Mánudagur 07.09.2015 - 08:28 - 4 ummæli

Ikea leiðin: Að ákveða verðið fyrst

IKEA er mikil uppáhaldsverslun mín.  Hvert sem litið er á heimili mínu má sjá þá aðdáun endurspeglast í heimilismunum frá IKEA: Hvíti Ecktorp sófinn sem við slökum á í fyrir framan sjónvarpið, Ingólfarnir sem raða sér eins og litlir hermenn í kringum eldhúsborðið (já, sem er líka frá IKEA), diskarnir sem við borðum á og margt, margt fleira.

Þegar ég lærði í Svíþjóð las ég um stofnanda IKEA, Ingvar Kamprad, hvernig hann byrjaði í viðskiptum sem lítill drengur við að selja eldspýtur, stofnaði IKEA 1943 við eldhúsborð frænda síns og umbylti húsgagnamarkaðnum með húsgögnum í flötum pökkum sem neytandinn setti sjálfur saman þegar heim kom.

Sophienborg_BO

En flötu pakkarnir hafa aldrei verið helsta snilldin hjá Ingvari í mínum huga. Snilldin hjá IKEA var og er að byrja á að skilgreina verðið sem flestir neytendur hafa efni á að borga og gera svo allt til að hanna vöruna, framleiðsluna og verslunina í samræmi við það.

SophienborgBO_byggingarferli

Flötu pakkarnir voru einfaldlega leið að því markmiði að bjóða heimilum upp á vel hannað vöru á verði sem þau höfðu efni á.

SophienborgBo_grunnteikning

Þegar kemur að heimilum okkar, húsunum sjálfum er oft eins og við höfum nálgast þetta frá hinni hliðinni, þar sem verðið er sett síðast við byggingu.

Því spyr ég: Af hverju getum við ekki nálgast heimilin sjálf, íbúðarhúsnæðið með sama hætti?

SophienborgBO_yfirlitsmynd

Farið IKEA leiðina?

PS: Ljósmyndirnar eru af BoKlok húsunum í SophienborgBo, Hillerød, Danmörku en BoKlok er samstarfsverkefni IKEA og Skanska um byggingu hagkvæmra húsa fyrir venjulegt fólk.

Byggingarkostnaður ásamt lóð ca. 7.900 Dkr/m² (153.292 kr/m²).  Söluverð á búseturétti  fór eftir stærð íbúðanna en var frá 4.400-5.700 Dkr/m² ((85.378 – 110.603 kr/m²) og árlegt  búsetugjald var ca. 900 Dkr/m² (17.464 kr/m²).  (Öll verð frá 2005.  Reiknað yfir í íslenskar krónur miðað við gengi 7.9.2015, Íslandsbanki)

chalkboard_quotes_ford

 

 

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Ummæli (4)

 • Ég er þér sammála að hugmynd sem er þekkt og virkar á einum stað er möguleg í öðru umhverfi. Rétt eins og Ingvar Kamprad umbylti húsgagnaiðnaði þá er hægt að umbylta íslenskum húsbyggingaiðnaði.
  Þetta hefst allt á hugmynd sem fólk festir trú á að gangi. Ég held að gamlar íslenskar byggingahefðir og venjur hindri fólk í að þora. Lært viðhorf að það gamla þekkta sé traust en það nýja ótraust. Samt er þín hugmynd framkvæmd víða erlendis og líka þekkt hér heima. Enginn efast um notagildi viðlagasjóðshúsanna sem enn standa og eru vinsæl í kaupum og sölu.
  Svo gæti þetta verið tengt verðinu. Það sem ég hef séð hjá mínum skjólstæðingum er að ef fólk á að draga saman og hagræða útgjöldum skynsamlega þá upplifi það sig taka skref í átt til fátæktar. Upplifun af því að minnka eyðslu sé sama upplifun og að eiga ekki pening. Fólk sem er vant mikilli (óhindraðri) neyslu finni óöryggi við að spara.

  Ég tala með IKEA hugmyndinni.

 • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

  Eina sem þarf að passa er að hanna hverfið ekki eins dreift og er þarna á myndinni. Raða húsunum þannig að þau myndi götumynd í þéttari og fallegri byggð, en ekki svona botnlangavendi. Það þjónar líka því markmiði að stuðla að lægri ferðakostnaði.

  Eitthvað á þessa leið:
  http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/07/30/deiliskipulag-i-vatnsmyri-onnur-nalgun/

 • Ásgeir J.

  Eins og mér finnast þetta skemmtilegar pælingar hjá þér og góðar ábendingar þá verð ég að minnast á það að mér finnst ekki eins og ég sé að lesa eitthvað eftir Félags- og húsnæðismálaráðherra Íslands. Heldur draumórar og pælingar hobbýista.

  Mér finnst eins og ég sé að lesa eitthvað sem að er eitthvað sem að einhver valdalaus meðalmanneskja sem að er að reyna að skrapa saman fyrir húsnæði á meðan leigt er á yfirverði og engu er hægt að safna og enginn fær lánað.

  Án djóks og ég meina það með mestu velvild því að mér líkar við þig og þínar hugmyndir. Farðu að gera eitthvað í þessum málaflokki af viti, komdu t.d. þessari hugmynd í framkvæmd. Það er heil kynslóð án öruggs húsnæðis hérlendis núna.
  Og ef að það eina sem að ráðherra þessa málaflokks getur leyft sér að gera er að birta hvernig þetta hefur verið gert annarsstaðar þá erum við verr stödd en margan grunar.

  Síðasta þing fór í tímasóun og að því virðist endalaust klúður og karp innan kerfisins um þesssi mál.

  Farðu að íhuga hvað þú vilt skilja eftir þig sem arfleið þessa embættissetu, röð misheppnaða frumvarpa? Eða húsnæðiskerfi sem að virkar, nær tilgangi sínum og endist?

  Eða bara fullt af heimilum sem að fólk getur flutt inn í og stofnað fjölskyldur í þeim?

  Í guðanna bænum, farðu að gera þetta að algjörum forgangi, klipptu á kerfiskallanna og skildu eitthvað eftir sem að þú getur horft til baka á eftir 20-30 eða jafnvel 40 ár og verið stolt yfir að hafa aforkað…

 • kristinn geir st. briem

  gott að læra af öðrum þjóðum. vonandsi finur ráðherran góða lausn á húsnæðisvandanum sé bara ekki lausnin sé að loka ibúðarlánasjóði því vandræði íbúðarlánasjóðs eru stjórmálamenn munu stjórnmálamenn hætta að hafa afskipti af nýjum sjóð ef ekki er alveg eins gott að hafa þann gamla og breita markmiðum hans

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur