Föstudagur 19.08.2011 - 13:00 - 5 ummæli

Hver á bílinn minn?

„Samkvæmt dómi Hæstaréttar er kaupleiga eins og hver önnur lántaka. Í stað þess að skilgreina lánið sem lán er búinn til lagatæknilegur orðhengill um kaupleigu til að falsa bókhaldið.“ Þetta skrifaði Jónas Kristjánsson nýlega á blogginu sínu.

Hvers vegna eru þá ökutækin sem lánað var til enn skráð á fjármögnunarfyrirtækin hjá Ökutækjaskrá? Í kjölfar gengisdóma Hæstaréttar og lagasetningar í kjölfarið hafa tugþúsundir lántakenda fengið endurútreikning á lánum sínum, sem er viðurkenning fjármögnunarfyrirtækja á að samningarnir voru í raun lán en ekki leiga.

Þrátt fyrir þetta neita fyrirtækin og Ökutækjaskrá að breyta eigendaskráningu ökutækjanna í samræmi við dómana.

Forsendan fyrir ólögmæti gengistryggingarinnar var að samningarnir væru lán. Ástæðan var að gengistrygging leigu er lögleg, en ekki lána samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir: „Þegar þetta allt er virt verður að líta svo á að stefndi hafi í raun veitt áfrýjanda lán til kaupa á bifreið, sem stefndi kaus í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings í stað þess að kaupa af áfrýjanda skuldabréf, sem tryggt væri með veði í bifreiðinni.“

Fjármögnunarfyrirtækin keyptu aldrei viðkomandi ökutæki og voru ekki aðilar að kaupunum. Því geta þau ekki átt viðkomandi ökutæki. Eignarréttur færist frá seljanda til kaupanda, ekki fyrirtækjanna sem lána til kaupanna.

Þetta staðfestir skattaleg og bókhaldsleg meðferð viðkomandi ökutækja. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. X-532/2010 var bent á að í bókhaldi fjármögnunarfyrirtækisins var tækið aldrei fært sem eign, heldur hafi aðeins krafan verið færð til eignar samkvæmt samningi. Tekjur vegna samningsins voru færðar sem vaxtatekjur, en ekki leigutekjur. Sama virðist gilda um önnur fjármögnunarfyrirtæki við skoðun á ársreikningum.

Samningsákvæði um að eignarréttur haldist hjá einhverjum sem keypti aldrei ökutækið, eignaðist það aldrei, færði það aldrei til bókar né taldi fram til skatts er því merkingarlaust þegar það er lesið í tengslum við lög, önnur ákvæði samningsins, framkvæmd hans og túlkun dómstóla á innihaldi hans.

Fjármögnunarfyrirtækin geta ekki bæði sleppt og haldið. Annað hvort eiga þau ökutækin eða ekki. Hæstiréttur segir að þau eigi þau ekki og það hlýtur að gilda.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Hlynur Jörundsson

    Góður punktur hjá þér eins og vanalega.

    Jamm … það er merkilegt að hvorki Ökutækjaskrá og fjármögnunarfyrirtækin vilja ekki hlýta lögum né dómsniðurstöðum. En fjármögnunarfyrirtækin eru jú eins og bankarnir … fara ekki að lögum nema afli sé beitt en þú ættir að senda fyrirspurn á Ökutækjaskrá og spyrja þá af hverju þeir hlýta ekki niðurstöðu Hæstaréttar.

    Gæti orðið skondið svar.

  • Þórdís B. Sigurþórsd.

    Sæl Eygló, og „kaupleigutakar“ eru skráðir skattalegir eigendur bifreiðar ….„Skattaleg meðferð kaupleigusamninga hjá leigutaka er önnur en skattaleg meðferð fjármögnunarleigusamninga, þar sem litið er á kaupleigusamninga eins og kaup á varanlegum rekstrarfjármunum sem ber að eignfæra og afskrifa skv. almennum reglum jafnframt því sem skuldbindingin að baki kaupleigusamningi er talin til skuldar hjá leigutaka.“ RSK

    Auðvitað á fólk að krefjast þess að fá afsalið fyrir bifreiðinni út frá dómi Hæstaréttar. Það er ekki verið að leigja bílinn heldur er verið að kaupa hann.

  • Sigurður Sigurðsson

    Fín grein og tímabært að fara að huga að þessum málum.

  • Hlynur Þór Magnússon

    Leyfi mér (og biðst velvirðingar) að skrifa hér málsgrein á skjön við umræðuefnið: Eygló Harðardóttir er ein af helstu ástæðum þess að ég er ekki búinn að missa alveg alla virðingu fyrir Framsóknarflokknum.

  • Að mínu mati voru ákvæði um eignarétt fjármögnunarfyrirtækjanna á samningstíma á „leigumun“ þ.e. bifreiðum, fellihýsum o.s.frv., einungis sett inn til að fara fram hjá neytendarétti í lögum um neytendalán, s.s. að neytandi megi kveða til dómkvadda matsmenn þegar ágreiningur er um uppgjör samnings í kjölfar riftunar hans, og að gera þeim þannig auðveldara að handrukka viðskiptamenn með vörslusviptingum, þar sem þau voru „eigendur“ þessara samningsmuna.

    Varðandi afsalið sem Þórdís nefnir er kaupsamningur bifreiðar oft á tíðum líka afsal. Þannig að líklega hafa margir neytendur slíkt afsal nú þegar í höndum þar sem þeir eru sagðir kaupendur, og þar með eigendur, bifreiðar. Engu að síður eru þessir „samningsmunir“ skráðir á fjármögnunarfyrirtækin hjá Ökutækjastofu eins og þú segir.

    Neytendastofa og FME eru svo meðvirk í brotunum því flestir sem þarf starfa sváfu á verðinum og með því að ætla gera eitthvað við þeim núna játa þau vanhæfni sína.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur