Laugardagur 27.02.2016 - 09:06 - Rita ummæli

Jöfnuður á Íslandi eykst

Jöfnuður hefur verið að aukast á Íslandi og er nú vandfundið það land þar sem bilið á milli þeirra sem hafa lægstar tekjur og hæstar tekjur er minna en hér. Í Félagsvísum 2015 sést að munurinn á tekjum Íslendinga hefur ekki mælst minni í áratug. Þar kemur fram að svokallaður Gini-stuðull var lægri árið 2014 en allt tímabilið 2004-2013. Gini-stuðullinn mælir hvernig samanlagðar tekjur allra einstaklinga í landinu dreifast. Stuðullinn nær frá 0 upp í 100, þar sem 0 þýðir að allir hafi jafnar tekjur en 100 að sami einstaklingurinn hafi allar tekjurnar. Gini-stuðullinn var 22,7 árið 2014 samanborið við 24,1 árið 2004 og 29,6 árið 2009.

Dregur saman með efsta og lægsta tekjuhópnum
Þá kemur einnig fram í tölunum hvað þeir sem hæstar tekjur hafa (20% tekjuhæstu) hafa mörgum sinnum hærri tekjur en hinir tekjulægstu (20% tekjulægstu). Nýjustu tölurnar sýna að þeir hafa nú ríflega þrefaldar tekjur hinna tekjulægstu (3,1) en höfðu fjórfaldar tekjur (4,2) sama hóps árið 2009. Þá hefur lágtekjuhlutfallið á Íslandi, þ.e. einstaklingar sem mælast undir lágtekjumörkum, ekki verið lægra síðan árið 2004. Þá mældust 10% landsmanna undir lágtekjumörkum en hlutfallið er nú komið í 7,9%. Lágtekjumarkið miðast við tekjur upp á 182.600 kr á mánuði.

Það eru sannarlega gleðifréttir að jöfnuður í samfélaginu sé að aukast.  Það er hluti af því velferðarsamfélagi sem við viljum búa í að vinna gegn ójöfnuði. Það getum við gert með beinum og óbeinum hætti. Við þurfum sterkt öryggisnet en mikilvægast er að skapa heilbrigt umhverfi og stýra efnahagsmálum vel þannig að fólk hafi næga atvinnu auk aðgangs að fyrsta flokks menntun og velferðarþjónustu.

Heimilunum í landinu vegnar betur núna og það er ánægjulegt að þeim heimilum sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda hafi farið hratt fækkandi. Það er hins vegar ljóst að eignastaða fólks er mun ójafnari en tekjurnar og þess vegna er mjög mikilvægt að við styðjum vel við fólk á húsnæðismarkaði og hjálpum þeim sem vilja eignast eigið heimili.

Við erum að vinna í þeim málum á mörgum vígstöðum og það mun stuðla að áframhaldandi bættri stöðu heimilanna.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur