Oft er talað mest um ágreiningsefni á milli flokka, frekar en það sem sameinar okkur. Ég er þó sannfærð um að innan allra flokka er að finna fólk sem hefur verið virkilega umhugað um skuldamál heimilanna. Sem hefur reynt að koma með hugmyndir um leiðréttingu skulda og afnám verðtryggingar, – þótt undirtektir hafa verið litlar sem engar.
Jafnvel innan þeirra flokka sem hafa hvað harðast barist gegn almennri leiðréttingu skulda og fyrir verðtryggingunni, Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum. Dæmi um þetta er formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Helgi Hjörvar.
Hann tók frumkvæði í að leggja fram útreiknaðar tillögur um hvernig væri hægt að fara í almenna leiðréttingu verðtryggðra húsnæðisskulda. Hópurinn sem hann vildi leggja áherslu á var sá hópur sem keypti húsnæði frá þeim tíma sem byrjað var að bjóða gengistryggð lán. Hugmynd hans var að nýta séreignasparnaðinn til fjármagna leiðréttinguna.
Hann hefur líka haft frumkvæði af vinnu efnahags- og viðskiptanefndar í því að takast á við afleiðingar Árna Páls laganna. Þar hafnaði Hæstiréttur hluta af lögunum á grundvelli afturvirkni þeirra, að þau stönguðust á við stjórnarskrá.
Því vita væntanlega fáir betur hversu mikilvægt er að breytingar á lögum séu ekki afturvirkar, heldur framvirkar.
Á þetta lagði hann áherslu í fyrirspurn sinni til Gunnars Braga Sveinssonar, þingflokksformanns okkar um útfærslu Framsóknarmanna á afnám verðtryggingar á neytendalán, – stuðning sinn við afnám verðtryggingar og um afturvirknina. Staðfesti Gunnar Bragi það.
Eitthvað virtust menn þó misskilja málið, og ítrekaði Sigmundur Davíð svörin í ágætis pistli seinna um daginn.
Það er von mín að fleiri talsmenn Samfylkingarinnar taki undir nauðsyn þess að leiðrétta og afnema í stað þess að snúa út úr.
Til framsóknar fyrir íslenskt samfélag.
Baráttan harðnar. Öflugasta valdaaflið í íslensku samfélagi er að vakna til lífsins og ræðst harkalega gegn hugmyndum Framsóknarmanna í verðtryggingar og skuldamálum heimilanna. Fráleitt segir fulltrúi fjármálaaflanna, Vilhjálmur Egilsson; loforð sem eru byggð á sandi og ná aldrei fram að ganga. Og hann hefur nokkuð til síns máls. Bankarnir, lífeyrissjóðirnir og fjármálageirinn almennt hafa hingað til farið sínu fram og veikt og uppburðarlítið Alþingi ekki verið þess umkomið að hafa hemil á þessum stofnunum.
Hefur Framsóknarflokkurinn einhver þau ráð í hendi sem breytt geti afstöðu þessara ráðandi afla og knúið þau til að koma til móts við lántakendur og létta þeim byrðarnar? Betur að svo væri en tónn fjármálaaflanna hefur verið sleginn og mun harðna eftir því sem nær dregur kosningum
Hvernig ætlar framsóknarflokkurinn að leiðrétta útistandandi húsnæðislán heimilanna?
Telur framsóknarflokkurinn að slík leiðrétting geti komið til án þess að hún verði greidd af ríkissjóði á einn eða annan hátt?
Ef ekki, hversu mikið telur framsóknarflokkurinn að slík leiðrétting mætti kosta ríkissjóð? Verðtryggð húsnæðislán heimilanna eru eitthvað um 1200 milljarðar, svo 20% flöt niðurfærsla myndi t.d. kosta um 240 milljarða.
Þegar Framsóknarmenn tala um afnám verðtrygginga þá eiga þeir við að lán verði niðurgreidd af einhverjum öðrum, og það er einfaldlega óréttlát eignataka. Þetta gerist ef vextir verða ekki að jafnaði hærri en verðbólgan. Verði tryggt með skilmálum lána, vaxtaendurskoðun, að vextir séu að jafnaði yfir verðbólgu, þá er um verðtryggð lán að ræða þó þau heiti eitthvað annað.
Skuggalegra er það í stefnu Framsóknar að ætla að láta skuldlausa gefa stóreignamönnum stórfé með 20% flötum niðurskurði á lánum. T.d. Gunnlaugur Sigmundsson, faðir Sigmundar Davíðs, formanns þíns, er stóreignamaður, en hann og/eða fyrirtæki hans skulda einnig stórar fjárhæðir sem teknar hafa verið að láni til að auka eignirnar. Með 20% flötum niðurskurði verða honum færðar á silfurfati gífurlegar fjárhæðir. Hvers vegna ætlar Framsóknarflokkurinn, ef hann kemst til valda, að skylda mig ásamt öðrum til að gefa þessum auðmanni þessi auðæfi?
Hinn „ágæti“ pistill formannsins eru sáraeinfaldar og heimatilbúnar orðskýringar. Þær virðast skrifaðar vegna klaufalegrar framgöngu þingflokksformannsins í ræðustól Alþingis. Í öllum sínum einfaldleika þá vísar íslenska orðið afnám til framtíðar að mati formanns og leiðrétting til framtíðar. En ein afar undarleg setning er í pistli formanns og hug ætti að vekja áhuga Frosta Sigurjónssonar frambjóðenda og áhugamanns um betra peningahagkerfi. Frosti er svo mikill áhugamaður um málið að hann vill afnema viðskiptabankana í núverandi mynd. Hann vill svipta þá möguleika að auka peningamagn í umferð. En hvað segir nú formaðurinn :“Leiðréttingin snýst um hinn svo kallaða forsendubrest, þ.e. afleiðingar hinnar ófyrirsjáanlegu verðbólgu sem kom til vegna starfshátta bankanna.“ Forsendubresturinn er „svokallaður“ og verðbólgan var ófyrirsjáanleg(!!). Hvað skyldi Frosti nú segja sem sýnt hefur fram á með mörgum línuritum að peningamagn í umferð(skapað af viðskiptabönkum) óx hratt og í engu samræmi við aukningu verðmæta í „góðærinu“.
Ef það er satt sem þorvaldur Gylfason skifar að 10 þingmenn hafi skuldað yfir hundrað miljónir við hrunið, og að meðalskuldin hafi verið 900 miljónir…
Þá er alveg á hreinu að nokkrir þingmenn skulda bönkunum hrikalega stóran greiða…
Ætli það séu sömu þingmennirnir og syngja núna hástöfum að ekkert megi gera sem skerðir hagnað bankanna…????