Miðvikudagur 13.04.2016 - 14:11 - 2 ummæli

Smáíbúðahverfið

Á fundi Tiny Homes á Íslandi um smáhýsi flutti Sigríður Björk Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Vistbyggðaráðsins áhugavert erindi.

Hún lagði áherslu á að við gætum bæði lært af okkar eigin húsasögu og hvað aðrar þjóðir væru að gera til að takast á við húsnæðisvandann.  Rakti hún svo sögu Smáíbúðahverfisins sem fyrirmyndar íslenskt dæmi um smáhýsi og frumkvöðlakraft einstaklinga.

Smáíbúðahverfið er hverfi í austurbæ Reykjavík, í Sogamýrinni og norðan Hæðagarðs.

Kort_smaibudahverfi

Tilurð Smáíbúðahverfsins má rekja til áranna eftir seinni heimsstyrjöldina og þess mikla húsnæðisskorts sem var í Reykjavík.  Mikil fólksfjölgun var á svæðinu, innflutningshöft komu illa við byggingaframkvæmdir og fólk flutti inn í herskála um leið og herinn losaði þá.   Til að bregðast við þessu setti borgarstjórn á stofn nefnd árið 1950 sem var falið að koma með tillögur um smáhúsahverfi fyrir fólk í húsnæðisvanda.  Nefndin lagði til að hverfið yrði staðsett í Sogamýrinni, norðan Hæðargarðs.

Efnt var til samkeppni um smáhús og fór hún fram meðal arkitekta um smáhús, sem voru ýmist lítil einbýlishús, sambyggð einlyft hús eða tvílyft hús.  Teikningarnar voru  miðaðar við hámarksstærð 80 fermetra, þó var hægt að byggja í áföngum, fyrst 55 fermetra, síðan mátti stækka í 80 fermetra, svo loks að seinna mætti stækka húsið í nærri 100 fermetra.

Teikningar_smaibudahverfi_1

Sveitarfélagið hjálpaði til, gerði lóðirnar byggingahæfar, lagði götur og ræsi og hafði menn á launum við eftirlit og til aðstoðar. Heilu fjölskyldurnar hófu að byggja sitt hús, og mátti víða sjá alla meðlimi fjölskyldna með skóflu í hönd, grafandi grunna og svo síðar að slá upp fyrir húsunum.

Smaibudahverfi_teikningar_3

Einhverjir fengu lán hjá lánadeild smáíbúða sem komið var á fót snemma ársins 1952.  Hins vegar voru takmörk á þeim og urðu flestir að treysta á eigið fé eða lánsfé frá vinum og vandamönnum.  Var hverfið nánast fullbyggt árið 1955.

Smaibudahverfi_teikningar_2

Sýnir hverfið því einkar vel hvað fólk getur áorkað þegar allir leggjast á eitt.

Í dag er Smáíbúðahverfið enn þá eitt vinsælasta hverfi borgarinnar.

 

 

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Ummæli (2)

  • Ásta Kristín Svavarsdóttir

    Fyrsta myndin í greininni hvaðan er hún? Ss teikningin af Heiðargerði sem telst ekki til smáíbúðarhverfisins skv lýsingunni í linknum í textanum. Og hver er tengingin viðhana? Spyr af einskærri forvitni þvi þar er húsið okkar gult að lit 🙂

  • Eygló Harðardóttir

    🙂 Er ekki viss. Töluvert síðan ég skrifaði pistilinn og hlustaði á fyrirlesturinn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur