halda því að fram að einstæðar mæður séu einfaldlega að eignast börn sér til framfærslu og tala um þessar fjölskyldur sem einsleitan hóp? Skv. upplýsingum Hagstofunnar þá voru einstæðar mæður 25,38% barnafjölskyldna í landinu árið 2010. Þeim virðist fækka lítillega árið 2011, eða 25,27% (sem stemmir ekki alveg við fréttina en kannski er Velferðarvaktin og jafnréttisstýra með „réttari“ tölur). Þetta hlutfall skýrir að mestu leyti af hverju börn einstæðra mæðra eru um þriðjungur af þeim börnum sem leitar sér aðstoðar við vímuefnavanda. Erfiðara er að greina töluna um eftirlit barnaverndarnefnda án frekari upplýsinga. Ég get því ekki séð að þessar tölur eigi að gefa okkur ástæðu til að fara rannsaka hvort konur séu að eignast börn sér til framfærslu!
Einstæðar mæður eru jafn fjölbreyttar og þær eru margar, sem og ástæður þess að þær eru einar að ala upp börnin sín. Í okkar samfélagi er mjög erfitt að hafa bara eina fyrirvinnu á heimili. Lítið þarf til að endar nái ekki saman: allt frá langvarandi veikindum eða eitt gott verðbólguskot. Launamunur kynjanna er einnig staðreynd og einstæðar mæður hafa mismunandi stuðningsnet til að tryggja sér og börnum sínum betri framfærslu s.s. með námi.
Vandinn er og verður ójöfnuður og efnahagskreppa í íslensku samfélagi, – ekki fjölskyldan sjálf og allra síst einstakar konur 😉
Tæklum hann frekar en að berja á einstæðum mæðrum með óvandaðri og fordómafullri umfjöllun á borð við þessa.
Ég heyrði ekki betur en jafnréttisstýru hafi verið lögð orð í munn til að búa til fréttina. Spurningunni var hins vegar að sjálfsögðu sleppt, enda hefði „fréttin“ þá ekki verið eins krassandi.
Ég velti því sama fyrir mér. Ef ef svo var hefði hún getað svarað spurningunni með því að beina athyglinni að ójöfnuðinum í samfélaginu, launamuninum, efnahagskreppunni og mörgu öðru sem skýrir betur þessar aðstæður hjá einstæðum mæðrum.
Allt nema að taka undir þetta.
Þetta var svo fáránleg frétt að ég gat ekki orða bundist. Tókuð þið eftir hvað hún Kristín Ástgeirsdóttir svaraði þessu ámáttlega og slappt þegar rætt var við hana ? Skil reyndar ekki hvað sú ágæta kona Kristín Ástgeirsdóttir er orðin undirgefin og slöpp í baráttunni þegar Jóhanna Sigurðar á í hlut, hún þ.e. Kristín, var algjörlega án nokkurs baráttuanda þegar hún var í fréttum spurð út í klúðrið hjá Jóhönnu Sigurðardóttur. Mér dettur helst í hug að þessi stofnun sem Kristín stýrir heyri undir Jóhönnu og Kristín hafi verið hrædd um að verða rekin ef hún talaði með þunga um brot Jóhönnu í jafnréttisbaráttunni.
Ég er búin að vera svo hneyksluð að ég hef bara ekki náð upp í nefið á mér! Var ekki lengi að skella þessu á fésið náttúrlega. Alveg ótrúlega lágkúruleg og andfélagsleg umræða! Að láta svona út úr sér er bara alveg fyrir neðan allar hellur og til háborinnar skammar! >:(
Ég talaði við vaktstjóra á fréttastofu RÚV svo blöskraði mér – honum fannst hins vegar fréttaflutningur þessi og frétt mjög vel gerð.
Ég talaði líka við Kristínu Ástgeirsdóttur vegna þessa viðtals og hún var algerlega miður sín. Verður í morgunútvarpi Rásar 2.
Og Eygló takk fyrir að taka þetta upp.
Hún sagðist vera undrandi á því að fólk sem ekki gæti framfleytt sér væri yfirleitt að eignast börn. Ég á ekki orð yfir þessa konu, bara burt með hana úr þessari jafnréttisnefnd. Svona hugsunarháttur tilheyrir liðnum tíma.
Ég varð svo hissa á að heyra þetta frá þessari konu, sem ég hafði þangað til haft álit á. Hún baðst svo reyndar afsökunar á að hafa orðað þessar hugsanir sínar upphátt og opinberlega, en bara að hugsa svona….
Einstæðar mæður fá yfirleitt minni hjálp frá fjölskyldu og vinum heldur en einstæðir feður, og sömu kröfur eru gerðar til þeirra sem uppalanda eins og hjóna. Verði þeim á einhver mistök eru þær dæmdar harðar þó þær sinni sínu hlutverki undir miklu álagi. Þær þurfa oft að sjá einar um öll heimilisstörf og uppeldi,vera bæði mæður og feður og vinna mjög mikið svo endar nái saman. Og jafnvel þó barnsfeður séu duglegir við að sinna barninu fá þær oft engan móralskan stuðning frá honum í uppeldinu t.d. þegar setja á reglur.
Þessar prósentutölur sem þú vitnar þarna í sýna bara að flestar þeirra eru að standa sig ótrúlega vel miðað við aðstæður.