Fimmtudagur 05.05.2011 - 14:14 - 1 ummæli

Að hlaupa 21,1 km

Ég hef ákveðið að hlaupa 21,1 km í Reykjavíkurmaraþoninu þann 20. ágúst nk.  Þetta var ekki auðveld ákvörðun þar sem ég er ekki neinn íþróttagarpur, – þoldi ekki leikfimi í grunnskóla og fór ekki að hreyfa mig fyrr en ég var komin á þrítugsaldurinn og þá með hléum.

En stundum verður maður að leggja eitthvað á sig fyrir verðugt verkefni.

Tilgangurinn með hlaupinu er að vekja athygli á og styðja við Samtök kvenna með endómetríósu. Draumur þeirra er að fræða um sjúkdóminn og stofna göngudeild fyrir konur með sjúkdóminn við kvennadeild Landspítalans.

Áætlað er að 5-10% kvenna sé með endómetríósu. Endómetríósa (ísl: legslímuflakk) er krónískur, sársaukafullur sjúkdómur sem orsakast af því að frumur úr innra lagi legsins finnast á öðrum stöðum í kviðarholinu og valda þar bólgum og blöðrumyndun. Undir venjulegum kringumstæðum fara þessar frumur út úr líkamanum við blæðingar. Helstu einkenni sjúkdómsins eru mikill sársauki við og fyrir blæðingar, miklar og/eða óreglulegar blæðingar, verkir í kviðarholi milli blæðinga, sársauki við egglos, samfarir og þvaglát.  Rannsóknir hafa sýnt að á milli 30-40% kvenna sem leita aðstoðar vegna ófrjósemi reynast vera með endómetríósu.

Ég er þegar komin með loforð frá flottu fólki um að taka þátt í hlaupinu með mér til stuðnings samtökunum og vonast eftir að fleiri vilji taka þátt. Það er hægt að gera með því að hafa samband við endo@endo.is eða skrá sig á Hlaupastyrkur frá og með lok maí.

Því verða á næstu vikum ekki bara pistlar á blogginu um pólitík, fréttir og Framsókn, heldur einnig hlaup, harðsperrur, hlaupaleiðir og endómetríósu 🙂

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Dugleg ertu Eygló. Ég dáist að fólki sem nennir að hlaupa. Góður málstaður er trúlega það eina sem fengi mig til þess að hlaupa, því ég lít svo á að maður eigi ekki að hlaupa nema ef eitthvað sé að elta mann 😉

    En sumsé: Ég tek ofan fyrir þessu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur