Sögulegur atburður gerðist í gær. Kvennaskólinn sigraði í Gettu betur í fyrsta skipti og í liðinu var fyrsta konan í sigurliði í sögu keppninnar. Enn eru því konur að stíga fyrstu skrefin í átt að jafnrétti á fjölmörgum sviðum.
Eitt sinn (ekki í fyrsta sinn, að vísu) hlustaði ég á virðulegan eldri karl útskýra af hverju umræða um jafnrétti vera ónauðsynleg. Það væri búið að setja lög um jafnrétti, konur hefðu haft kosningarétt áratugum saman og vandinn væri miklu frekar að konur væru ekki nógu duglegar að sækja fram.
Vildu það jafnvel ekki.
Eftir umræðuna (lesist: prédikunina) sat ég og hugsaði til eigins ferils sem stjórnmálamaður. Ég er fyrsta konan sem er kosin á Alþingi fyrir hönd Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, sem og gamla Suðurlandskjördæminu og gamla Vestmannaeyjakjördæminu. Þessa staðreynd get ég þakkað öllum þeim konum sem ruddu brautina og tóku slaginn í kjördæminu, innan flokksins og samfélaginu öllu.
Vegna þess að þær sóttu fram, börðust og gerðu þar af leiðandi baráttu okkar hinna auðveldari, – takk kærlega Unnur, Elín, Lóa, Þuríður og þið allar hinar.
Enn eru ótrúlega mörg hlutverk í okkar samfélagi sem konur hafa aldrei gegnt. Má þar nefna að enn þá eigum við eftir að sjá fyrstu konuna sem fjármálaráðherra, samgönguráðherra (heitir víst innanríkisráðherra núna) og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Enn hefur kona aldrei verið formaður Samtaka atvinnulífsins, forseti ASÍ eða formaður Viðskiptaráðs Íslands.
Og ég er sannfærð um að það er fullt af konum sem bæði vilja og svo sannarlega geta hugsað sér að taka að sér eitthvert af þessum hlutverkum, – þar á meðal undirrituð 😉
Kona hefur ekki verið formaður Viðskiptaráðs. En kona hefur verið framkvæmdastjóri þess. Árin fyrir hrun. Meðal annars á þeim tíma þegar þetta merka ráð útskýrði að við gætum lítið lært af Norðurlöndum; við stæðum þeim framar á flestum sviðum. Auk þess að mæra í sífellu hina merku íslensku útrásarvíkinga.
Ég sé ekki hvað er jákvætt við að fleiri konur komist til valda og áhrifa í þeim valdaklíkum sem eru helsta vandamál þessa lands.
Um það bil 99% kvenna og 97% karla eru valdalaus, og í ýmsu tilliti leiksoppar hinna tveggja prósentanna sem flestu ráða og raka saman auði(ágiskaðar tölur, en ég er nokkuð viss um að kynjahlutföllin eru nærri lagi). Hverjum mun það gagnast, öðrum en þeim konum sem tekst að troða sér í þessar valdastöður, að fleiri konur komist þangað?
Þetta viðhorf Einar er nokkuð útbreitt og er einskonar madonnuheilkenni. Í hjarta sínu eru margir karlar þeirrar skoðunar að konur séu betri en menn og ættu því ekki að saurga sig á því sem þeir fást við. Ég held að konur séu ekkert betri en menn, þær eru meiri mannþekkjarar, kannski, en betri eru þær ekki og því alveg jafn hæfar til að sinna öllum verkum og karlar.