Sunnudagur 03.04.2016 - 11:49 - Rita ummæli

Húsnæðismál á heimsvísu

Í heimsókn minni til New York fyrir páska, á 60. kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna, átti ég mjög áhugaverðan fund með aðstoðarframkvæmdastjóra UN – Habitat.  Sú stofnun Sameinuðu þjóðanna vinnur að betra þéttbýli til framtíðar og undirbýr nú heimsráðstefnu um húsnæði og sjálfbæra þróun byggða, í samræmi við ályktun Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 66/2007, eða svokallað Habitat III.

Í umræðuskjali ráðstefnunnar um húsnæðismál kemur fram að skortur á hagkvæmu húsnæði er ekki séríslenskt fyrirbæri, heldur alþjóðlegt vandamál.  Vandamál sem fer vaxandi með stækkun þéttbýlis í heiminum.  Fjórðungur þeirra sem búa í þéttbýli búa í skuggahverfum eða óskipulögðum byggðum.  Þetta á ekki hvað síst við fátækustu og viðkvæmustu einstaklinga hvers samfélags.  Þar má nefna konur, innflytjendur, fatlað fólk, sjúka, unga, aldraða og hinsegin fólk.

Vandinn er ekki hvað síst sá að hagkvæmt húsnæði er sjaldan vandað og vandað húsnæði er sjaldan hagkvæmt.

Í skjalinu má finna nokkuð harða áfellisdóma yfir stefnumörkun stjórnvalda um heim allan.  Þar segir meðal annars: „Almennt á meirihluti ríkis- og sveitarstjórna í vandræðum með að uppfylla þarfir íbúa fyrir húsnæði. Efnaminnstu og viðkvæmustu heimilin finna mest fyrir þessu þar sem þau hafa ekki notið uppsveiflu á húsnæðismarkaði og aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum hafa skilað þeim litlu. Aðgerðir til að auka framboð húsnæðis fyrir konur, förufólk, flóttamenn, fatlað fólk og minnihlutahópa hafa litlu skilað til þessa. Inngrip stjórnvalda á húsnæðismarkaði hefur verið í lágmarki og víða eru þau hætt að bjóða upp á húsnæði, lóðir, þjónustu og jafnvel að setja skýrar reglur.“1

Í stað þess að litið sé á húsnæði sem hluta af félagslegum réttindum eða mannréttindum þá hefur það orðið að söluvöru.  Húsnæðismál hafa ekki verið í forgangi þegar kemur að því að deila úr sameiginlegum sjóðum og víða hefur félagslegt húsnæði verið selt.  Dregið hefur verið úr húsnæðisstuðningi, og þar sem þeim hefur verið viðhaldið er hann oftast ómarkviss og ósjálfbær.

Áfram heldur gagnrýnin.

Bent er á að markaðsöflin hafi lítinn áhuga á að sinna þeim sem eru með lægstu tekjurnar.  Stjórnvöld um heim allan hafa átt í erfiðleikum með að fá verktaka og fjármálastofnanir til að fjárfesta, byggja og lána til efnaminni heimila og samfélagslegra verkefna.  Í staðinn hafa þessir einkaaðilar einbeitt sér að þeim efnameiri.  Enginn skortur er á stórum lúxusíbúðum, á meðan fáir byggja litlar og hagkvæmar íbúðir.

Stjórnvöld víðast hvar hafa stutt við séreignastefnuna.  Staðreyndin er samt sú að eftir því sem fólki fjölgar í borgum og bæjum, fjölgar leigjendum, – ekki hvað síst eftir því sem húsnæði verður dýrara og framboð á lóðum minna.  UN Habitat bendir á að það þarf ekki að vera slæmt fyrir samfélög, að því gefnu að framboð sé tryggt: „Hægt er að sýna fram á um allan heim að leiguhúsnæði eykur hreyfanleika íbúa, bætir vinnumarkaðinn og möguleika á atvinnu, dregur úr vanda í tengslum við kyn, menningu eða fötlun og styrkir félagsleg og efnahagsleg tengsl.“2

Mér þótti margt áhugavert í þessu skjali, – ekki hvað síst áherslan á að húsnæðismál eru mannréttindamál.  Huga verður að rétti allra til húsnæðis og þá sérstaklega þeirra sem búa við erfiða félagslega og efnahagslega stöðu.

Það tel ég vera kjarnann í þeirri húsnæðisstefnu sem við mörkuðum í vor í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.

Að við eigum að huga að öllum heimilum.

Heimild:

Habitat III issue papers – 20 Housing.

Tilvitnanir á ensku:

1. „But overall the majority of national and local governments are still struggling to meet the housing needs of their respective populations. The poorest and vulnerable households are the most affected as they have been untouched by the housing market and limitedly benefited from housing policies and regulations.  Efforts to improve access to adequate housing for women, migrants, refugees, people with disabilities, indigeneous and minorities have made little progress so far.  Government interference in the housing sector has been minimal and many have almost withdrawn from housing provision, land supply, procurement, servicing and even regulation.“

2. „Across, the world, evidence shows that rental housing contributes to enhance residential mobility, improve labour market and livelihood opportunities, can acommodate gender, cultural and disability concerns, and strengthen social and economic networks.“

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur