Miðvikudagur 06.05.2015 - 13:07 - 8 ummæli

Að lifa á dagvinnunni

„Við getum lifað á dagvinnulaununum.  Hér er ég búinn í vinnunni um 3 eða 4, mættur á æfingu hjá börnunum, og get sinnt fjölskyldunni miklu betur.“  sagði félagi minn þegar ég spurði hver væri helsti munurinn á því að búa í Noregi og á Íslandi.  Þar væri hægt að lifa á dagvinnulaununum og yfirvinna væri undantekning frekar en regla.

Þessi punktur kom svo aftur og aftur upp í samtölum mínum við brottflutta Íslendinga.

Er hægt að gera þetta á Íslandi?

Heildarvinnuálag hjá íslenskum fjölskyldum er mikið og ekki hvað síst hjá íslenskum mæðrum sem oft sinna í reynd tveimur störfum, annars vegar vinnu utan heimilis og svo fullu starf og gott betur við heimilisstörf og uppeldi barna.

Dagvinnulaun hafa verið lág, og við höfum í gegnum tíðina bætt okkur það upp með mikilli vinnu.  Langur vinnutími leiðir til minni framleiðni og skertra lífsgæða fyrir fjölskyldurnar.

Ég held að við séum ansi mörg sem myndu vilja sjá íslenskt samfélag verða meira fjölskylduvænt, þar sem við vinnum saman að því að hækka dagvinnulaun, auka framleiðni og stytta heildarvinnutímann.

PS Athugið að athugasemdir eru samþykktar inn og það getur dregist. Það er einnig hægt að gerast Facebook vinur minn og skilja eftir ummæli, eða „follow“ Twitter síðu mína.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

 • Þetta er hægt Eygló ef gæðum þessa lands er jafnt skipt.. Það verður ekki gert með því að færa auðlindir okkar á fárra hendur eins og núverandi ríkistjórn ástundar.

 • Anna Sigríður Guðmundsdóttir

  Sæl Eygló.

  Ég flutti til Noregs árið 1995, vegna þess að verkafólks-dagvinnulaun ómenntaðra dugðu ekki til að reka heimili fyrir mig og börnin mín.

  Ég réði ekki við að vinna aukavinnu til viðbótar við 100% vinnu, til að framfleyta mér og mínum á sómasamlegan hátt. Heilsan mín þá leyfði ekki svo mikið vinnuálag, í viðbót við að vinna heimilis-skylduverkin.

  Það er ekki rétt að tala um laun fyrir ríkisins skylduskatta og skyldugjöld, í kjarabaráttu.

  Það verður að tala um laun eftir skatta og skyldugjöld til skatta-lífeyrissjóðandi spillingarkerfisins. Því það eru raunveruleg laun einstaklinga og fyrirtækja, sem eru til ráðstöfunar eftir öll skatta/lífeyris/þjónustu-gjöldin.

  Við verðum að horfast í augu við kostnaðar-rauntölustaðreyndir hvers og eins, þegar verið er að tala um launakjör.

  Þegar ég flutti til Noregs fór ég að vinna í laxasláturhúsi í Stavanger. Eftir tvær vikur fékk ég útborguð verkmannalaun eftir 2 vikur, sem voru svipuð og verkamannalaun fyrir 4 vikur á Íslandi. Ég spurði hvort þetta gæti verið rétt, og hélt í raun að launaseðillinn minn væri eitthvað vitlaust útreiknaður, því ég trúði ekki að það væri svona mikill munur á útborguðum verkafólkslaunum eftir skatt á Íslandi og Noregi.

  Og skatturinn var tekinn af laununum í samræmi við fjölskyldustærð og skulda/útgjalda-liðum og húsnæðiskosnaði. Matur var að jafnaði á svipuðu verði og á Íslandi. Rafmagn var dálítið dýrara en á Íslandi.

  Skatturinn var reiknaður útfrá tekjuþrepsflokkum og fjölskyldu/útgjalda-aðstæðum. Tekjuþrepsflokkarnir voru margir, og skattkort hvers einstaklings reiknað út frá heildarútgjaldaliðum og heildarlaunum.

  Verkstjórinn minn var með dálítið hærri laun en ég, en þó engin forstjóraofurlaun. Hann sagðist borga 50% skatt af sínum launum, og fannst það svosem allt í lagi. Opinbera samfélagsþjónustan var að sjálfsögðu nokkurn veginn réttlátlega skattrekin í flestum tilfellum. Þetta fannst mér mjög merkilegt, komandi frá láglaunaða Íslandi kaupmáttarsviks-skattaóréttlætinu.

  Vinnuálg verkafólks er skaðlega mikið á Íslandi.

  M.b.kv.

 • Kristján Hrannar Pálsson

  Sæl Eygló, ég hefði einmitt haldið að sjálfur félagsmálaráðherra gæti svarað þeirri spurningu? Ég er 28 ára gamall á leigumarkaði með litla fjölskyldu og það er einungis tímaspursmál hvenær ég flyt úr landi. Ég hef ekki áhuga á því að þurfa að vinna mun meira en jafnaldrar mínir á norðurlöndunum til að geta séð fyrir fjölskyldunni, en þó án þess að geta eignast íbúð eins og þau gætu (hvað þá greitt hana niður!)

  Hér eru meiri auðlindir á haus en í Noregi, en samt sér þín ríkisstjórn til þess að við fáum ekki að njóta þeirra á eðlilegan og sanngjarnan hátt. Fjölmargir í mínum vinahópi eru komin á fremsta hlunn með að fara – nokkuð sem stóð aldrei til fyrir nokkrum árum! Þetta stefnir í að vera ykkar arfleifð. Til hamingju.

 • Björgvin Hlíðar Kristjánsson

  sæl

  Þetta er ekki aðal málið

  Málið eru verðtriggð lán sem allir eru að rembast við að borga af.

  Var búsettur í Dk í 5 ár 0g gat lifað af dagvinnu launum farið í sumar frí og vann aldrei yfirvinnu

  Og er að far Til DK aftur . Búinn að fá nóg af vitleisunni Hér

  KV

 • Af hverju á að setja mitt fyrirtæki í óbærilega stöðu vegna þess að verkalýðsforystan þolir ekki Framsóknarflokkinn og hatast við Kristján Loftsson eða var það öfugt?

  Væri ekki nær að formenn verkalýðsfélaganna heimtuðu meiri kaupmátt en ekki bara fleiri verðbólgukrónur í launaumslagið!

  Fyrir hverja eru þessir snillingar raunverulega að vinna?

 • Sigurður Haraldsson

  Hæstvirtur félagsmálaráðherra, er ekki tímabært fyrir þig að hætta þessari meðvirkni sem einkennir þín störf í þessari ríkisstjórn sem þú situr í.

  Sigurður Haraldsson
  situr í framkvæmdaráði Dögunnar

 • Þú ert ekki í góðum félagsskap og hugmyndir þínar er nær velferðaþjóðfélögum Skandinavíu. Þar sem jafnaðarmennska ríkir og velferð almennings er mest í heiminum. Ég bíð eftir að þú segir af þér.
  Á Íslandi er til yfirdrifið nóg af peningum. Það þarf að jafna kjörin og hækka skatta. Hækka skatta á fyrirtæki og hátekjufólk og stjórnmálamenn eiga ekki að vera hræddir við að segja það.

 • Gústaf Níelsson

  Þú kannski upplýsir okkur almenninginn, Eygló, um það hvernig „heildarvinnuálaginu“ er háttað hjá ykkur ráðherrum Framsóknarflokksins? Ég spyr vegna þess að mér finnst lýðskrumið og hleypidómarnir í ykkur keyra um þverbak.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur