Laugardagur 02.04.2011 - 11:21 - 8 ummæli

Kynjaskekkja við styrkveitingar?

Síðasta áratug störfuðu nær jafn margar konur og karlar við kennslu við Háskóla Íslands. Þrátt fyrir þetta voru konur mun ólíklegri til að sækja um styrki sem verkefnisstjórar í samkeppnissjóði Rannsóknamiðstöðvar Íslands, Rannís. Kynjaskekkja virðist því vera til staðar við umsóknir og úthlutun styrkja til vísindarannsókna.

Á árunum 2004-2010 voru tæplega 70% karlar verkefnisstjórar þeirra verkefna sem fengu styrk frá Rannsóknasjóði en rúm 30% konur. Rannsóknasjóður veitir styrki á grundvelli almennra áhersla Vísinda- og tækniráðs og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknaverkefna. Á sama tímabili var hlutfall karla sem fengu úthlutað úr Tækjasjóði um 78,4% og konur 21,6%. Tækjasjóður styrkir kaup á dýrum tækjum og búnaði til rannsókna. Við úthlutun styrkja í gegnum markáætlun á sviði vísinda og tækni var um þrjú áherslusvið að ræða: erfðafræði í þágu heilbrigðis þar sem kynjahlutfallið var 50/50, örtækni þar sem allir verkefnisstjórar voru karlmenn og öndvegissetur og rannsóknaklasa þar sem karlar voru verkefnisstjórar í þremur verkefnum en kona í einu. Hlutföllin snúast við innan Rannsóknarnámssjóðs, en þar voru 59,9% konur verkefnisstjórar og 40,2% karlar.

Karlar í öndvegi?
Spyrja má hvort hærri styrkupphæðir sé að finna á þeim sviðum þar sem karlar eru líklegri til að sækja um? Sem dæmi má nefna að innan markáætlunar um öndvegissetur og rannsóknaklasa sem úthlutað var til í febrúar 2009 fóru allt að 125 milljónir króna til verkefna um jarðhita og vitvélasetur þar sem karlar voru verkefnisstjórar á meðan allt að 35 milljónir króna fóru til rannsókna á jafnrétti og margbreytileika þar sem kona var verkefnisstjóri. Ætlunin er að óska eftir nánari greiningu á skiptingu upphæða eftir kynjum og sjóðum.

Í rannsókn sem unnin var á vegum Evrópusambandsins árið 2009, „The Gender Challenge in Research Funding – Assessing the European National Scenes“, kemur sama skekkja fram. Konur eru almennt ólíklegri til að sækja um styrki í rannsóknasjóði, sækja um lægri upphæðir og fá lægra hlutfall af úthlutuðum styrkjum bæði í fjölda talið og upphæðum. Hefur þessi kynjaskekkja verið sérstaklega áberandi í öndvegisverkefnum.

Konum að kenna?
Lengi var talið að vísindi væru hlutlaus og kynlaus, en æ fleiri hafa gert sér grein fyrir að vísindin endurspegla umhverfi og samfélag þeirra sem stunda þau. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að gerðar voru meiri kröfur til kvenna sem fengu styrk en karla. Konur urðu að birta 2,5 sinnum fleiri vísindagreinar en karlar og fá mun fleiri tilvitnanir til að fá styrk. (Konur í vísindum 2002, bls. 6) Brottfall kvenna er einnig meira eftir því sem hærra er komið innan akademíunnar. Samspil flókinna samfélagslegra þátta virðist draga úr möguleikum kvenna til frama innan vísindanna. Vinnumarkaður er kynjaskiptur, konur skila sér verr inn í framhaldsnám, nám tryggir þeim síður en körlum öruggan starfsframa, konur sinna heimili og börnum í meiri mæli en karlar og konur og karlar sækja í ólíkar fræðigreinar sem eru metnar misjafnlega þegar kemur að úthlutun styrkja.

Víða hafa stjórnvöld gripið til ýmissa aðgerða til að fjölga umsóknum kvenna s.s. með því að hvetja konur til að sækja um styrki, jafna kynjahlutföll innan úthlutunarnefnda, upplýsa um mikilvægi kynjasjónarmiða við úthlutun og skipulagningu styrkja, veita meiri upplýsingar og efla rannsóknir á orsökum og afleiðingum kynjaskekkju innan vísindaumhverfisins.

Aukum jöfnuð
Á næstunni mun menntamálaráðherra setja af stað tilraunaverkefni í kynjaðri hagstjórn á þessu sviði, m.a. til að greina ástæður þess að konur sækja síður í sjóðina en karlar. Kanna þarf betur orsakir mismunandi þátttöku karla og kvenna í vísindarannsóknum á Íslandi svo hægt verði að grípa til markvissra aðgerða til að auka hlut kvenna á því sviði.

Nauðsynlegt er að tryggja jafnrétti á sem flestum sviðum samfélagsins og hluti af því er að framlag karla og kvenna í vísindum sé sem jafnast.

(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. apríl 2011)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Snorri Sturluson

    Kynjaskekkja?

    Anatómískur og klínískur blær orðsins blæs á tilgang greinarinnar.

  • Elfur Logadóttir

    flott og vel skrifuð grein Eygló. Fyllilega réttmætar ábendingar og það verður áhugavert að sjá niðurstöður verkefnisins.

  • Einar Steingrímsson

    Þú segir, Eygló: „Síðasta áratug störfuðu nær jafn margar konur og karlar við kennslu við Háskóla Íslands. Þrátt fyrir þetta voru konur mun ólíklegri til að sækja um styrki sem verkefnisstjórar í samkeppnissjóði Rannsóknamiðstöðvar Íslands, Rannís. Kynjaskekkja virðist því vera til staðar við umsóknir og úthlutun styrkja til vísindarannsókna.“

    Rannsóknastyrkir eru (vonandi) ekki veittir fólki vegna þess að það kenni við háskóla, heldur af því að það stundar (góðar) rannsóknir.

    Auk þess man ég ekki betur en að þegar kemur að úthlutunum úr umræddum sjóðum sé hlutfall þeirra sem fá styrki, af þeim sem sækja, óháð kyni. Hafirðu ekki gögn sem styðja staðhæfingar þinar um kynjaskekkju finnst mér ómaklegt af þér að halda fram að slíka skekkju sé að ræða.

    Það ætti aldrei að vera hlutverk samkeppnissjóða að líta á kynjahlutfall, einungis að styrkja sem bestar rannsóknir.

  • Pétur Maack

    Hafi ég skilið greinina rétt er Eygló einmitt að benda á það Einar að matið á gæðum rannsókna er skakkt. Hún birtir jafnvel tilvísun í textanum. Það er vel maklegt.

    Þetta er fín grein. Ég velti þó einkum vöngum yfir tvennu, annars vegar þessum mikla kynjamun á úthlutunum úr tækjasjóði, gæti það helgast af því að verkfræðideild og raunvísindadeild eru setnar körlum?

    Enn fremur, þrátt fyrir að konur hafi verið í mjög mikilli sókn undanfarin ár, áratugi, þá eru þær enn í minnihluta á meðal prófessora (mun fjölmennari í hópi aðjúnkta). Skiptir það máli?

  • Pétur Henry Petersen

    Ég tek undir með Einar. Það er verið að búa til vandamál. Það er algerlega til fyrirmyndar að mjög svipað hlutfall af einu kyni sem sækja um styrki sé að fá styrki. Það er þó rétt hjá Eygló að það er umhugsunarefni afhverju fleiri konur sækja þá ekki um. Ég tel að útskýringin á því sé m.a. að færri konur vinna í rannsóknum, þó að hlutfall við kennslu eða störf fyrir háskóla sé svipað. Það að vinna við rannsóknir þar sem sækja þarf um styrki er almennt illa launað, stressandi, óörrugt og jafnvel mannskemmandi. Mér finnst því líklegt að konur, margar skynsamar að vanda, leiti ekki í þá vitleysu 🙂 t.d. væri fróðlegt að vita hvert væri kynjahlutfall í útskrifuðum doktorshandhöfum, aftur er oft um mjög heimskulegan starfsframa að ræða, mér finnst líklegt að aftur sé karlar hér í meirihluta, sem svo aftur myndi útskýra afhverju fleiri karlar sækja um styrki þ.e. fleiri hafa forsendur til þess. En enginn vísindamaður eða fræðimaður vill láta dæma sig af kyni sínu,kynhneigð sinni eða öðru en verkum sínum. Tölurnar sýna að staðan núna er einmitt sú að kyn skiptir ekki máli í úthlutunum. Og bara by they way, Tækjasjóður styrkir kaup á tækjum, kannski er karlar í greinum sem nota meiri tæki? Einnig, er vert að athuga að flest tæki sem keypt eru á þennan hátt, eru til almennrar notkunar fyrir alla sem vit hafa á, óháð kyni! Þannig að það er þá frekar athugavert afhverju karlarnir eru látnir um að skrifa umsóknir fyrir samfélagið 🙂 Semsagt ekki eins einfalt eins og mætti ætla af færslunni.

  • Pétur Henry Petersen

    Nafni minn Mack.
    Þó að erlendar rannsóknir hafi sýnt eitthvað, þá þarf það ekki að þýða að það sé vandamál hér. Það er ekkert sem bendir til þess að það séu gerðar meiri kröfur til rannsókna kvenna en karla á Íslandi. Og við því ágæta ástandi á ekki að bregðast með því að gera minni kröfur til rannsókna kvenna.

  • Eygló Harðardóttir

    Ég held að færslan hafi einmitt sýnt að þetta er ekki einfalt.

    Það er oft sem ég heyri að vandinn sé einfaldlega konurnar sjálfar. Þær sækja ekki um, óska ekki eftir hærri launum, vilja ekki fara í viðtöl, hafa ekki áhuga á tækjum eða fá stöðuhækkun o.s.frv.

    Síðan eru færð fram þau rök að sjálfsögðu á bara faglegt mat að ráða eða hæfasti einstaklingurinn að fá framgang.

    En hvernig stendur á því að svona oft er hæfasti einstaklingurinn „góður“ karl eða við metum „kvenleg“ verkefni minna verðug?

  • Pétur Henry Petersen

    Ég held að þú sért eitthvað að misskilja þetta. Tölurnar sýna að sama hlutfall karla/kvenna sem sækja um fá styrkveitingu. Því er ekkert sem bendir til þess að hæfasti eintaklingurinn sé alltaf karl né að kvenleg verkefni séu talinn minna verðug í styrkjakerfi vísinda og fræða á Íslandi. Hvernig hlutirnir eru annars staðar og þú virðist vera að lýsa, það er óskylt mál, auðvitað er það ekki boðlegt að konum sé haldið niðri undir yfirskyni faglegra vinnubragða.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur