Mánudagur 11.03.2013 - 13:34 - 3 ummæli

Vantraust 11. mars 2013

(Ræða flutt á Alþingi 11. mars 2013)

Virðulegi forseti,

Sólin skein þegar ég vaknaði í morgun.  Á svona fallegum morgnum stekk ég venjulega fram úr rúminu, tilbúin að takast á við verkefni dagsins.   En það gerðist ekki í morgun.

Ég er mjög ósátt við þessa tillögu.  Ég er mjög ósátt við að þurfa eyða tíma mínum í að ræða hana.  Að verið sé að eyða tíma Alþingis í að ræða hana.  Að við séum enn á ný að ræða allt annað en það sem raunverulega skiptir fólk máli.

Samkvæmt starfsáætlun þingsins eru fjórir dagar eftir af starfstíma Alþingis.  Þingfrestun er áætluð þann 15. Mars.   Þann 27. apríl hefur verið boðað til kosninga og þjóðin sjálf mun velja hverjir fara með stjórn landsins.  Íslenska þjóðin getur þá sjálf lýst yfir vantrausti á ríkisstjórnina.

Ég hefði kosið að nýta þessa síðustu daga þingsins, síðustu daga kjörtímabilsins til að vinna fyrir heimili landsins.  Til að vinna fyrir fjölskyldur þessa lands.

Þau mál sem ég hefði viljað að við ræddum nú eru skuldaleiðrétting, mikilvæg skref í átt að afnámi verðtryggingar og lækkunar vaxta, afnám stimpilgjalds, skattaafsláttur vegna húsnæðissparnaðar, og ýmsar úrlausnir vegna gengistryggðra lána.    Allt mál sem við höfum lagt fram aftur og aftur á þessu kjörtímabili. Því miður er ekki að finna þau mál á forforgangslista stjórnvalda fyrir þessi þinglok, sem þó inniheldur 70 mál.

Á þeim grunni byggist afstaða mín.  Hvernig þessi ríkisstjórn hefur ítrekað, aftur og aftur hunsað skuldavanda heimilanna.  Hvernig hún hefur endalaust klifað á því að engu sé hægt að breyta, ekkert sé hægt að gera.

Þessu höfnum við Framsóknarmenn.

Við Framsóknarmenn vitum að meginverkefni næsta kjörtímabils verður að vera að leysa eða létta mjög á vanda þeirra sem eru í fjötrum skulda og vonleysis. Við vitum að það verður ekki auðvelt. Talsmenn skuldafjötra og verðtryggingar munu halda áfram áróðursstríði sínu til að halda heimilunum í skuldafangelsi.

En þeir munu ekki komast upp það.

Við munum áfram berjast fyrir almennri leiðréttingu skulda, áfram leggja fram tillögur um hvernig taka megi á þeim vanda sem verðtryggingin veldur íslenskum heimilum, og áfram benda á að engin sanngirni felist í að bankar og erlendir vogunarsjóðir græði á tá og fingri á því að mergsjúga íslensk heimili.

Við ætlum að taka á uppsafnaða vandanum, þeim sem ríkisstjórnin leiðrétti ekki eftir efnahagshrunið.  Við ætlum að koma í veg fyrir að lánin geti aftur stökkbreyst með því að taka á verðtryggingunni og við ætlum að tryggja fólki betri lífskjör til framtíðar.

Þessi ríkisstjórn hefur brugðist heimilum landsins, og setið aðgerðalaus hjá á meðan bankarnir og kröfuhafar hafa sópað að sér eignum almennings.

Þess vegna get ég ekki varið hana vantrausti.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Kristján Kristinsson

    Tímamótaræða.

  • Sæl Eygló. Takk fyrir góða ræðu. Ein af þeim betri í dag.
    Alltof margir tóku framboðsræðuna á þetta í dag.
    En stjórnin stóð.
    Komist þú á þing, sem eru nú allar líkur á, hvað er það í stjórnarskrárfrumvarpinu sem þú munt leggja áherslu á ?
    Er þetta rétt sem frænka þín Vigdís hefur sagt að Framsóknarflokkurinn vilji fyrst og fremst fá auðlindarákvæðið inn í stjórnarskrá til að verja auðlindir landsins fyrir ESB en ekki til að mynda að koma í veg fyrir að nýting geti flokkast sem eignarréttur ?
    Er það stefna Framsóknarflokksins ?

    Annað mál, gætir þú skilað því til Vigdísar að nú sé hægt að hætta að tala um minnihlutastjórn VG og Samfó.
    Sjórnin stóð af sér vantraust og hefði gert með eða án BF.

  • Hrafn Arnarson

    Miðað við efni ræðunnar var rökrétt að sitja hjá.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur