Þriðjudagur 19.04.2011 - 18:41 - 10 ummæli

Fjölmiðlalög: ritskoðun eða réttarbót?

Flestir þættir hins íslenska samfélags fengu falleinkunn í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis; stjórnmálin, viðskiptalífið, háskólasamfélagið og fjölmiðlar. Þar er talað um að almennt virtist vera litið á lög og reglur sem hindranir sem átti að sniðganga frekar en leiðbeiningar um vandaða starfshætti.   Ekkert skyldi leggja hömlur á frelsi manna til athafna og umsvifa.

Og við klöppuðum öll.

Svo fór sem fór og allir lofuðu að læra af fortíðinni.

Því er það áfall að hlusta á þá gagnrýni sem kemur fram á fjölmiðlalögin.

Í stað þess að fagna því að fjölmiðlum sé settur skýr lagarammi til að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði, gagnsætt eignarhald, vernd blaða- og heimildarmanna sem og aukna áherslu á jafnrétti og barnavernd, er litið á nýsetta löggjöf sem tilraun til ritskoðunar.

Svo er ekki.

Það er von mín að þetta sé aðeins fyrsta skrefið af mörgum sem tekin verða til að efla íslenska fjölmiðla og sjálfstæði þeirra.  Næstu skref þurfa að vera endurskoðun á lögum um RÚV, takmörkun á möguleikum dómstóla til að aflétta vernd heimildamanna, setning á skýrum reglum um eignarhald á fjölmiðlum og að tryggja stuðning við prentmiðla og staðbundna fjölmiðla.

Þannig verði íslenskir fjölmiðlar fjórða valdið í raun; sem veitir aðhald, miðlar upplýsingum og eflir umræðu í lýðræðissamfélaginu Íslandi.

Og aldrei aftur hluti af klappliðinu, sem birtir gagnrýnislaust fréttatilkynningar frá upplýsingafulltrúum okkar í stjórnmálunum eða viðskiptalífinu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Þetta eru bókstaflega fasísk lög.

    Þögn vinstri sinnaðra „álitsgjafa“ og „fjölmiðlamanna er ærandi.

    Illugi, Egill Helga, Guðmundur Andi, Karl TH.?

    Hvar eru nú varðmenn málfrelsis?

    Þegar til kastanna kemur verður öllum ljóst að þessir menn eru kjölturakkar valdsins.

  • Samkvæmt fjölmiðlalögunum sem þú mælir bót Eygló þá setur löggjafinn nú fyrirmæli um forgang efnis frá ákveðnum löndum. Ég skil ekki hvernig manneskja eins og þú Eygló sem segist vera frjálslynd í skoðunum getur tekið að þér á ákvarða að myndefni frá Evrópu skuli hafa forgang umfram myndefni frá öðrum löndum. Þegar stjórnmálamenn eru haldnir svona ríkri forræðishyggju og þú Eygló og aðrir stuðningsmenn þessa frumvarps þá er mikil blessun að geta keypt gefihnattadiska og horft á frjálsar sjónvarpsstöðvar.
    Ég þoli ekki stjórnmálamenn sem ekki treysta almenningi til að velja og hafna.

  • Ég bið þjóðina afsökunar á að hafa vakið athygli þína Eygló á þeim möguleika að fólk geti horft á erlent frjálst sjónvarp.Ég hef gert stóran óskunnda með þessu. Næst lesum við sennilega að þú hafir flutt tillögu um að ríkið rugli öll sjónvarpsmerki frá erlendum sjónvarpsstöðvum.

  • Sigurgeir Ólafss.

    Þessi lög eru ekkert annað en ritskoðun og forræðishyggja.

    Nú á að stýra því hvað fólk fær að sjá og heyra líkt og í öðrum sósíalískum alræðisríkjum.

  • stefán benediktsson

    Burtséð frá hundrað ára skjalaleynd þá held ég að lögin (ef verða) gætu stuðlað að betri fjölmiðlum. Lögin taka mið af þeim í Bretlandi. Sjáið FOX og SKY. Sami eigandi sitthvort lagaumhverfi.

  • Jakob Bjarnar Grétarsson

    Af hverju er þetta ekki tilraun til ritskoðunar?

    Svar: Af því að … „Svo er ekki.“

    Þessi hrákasmíð er ykkur til skammar og lýsir skilningsleysi af ykkar hálfu á fyrirbærinu. Einhverra hluta vegna harðneitið þið að hlusta á réttmæta gagnrýni og ábendingar. Ef fjölmiðlar eiga að taka þátt í því að betra þjóðfélagið, en forræðishyggjan gægist í gegnum aðra hvora setningu, þá er tómt mál að tala um upplýsingahlutverk.

  • Eygló Harðardóttir

    Ákvæðin um evrópskt efni kemur til vegna aðildar okkar að EES samningnum, en þetta er hluti af hljóð- og myndmiðlunartilskipuninni. Ég tel mjög mikilvægt að íslenskir fjölmiðlar séu með evrópskt efni (muna, Ísland er hluti af Evrópu). Það styður við menningu okkar, tungumál og atvinnusköpun í þátta- og kvikmyndagerð. Vinsælasta efnið í sjónvarpi eru íslenskir þættir og þar á eftir koma þættir frá Norðurlöndunum. Þannig að ég tel að næsta auðvelt verði fyrir fjölmiðlana að uppfylla þessi skilyrði og við getum öll horft á Sky eða CNN óháð þessu.

    Fjölmiðlalögin eru ekki hrákasmíði og ég tel miður að sjá svona ummæli frá fjölmiðlamanni. Frumvarpið hefur nú farið í gegnum tvö löggjafarþing, mikla undirbúningsvinnu, og fjölmargir skilað inn umsögnum á báðum þingunum. Við höfum einnig töluvert rætt löggjöf nágrannalanda okkar og ég sjálf sérstaklega kynnt mér lög um fjölmiðla í Noregi, Svíþjóð og Bretlandi. Nefndin lagði til umtalsverðar breytingar á frumvarpinu til að koma til móts við athugasemdir og sem munu vonandi tryggja betur sjálfstæði miðlanna, en ekki hvað síst fjölmiðlamannanna sjálfra.

    Svo hvet ég ykkur til að lesa ALLA skýrslu RNA (ekki bara valda kafla) 🙂

  • Jakob Bjarnar Grétarsson

    Þetta er alveg með ólíkindum. Þó þú getir fundið eitthvað eitt í þessum lögum til að rökstyðja það að annað, sem enga skoðun stenst, sé gott. Hvurskonar hundalókík er þetta?

    Almenningur hefur miklu meira um það að segja sem í fjölmiðlum er en menn almennt vilja kannast við. Ef Evrópsk efni höfðar til fólks mun það rata á dagskrá. Það gerist ekki með tilskipunum frá ykkur.

    Á það hefur þráfaldlega verið bent að eitt og annað í þessum lögum stangast á við tjáningarákvæði stjórnarskrár, ýmislegt í þessum lögum er svo íþyngjandi að ekki nokkur vegur er að standast það. Er Vikan t.d. ekki fjölmiðill? Er Smugan fjölmiðill? Er Facebooksíða ekki fjölmiðill? Það liggur ekki einu sinni fyrir skilgreining sem stenst skoðun á því hvað er fjölmiðill. Hvernig er hægt að setja lög um eitthvað sem menn vita ekki einu sinni hvað er?

    Á þetta hafa menn verið að benda í sakleysi sínu. En mæta bara hroka af hálfu ykkur þjónum almennings á þingi.

  • Jakob Bjarnar Grétarsson

    Ps. Einu rökin sem þið bjóðið uppá er að þetta hefur verið lengi í vinnslu og því vandað. Ég meina, kommon…

    4. valdið er t.d. mjög brogað hugtak sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Fjölmiðlar hafa ekki verið kosnir til eins né neins og búa ekki yfir neinu raunverulegu valdi. Þeirra eðli hlýtur að vera það eitt að bregða upp einhvers konar spegilmynd af þjóðfélaginu. Ef fólk hefur áhuga á því sem þeir hafa fram að færa þá virka þeir – öðru vísi ekki.

  • Eygló Harðardóttir

    Ákvæði um sjálfstæði ritstjórnar, gegnsætt eignarhald, vernd fjölmiðlamanna og heimildarmanna, jafnrétti og barnavernd eru að mínu mati ansi góð rök fyrir samþykkt þessara laga. Við erum jafnframt að innleiða Evróputilskipun um hljóð- og myndmiðlun og ég tel mjög mikilvægt að fjölmiðlar endurspegli menningu okkar og tungumál og því er ég sammála þessum ákvæðum.

    Ég hafna einfaldlega því að málið sé illa unnið.

    Ég er hins vegar sammála því mati þínu að við sem samþykktum þessi lög séu þeirrar skoðunar að fjölmiðlar séu gerendur í lýðræðissamfélagi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur