Sunnudagur 06.09.2015 - 13:13 - 10 ummæli

85 m² raðhús á 14,9 milljónir?

Fyrir hrun var víðar fasteignabóla en á Íslandi.  Í Danmörku náði húsnæðisverð einnig hæstu hæðum og venjulegt fólk átti í erfiðleikum með að eignast heimili, hvort sem um var að ræða kaup á húsnæði, búseturétti eða að finna leiguíbúðir á ásættanlegu verði.

Til að bregðast við þessu var farið af stað með verkefni um að byggja hagkvæmari íbúðir. Byggja átti 5000 íbúðir sem yrðu leigðar út á 5000 DKK á mánuði, eða 5×5 billige boliger með stuðningi hins opinbera. Á ýmsu gekk áður en fyrstu húsin urðu að raunveruleika. Þau risu í Vildrose, Karens Minde í Kaupmannahöfn og voru hönnuð af arkitektastofunum ONV Arkitekter og Tegnestuen Mejeriet A/S að lokinni samkeppni um smíði húsanna.  Framleiðandi húsanna var eistneska fyrirtækið Kodumaja.

Yfirlitsmynd_Vildrose

 

Vildrose samanstóð af sjö raðhúsalengjum, með 38 íbúðum á tveimur hæðum auk 44 m² sameignarhúss.  Allar íbúðirnar eru á tveimur hæðum, en þær minnstu 85 m² og þær stærstu 131 m².   Húsin eru byggð úr forsmíðuðum einingum úr timbri og voru flutt með skipum og flutningabílum á lóðina frá Eistlandi.Vilderose_gotumynd

Byggingarkostnaður Vildrose húsanna var 7.500 Dkr/m² (145.530 kr/m²).  Því til viðbótar bættist kostnaður vegna grunna og lóða þannig að heildarkostnaður varð ca. 9.000 Dkr/m² (174.636 kr/m²).  Kaupverð á búseturétti var 4.800 Dkr/m² (93.139 kr/m²) og árlegt búsetugjald var ca. 1.150 Dkr/m² (22.315 kr/m²) Fyrir íbúðir sem nutu stofnframlaga frá hinu opinbera voru greiddar 4.900 Dkr/m² (95.080 kr/m²) fyrir búseturéttinn en mun lægra búsetugjald eða 700 Dkr/m² (13.582 kr/m²).  (Allar upphæðir eru frá 2008. Reiknað yfir í íslenska krónur miðað við gengi 6.9.2015, Íslandsbanki)

Vildrose_eldhus

Horft út eftir íbúðinni í átt að inngangnum.

Þannig hefur kostað 14,9 milljónir króna að reisa 85 m² raðhús og 22,9 milljónir króna að reisa 131 m² raðhús miðað við verðlagið 2008.

Vildrose_efri_haed

Karens-Minde

Danir hafa áfram unnið að því að þróa hagkvæmar og nýstárlegar byggingaraðferðir.  Dæmi um það er samningur KAB boliger og danska Velferðarráðuneytisins um byggingu 300-400 AlmenBoliger+ við danska framleiðslufyrirtækið Scandi Byg, ONV Arkitekter, jaja architects og verkfræðiskrifstofuna Bascon. Unnið er áfram með ákveðnar grunneiningar en nú sem fjölbýlishús.

AlmenBoliger+_auglysing

 

AlmenBoliger_fjolbylishus

Meira að segja með torfþaki…

Í úttektum Dana á verkefninu er bent á að ýmislegt annað en byggingarkostnaður skiptir máli við endanlegt söluverð húsnæðis.  Lóðaverð skiptir verulegu máli, en einnig fjármögnunarkostnaður og hvað markaðurinn er tilbúinn til að borga.  Smá könnun á fasteignavef Morgunblaðsins sýnir til dæmis að erfitt er að finna nýjar íbúðir undir 300 þús. kr/m² hvað þá undir 200 þús. kr/m².

Hvað finnst ykkur? Væri hægt að gera svona á Íslandi?

PS. Kjartan Árnason, arkitekt hjá Gláma-Kím, starfaði áður hjá ONV Arkitekter og veitti mér góðfúslega ýmsar upplýsingar um verkefnin í Danmörku.

 

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Ummæli (10)

  • Kristbjörn Árnason

    Ábending Eyglóar er mikilvæg og réttmæt

    Það eru gömul sannindi að byggingariðnaður á Íslandi hefur notið verndunar umfram flestar atvinnugreinar. Síðan hefur þessi iðnaður notið framkvæmdalána sem eru langt umfram allt sem eðlilegt getur talist. Þá hefur greinin ekki þurft að glíma við neina alvöru samkeppni.

    Uppmælingarkerfið hefur haldið niðri afköstum og uppi miðstýrðu verðlagi. Sem fer á skjön við allar samkeppnisreglur.

    Afleiðingarnar eru allt of lítil afköst greinarinnar sem hefur getað velt út í verðlagið ofurálagningu. Auk þess, sem utan á öllu gúmmílaðinu hanga miklar afætur. Allt hefur þetta orðið til þess að halda uppi allt of háu verði á íbúðum.

    Því er það góð hugmynd, að sveitafélögin stofnuðu búsetufélög fyrir venjulegt fólk en legðu til tilbúnar lóðir sem sitt framlag inn í félögin og tryggðu að allur rekstur og bókhald sé í lagi.

    Félagsíbúðanefndir sveitarfélaganna geta vel haldið utan um slík verkefni á vegum sveitarfélaganna

    Síðan yrðu boðin út verkefni á opnum Evrópskum markaði er snérist hönnun og teikningar af raðhúsum á tveimur hæðum er uppfylltu öll reglugerðarákvæði. En íbúðir væru að nokkrum stærðum.

    Þegar úrslit lægju fyrir um teikningar. Væri farið í útboð á smíði og uppsetningu þessara húsa á Evrópskum markaði. Þarna gæti verið um að ræða nokkur hundruð íbúða, sem allar verða að standast íslenskar kröfur

    Það er nánast öruggt að slíkar framkvæmdir myndu lækka byggingar–kostnað gríðarlega. Okkar byggingariðnaður fengi þá loksins alvöru samkeppni. Svona alþjóð útboð mætti auðveldlega framkvæma með uppsteypt fjölbýlishús. Eða hús byggð með forsteyptum einingum.

  • Þorsteinn Jón Óskarsson

    Vonandi nást samningar um stöðu mála í Austurlöndum þannig að fólk fái að lifa þar í friði laust við sprengjuárásir bandamanna okkar í NATÓ.

  • Eyjólfur

    „Væri hægt að gera svona á Íslandi?“ er ekki rétta spurningin heldur „þarf að gera svona á Íslandi?“

    Og svarið er tvímælalaust já. Það er reyndar fátt mikilvægara, einmitt nú en að byggja nokkur þúsund vel byggðar en ódýrar, litlar/micro íbúðir. Það eina sem kemur í veg fyrir það er byggingareglugerð, – og stjórnmálamenn sem geta ekki gert neitt í því .

    Ef stjórnvöld og stjórnmálamenn geta ekki skapað þær aðstæður að almenningur geti komið sér þaki yfir höfuðið(með 100%+ vinnu og án þess að skuldsetja sig upp í rjáfur), – þá eruð þið einfaldlega ekki að standa ykkur, – og þurfið að hleypa öðrum sem geta klárað dæmið.

  • Ingibjörg Kr Jóhannesdóttir

    Verð 28,7

    Miðað við pistil þinn hér að ofan finnst mér að aldrei verði hægt að byggja 85 ferm.raðhús fyrir 14 milljónir.Held að þessar vangaveltur þínar séu dagdraumar eða sýndarveruleiki.

    FjölbýlishúsStærð:78,4 m2Herbergi:2Svefnherbergi:1Baðherbergi:1Stofur:1Inngangur:SameiginlegurByggingaár:2000Bílskúr/skýli:NeiFasteignamat:21.900.000 kr.Brunabótam:20.700.000 kr.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Stjórnmálamenn á Íslandi geta að stóru leyti ákveðið hversu dýrt það er að byggja íbúðir. Sveitafélögin ákveða lóðaverðið og lóðir hafa hækkað ríflega. Árin fyrir bankahrunið tvöfaldaðist lóðaverðið á hverju ári eða hækkaði jafnvél meira.
    Seðlabankinn ákveður vextina í landinu og íbúðavextir taka mið af þeim.
    Stjórnvöld setja allskonar byggingareglur sem hafa það í för með sér að dýrara er að byggja.

    Því segi eg við þá sem stjórna. Ef íbúðarverð er of hátt lækkið þið þá verðið á aðföngunum. Það er í ykkar höndum.

  • Ævar Rafn

    Síðustu áramót endaði átakið „Allir vinna“. Við það lækkuðu endurgreiðslur VSK vegna bygingar íbúðahúsnæðis úr 100% af vinnu á staðnum niður í 60%. Endurgreiðslur VSK vegna hönnunar og eftirlitskostnaðar lækkuðu úr 100% niður í 0%. Afleiðingin var veruleg hækkun byggingarkostnaðar á íbúðarhúsnæði. Önnur afleiðing var sú að munur á kostnaði við byggingu atvinnuhúsnæðis og íbúðarhúsnæðis jókst og það varð minna spennandi að byggja íbúðir en áður.

    Ef ætlun stjórnvalda er sú að ýta undir að byggt sé ódýrt íbúðarhúsnæði myndi það vera skref í rétta átt að snúa við þessari ákvörðun.

  • Kristjan G Kristjánsson

    A.m.k. ætti að vera hægt að gera svona á Íslandi. Hvort það verði möguleiki er annað mál; en maður getur bara vonað.

  • kári harðarson

    Ég kom í hús á Ísafirði sem hafði verið framleitt í Danmörku og reist hér.

    Ábúandinn var ánægður með húsið og sagðist hafa gert góð kaup. Hann sagði mér að það hefði verið tekið fyrir þennan innflutning til að vernda íslenskan iðnað.

    Mér þótti það synd því húsið var mjög fallegt og smekklega útbúið. Fjöldaframleiðsla lækkar verð á vörum, það hlýtur að vera tímabært að fjöldaframleiða hús af þeim sem geta gert það ódýrt og vel.

    Kveðja, Kári

  • Theodór Marrow Kjartansson

    Hvers vegna að flytja inn hús, það er hægt að byggja hagkvæm steinsteypt hús og nota 90% Íslenskt efni, t.d steyptar einingar, eða svo kölluð kubbahús, fermetraverði í 70 til 90 m2 þannig húsum væri hægt að ná niður í ca 150 þúsund, en það eru övgafullar byggingareglugerðir, okurverð á lóðum og lánum sem hamla því að hægt sé að byggja hér hagkvæm og ódýr íbúðarhús.

  • Heimir H. Karlsson

    Satt og rétt, sem Eygló Harðardottir bendir á.

    Vel hægt að byggja ódýrari og hagkvæmari íbúðir á Íslandi.
    Það er allra hagur.

    Margt rétt sem Kristbjörn Árnason segir.

    Uppmælingakerfið heldur svo sannaralega niðri afköstum.
    Það get ég vottað af eigin reynslu, hvar sem er og hvenær sem er.
    Get tekið dæmi, sem hægt er að vitna í, og fagaðilar ættu að kannast við.

    Mikið til í þessu, sem sagt er um afæturnar.

    Að vita kostnað fyrst, nokkuð örugglega og nákvæmlega, myndi lækka byggingakostnað verulega.

    Stöðugleiki í fjármálum, bæði byggingaraðila og í efnahagsumhverfi er nauðsyn, svo slíkt sé raunveruleiki.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur