Þriðjudagur 23.08.2011 - 11:31 - 32 ummæli

Guðmundur farinn

Guðmundur Steingrímsson hefur, ásamt nokkrum  flokksmönnum, ákveðið að yfirgefa Framsóknarflokkinn.  Óska ég þeim góðs gengis á nýjum vettvangi og þakka samstarfið. Þeir vita að ég hefði óskað að til þessa hefði ekki komið, en ákvörðunin er þeirra og hana ber að virða.

Þeir tilgreina sérstaklega stefnu flokksins í Evrópusambandsmálum og forystuna.

Æðsta lýðræðisstofnun Framsóknarflokksins er flokksþingið.  Eftir síðasta flokksþing var ég mjög ánægð með ákvarðanir flokksmanna. Við vorum með skýra stefnu í sjávarútvegsmálum, tæpar 50 tillögur í atvinnumálum og við höfðum tekið stórt skref í átt að bættum vinnubrögðum og lýðræði með breytingum á lögum flokksins.

Þar lögðu margir hönd á plóg og sýndu SUF-ararnir okkar þar mátt sinn og megin með vönduðum tillögum ekki hvað síst í sjávarútvegsmálum.

Ég var einnig mjög sátt við ályktun flokksþings um Evrópusambandið sem málefnanefndin lagði mikla vinnu í.  Í henni endurspeglaðist sterk andstaða meirihluta Framsóknarmanna við aðild að Evrópusambandinu, en einnig trú okkar á lýðræðið og rétt þjóðarinnar til að taka ákvarðanir um stór mál er varða framtíð hennar.  Margir voru ósáttir, bæði stuðningsmenn aðildar/-umsóknar og andstæðingar aðildar/-umsóknar. Það breytir því ekki að stefna flokksins var þarna mörkuð af æðstu lýðræðisstofnun flokksins.

Ef okkur hugnast ekki stefna eða forysta flokksins þá eru ýmsar leiðir til að bregðast við því.

Ein getur verið að gefast upp og fara.

Önnur getur verið að vera sú breyting sem maður vill sjá innan flokksins.

Því flokkurinn okkar er aldrei neitt annað en fólkið sem starfar í honum.

PS. Ég hvet lesendur til að setja inn athugasemdir eða tengja inn á Facebook.  Ég samþykki inn athugasemdir þannig að það getur tekið smá tíma fyrir þær að birtast.  Athugið að ég áskil mér rétt til að eyða út nafnlausum og ómálefnalegum athugasemdum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (32)

 • Eygló ég óska Framsóknarflokknum til hamingju með brottför Guðmundar eins og ég gerði þegar Kiddi sleggja yfirgaf flokkinn. Það er algjörlega óþolandi fyrir stjórnmálaflokk að ekki sé minnst á þingflokk að geta aldrei treyst því að það sem sagt er innan veggja þingflokks fari ekki beint til andstæðinganna. Brottför Guðmundar hreinsar andrúmsloftið í flokknum og á eftir að vera ykkur mjög til góðs.

 • Kristján Kristinsson

  Stefna flokksins eftir síðasta flokksþing var að vera á móti aðild að ESB en halda áfram aðildarviðræðum. Ekkert að því. En svo kemur formaðurinn með einleik og vill slíta viðræðunum við ESB. Rosalega lýðræðislegt.

  Ég kalla það ekki að gefast upp þó menn segi sig úr flokknum út af málefnaágreiningi. Ég myndi miklu frekar telja það uppgjöf að vera áfram í flokki þar sem skoðanir og framkvæmd flokksins eru á öndverðu meiði við hugsjónir viðkomandi.

  En ekki varstu með svona pistil þegar Ásmundur Einar Daðason gekk úr Vg og í Framsókn.

 • ESB umsóknin er fleygur í samstöðu innan flestra stjórnmálaflokka okkar í dag. Þetta er reyndar eitt af þeim grundvallaratriðum sem íslensk pólitík fæst við í dag. Merkilegasta uppákoman var auðvitað umpólun formanns V.g. Verst er bullið, undanfærslurnar frá sannleikanum og beinar lygar. Össur upplýsir blákalt að honum hafi verið falið að koma með samning! Hver fól honum þetta og hvenær? Er ekki lágmark að kjósendur fái vitneskju um svona mikilvægt erindi utanríkisráðherrans?

 • Ég held að flokkurinn eigi að einbeita sér að því, að koma fram með trúverðuga stefnu um framtíðina.

  Ég held að það sé vel unnt.

  En, sem dæmi tel ég að unnt sé að stýra gengismálum, með eftirfarandi hætti. Sjá bloggfærslu: http://einarbb.blog.is/blog/einarbb/entry/1174144/

  Eins og sannast hefur, þá er Evran engin töfralausn. Það er einnig flókið mál fyrir okkur, að láta Evruaðild ganga upp, vegna mikilla tekjusveiflna – sem myndu alltaf flækjast fyrir okkur, gera okkur erfitt fyrir að viðhalda lágri verðbólgu, vera ógnun við stöðugleika sjónarmið.

  En, ef við værum samfellt með hærri verðbólgu en meðaltal, þá myndi kostnaður hækka jafnt og þétt, sem myndi skapa hættu á vanda sambærilegum við þann vanda, sem Miðjarðarhafslönd lentu í – þ.e. glötun á samkeppnishæfni.

  Ég held því að við eigum að einbeita okkur á því, að koma fram með hugmyndir í átt að til muna auknum trúverðugleika í stýringu á okkar gjaldmiðli.

  Ég held að þú sért í reynd sammála þessu.

  Kær kveðja.

  Ps. ég vonast eftir því að síðar meir muni brottfarnir, snúa til baka á ný.

  Hölum ótrauð áfram.

  Kv.

 • Hannes Þórisson

  Þótt ég hafi aldrei kosið Framsókn þá verð ég að viðurkenna að mér finnst meirra til hans koma eftir að Sigmundur tók við, og það sakar ekki að samfylkngarmaðurinn Guðmundur sé farinn.

 • Halldór Halldórsson

  Farið hefur fé betra úr Framsóknarflokknum. Það veit ég fyrir víst!

 • Er ekki sérkennilegt þegar búið er að ákveða að leggja tiltekið mál fyrir kjósendur að flokksmaskínur geri tilraun til að stöðva þann farveg. Er þetta ekki forsjárhyggja í sinni verstu mynd alltaf einhverjir að hafa vit fyrir lýðnum.

 • Ari jonsson

  Sammála Kristjáni.

  Framsóknarflokkurinn er komin nokkuð langt frá uppruna sínum…. nema að þetta sé sú stefna sem þið vilduð alltaf hafa.
  Eygló eg er viss um að þú átt eftir að renna hýru auga til nýja flokksins hans Guðmundar.

 • Elvar Örn Arason

  En nýjasta útspil SDG gengur gegn ályktun flokksþingsins, ekki satt?

 • Sigurður E. Vilhelmsson

  Að leggja til að umdeilt mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu getur tæplega talist gegn ályktun flokksþings, sem lagði einmitt áherslu á að öll meiriháttar mál skuli fara í dóm þjóðarinnar. Sigmundur hefur ekki lagt til að umsóknin verði dregin til baka.

  Hvernig er hægt að túlka það svo að flokksmaskínur séu að koma í veg fyrir að þjóðin fái að segja skoðun sína með því einmitt að leggja til þjóðaratkvæðagreiðslu?

 • Eygló, svo er líka til ein aðferð í viðbót með veru sinni innan flokks, en það er að þegja og gera ekki neitt. Þú dásamar samþykktir flokksins frá síðasta flokksþingi en nefnir ekki á nafn að formaðurinn hafi farið þvert gegn þessum samþykktum. Nei þá er betra að ganga úr flokknum en að sitja og samþykkja ólýðræðisleg vinnubrögð.

 • Sigurður E. Vilhelmsson

  Valur, nefndu nú dæmi þess að formaðurinn hafi farið gegn samþykktum flokksins.

 • Sigurður flokksþingið felldi tillögu um að stöðva aðildarviðríður. Í því fellst afstaða flokksþings.

  Formaður málefnanefndar gat þess líka að samþykktar tillögur þýddu ekki að stöðva ætti aðildarviðríður.

  Þá túlkun samþykktu ritari og formaður flokksins með þögninni.

 • Sigurður E. Vilhelmsson

  Samþykktir flokksþings snúast ekki um hvað var fellt, en það má svo sem hártoga út í hið óendanlega. Það að leggja aðildarferlið í dóm þjóðarinnar þarf svo ekki að þýða að viðræðum verði hætt fyrir fullt og allt heldur verði þjóðinni gefinn kostur á að taka lýðræðislega ákvörðun (sem hún fékk reyndar ekki að gera þegar ákvörðun var tekin um að hefja viðræður).

  Hvergi hefur formaðurinn lagt til að umsóknin verði dregin til baka.

 • Sigurður E. Vilhelmsson

  Ef við ætlum að halda okkur við felldar tillögur má líka benda á að flokksþingið felldi tillögu um að þjóðin eigi að taka upplýsta ákvörðun um stöðu Íslands í Evrópu, að undangengnum aðildarviðræðum.

  Ef Sigmundur hvetti til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning að undangengnum aðildarviðræðum, væri hann þá líka að fara gegn samþykktum flokksins af því að tillaga þess efnis var felld á flokksþinginu?

 • Ég legg til – samvinnu módel í efnahagsstjórnun.

  En, einhvern vegin þarf að koma í veg fyrir að Seðlabanki og Ríkisstj. vinni hver á móti hinum.

  En eitt sem þarf að takast á við, er hið gríðarlega frjálsa fjármagn í alþjóðakerfinu, sem leitar í hávaxtagjaldmiðla.

  Það þíðir í reynd, að við verðum að forðast að viðhafa helst nokkru sinni háa stýrivexti – hið minnsta að passa að það séu í nágrenninu ríki með hærri.

  En, þ.e. unnt að beita öðrum úrræðum en vöxtum, til að bremsa af hagkerfið – draga úr eftirspurn.

  Þar kemur hugsanlegt samvinnumódel inn, því ríkisstj. getur hækkað skatta – getur dregið úr útgjöldum. Á sama tíma, getur Seðlabanki aukið peningabindingu og eiginfjárkröfu – til bankanna í því markmiði að minnka framboð útlána.

  Það þarf að stefna að því, að síðasta ákvörðunin verði hækkun vaxta – í stað þess að verða fyrsta.

  Einn hugsanlegur möguleiki, er að aðilar hafi neitunarvald – þ.e. ákvarðanir um vexti séu sameiginlegar – en Seðlabanki hafi á móti neitunarvald á ríkisstj. svo hann hafi tæki til mótvægis. Þá í sambandi við ákvarðanir tengdar útgjöldum, jafnvel kjarasamninga.

  En, til þess að samvinnumódelið virki – þurfa aðilarnir að vera jafnréttháir. Ef eitthvað vald er tekið af Seðlabankanum, með því að t.d. hann geti ekki hækkað vexti einhliða, þarf að veita honum tak yfir ákvörðunum ríkisstj. á móti – svo jafnvægið viðhaldist.

  Þetta eru pælingar til íhugunar.

  Við þurfum að vera óhrædd við að feta ótroðnar slóðir.

  Kv.

 • Kristján Kristinsson

  Sigurður, ég sé engan mun á því að draga umsóknina til baka eða setja hana á ís (fresta samningsviðræðum um ókomna tíð). Þarna er hann að tala gegn samþykkt flokksþingsins um að halda áfram aðildaviðræðum og leggja svo samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Guðmundur skilur þetta þannig, er ósáttur við það og kveður Framsóknarflokkinn.

  Menn og konur eru hætt að tala um að leggja aðildaviðræðurnar í þjóðaratkvæði því það er ekki meirihluti fyrir því á Alþingi. Í stað þess er farið, af hörku, í að krefjast þess að viðræðunum verði hætt. Hvort það kallist að fresta viðræðum eða hætta þeim alveg, ja við getum kallað það hártoganir.

 • Einmitt Sigurður flokksþingið vildi halda viðræðum áfram. Felldi það að stoppa, en felldi líka tillögu um að að þjóðin tæki upplýsta ákvörðun um aðild.

 • Sigurður E. Vilhelmsson

  Kristján: Það er engin flokkssamþykkt fyrir því að halda viðræðum áfram og leggja svo samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef nota á röksemdafærslu GVald, sem felur í sér að lesa stefnu flokksins út frá tillögum sem felldar voru í atkvæðagreiðslu mætti einmitt halda því fram að flokkssamþykkt væri fyrir því að leggja niðurstöður aðildarviðræðna EKKI fyrir þjóðina. Held að engum dytti í hug að túlka niðurstöður flokksþings þannig.

  GVald: Og hvernig túlkar þú þessa tvöföldu neitun? Að aðildarviðræðum skuli lokið og samningur EKKI lagður fyrir þjóðina? Það eina sem samþykkt var á flokksþingi var:

  „Ísland skal áfram leita eftir samstarfi við þjóðir innan og utan Evrópusambandsins á grundvelli frjálsra og sanngjarnra samninga og samvinnu sem byggir á jöfnuði og ábata allra aðila. Með slíkum samskiptum geta íslensk stjórnvöld tryggt hagsmuni Íslands best á hverjum tíma. Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Nú sem fyrr standa auðlindir þjóðarinnar undir velferð hennar og fullt og óskorað forræði á þeim er forsenda farsældar til framtíðar. Framsóknarflokkurinn telur að þjóðin skuli ætíð eiga beina aðkomu með þjóðaratkvæðagreiðslu að ákvörðunum um stórmál eins og aðild að Evrópusambandinu og mun berjast fyrir þeim rétti.“

  Annars held ég að þeir sem eru svo ósáttir við stefnu flokksins, raunverulega eða ímyndaða, að þeir telja sig knúna til að segja sig úr flokknum, ættu frekar að beina kröftum sínum í að byggja upp nýtt stjórnmálaafl á grunni sinna hugsjóna, frekar en að eyða kröftum í að sparka í þá sem þeir telja sig ekki eiga samleið með.

 • Hrafn Arnarson

  Guðmundur er einn af mörgum sem hafa sagt sig úr Framsókn að undanförnu. Fleiri munu fylgja í kjölfarið. Úrsagnir koma ekki á óvart og þær eru ekki uppgjöf. Menn sjá einfaldlega að leiðir liggja ekki saman. Stjórnunarstíll SDG er sérkennilegur og ljóst er að ekki geta allir sætt sig við hann. Þjóðernissinnaður og hægrisinnaður flokkur er markmið SDG og fylgismanna hans. Góða ferð Eygló.

 • Jónas Bjarnason

  Fyrst flokksþingið heppnaðist svona vel og samþykkti margar tillögur þá er tilefni til að spyrja þig. – „Hvað gerði þingið varðandi sjávarútveg?“- Og hvað leggur þú til?
  6

 • Eygló Harðardóttir

  Sjávarútvegsstefna sem þingsályktun, http://www.althingi.is/altext/139/s/1670.html

  Framsóknarflokkurinn mun áfram byggja á sínum gömlu góðu gildum. Eflaust mun fjölmörgum ekki hugnast þau (eins og sagan segir okkur), en ég hef trú á þeim og mun halda áfram að tala fyrir þeim.

 • Guðmundur Gylfi Guðmundsson

  Afstaða flokksþingsins til Evrópumála liggur fyrir. Formaðurinn er að setja fram skoðun og túlkun sem má hæglega sjá að er ekki í samræmi við túlkun formanns nefndar sem lagði fram megintillöguna um Evrópumál á flokksþinginu. ( Sigurður Hannesson nefndarformaður er hægri hönd formannsins í flestum málum.) Þá var tillagan um að hætta viðræðum felld. Stuðningmenn viðræðna fóru því skikkanlega sáttir af þingi þrátt fyrir allt.
  Formaðurinn tekur síðan upp ákveðna afstöðu og túlkun og setur þar með allt á annan endann og kveikir í. Brennuvargur gengur laus.
  Það skiptir mig miklu máli að vita hver sé afstaða þín Eygló til framhalds aðildarviðræðna og jafnframt afstaða annarra þingmanna til málsins?

 • sæmundur

  Ég verð að lýsa mig sammála Sigmundi og þeim forystumönnum sem hafa kjark til að krefjast þess að umsóknin um aðild að ESB sé dregin til baka. Núverandi stjórn afsakar allt atvinnuleysi og allt sem miður fer með að þetta lagist þegar við fáum aðild að Evrópusamstarfinu þessvegna geti almnningur bara beðið í þessi örfáu ár sem umsóknin taki.

 • Hverskonar orðbragð er þetta hjá annars hægfara manni Guðmundi Gylfa, að segja að „brennuvargur gengur laus“ og vísa þar til formanns flokksins. Getur einhver upplýst mig um það sem ég heyrði sagt í kvöld að umræddur Guðmundur Gylfi hafi fengið frábæra stöðu sem fjármálastjóri RÚV út á það að hafa verið í Framsóknarflokki Halldórs Ásgrímssonar ? Er þetta rétt og er Guðmundur Gylfi að þakka flokki sínum fyrir með svona orðbragði? Hefur hann e.t.v. ekki náð góðri stöðu út úr núverandi formanni ?

 • Mér finnst ámáttlegt að sjá G Vald,sem sagður er hafa verið heimiliskött á skrifstofum Framsóknarflokksins til margra ára, vera að skrifa hér hjá henni Eygló um ályktanir flokks sem hann hefur yfirgefið. Það er eins og sumir geti ekki sleppt. G Vald þessi er farinn úr Framsóknarflokknum ásamt Einari fallkandídat úr Borginni og einhverjum þremur öðrum og það er sorglegt að horfa upp á þráhyggju þessara manna, þeir rembast áfram eins og rjúpan við staurinn að atast í sínum gamla flokki en eru samt farnir. Þegar einhver er farinn úr flokki á viðkomandi einfaldlega að snúa sér að öðru en ekki haga sér eins og afturganga sem ekki getur sleppt fyrra lífi. Ömurlegir sökkarar slíkar afturgöngur. Blessaður karlinn hann Einar sem tapaði Borginni en skammaðist svo út í flokkinn sinn á eftir fyrir að Borgin hafi tapast. Hver studdi þá Einar fallkandídat í vælinu? Jú var ekki Guðmundur Steingríms þá mættur daginn eftir kjördag til að draga niður kosningasigur flokksins í sveitastjórnum um allt land. Hverjum kenndi Guðmundur um tapið í Borginni ? Einari frambjóðanda og fallkandidat ? Nei ekki aldeilis tapið var forystu flokksins að kenna, Eygló og Sigmundur voru sökudólgarnir að mati Guðmundar. Æ-i þetta er aumkunnarvert lið.

 • Sigurður E. Þú ferð fram á dæmi þess að Sigmundur Davíð hafi farið gegn flokkssamþykkt framsóknarflokksins.

  Bíddu, fylgist þú ekkert með? Sigmundur Davíð hefur gefið það út að það ætti að draga umsókna um aðild að ESb til baka. Það er brot á samþykktum flokksins, því það var samþykkt á flokksþingi að EKKI ætti að draga umsóknina til baka, því LEYFA ætti þjóðinni að kjósa um þetta mál og ráða þessu sjálf. Núna kemur SDG og breytir um kúrs. SDG fer þar með gegn samþykkt flokksins.

 • Sigurður E. Vilhelmsson

  Valur, lestu athugasemdir nr. 14, 15 og 19 aftur.

  Sigmundur hefur ekki gefið út að draga eigi umsóknina til baka.

 • HeiðaH munurinn á mér og þér er að ég kem fram undir nafni og skammast mín ekki fyrir mínar skoðanir og skrif. Þú skýtur úr launsátri og dylgjar án þess að vera maður til að standa fyrir þínum skoðunum opinberlega.

 • Guðmundur Gylfi Guðmundsson

  Komdu sæl HeiðaH.
  Mér finnst lítið leggjast fyrir kappa sem skrifa undir dulnefni og eru þeir vart svaraverðir, en þó er undantekning. Það er greinilegt að þú hefur fengið upphringingu í gærkvöldi með ósk um að ata einhverjum skít á mig vegna skrifa minna um þá sem eiga að leggja sig fram um að slökkva elda en kveikja þá þess í stað.
  Hannes Hólmsteinn skrifaði undir fullu nafni þegar hann varði vin sinn Oddsson. Heiða Hólmsteinn hefur ekki fyrir því að skrifa undir nafni þegar hún ver sinn vin. Það er báðum til vansa.

 • Björn S. Lárusson

  Finnst rétt að árétta ástæður þess að ég sagði mig úr flokknum þar sem margir virðast þeirrar skoðunar að úrsagnir tengist eingöngu ESB.
  1. Þjóðernisstefna og einangrunarstefna sem að mínu mati er farin að einkenna skoðanir flokksmanna og ég á ekki samleið með þeim skoðunum.
  2. Landbúnaðarstefna sem einkennist af einokun sem við höfum barist gegn frá 1660 þegar danis settu hana á og þjónar ekki hagsmunum bænda eða neytenda.
  3. Við undirbúning flokksþing var ég á fundi Framsóknarfélags Reykjavíkur og í hópi um utanríkismál. Þar var ekki ljáð máls á skoðunum sem vildu skoða kosti inngöngu í ESB og mér komu því ályktanir flokksþings á óvart.

  EN – ég er bara fótgönguliði og má vafalsut missa mín í flokknum, eða eins og einn framsóknarmaður sagði við mig eftir úrsögnina; farið hefur fé betra og finnst mér það heldur kaldar kveðjur eftir veruna í flokknum.
  Takk fyrir mig.
  BJörn S. Lárusson

 • @ G Vald og @ Guðmundur Gylfi ( GGG )
  G Vald hver er munurinn á nafnbirtingu okkar, ég með mitt nafn Heiða og fyrsta stafinn í millinafninu mínu og þú með einn staf G og svo fyrstu fjóra stafina í föðurnafni þínu ? Það er ekki margt fólk sem veit hvaða persóna er á bak við rithöfundanafnið G Vald. Ert þú að skrifa undir meira nafni en ég þegar þú skrifar, G Vald ? Öðru máli gegnir með Guðmund Gylfa hann skrifar undir fullu nafni, millinafni og fullu föðurnafni og á heiður skilið fyrir það.Það breytir ekki því að ég er algjörlega ósammála GGG um að formaður flokksins hafi kveikt einhverja elda og mér finnst GGG vera ruddalegur í þessari orðnotkunn sinni, ljóst að honum gengur illt eitt til. GGG virðist vilja formann sem hefur enga skoðun, formaður GGG á bara að vera eins og slökkvilið, hendast á milli óánægjuhópa í flokki til að sleikja úr þeim ergelsið yfir hinu og þessu. Slíkur formaður er ekki mikill formaður en mér kemur þó í hug nafn á manni sem var eitt sinn formaður og gæti upfyllt þessa kröfu GGG.Ekki gekk sá þó í augu kjósenda svo mikið er víst. Ég held að GGG ætti að hugsa sinn gang vel áður en hann fer að dásama formenn sem ekki hafa skoðanir. Ég skil að ýmsir „Frammarar“ eru enn ergilegir eftir að frambjóðandi gömlu flokksklíkunnar tapaði kosningu í formannskjöri 2009 en fólk með félagslegan þroska lærir að sætta sig við orðinn hlut. Ef litið er til fyrri formanna Framsóknarflokksins t.d. Halldórs Ásgrímssonar eða Steingríms Hermannssonar þá finnst mér ótrúlegt ef þeir hafa ekki sagt skoðun sína á málum sem eru til umræðu hjá þjóðinni þó mismunandi skoðanir væru á málinu innan eigin flokks. Mér finnst ótrúlegt og minnist þess reyndar ekki að GGG hafi kallað þá Halldór eða Steingrím brennuvarga þó þeir tjáðu sig um umdeild mál innan flokksins. Aldrei kallaði GGG Halldór Ásgrimsson brennuvarg mér vitanelga þó HÁ hefði aðrar skoðanir á kvótamálum en margir innan hans eigin flokks og lá HÁ víst ekki á skoðunum sínum um kvótamál þó umdeild væru.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur