Jólin eru að koma. Vindurinn gnauðar fyrir utan, Herjólfur siglir ekki en það er hlýtt og notalegt inni í gamla húsinu mínu.
Bergsson og Blöndal í útvarpinu. Jólatréð er skreytt rauðum jólakúlum. Trönuberjasósan ilmar af eplum, kanil og appelsínum. Stollen hvílir í hvítum sykurhjúpnum á eldhúsborðinu og kalkúninn bíður eftir að komast að í ofninum.
Undanfarin ár hefur hátíðarmáltíð Williams frænda verið á borðum mínum á aðfangadag. Jamie Oliver náði að troða sér aðeins inn á matseðilinn í ár, þökk sé sjónvarpsþætti hans á Stöð 2. Má sjá áhrif hans í rósarkálinu, rauðkálinu, sósunni og snickers ísnum. Lakkrísbragðið kemur sérstaklega á óvart í rauðkálinu og sósunni.
Að auki prófuðum við hjónin í fyrsta skipti að baka La bûche de Noël (jólatrédrumb).
Vatn í munninn bara við að skrifa þetta…
Ég óska lesendum gleðilegra jóla og góðra samverustunda með fjölskyldu og vinum.
Rita ummæli