Sunnudagur 02.10.2011 - 09:42 - 7 ummæli

Vinna, – ekki niðurskurður

Árið 2003 fór Framsóknarflokkurinn fram undir slagorðinu vinna, vöxtur, velferð.  Í mínum huga hefur þetta alltaf verið kjarni framsóknarstefnunnar, – og sýn okkar á hvernig við getum sem best tryggt hag þjóðarinnar.

Þess vegna tölum við af ástríðu um lækkun skulda.  Íslensk heimili eru að drukkna í skuldum.  Þegar fólk er að drukkna í skuldum eyðir það ekki peningum. Það sparar við sig í mat, fer ekki í klippingu og endurnýjar ekki sjónvarpið.

Afleiðingin er að eftirspurn eftir vörum og þjónustu fyrirtækja minnkar.  Fyrirtæki ráða því ekki fólk í vinnu, framleiða ekki meira og skapa ekki meiri verðmæti.

Vöxtur verður lítill sem enginn.

Ríkið fær minni skatttekjur og velferðin dregst saman. Þetta sjáum við í nýja fjárlagafrumvarpinu þar sem skera á niður í heilbrigðisþjónustu og skólunum okkar enn á ný.

Krafan er því einföld.

Lækkum skuldirnar, – og þannig skulum við sjálf tryggja velferðina í landinu.

Með vinnu.

PS. Þann 10.-16. okt. ætla Bandaríkjamenn að krefjast  vinnu í stað niðurskurðar (Jobs not cuts). Hvernig væri að við gerðum það sama?

PSS. Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á Facebook. Ummæli eru samþykkt inn þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast. Ég áskil mér rétt til að birta ekki ummæli sem eru ómálefnalega.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Kristján Kristinsson

    Sæl Eygló,
    Þetta er dæmigerður pistill stjórnmálamanns um ekki neitt. Fagurgali um að hér þurfi að gera hitt og þetta. En svo ekki meir. Því vil ég að þú haldir áfram með pistilinn og segir hvað þú og Framsókn viljið gera til að koma atvinnulífinu af stað, hvernig (framtíðar)störf þið viljið skapa, aðkomu stjórnvaldsins í þessum efnum, og það sem meira er, hvaðan peningarnir eiga að koma til þess að koma atvinnulífinu af stað og lækka skuldir.

    ES. Mér finnst það í góðu lagi þó að fólk geti ekki endurnýjað sjónvarpið hjá sér í nokkur ár, enda um munaðarvöru að ræða.

    ESS. Finnst þér það ekki frábær árangur hjá stjórnvöldum að hafa komið halla ríkissjóðs úr um 200 milljörðum í um 17 milljarða á fjórum árum ef áætlanir ganga eftir? Og náð að nokkurn vegin að verja stöðu þeirra sem minnst mega sín.

  • Anna María Sverrisdóttir

    Jú þetta snýst allt um hvað það er sem við viljum. Viljum við vöxt og þá á hverju? Við höfum undanfarna áratugi vanist þeirri hugsun að væri sífelldur „vöxtur“ í öllu en fengum svo framan í okkur að það var ekki vöxtur í raun, heldur bólga, kýli sem hlaut að springa og það sem mætti okkur við hrunið var gröfturinn einn. Við verðum að horfast í augu við veruleikann og ef við viljum sæmilegt samfélag þá er það bara gömul sannindi og ný að JÖFNUÐUR er málið. Að verðmætin eru takmörkuð og við þurfum að skipta þeim jafnar. Við þurfum jafnvel að játa að þeir sem mest hafa haft þurfa að sætta sig við hugmyndina um nægjusemi. Mikið ofboðslega er mikil þörf á alvöru umræðu um veruleikann og alvöru hugmyndir

  • Eygló Harðardóttir

    Það hefði verið áhugavert að fá efnislega umræðu um þá hugsun sem liggur á baki pistlinum. En í ekki-anda íslenskrar stjórnmálaumræðu þá eru hér tenglar á nokkur þingmál okkar til upplýsinga sem byggjast á þessari hugmyndafræði:

    Sókn í atvinnumálum: http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=139&mnr=823
    Samvinnuráð um þjóðarsátt:
    http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=139&mnr=80
    Afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og fyrirtækja:
    http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=138&mnr=4
    Þak og afnám verðtryggingar:
    http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=138&mnr=12
    Endurreisn íslensku bankanna:
    http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=137&mnr=157
    Aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og fyrirtækja:
    http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=1

  • Anna María Sverrisdóttir

    Ég taldi mig vera með efnislega umræðu um grundvallaratriði Eygló.

  • Kristján Kristinsson

    Allt í lagi. Hvernig lækkum við skuldir heimilina? Með einu pennastriki? Og hvað mun það kosta ríkissjóð? Hvernig er hægt að fá bankana til að taka þátt í þessari lækkun? Hvað með Íbúðalánasjóð? Munu lífeyrissjóðir þurfa að skerða lífeyri ef þessi leið yrði farin? Mun þetta gagnast öllum eða munu margir enn standa í sömu sporum?

  • Eygló Harðardóttir

    Afsakið Anna María – var ekki búin að sjá athugasemd þína þegar ég setti þetta inn.

  • Eygló Harðardóttir

    Ég er alveg sammála að þetta snýst um jöfnuð, sem og sanngirni og réttlæti. Af fólk upplifi að við séum öll að leggja það af mörkum sem við getum.

    Kristján, það væri ágætt að byrja að lesa tenglana sem ég setti inn. Þar koma fram okkar hugmyndir og tillögur að lausn. Já, ég tel að lífeyrissjóðirnir eigi að skila því sem þeir tóku til sín í hruninu. Já, ég tel að við eigum að skila öllu því sem við ætluðumst til að færa í niðurfærslu hjá Íbúðalánasjóði áfram til skuldara.

    Það hefur ekki verið gert.

    Lægri skuldir, meiri vinna og þar af leiðandi auknar skatttekjur ríkisins gerir því síðan kleift að standa við bakið á almannatryggingakerfinu og allri annarri velferð.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur