Þriðjudagur 11.12.2012 - 21:55 - 4 ummæli

Flotsokka í stað Stekkjastaurs?

„Eru ekki örugglega stelpur líka jólasveinar?“ spurði sex ára gömul dóttir mín í kvöld um leið og hún skellti sérvöldum skó út í gluggann.  „Af hverju spyrðu?“ sagði ég.   „Nú, tveir strákar í bekknum sögðu að bara strákar væru jólasveinar.

Þessir tveir félagar hennar Snæfríðar minnar eru nefnilega ekki þeir einu sem vita ekki að jólasveinarnir okkar eru ekki 9 eða 13, heldur væntanlega einhvers staðar á bilinu 50-70. Og meira segja í hópi þessara hrekkjalóma má finna vígalega kvenskörunga.

Samkvæmt bókinni Saga daganna voru kvenkynsjólasveinar kallaðir jólameyjar og þær tvær sem nokkuð örugglega má telja að hafi verið kvenkyns, komu af Vestfjörðunum. Var önnur kölluð Flotsokka og kom til byggða rétt fyrir jól. Ef einhver var þá ekki búinn að prjóna sokkinn sinn, stal hún sokknum og fyllti hann af floti sem hún hljópst á brott með. Hin var úr Önundarfirði og hét Flotnös. Hún þurfti enga sokka heldur troð heilum mörtöflum upp í mjög svo víðar nasir sínar.

Svo eru einnig nokkur nöfn jólasveina sem vekja upp ákveðnar efasemdir um kyn þeirra. Úr Steingrímsfjarðarromsunni er m.a. fjallað um Reddu, Sleddu og Klettaskoru og eiga þessi nöfn sérlega vel heima með jafnskemmtilegum nöfnum karlkynsjólasveina eins og Litli Pungur, Lungnaslettir, Lækjaræsir og Bjálfansbarnið.

Það skyldi nú ekki vera Flotsokka sem stingur einhverju í skóinn í nótt,  í stað Stekkjastaurs?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur