Föstudagur 13.01.2012 - 15:00 - 25 ummæli

Rannsókn á einkavæðingu bankanna?

Á sínum tíma taldi ég að frekari rannsókn á fyrri einkavæðingu ríkisbankanna myndi ekki skila samfélaginu neinu.  Næg gögn lægju fyrir um að einkavæðingarferlið hefði verið ámælisvert og ástæða til að lýsa yfir vanþóknun á ferlinu.  Á grundvelli þeirra gagna varð það niðurstaða þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis væri áfellisdómur yfir ferlinu og vinnubrögðum þeirra ráðherra sem að því komu.

Þremur árum eftir hrun virðist lítill lærdómur hafa verið dreginn af fyrra einkavæðingarferli.  Ekki hefur verið lögfest rammalöggjöf um einkavæðingu ríkisfyrirtækja eða mörkuð opinber stefna um eignarhald opinberra fyrirtækja og síðari einkavæðing fjármálafyrirtækja borið öll einkenni þess að menn hafa ekkert lært.  Fáir virðast jafnvel hafa lesið skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, – jafnvel ekki fyrsta bindið þar sem fjallað er ítarlega um einkavæðingu bankanna og atriði í ferlinu sem gætu hafa haft áhrif á gjaldþrot bankanna.

Í dag kallaði Björgólfur Thor eftir áframhaldandi starfi rannsóknarnefndar Alþingis í nýjum pistli.  Áframhaldandi starf nefndarinnar er væntanlega ekki versta hugmynd sem Björgólfur Thor hefur fengið.  Með því að endurvekja nefndina gæti Björgólfur Thor fengið að koma að athugasemdum sínum og við jafnframt falið henni ítarlega rannsókn á einkavæðingu bankanna, bæði þeirri fyrri og síðari.

Þegar skýrsla þingmannanefndarinnar var til umræðu í þinginu lagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, fram tillögu að fram færi:

  • Rannsókn á einkavæðingu Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. sem fram fór á grundvelli laga nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, með síðari breytingum. Þannig verði rannsakað hvernig að undirbúningi og framkvæmd einkavæðingar Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. var staðið, lagt mat á hvort vikið hafi verið frá viðmiðum eða kröfum til kaupenda sem stöfuðu frá ráðherranefnd um einkavæðingu og framkvæmdanefnd um einkavæðingu, skoðað hverjir raunverulegir kaupendur bankanna voru og það gert opinbert, lagt mat á hvort kaupendur hafi í raun og veru uppfyllt viðmið eða kröfur sem fyrir lágu varðandi val á mögulegum kaupendum bankanna, hvort einstökum kaupendum hafi verið veittur afsláttur frá umsömdu kaupverði og þá hvaða forsendur lágu slíkum afslætti til grundvallar, hverjir hafi staðið að því að verðmeta þær eignir sem inni í bönkunum voru fyrir sölu þeirra, hvernig slíku mati hafi verið háttað og hvort samræmi hafi verið á milli þess mats og þeirra raunverulegu verðmæta sem afhent voru kaupendum bankanna við einkavæðingu þeirra. Samhliða framangreindu verði gert opinbert, á sundurliðaðan hátt, hvert matsverð hinna sömu eigna var við flutning þeirra frá hinum föllnu bönkum, Landsbanka Íslands hf. og Kaupþingi banka hf., yfir til nýju bankanna, KBI hf. (síðar Arion banka hf.) og NBI hf., skýrt dregið fram hverjir eru ábyrgðaraðilar þess verðmats og hvaða forsendur lágu því til grundvallar.
  • Rannsókn á sölu einstakra félaga og eignarhluta í félögum af hendi slitastjórna og skilanefnda Landsbanka Íslands hf. og Kaupþings banka hf. og KBI hf. (nú Arion banka hf.) og NBI hf. Þannig skal upplýst hvaða verðmætamat lá til grundvallar, hvernig staðið var að vali á kaupendum, hvernig kaupin voru fjármögnuð af kaupendum og hvaða seljendaáhættur fylgdu sölunni.
  • Rannsókn á stofnfjáraukningu sparisjóða frá gildistöku laga nr. 4/2004, um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Rannsakað verði hvernig að stofnfjáraukningunni var staðið, hvernig undirbúningi hennar var háttað og hvernig framkvæmd hennar fór fram. Leitt verði í ljós hvaða mat lá til grundvallar vali á nýjum stofnfjáraðilum, hvernig sú stofnfjáraukning var fjármögnuð og hvaða tryggingar voru að baki þeirri fjármögnun.
  • Rannsókn á styrkveitingum sparisjóða til stjórnmálamanna frá árinu 2004. Gert verði opinbert hvort einstakir stjórnmálamenn fengu styrki frá sparisjóðunum, beint í eigin nafni eða óbeint í nafni hluta- eða einkahlutafélags.

Er kannski kominn tími til að dusta rykið af þessari tillögu og leggja hana aftur fram?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (25)

  • Hvað heldur aftur af þingheimi að leggja af stað með slíka rannsókn?

    Þessi nálgun að tala um hlutina án þess að framkvæma fer brátt að verða ótrúverðugur; það er með öllu óskýrt ekki bara hvernig heldur hvort yfir höfuð stjórnvöld hafi brugðist við Rannsóknarskýrslunni.

    Stjórnlagaráð hefur skilað af sér tillögum, en ekkert gerist.

    Það er eins og stjórnvöld séu búin að velja sér sigurvegara.

  • Rannsókn er með öllu óþörf búið að rannsaka einkavæðingu bankanna 2 sinnum síðast af Ríkisendurskðanda sem sá ekkert athugunarvert.

  • Leifur A. Benediktsson

    Hvet alla ,,óspillta“ þingmenn að stíga nú fram og koma tafarlaust með frumvarp,sem gæti upplýst okkur,hvernig kaupin gerðust á bak við tjöldin.

    Skítabixið verður að upplýsa..

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Það væri þarft að rannsaka t.d. ferlið í kring um einkavæðingu Síldarversmiðju Ríkisins, Sementsverksmiðjunnar, Bifreiðaeftirlitsins, Ratsjárstofnunar o.s.frv..

  • Eygló Harðardóttir

    Í framhaldinu þarf að setja rammalöggjöf um einkavæðingu ríkisfyrirtækja og stjórnvöld á hverjum tíma verða að marka sér stefnu varðandi eignarhald á ríkisfyrirtækjum. Norðmenn eru þar til mikillar fyrirmyndar.

  • Óbreyttur kjósandi

    „Er kannski kominn tími til að dusta rykið af þessari tillögu og leggja hana aftur fram?“

    Svarið er einfalt og öllu siðuðu, sanngjörnu og réttsýnu fólki fullkomlega augljóst:

    Já! Og það strax við upphaf vorþings, takk.

    Þá mun koma í ljós hvaða þingmenn vilja annars vegar upplýsa um upphaf gripdeilda og bankarána fjármála og sérhagsmunaklíkanna af almenningi þessa lands

    og hins vegar hvaða þingmenn samtryggðs 4-flokksins sjá stundarhag sinn í að makka enn með uppreistum fjármála og sérhagsmunaklíkunum GEGN almenningi.

    Það er nauðsynlegt að almennir kjósendur fái að sjá hvar hver og einn þingmaður liggur falur … eða ekki.

    Nú heiti ég á þig Eygló, að beita þér af alefli í þessu máli og þú munt fá þakklæti alls hins almenna og óbreytta kjósanda, bæði innan og utan allra flokka.

  • Væri ekki líka í lagi að ransaka hvernig bankarnir hafa farið með heimili landsins í krafti fjármagns án þess að eftirlitstofnanir hafa ekkert gert. Nú er verið að selja heimilli af fjölskyldum landsins þó svo að dómstólar hafa ekki en dæmt í lögmætti þessara lána.t,d samtök heimillana hafa beðið Ögmund að setja lög sem banna nauðungarsölur á heimilum þar sem réttaróvissa er http://www.heimilin.is/varnarthing/frettirhagsmunasamtokin/1433-gefum-heimilunum-grie-fyrir-aefoerum-fjarmalastofnana.Ég þekki persónulega mann sem keypti bíl langt undir markaðsverði af fjármögnunarfyrirtæki þar sem þeir vildu selja bílinn samdægurs til flækja málið fyrir eiganda bílsins

  • Það þarf að rannsaka ALLA einka(vina)væðingu sem hefur veirð framkvæmd hér á landi og með það fyrir huga að framin hafi verið auðgunarbrot, samsæri o.fl. hegningarlagabrot og leggja fram ákærur á hendur á starfsmönnum og stjórnmálamönnum sem ástunduðu þau.

    Ég bendi t.d. á að fyrir utan einkavæðingu bankanna þá er einkavæðing ÍAV frekar ljót, Keflavíkurflugvöllur, Hitaveita Suðurnesja, Magma-málið, Síldarverksmiðjur Ríkisins á sínum tíma, Síma-söluna og fleira og fleira.

    Og svona í leiðinni þá má þjóðnýta dreifikerfi Símans sem stjórnmálamenn sögðu að væri ekki hægt að aðskilja frá fyrirtækinu en var svo hægt að aðskilja þremur vikum síðar með þeim afleiðingum að velflest fyrirtæki sem einstaklingar þurfa að versla við Símann, beint eða óbeint.

  • Sæl Eygló,

    Það er hægt að hafa norsku stefnuna sem fyrirmynd, en grundvöllur þess að geta sett fram áhrifaríka umgjörð um einkavæðingu ríkisfyrirtækja er að læra af mistökum fyrri ára.

    Hver er ástæða þess að slíkri rannsókn er ekki hrint af stað?

    Önnur eign sem rík ástæða er til að vernda eru auðlindirnar.

    Eru áform um slíkt á pallborðinu, eða verður farið í næstu kosningar án þess að það verði gert?

  • Leifur A. Benediktsson

    Ég á alveg eftir að sjá þetta frumvarp verða að lögum.

    Fyrirstaðan er alveg ljós í mínum huga innan FLokkanna tveggja sem stóðu að þessum ósóma.

    Peningar eru og hafa alltaf verið undirrót þess illa sem býr í manninum.

    Þessi gríðarlegu auðævi sem voru innan bankanna tveggja þ.e. Landsbankans og Búnaðarbankans freistuðu gírugra og makgráðugra stjórnmálaforingja og manna þeim fylgispökum.

    Mörg nöfn koma upp í hugann þegar litið er til baka.

    Allt eru þetta nöfn manna sem hafa komist vel í álnir á kostnað fyrrum eigenda bakanna tveggja þ.e. íslensks almennings.

    Hvað þeir tveir, sem fóru fyrir hönd OKKAR afhentu glæpamönnum bankanna fengu í sinn hlut,hefur aldrei verið upplýst.

    Í mínum huga er alveg dagljóst, að þeir hafa fengið drjúgt inn á reikninginn sinn, í paradís myrkursins í Sviss.

    Þetta VERÐUR að upplýsa áður en að fyrningin góða, fennir yfir slóðina.

    Kosningar verða vorið 2013, 4FLokkurinn á eftir að fá háðulega og verðskuldaða útreið eftir allt sem á undan hefur gengið.

    Guð blessi Ísland.

  • Rannsaka á einkavæðingu bankanna sem auðgunarbrot og/eða umboðssvik.

    Eygló, ég bendi þér á að lesa grein í hausthefti Sögu 2011, sem Björn Jón Bragason sagnfræðingur skrifar um orsakir og aðdraganda einkavæðingar Búnaðarbankans í byrjun árs 2003.

  • Eygló Harðardóttir

    Áhugavert, en umboðssvik hvers og auðgunarbrot hvers? Alþingi veitti svohljóðandi söluheimild:“Heimilt er að selja hlutafé ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.“ Ríkisstjórnin hefði getað selt bankana fyrir krónu án þess að það hefði brotið á söluheimild Alþingis.

  • Lög um ráðherraábyrgð frá 1963 eru sennilega ekki gallalaus.

    Hinsvegar eru í þessum lögum ákvæði í þeim um vanrækslu og hagsmuni ríkis, sem líklega gerir væntingar til ráðherra um að þeir selji eignir ríkisins á meira en (eina, væntanlega) krónu.

    Eftir orðanna hljóðan veitir söluheimildin veitir á engan hátt ráðherrum leyfi til þess að niðurskrifa verðmæti hlutafésins, einungis að færa eignarréttinn úr hendi ríkis til kaupanda.

    Af hverju má ekki rannsaka þetta mál?

  • Leifur A. Benediktsson

    Eygló Harðardóttir,

    Allt þetta drullumall FLokkanna verður að rannsaka.

    Er þetta of flókið að þínu mati, að láta fara fram opinbera rannsókn á þessu skítabixi?

    Einkavinavæðing FLokkanna tveggja á bönkunum mun hvíla eins og mara á þjóðinni um ókomin ár,ef þetta verður ekki rannsakað STRAX.

    Ykkur ber að koma með frumvarp á Alþingi sem heimilar opinbera rannsókn á viðbjóðnum.

    Hrunið er ykkur að kenna sem komu bönkunum í hendur bófa sem ekkert kunnu á bankarekstur.

    Þetta var borðliggjandi glæpur gegn íslenskri þjóð.

  • Það er rannsóknarefnið.

    Þú segir að ríkisstjórnin hefði getað selt bankana fyrir krónu án þess að það hefði brotið söluheimild Alþingis. Telur þú að þar með sé öll sagan sögð? Ert þú á því að láta þar með staðar numið?

    Bönkunum, eignum ríkisins, almennings, var með blekkingum ráðstafað í hendurnar á tilteknum mönnum fyrir gjafverð. Mönnum sem uppfylltu ekki einu sinni skilyrði til þess að eiga og reka banka. Verknaðinn frömdu nokkrir kunnir stjórnmálamenn.

    Afleiðingarnar eru svo annar kapítuli, en á innan við 6 árum voru bankarnir keyrðir í þrot og fjármálakerfi þjóðarinnar með. Skaði samfélagsins af þessum gerningum er svo geigvænlegur að það mun taka kynslóðir að komast yfir hann. – Ég átti reyndar ekki von á að þingmenn Framsóknarflokksins væru áfram um að rannsaka þessa glæpi, en hvet þig enn og aftur til að lesa hausthefti Sögu 2011.

  • Leifur A. Benediktsson

    Eygló,

    Inn á þessari opnu ,,comment“ síðu þinni öskrar almenningur á ,,uppljóstrun“ og réttlæti.

    Sem þjóðkjörinn þingmaður ber þér að hlusta á hjartslátt okkar.

    Áfellisdómur og ámælisverð vinnubrögð, eru bara innantóm orð sem skila akkúrat engu í þessu samhengi.

    Lagatæknar nota þessi orð oft og iðulega þegar rök þrjóta.

    Við erum einstaklingar sem komum hér inn, undir nafni og krefjumst þess að þú sem þingmaður og fulltrúi okkar,fylgir þessu ,,skítuga“ máli eftir og styðjir frumvarpið þegar og ef það kemur til kasta Alþingis.

    Áfram stelpa þú getur þetta!

  • Eygló Harðardóttir

    Hugsanlega ertu að vísa í 10.gr. a: „…ef hann misbeitir stórlega valdi sínu, enda þótt hann hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættistakmörk sín;“ Róbert Spanó, prófessor, hefur fært sannfærandi rök fyrir að þessi grein uppfylli ekki kröfu um skýrleika refsiheimilda sem leiða má af 1.mgr. 69.gr. stjórnarskrárinnar. „Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Viðurlög mega ekki verða þyngri en heimiluð voru í lögum þá er háttsemin átti sér stað.“ Lagaheimildin sagði einfaldlega farið og seljið þessa tvo banka. Engar aðrar kröfur voru gerðar af hendi Alþingis sem setti lögin.

  • Eygló Harðardóttir

    Ég vil gjarnan hvetja þig til að lesa frekar skýrslu RNA, þó það væri ekki nema fyrsta bindið og skýrslu þingmannanefndarinnar sem fer yfir öll bindin. Skýrslan er mjög faglega unnin. Ítreka jafnframt óskir mínar um upplýsingar um hvaða lög voru brotin við fyrri og síðari einkavæðingu. Þótt ég hafi skoðað þetta ítarlega þá væri ágætt að fá ábendingar um lög og einstakar lagagreinar sem talið er að hafi verið brotnar við einkavæðinguna sem rannsóknarnefnd yrði falið að skoða. Hingað til hafa ábendingar þess efnis verið óskýrar.

    Ég er að leggja til ákveðna hluti í þessum pistli, og minna á tillögu sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lagði fram á Alþingi við umfjöllun um skýrslu þingmannanefndarinnar. Ég bendi á að því miður virðast mjög fáir hafa lesið skýrslu RNA, skýrslu þingmannanefndarinnar né önnur grunngögn í málinu. Þar flokka ég ekki grein Björns undir. Því skil ég ekki alveg setninguna um að þú hafir ekki átt von á að þingmenn Framsóknarflokksins væru áfram um að rannsaka einkavæðingu bankanna.

  • Ég hef lesið um einkavæðingu bankanna í skýrslu RNA og skýrslu þingmannanefndarinnar. Í drögum að þingsályktun þingmannanefndarinnar var gert ráð fyrir sérstakri rannsókn á einkavæðingu bankanna. Framsóknarþingmennirnir í nefndinni, þar á meðal Eygló Harðardóttir, og auðvitað sjálfstæðisþingmennirnir komu í veg fyrir það, voru því andvígir þrátt fyrir að í skýrslu RNA sé sagt skýrum orðum að slík rannsókn sé eftir. Þegar ég segi að engan þurfi að undra andstöðu framsóknarþingmanna og sjálfstæðis, þá þarf það ekki frekari skýringa við.

    Hér eru bókanir úr skýrslu þingmannanefndarinnar í sambandi við rannsókn á einkavæðingu bankanna. Ég veit þú kannast við þær:

    „Bókun 1: Þingmennirnir Sigurður Ingi Jóhannsson og Eygló Harðardóttir telja að í ljósi niðurstaðna skýrslu rannsóknarnefndarinnar, skýrslu Ríkisendurskoðunar um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja árin 1998–2003 og minnisblaða Ríkisendurskoðunar um sölu bankanna að frekari rannsókn á sölu bankanna skili samfélaginu engu. Að mati þingmannanna var sala og einkavæðing ríkisbankanna rétt ákvörðun, en verklagið og atburðarásin við einkavæðingarferlið var hins vegar ekki til eftirbreytni. Þingmennirnir taka því undir þær ávirðingar sem fram koma í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um verklag við sölu og einkavæðingu ríkisbankanna, Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands. Þingmennirnir telja að þeir ráðherrar sem stýrðu einkavæðingarferlinu við sölu Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands beri á því fulla pólitíska ábyrgð og lýsa yfir vanþóknun sinni á störfum þeirra við það ferli.

    Bókun 2: Þingmennirnir Oddný G. Harðardóttir, Magnús Orri Schram, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Birgitta Jónsdóttir leggja til að gerð verði sérstök rannsókn á því hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna. Rannsóknarnefnd Alþingis tiltók það sérstaklega í skýrslu sinni (bindi 1, bls. 228) að nefndin „hefði ekki látið framkvæma heildarúttekt á einkavæðingu Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands eða tengdum málefnum“. Af þessum sökum er það mat þingmannanna að framkvæma beri ítarlega rannsókn svo fullljóst verði hvernig staðið var að einkavæðingunni.

    Bókun 3: Þingmennirnir Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir telja í ljósi skýrslu rannsóknarnefndarinnar og skýrslu Ríkisendurskoðunar um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja árin 1998–2003, og minnisblaða Ríkisendurskoðunar um sölu bankanna, að frekari rannsókn á einkavæðingarferlinu við sölu ríkisbankanna skili samfélaginu engu. Jafnframt er hæpið að halda því fram að ekki hafi verið fagþekking til staðar við einkavæðingu bankanna þar sem HSBC, einn stærsti banki heims, var aðalráðgjafi við ferlið og erfitt að taka undir að hann búi ekki yfir fagþekkingu.“

  • Eygló Harðardóttir

    Já, eins og kemur fram í pistli mínum og ræðum um málið á Alþingi þá taldi ég mig hafa nægileg gögn til að draga ályktanir og komast að niðurstöðu. Aðrir töldu sig þurfa frekari upplýsingar og telja enn.

    Niðurstaða mín var að þeir ráðherrar sem stýrðu einkavæðingarferlinu við sölu Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands bæru á því fulla pólitíska ábyrgð og ég lýsti yfir vanþóknun minni á störfum þeirra við það ferli í samræmi við danska hefð um ávítur við ráðherra. Ég og Sigurður Ingi töldu frekari rannsóknir skila samfélaginu engu. En í ljósi reynslu síðustu þriggja ára þar sem engin breyting hefur orðið á vinnubrögðum við einkavæðingu ríkisfyrirtækja, engin rammalöggjöf liggur fyrir um einkavæðingu þeirra né opinber eigendastefna stjórnvalda þá er kannski eina lausnin að fara í rannsókn á einkavæðingu ríkisfyrirtækja sbr. tillögu Sigmundar Davíðs og jafnvel útvíkka það samanber tillögur ummælenda á síðunni. Við ættum jafnframt að fela viðkomandi nefnd að koma með tillögur til úrbóta og vinna drög að lagafrumvörpum um einkavæðingu ríkisfyrirtækja.

    Því væri mjög hjálplegt að fá upplýsingar um hvaða lög og hvaða lagagreinar þú og fleiri telja hafa verið brotnar við einkavæðingu bankanna (bæði þá fyrri og síðari) og anarra ríkisfyrirtæki.

  • Árni Aðalsteinsson

    sæl Eygló
    – svoldið sem mig langar að forvitnast um hjá þér sem þingmanni,
    er eitthvað sem skyldar ríkið til að losa sig við arðbærar eignir einsog sameiginlegar auðlyndir,fiskinn,bankana,símann og fleira (sem ekki hefur einusinni verið staðið við greiðslu á)og sem skilað gæti hagnaði til eigenda og er svo eitthvað sem skyldar ríkið til að halda eftir eignum sem aldrei geta skilað hagnaði,einsog t.d. Hörpunni,sem sjálfsagt er kominn til með að vera byrði á almenning til framtíðar.

  • Rannsaka þarf hvort í einkavæðingarferlinu hafi verið framin brot á almennum hegningarlögum, svo sem auðgunarbrot (sjá kafla XXVI).

    Þetta hef ég eftir sérfróðu fólki og þetta er verk fyrir sérfræðinga. Auðgunarbrot eru flókið lagalegt fyrirbrigði sem ég hætti mér ekki lengra út í en ég þori.

    Rannsókn á þessum forsendum verður að hefja strax. Um það bloggaði ég fyrir ekki svo löngu síðan. Sjá hér:

    http://www.dv.is/blogg/hloduveggur/2011/9/12/rannsokn-einkavaedingu-bankanna-yfirlysing-um-rettlaeti/

  • Rannsókn á einkavæðingaferlum ríkisfyrirtækja á sér ekki bara stoð í lagabálki.

    Það þarf að gera upp óútskýrðar ákvarðanir og verklög.

    Og það er kannski ekki síst rík ástæða til að fara yfir það hvernig ráðherrar túlka heimildir sem Alþingi gefur þeim til ákvarðanatöku.

    Rannsókn sem þessi myndi væntanlega kanna það ofan í kjölinn.

  • Ég hélt að þetta komment hefði verið komið inn, en sé að svo er ekki. Því set á það, eða svipað, inn aftur:

    Rannsaka þarf hvort í einkavæðingarferlinu hafi verið framin brot á almennum hegningarlögum, svo sem auðgunarbrot (sjá kafla XXVI). Þetta hef ég eftir sérfróðu fólki og þetta er verk fyrir sérfræðinga.

    Auðgunarbrot eru flókið lagalegt fyrirbrigði sem ég hætti mér ekki lengra út í en ég þori.

    Rannsókn á þessum forsendum verður að hefja strax. – Nánar hér: http://www.dv.is/blogg/hloduveggur/2011/9/12/rannsokn-einkavaedingu-bankanna-yfirlysing-um-rettlaeti/

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur