Miðvikudagur 16.11.2011 - 21:14 - 7 ummæli

Að læra að einkavæða?

Í umfjöllun Rannsóknarnefndar Alþingis um einkavæðingu ríkisbankanna á sínum tíma var gagnrýnt harkalega hversu opin heimildin var um að selja ríkisbankana.  Allt mat og stefnumörkun á kaupendum, verði, áformum kaupenda, tímapunktur sölunnar o.s.frv. var í höndum framkvæmdavaldsins.

Einkavæðingarferlið á ríkisbönkunum tveimur á sínum tíma var óásættanlegt.  Allir þingmenn tóku undir það.  Þó nokkrir stjórnarliðar töldu sig þó þurfa frekari upplýsingar og fluttu tillögu um rannsókn á einkavæðingunni.

Því hef ég velt fyrir mér hvað stjórnarliðum finnst um núverandi einkavæðingarferli?

Ríkisstjórnin hefur nú einkavætt fjóra banka.  Jafnframt hefur verið ákveðið að einkavæða nokkra sparisjóði. Í engu þessara tilvika hefur þótt nein sérstök ástæða til að ráðfæra sig við Alþingi.

Í tilfelli einkavæðingar nýju bankanna neyddist meirihluti fjárlaganefndar til að leggja sjálfur fram frumvarp um heimild til sölu eftir að ábendingar höfðu borist nefndinni um hugsanlegt stjórnarskrárbrot ráðherra og brot á lögum um fjárreiður ríkisins. Byr er seldur. Alvarlegar athugasemdir eru gerðar við ferlið og enn á ný var skortur á lagaheimild frá Alþingi.  Í frétt RÚV nýlega um málið var það þó kallað „formsatriði“.  Við fáum loksins, loksins að ræða einkavæðingu sparisjóðanna í þingsal á morgunn.

Enginn virðist vita fyllilega hverjir kaupendurnir eru, hver áform þeirra eru (annað en kreista íslenskan almenning), eða hvað felst í kaupsamningnum.

Fjármálaeftir hefur áætlað að 60% af eigendum Íslandsbanka/ Byrs og Arionbanka séu erlendir vogunarsjóðir, hrægammasjóðir sem keyptu kröfurnar á slikk.  Hrægammar sem eru að fá um 76 ma.kr. af niðurfærslu lána beint í sinn hlut í gegnum svokallað endurmat lánasafnanna og miskunnarlausa innheimtu þeirra.

Í dag lág fyrir að hluti samnings vegna Byrs hafði verið lagður fram undir kvöðum um trúnað og aðeins til hluta þingmanna.

Sama dag og átti að afgreiða fjáraukalög með formsatr… afsakið, lagaheimildina um söluna á Byr.

Hvað nákvæmlega lærðu stjórnvöld af einkavæðingu ríkisbankanna fyrir áratug?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Ásmundur Harðarson

    Nýju bankarnir voru ekki einkavæddir. Þeir voru aldrei í eigu ríkisins. Þeir voru stofnaðir til að taka við starfsemi gömlu bankanna sem voru einkafyrirtæki komin í greiðsluþrot.

    Þannig var td innlend skuldabréfaeign gömlu bankanna færð yfir í nýju bankana. Nýju bankarnir voru því framhald á gömlu bönkunum, eins konar kennitöluflakk til að geta haldið starfsemi þeirra áfram eftir að skuldir umfram eignir höfðu verið strikaðar út.

    Eignir gömlu bankanna eftir að þeir fóru í þrot voru eign kröfuhafa. Ef ríkisstjórnin hefði reynt að hrifsa til sín þessa eign með því að hunsa rétt kröfuhafa til eignarhalds á nýju bönkunum hefði komið til málaferla sem ríkið hefði örugglega tapað.

    Inn í þau málaferli hefðu blandast neyðarlögin sem færðu mörg hundruð milljarða króna frá kröfuhöfum til innistæðueigenda. Þannig hefðu líkur á að neyðarlögin hefðu verið dæmd ólögleg og Ísland orðið gjaldþrota aukist.

    Tap lánardrottna vegna gömlu bankanna var 7000-8000 milljarðar, að hluta vegna neyðarlaganna. Það þarf því enginn að hafa áhyggjur af því að kröfuhafar séu að hagnast á kostnað Íslendinga enda er verðmæti nýju bankanna aðeins brot af tapi þeirra.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    „Hvað nákvæmlega lærðu stjórnvöld af einkavæðingu ríkisbankanna fyrir áratug?“

    Ekkert þar sem Steingrímur J. virðist vera frekja og besserwisser dauðans.

  • Hrunið er greinilega ekki lengur að þvælast fyrir höfundi. Lætur eins og ekkert hafi breyst.

  • Sigurður E. Vilhelmsson

    Pétur, því miður virðist ekkert hafa breyst. Það er nákvæmlega það sem Eygló er að benda á. Til hvers var rannsóknarskýrslan? Til hvers voru langar ræður Steingríms, innblásnar réttlátri reiði, vegna einkavæðingarinnar fyrri? Ætla menn ekkert að læra?

  • 15.október 2009 tóku kröfuhafar við 95% hlut í Íslandsbanka. Auk þess lét SJS bankann fá 25 milljarða víkjandi lán. Ég myndi halda að þetta væri einkavæðing.
    http://www.islandsbanki.is/english/about-islandsbanki/news/detail/item48477/Creditors_Acquire_95_prosent_of_Share_Capital_in_Islandsbanki/

  • Ásmundur

    Það er mjög upplýsandi leiðari um þetta mál eftir Þórð Snæ Júlíusson í Fréttablaðinu í gær. Þar kemur fram að með því að afhenda nýju bankana kröfuhöfum losnaði ríkið við að greiða þeim 595 milljarða.

    Ríkið hafði að sjálfsögðu ekki efni á að kaupa þrotabúin á 595 milljarða. Slík skuldaaukning hefði getað riðið því að fullu. Að tala um að ríkið hafi afhent þrotabúunum bankana fyrir spottprís, eins og margir halda fram, er því úr lausu lofti gripið.

    Ríkið greiddi þrotabúunum (kröfuhöfum) sérstaklega fyrir sinn hlut í nýju bönkunum. Þórður Snær bendir einnig á þá augljósu staðreynd að mikill meirihluti lána heimilanna er hjá Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðunum. Lækkun lána muni því óhjákvæmilega lenda á skattgreiðendum.

  • Ég á erfitt með að skilja þennan rökstuðning. Afhverju var verið að stofna alla þessa banka, lánastarfsemi er sáralítil. Skuldarar margir hverjir ráða ekki við greiðslur. Bara gott leiðir af því að losa fólk úr skuldafjötrum, því annars hrökklast bara fleiri úr landi og færri eftir til að halda uppi kerfinu. Ályktanir um að lækkun lána lendi óhjákvæmilega á skattgreiðendum er of mikil einföldun. Auk þessa alls er búið að dæla stórum summum til að lagfæra eigið fé hjá þeim öllum þessum bönkum. 258 milljarðar hafa runnið til bankanna í eigið fé eða víkjandi lán, þar að auki hvílir á einum bankanum forgangsskuldabréf sem nánast er með ábyrgð ríkisins upp á 330 milljarða. Þetta má sjá í 3.tbl Frjálsrar Verslunar 2011 um fjárfestingar Steingríms.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur