Miðvikudagur 08.10.2014 - 18:00 - Rita ummæli

Háholt og ungir fangar

Mikil umræða hefur verið um málefni Barnaverndarstofu og Háholts í fjölmiðlum síðustu daga. Þessi tímalína er tekin saman þar sem misvísandi upplýsingar hafa komið fram um ákvarðanir er tengjast tímabundnum samningi Barnaverndarstofu og Háholts.

16. nóvember 2012 Fundur Barnaverndarstofu (BVS) og Velferðarráðuneytisins (VEL).  Rætt er um Háholt.  Ráðherra óskar eftir skýrslu frá BVS um þróun, stöðu og horfur í meðferð barna og unglinga.

19. desember 2012 Skýrsla til Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra frá BVS. „…Mest hefur eftirspurn eftir meðferð á Háholti skroppið saman… Á hinn bóginn er ljóst að engin önnur úrræði eru til staðar sem gætu gagnast þeim börnum sem vistast á Háholti eins og nú háttar. Hugsanleg lokun meðferðarheimilisins kemur því vart til álita án þess að úrræði sem duga séu í augsýn.“

20. febrúar 2013  Alþingi samþykkir frumvarp Helga Hjörvars um lögfestingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barns. Ekki var gert kostnaðarmat og í greinargerð með frumvarpinu er talið að samþykkt laganna myndi breyta litlu um vistun ungra fanga. Í nefndaráliti er aðeins nefnt að kostnaðarmat liggi ekki fyrir.

3. apríl 2013 Fyrirspurn frá BVS til innanríkisráðuneytisins (IRR) v/ nýrra lagaákvæða sem fólust í Barnasáttmála SÞ.  Gera þurfi breytingar á a.m.k. einu meðferðarheimili BVS.  BVS upplýsir að BVS og VEL séu að skoða breytingu og styrkingu meðferðarheimilisins að Háholti í Skagafirði.

26. apríl 2013 VEL upplýsir BVS um að ætlunin sé að funda með IRR, Fangelsismálastofnunar og BVS til að fara yfir verklag og nauðsynlegar breytingar á aðstæðum á heimili Barnaverndarstofu vegna fullnustu refsinga barna og til að undirbúa reglugerð.

24. júní 2013 BVS upplýsir  VEL um nýjan samning. „Gert var ráð fyrir því að um bráðabirgðaráðstöfun væri að ræða og því var samið til skamms tíma, þ.e.a.s. til loka árs 2013. Sú hugsun lá að baki að á þessu tímabili kæmi frekar í ljós hver raunveruleg eftirspurn eftir meðferðarrýmum væri og jafnframt hvort Háholti yrði falið það hlutverk að taka á móti föngum sem dæmir væru til afplánunnar óskilorðsbundinna fangelsisdóma… Aðilar telja að rekstrarlegar forsendur fyrir áframhaldandi rekstri meðferðarheimilisins séu ekki fyrir hendi nema til komi nýtt hlutverk fyrir heimilið sem gæti gerst ef því yrði falið það hlutverk að annast framkvæmd aplánunar refsivistar fanga yngri en 18. ára.“

10. júlí 2013 BVS sendir fyrirspurn til IRR um hvort ætlunin sé að nema úr gildi lögfestingu Barnasáttmála SÞ  um vistun ungra fanga, sbr. c) lið 37. gr. sáttmálans.

11. júlí 2013 IRR staðfestir við BVS að rætt hefur verið um að fresta gildistöku ákvæðisins um vistun ungra fanga.  Rökstutt að núverandi úrræði BVS dugi ekki til og staðan í ríkisfjármálunum erfið.  Fram koma efasemdir IRR um vistunarúrræði fyrir unga fanga á landsbyggðinni.

19. júlí 2013 Forstjóri BVS svarar IRR og mótmælir hugmyndum um að hreyfa við ákvæðinu og ítrekar Háholt sem bráðabirgðalausn: „…hér er um mál að ræða sem Ísland hefur undirgengist með alþjóðasamþykktum, ekki einungis vegna Barnasamnings Sþ. sem Ísland fullgilti með fyrirvara á sínum tíma, heldur jafnframt á vettvangi Evrópuráðsins enda þó ekki séu bindandi… Þessi útfærsla miðar við að Háholt í Skagafirði taki að sér afplánunarmálin og að Stuðlar sinni gæsluvarðhaldi.  Ég álít þessa lausn fullkomlega boðlega sem bráðabirgðalausn þar til úr rætist í fjárhagsmálefnum ríkisins.“

7. október 2013 IRR svarar VEL þar sem fallist er á bráðabirgðatillögu BVS um vistun ungra fanga og upplýsir VEL.

18. október 2013 BVS leggur áherslu við VEL á opnun meðferðarstofnunar sem uppfylli margþættar faglegar kröfur um meðferðarvinnu og samfélagslega aðlögun og að slík stofnun verði staðsett á höfuðborgarsvæðinu til að sinna ungum föngum og eldri fíkniefnaneytendum.

8. nóvember 2013 Bréf sent frá VEL til BVS þar sem stofnuninni er falið að ganga til viðræðna um endurnýjun samnings um rekstur meðferðarheimilisins Háholt. Erindið byggir á að heimilið taki að sér að vista fanga undir átján ára aldri.

18. nóvember 2013  Fundur í VEL með BVS.  Af hálfu ráðuneytisins kom fram að forsendur til þess að leita samninga um áframhaldandi rekstur Háholts byggðist á þeim þætti er tengist afplánun ungra fanga.  BVS var minnt á að hugmyndin um samnýtingu (meðferðarheimili – afplánun) var fyrst hreyft af BVS.

31. nóvember 2013 BVS leggst nú gegn samningi við Háholt og endurnýjun þjónustusamnings.  Í staðinn eigi að ráðstafa þeim fjármunum í Stuðla og nýja meðferðarstofnun á höfuðborgarsvæðinu sem sinni börnum sem dæmd eru í gæsluvarðhald, afplána óskilorðsbundna dóma og vímuefnaneytendur sem geta ekki nýtt sér hefðbundin meðferðartilboð.

6. febrúar 2014 VEL svarar ábendingum Ríkisendurskoðunar.  Þar er greint frá tímabundnu úrræði sem er í undirbúningi vegna lögfestingar barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Við gildistöku var ekki lengur heimilt að vista börn í fangelsi með fullorðnum.  Bent er á að lagasetninguna hafi borið að með það skömmum fyrirvara að afplánunarúrræði voru ekki tiltæk við gildistöku laganna.  Í því skyni að undirbúa tímabundna úrlausn varðandi vistun ungra fanga fól velferðarráðuneytið BVS að ganga til viðræðna um endurnýjun samnings um rekstur meðferðarheimilisins Háholt.

7. febrúar 2014 Ráðherra kynnir hugmyndir um gagngerar kerfisbreytingar til að tryggja börnum og ungmennum sem glíma við geðraskanir, fíkniefnavanda eða fjölþætt vandamál viðeigandi úrræði.  Mun það endurspeglast í nýrri framkvæmdaáætlun um barnavernd sem ráðherra hyggst leggja fram.

25. september 2014 Nefnd er skipuð til að endurskoða stjórnsýslu ríkisins á sviði félagsþjónustu og barnaverndar.  Þar undir falla verkefni sem BVS sinnir nú. Nefndinni er ætlað að koma með tillögur til ráðherra að einstökum verkefnum  og starfsstöðvum nýrrar stofnunar.  Engar ákvarðanir hafa verið teknar en stefnt að því að nefndin skili niðurstöðum sínum fyrir páska.  BVS er boðið að taka þátt í þessari vinnu. Endanleg ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag um vistun ungra fanga verður svo tekin í samráði við innanríkisráðuneytið líkt og núverandi bráðabirgðalausn.

3. október 2014 Starfsfólk BVS bregst hart við hugmyndum um umfangsmikla endurskipulagningu á stjórnsýslu barnaverndarstarfs og félagsþjónustu.  Ítrekað er að engin ákvörðun hefur verið tekin og starfsfólk virðist ekki hafa verið upplýst um að BVS hafi verið boðið að taka þátt í þessari vinnu af hendi VEL.

6. október 2014 Fréttablaðið birtir frétt um að gera eigi samning við Háholt gegn vilja barnaverndaryfirvalda.  Í fréttinni kemur fram að Fréttablaðið hafi gögn undir höndum sem sýni samskipti BVS og VEL þess efnis.

Athugið: Samantektin er mín og byggir á gögnum málsins.  Tilvitnanir eru í gæsalöppum.

Flokkar: Barnavernd · Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur