Föstudagur 30.09.2011 - 09:15 - 6 ummæli

Samningsplan Lilju og Ólínu?

Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ólína Þorvarðardóttir hafa lagt fram tillögur um breytingar á kvótafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og boðist til að taka verkefnið að sér.

Frumvarpið væri gallað og tími kominn til að hvíla Jón aðeins…

Hvað vilja vestfirsku valkyrjurnar svo gera?

Þær leggja upp með sömu tímalengd varðandi nýtingarsamningana og eldra frumvarpið, sem hefur verið einn helsti ágreiningurinn við útgerðarmenn. Hærra hlutfall af aflamarkinu fari í leigupott til að auðvelda nýliðun. Nýliðum verði gefið tækifæri til að kaupa nýtingarsamninga og handhafar nýtingarsamninga geti leigt til sín aflaheimildir.

Hugsanlega eru þær að búa sér til samningsstöðu hér, – í meðförum þingsins verði samið um lengri samningstíma fyrir núverandi handhafa aflaheimildanna, sem og meiri sveigjanleika í framsali en í staðinn fá þær stærri leigupott og meiri strandveiðar.

Þær vilja bjóða upp á frjálsar handfæraveiðar innan skilgreindar strandveiðilandhelgi, – sem ætti að falla ágætlega í kramið hjá stuðningsmönnum þeirra. (Það verður áhugavert að sjá Bolvíkinginn knáa Einar K. tala gegn þessu…)

Þær leggja til að óunninn fiskur verði seldur á markaði og að fjárhagslegur aðskilnaður verði milli vinnslu og útgerðar. Sjómenn hafa kallað eftir hvoru tveggja og með þessu væri komið til móts við þá.

Hér er greinilega komin áætlun um samningaviðræður, – en stóra spurningin er hvort menn séu tilbúnir að treysta Ólínu og Lilju Rafney til verksins.

Hmmm…

(Ahh, ef maður gæti bara verið fluga á vegg á næsta ríkisstjórnarfundi :))

PS. Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á Facebook. Ummæli eru samþykkt inn þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast. Ég áskil mér rétt til að birta ekki ummæli sem eru ómálefnalega.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Valur Bjarnason

    Ég er með spurningu til þín Eygló, hvar stendur framsóknarflokkurinn þegar kemur að þessu óréttlæti sem kvótakerfið er?

    Hér koma dæmi um hvernig óréttlætið er í framkvæmd:

    Ef þorskkvótinn yrði aukinn um 10 þúsund tonn á þessar 50 fjölskyldur sem eiga 84% kvótans, þá gætu þessar 50 fjölskyldur selt þessa viðbót á 28 þúsund miljónir. Sá sem kaupir veðsetur kvótann upp í rjáfur, en yfirstéttar fjölskyldurnar stinga miljörðunum 28 beint inn á reikning á Tortola og þurfa ekki að borga krónu í skatt af þessari sölu, því það hefur ekki tíðkast frá því kvótinn varð framseljanlegur að rukka söluskatt eða tekjuskatt fyrir sölu á kvóta. Bendi á það að ef þú færð peninga, t.d. arf, þá þarftu að borga 10% skatt, eða ef þú vinnur miljón í spurningakeppni í sjónvarpsþætti, þá þarftu að borga tekjuskatt upp á 37%, en kvótagreifinn þarf ekki að borga krónu ef hann selur kvóta.

    Í fyrra voru tekjur útgerðarinnar 45 miljarðar. Þrír miljarðar fóru í auðlindagjald til ríkisins, þ.e. einn miljarður fyrir hverja 14 sem kvótafjölskyldurnar setja í eigin vasa. Í viðbót við auðlinda, eða betra að kalla það málamyndagjaldið, borgaði útgerðin 300 miljónir í skatta af þessum 45 miljörðum. Kallast á góðri íslensku, „bókhaldsfiff.“

    Þetta er óréttlætið og hvar stendur framsóknarflokkurinn, með hagsmunum almennings, eða hagsmunum kvótahafa? Mig langar bara til að fá það á hreint.

  • Hér er engin skoðun og engin greining á málinu. Aðeins potað í þá sem standa í eldlínunni og þeir gerðir ótrúverðugir. Kristinn H. Gunnarsson fyrrum flokksbróðir þinn skrifar hins vegar góða grein í Fréttablaðið í morgunn. Hann rekur skilmerkilega spillinguna í kringum kvótakerfið. Spillingu sem nú er varinn með klóm og kjafti. Í hvaða liði ert þú?

    http://vefblod.visir.is/index.php?s=5427&p=119244

  • Magnús Björgvinsson

    Nú er ég harður andstæðingur framsóknarflokksins. En á því eru undantekingar og þar á meðal er ég ágætlega sáttur við málflutning Eyglóar og Siv. Og þá aðallega vegna þess að þær leita lausna á málum í stað þess að hlaupa í skotgrafir og í framhaldi af því gerist ekkert. Held að hlutir mundu ganga betur hér á landi ef að fleiri væru í þessum gír að leita að flötum þar sem hægt er að ná samstöðu og þróa mál þannig að hægt sé að ljúka þeim.
    Ljóst að mikil og alvarleg andstaða er við fyriringarleiðina eins og hún hefur verið kynnt. Því finnst mér við hæfi að leitað sé lausnar þar sem að aukinn meirihluti Alþingis sammælist um lausn sem kemur á móts við þá flesta. Frekar enn að deila um þetta næstu áratugina. Nú eru nær allir hagsmunaraðilar á móti því frumvarpi sem nú er verið að fjalla um og þvi þarf að gjör breyta því. Og virðingarvert af stjórnarandstöðuþingmanni að opna á að það megi skoða nýjar hugmyndir að lausn.

  • Leifur A. Benediktsson

    Í mínum huga og langflestum heilbrigðra Íslendinga, sem hafa horft á þetta sukk og rugl í útgerðarslektinu sl. ár og hafa mokað tugmilljörðum í eigin vasa. Þá er mín niðurstaða klár og slétt: Innkalla beri ALLAR fiskveiðiheimildir á Íslandsmiðum án tafar.KvótaMafíósarnir sem lögðu þjóðarauðlindina að veði fyrir hundruði milljarða og hafa sloppið vel frá, eru graftarkýlin í Kerfinu í dag. Þeir hafa öll ítök í tveimur stærstu stjórnarandstöðuFLokkunum sem þiggja styrki frá sömu greifum til stuðnings við málstaðinn. Þetta er staðan í dag Eygló, þessu þarf að linna. Byltingin sem er að hefjast snýst um þjóðarauðlindina og BankaMafíósana.

  • Pétur Örn Björnsson

    Mig langar til að taka undir spurningu Vals Bjarnasonar til þín Eygló:

    „…hvar stendur Framsóknarflokkurinn, með hagsmunum almennings, eða hagsmunum kvótahafa? Mig langar bara til að fá það á hreint.“

    Eða eins og stebbi orðar það:

    „Í hvaða liði ert þú?“

  • Eygló Harðardóttir

    Svarið er að ég er kjörinn fulltrúi íslensku þjóðarinnar og allar mínar ákvarðanir byggjast á mati á því hvað henni sé fyrir bestu.

    Ef menn eru enn þá villtir í þokunni þá hjálpar kannski að kíkja á nokkrar greinar/ræður hér á blogginu um sjávarútvegsmál.

    Sjómannadagsræða í Eyjum: http://blog.eyjan.is/eyglohardar/wp-admin/post.php?post=290&action=edit
    Framtíðarstefna í sjávarútvegi: http://blog.eyjan.is/eyglohardar/wp-admin/post.php?post=288&action=edit
    Árangur í fiskveiðistjórnun: http://blog.eyjan.is/eyglohardar/wp-admin/post.php?post=300&action=edit
    Sjávarútvegur og hagfræðin: http://blog.eyjan.is/eyglohardar/wp-admin/post.php?post=307&action=edit

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur