Föstudagur 27.04.2012 - 17:09 - 15 ummæli

Framsóknarfordómar Óttars

Ég og félagar mínir fengum slæma útreið hjá Óttari Guðmundssyni, rithöfundi og geðlækni nýlega í frétt á Visir.is.  Eftir að hafa tjáð sig ítarlega um geðraskanir Egils Skallagrímssonar segir Óttar: „…hann hefði getað orðið dæmigerður framsóknarbóndi og stundað þar grimma eiginhagsmunahyggju, en hann hugsaði alltaf fyrst og fremst um sig sjálfan.“

Mig setti hljóða um stund eftir að hafa lesið þetta.

Í siðareglum lækna er talað um að læknir skuli rækja starf sitt af vandvirkni og samviskusemi án tillits til eigin hagsmuna, persónulegra skoðana, stjórnmála, þjóðernis, trúarbragða, kynþátta, kynferðis, kynhneigðar eða annarra utanaðkomandi áhrifa. Hann skal jafnframt hafa velferð sjúklinga og samfélags að leiðarljósi.

Ég tel tjáningarfrelsi vera eitt af grundvallarréttindum hvers manns. Þannig mun ég standa vörð um rétt hvers og eins til að tjá fordóma sína og andúð á framsóknarmönnum, sama hversu ógeðfellt það kann að vera, – að því gefnu að ekki sé hvatt til refsiverðar háttsemi.

Hins vegar verð ég að gera þá kröfu að aðgát sé höfð í nærveru sálar. Óttar Guðmundsson, læknir og starfsmaður Landspítalans verður því að íhuga hvers konar tilfinning þá sé fyrir framsóknarmann að leita sér aðstoðar hjá honum eftir þessi orð.

Að læknirinn telji hann snarklikkað, siðblint illmenni með alvarlega geðhvarfasýki, sem hugsi alltaf fyrst og fremst um sjálfan sig, – bara vegna stjórnmálaskoðana sinna?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Breki Karlsson

    Ég held að læknirinn sé bara eins og við hin sem erum hætt að sjá mun á „flokk“ og einstaklingum innan flokka.

    Þess vegna eru menn unnvörpum að kalla eftir möguleikum á persónukjöri.

  • Eygló veistu ekki að umræddur Óttar var í fjölda ára einskonar tengdasonur Framsóknar en hann var í áratugi giftur dóttur ástsæls ráðherra úr Framsóknarflokknum. Sennilega eru þessi ósmekklegu skrif Óttars hluti af einhverju fjölskylduuppgjöri. Slík persónuleg uppgjör ættu menn að halda innan eigin veggja en ekki bera á torg eins og Óttar gerir með skrifum sínum. Óttar setur niður við þessi skrif sín.

  • En hann er bara að segja sannleikann, ég meina Ásmundur Einar og Jón Bjarnason í þinginu síðustu daga…þarf að segja meira?

  • sigurður

    Greining Ottars er auðvitað rétt.Og svoldið brosleg. En auðvitað vitum við það að Framsóknarflokkurinn er flokkur sérhagsmuna.

  • Hafþór Baldvinsson

    Held að þú hafir lesið eitthvað vitlaust í þessi orð Eygló. Hann var ekki að tala um framsóknarmenn. Hann var að tala um Egil Skalla rétt eins og hann skrifaði um í bók sinni sem var að koma út. Hún fjallar um persónur í Íslandssögunni og reynir að staðsetja þær í nútímanum. Skemmtileg hugmynd finnst mér.
    Held ekki að hann sé að skrifa þetta sem læknir heldur að nýta læknisþekkingu sína til að skrifa sem er allt annað.
    Rétt eins og ef þú nýttir þekkingu þína innan þings til að skrifa e.k. skáldverk til að lýsa stjórnmálamönnum fyrri alda og reyna að staðsetja þá t.d. innan flokka eða hvaða ráðherraembætti þeir skipuðu í dag. Mér þætti það skemmtileg hugmynd og vel þess virði að skoða hana. Held að þú yrðir lítið gagnrýnd fyrir þá bók. Ekki mundi ég gera það þó ég þekki þig ekki frekar en ég þekki Óttar.
    En er þetta ekki óþarfa viðkvæmni Eygló?

  • Árni H Kristjánsson

    Gunnlaugur, Halldór,Björn Ingi, Óskar, Alfreð, nei nú hætti ég, nenni ekki að rifja upp fleiri eiginhagsmunapotara á vegum Framsóknar. Skil ekki hvaða samleið virðinga- verð manneskja eins og þú, átt með þessum flokki. Í lokin langar mig að spyrja þig um siðareglur fulltrúa Framsóknarflokksins í opinberu starfi.
    Með vinsemd og virðingu
    Árni Hó

  • Glögg greining hjá Óttari, eins og við var að búast.

  • Gunnar Geirsson

    Þú ert að grínast, er það ekki?

  • Því hefur lengi verið haldið fram, að undarlega margir leiti í nám í sálfræði og geðlækningar vegna eigin vandamála. Vel má vera, að eitthvað sé til í því. Kannski Egill hafi þá verið geðlæknir, samkvæmt því? Það ætti Óttar að rýna betur, en amk. var Egill betra skáld en Óttar, sem hér finnst ógurlega fíflalega gaman að nudda sér upp við íslensku ESB menningarelítuna. Kannski hann sé á styrkjaveiðum, kannski hann dreymi um listamannalaun eins og Þráinn, með sinn vafasama heiður.

  • Ummælin hljóta að dæma sig sjálf, enda geðlæknir sem vildi vista geðsjúkling í fangageymslum lögreglunnar frekar en að vista hann á viðeigandi stofnun, Geðlæknirinn Óttar brást illa við viðbrögðum ættingja, veittist að honum og þurfti lögreglu til að skilja að og var honum skipað að taka við sjúklingnum sem hann gerði en hann gekk laus 9 tímum seinna, öldruðum foreldrum til mikilla armæðu.

  • Siggi Jóns.

    Hagsmunasamtök bænda og útgerðarmanna stunda grimma og siðspillta eiginhagsmunagæslu gegn hagsmunum almennra borgara.
    Það eru ekki allir framsóknarmenn bændur, svo mér finnst þetta ástæðulaus viðkvæmni hjá þér, Eygló.
    Þú ert að mínum dómi ein af virðingarmestu alþingismönnunum.
    Þú átt ekki heima í hópi með ÁDE, SDG, GBS og VH.

  • Hrafn Arnarson

    Öll þessi skrif Óttars þar sem hann greinir sjúkdóma fólks í miðaldaritum eru markleysa. Það að setja þetta þetta sama fólk í nútímann og geta sér til um örlög þess er í besta falli samkvæmisleikur. Þennan leik hafa blaðamenn margoft leikið í íslenskum blöðum. Hugsanlega ættu lögmenn að móðgast vegna ummæla um þá..

  • sko… að segja að einhver myndi verða venjulegur KR-ingur OG skora mörk, er að aðgreina þessa tvö eiginleika! Annars væri skrifað T.D. eða sambærilegt. Þannig að þarna er eitthvað viðkvæmur blettur í framsóknarhjartanu 🙂

  • Þórður Víkingur

    Þú ert ágæt þingkona Eygló. Sjálfstæð í hugsun og virðist hafa einlægan áhuga á að koma góðum málum til leiðar. En hérna ertu á villigötum:

    Í fyrsta lagi er Framsóknarflokkurinn með þennan stimpil á sér, þ.e. að vera flokkur sem hefur tekið að sér að verja „hagsmuni“ bænda fram yfir hagsmuni annarra.

    Í annan stað tóku glæframenn flokkinn yfir um árabil. Veit ekki hvort þeir eru jafn skemmdir og Egill en siðlausir eru þeir.

    Í þriðja lagi er þessi bók ekki læknaskýrsla frekar en Íslendingasögurnar eru sagnfræði. Óttar er fyrst og fremst að skemmta sér og öðrum með því að nota greiningararkerfi geðlæknisfræðinnar á þessar makalausu ýkjusögur.

    Í fjórða lagi er það góð regla að þegar maður á val, eins og í þessu tilfelli, um að hlægja að öllu saman eða mála skrattann á vegginn þá að velja það fyrrnefnda. Maður getur litið ósköp kjánalega út þegar maður tekur sig of hátíðlega.

    Í fimmta lagi væri gott, þegar að þú ert búinn að hlægja að þessu duglega, að taka alvarlega þá staðreynd að þegar að þinn flokk ber á góma dettur flestum í hug sérgæska og spilling.

    Raunar finnst mér það ekki eiga við um þig sérstaklega svo því sé til haga haldið.

  • Ja, ekki var Egill hugbúnaðarverkfræðingur og ekki var hann sendibílstjóri 🙂

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur