Miðvikudagur 15.05.2013 - 09:49 - 4 ummæli

Eigið húsnæði og atvinnuleysi

Íslenski draumurinn hefur verið að eignast eigið húsnæði.  Ekki bara íslenski draumurinn heldur líka sá bandaríski, breski, írski, spænski, danski, norski og svo framvegis.

Ég skal viðurkenna að þetta hefur verið minn draumur líka.  Draumurinn um lítið, fallegt timburhús með stóru eldhúsi og bílskúr fyrir eiginmanninn.

Eigið húsnæði átti að þýða öryggi fyrir fjölskylduna og samfélagið.

Ýmislegt hefur þó valdið því að brestir eru komnir í draumsýnina um eigið húsnæði.  Nú síðast birtist grein í NY Times um rannsókn sem tengir hækkandi hlutfall eigin húsnæði við hærra langtímaatvinnuleysi í Bandaríkjunum.

Því fleira fólk sem átti eigið húsnæði, því fleira fólk án atvinnu.

Í rannsókn hagfræðinganna Blanchflower og Oswald er því ekki haldið fram að húseigendur séu líklegri til að missa vinnuna en leigjendur. Hins vegar er líklegt að á svæðum með hátt eða hækkandi hlutfall eigin húsnæði er minni sköpun nýrra starfa, minni sveigjanleiki í atvinnulífinu og fólk ferðast lengra á milli vinnu og heimilis.

Hreyfanleiki fólks minnkar, það flytur ekki þangað sem störfin eru, heldur keyrir frekar á milli.  Afleiðingin er kostnaður fyrir fyrirtækin og starfsmennina og aukinn umferðarþungi.  Jafnframt velta þeir því upp hvort skipulagsmál geta skipt þar máli, þar sem samfélög með hátt hlutfall af eigin húsnæði eru hugsanlega líklegri til að vilja ekki ný fyrirtæki sem gætu skapað störf (svokölluð „not in my backyard“ áhrif).

Aðrar rannsóknir virðast styðja þessar niðurstöður.  Í finnskri rannsókn kom t.d. fram að þótt húseigendur sem einstaklingar væru ólíklegri til að missa vinnuna þá eykur hækkandi hlutfall eigin húsnæðis atvinnuleysi á viðkomandi svæði.

Þannig virðast þessar rannsóknir segja að draumahúsið er jákvætt fyrir mig sem einstakling, en stjórnvöld eiga ekkert sérstaklega að hvetja mig áfram í því að eignast það ef þau vilja styðja við atvinnusköpun.

En hvað segir þetta um Ísland?

Var hreyfanleiki minni hér vegna hás hlutfalls eigin húsnæðis?  Hefðu fleiri farið af landi brott ef fólk hefði ekki átt húsnæði í kreppunni?  Hefðu fleiri flutt út á land og leitað vinnu þar í útflutningsgreinunum ef þeir hefðu verið í leiguhúsnæði? Átt auðveldara með að komast í leiguhúsnæði út á landi ef allir byggju ekki í eigin húsnæði þar? Skiptir sú staðreynd að við búum flest á SV-horninu máli?

Eða eiga þær einfaldlega ekki við?

Veit ekki, – en það væri áhugavert að heyra ykkar skoðanir á þessu.

Vinsamlegast athugið að ég samþykki athugasemdir inn. Því getur tekið tíma fyrir þær að birtast.  Ég áskil mér jafnframt allan rétt til að hafna birtingu athugasemda sem eru ómálefnalegar, nafnlausar eða ósannar.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

 • Alma Jenný Guðmundsdóttir

  Skemmtilegar vangaveltur !
  Landfræðingar hafa skrifað um borgvæðingu almennt. Við iðnbyltingu gerðist það í ofangreindum löndum og víðar að fólk fluttist til þeirra staða þar sem iðnaður reis og þar mynduðust stórborgir. Í dag hefur önnur atvinnugrein tekið iðnvæðingu í borgum yfir almennt og það eru þjónustugreinar.
  Hér á landi fluttist fólk að sjávarsíðunni þegar vistarband lagðist af upp úr 1850. Þar voru einu möguleikar þess til að koma undir sig fótunum og vinna að sjávarútvegi. Reykjavík varð strax slík verstöð sem myndaði svo einu borg landsins og byggðakjarnar mynduðust úti á landi. Í dag er mikið um þjónustuatvinnugreinar í Reykjavík og smá-iðnaði og svo stóriðju umhverfis Reykjavík.
  Held að fólk sem á eða átti eigið húsnæði en tók þá ákvörðun að flytja úr landi eftir efnahagshrun – eitt af 10. stærstu í heimi – ekki hlutfallslega – hafi annað hvort selt íbúðir eða leigt. Í raun ótrúlegt að fleiri hafi ekki yfirgefið landið þá – en atvinnuleysi hér er með því lægsta í heiminum, þrátt fyrir hrun.
  Ef fólk ætti ekki eigið húsnæði úti á landi, væru kaupsstaðir þar kannski eins og verstöðvar – þar sem enginn skattur kæmi inn til bæjarfélagsins og uppbygging lítil sem engin – samfélagsleg uppbygging. Þó hafa kaupsstaðir lagst nánast í eyði, við það að kvóti var seldur frá þeim bæjarfélögum – og fólk sat þar áfram óbætt með öllu og varð að byrja upp á nýtt.
  Miðað við þá stefnu sem stjórnvöld hafa tekið í gegnum tíðina með framsali kvóta – og því að leyfa að fiskur – hráefni sé flutt óunnið út – skipti kannski engu máli hvort til væri leiguhúsnæði eða ekki þar – fólk fær ekki vinnu þar sem slíkt hefur gerst – húseigendur eða leigjendur.
  Gleymum því ekki að ef fólk hefur áhuga á því að flytja sig milli staða eftir atvinnu en er húseigendur getur það alveg leigt húsnæði sitt út til þess að leigja annars staðar. Þannig myndast leigumarkaður líka.
  Held að þróun í nágrannalöndum eigi ekki alveg við hér vegna fólksfæðar. Kannski að einhverju litlu leyti.
  En það er ljóst að það þarf að efla leigumarkaðinn…… blandað kerfi er áreiðanlega það sem við flest viljum.

  En áður en að þessum pælingum kæmi – þyrfti að fara að vinna það hráefni sem við nú þegar föngum til þess að skapa atvinnu og þar með möguleika þeirra byggðakjarna til að vaxa og dafna. Við þurfum ekki að byggja fleiri hráefnavinnslur – stóriðju – ef við færum út í öfluga matvælaframleiðslu í landi – á hráefnum sem nú þegar eru sótt í sjóinn en skapa afar fá störf – afar fá. Og sjómenn þurfa ekkert að búa í ákveðnu bæjarfélagi til þess að sækja sjóinn – en efla þarf byggðir alls staðar með matvælaframleiðslu.

 • Haraldur Ingi Haraldsson

  Mér finnst þetta svolítið sérstakt sjónarhorn.

  Ég teldi að vonlítil eignamyndun í „eigin“húsnæði á Íslandi og að leigumarkaður býður ekki upp á sambærilegar aðstæður og í nágrannalöndum okkar væru nærtækari viðfangsefni til að valda spurningum.

 • Guðmundur Guðmundsson

  Uppskrift að Fasteignabólu er eitthvað á þessa leið :

  Byrjið á afleitum leigumarkaði. Bætið við lóðarskorti. Kryddið með krónumynt á sterum. Bætið útí 90% lánsloforði. Vefjið hagkerfið inn í álpappír. Aukið lánslyftiduftið upp í 100% . Skrúfið síðan hitann á hagkerfinu í botn.

  Þessi kaka var bökuð á Íslandi og var ein sú stærsta sinnar tegundar.
  Stór hluti af uppskriftinni var afleitur leigumarkaður á Íslandi. Bólan breytti mörgum húsdraumum í martraðir.

  Fimm árum eftir hrun snýst síðan kosningaumræðan um hvernig eigi að rétta hlut þeirra sem keyptu á vitlausum tíma. Kosningatékkinn var ekki stílaður á leigjendur, sem þó telja tugi þúsunda á Íslandi.

  Ef leigmarkaður á Íslandi var afleitur fyrir hrun, er hann enn verri í dag. Segja má að loftið úr bólunni hafi færst yfir á leigumarkað. Það er aldrei talað um forsendubrest á þessum markaði, þó leigan hafi snarhækkað. Það er eins og óskráð lög á Íslandi að leigjendur éti það sem úti frýs.

  Það ríkir þverpólítísk sátt um að það voru mistök að leggja niður verkamannabústaði.

  Hvað á að koma í staðinn ?

  Allir eru sammála um að það vantar ódyrar leiguíbúðir fyrir ungt fólk sem fraus inni á Hótel Mömmu eftir hrun. Og fleiri hópa. Það er búið að álykta og kanna þetta út og suður.

  Hver,hvar og hvernig á að byggja þessar íbúðir ?

  Íslensk húsnæðismál eru sami grautur í sömu skál og fyrir hrun.
  Uppskriftin að næstu fasteignaloftköku gæti litið svona út :

  Pakkið hagkerfinu inn í snjóhús. Kyndið kerfið í botn innanfrá. Notið lífeyrissjóðina sem lyftiduft. Kryddið með fábreytni í fjárfestingarkostum og háu vaxtastigi.

  Er kakan kannski komin í ofninn ?

 • Hið opinbera verður að styðja og/eða standa að húsnæðisbyggingum sem afhjúpa græðgina í fjárfestingarstýrðri húsnæðisgerð og hefur leitt frá welfare til debtfare.

  Pilot verkefni eins og selvbyggerboliger i Stavanger (ég kommenteraði einu sinni hjá þér um þetta), og þetta módel hér: http://www.greenbuildingpress.co.uk/article.php?category_id=1&article_id=1477 vísa veginn hvernig hægt væri að hafa hlutina (fallegt, sjálfbært, vistvænt, ódýrt) og veita samkeppni þeim verkefnum sem stýrast af gróðapungum sem aldrei þurfa að búa í því umhverfi sem þeir búa til og bera skuldabirðarnar fyrir það.

  Einnig þarf að efla leigumakaðinn, og hér neyðist hið opinbera líka til að vera virkt. Vínarborg hefur t.d. ítök í yfir helmingi íbúðarhúsnæðisins i Vín. Þess vegna geta hinir ekki skrúfað upp leiguna. Ódýrt að búa í Vín sem sagt.

  Svo þarf að fara að hugsa atvinnuna út frá húsnæðinu sem til er. Það er blóðugt ósanngjarnt að fólk missi aleiguna (virði húss síns) útaf kvótabraski annarra (kvóti fluttur í aðra byggð). Það þarf líka að efla smáfyrirtæki inni í íbúðarhverfunum til að minnka umferðarálað og gerir lífið þægilegra fyrir fjölskyldurnar. Er ekki betra að verðlauna einkaframtak heimilanna í að koma sér uppúr skuldafeninu með því að bjóða uppá huggulegt bed and brekfast, heldur en að gróðinn af túristum lendi beint í vasa nokkurra fárra kapitalista sem rústa svo miðbænum með hótelbygginum?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur