Mánudagur 27.06.2016 - 14:14 - Rita ummæli

Almennar íbúðir fyrir konur í neyð

Lög um almennar íbúðir voru samþykkt á vorþinginu.  Með lögunum er komið á nýju húsnæðiskerfi leiguíbúða fyrir þá einstaklinga og fjölskyldur sem þurfa á því að halda, þ.m.t. námsmenn, ungt fólk, aldraða, fatlað fólk og fólk sem ekki er fært að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna eða verulegs fjárhagsvanda.

Í tengslum við kjarasamninga fyrir ári var einnig lofað að fjölga almennum íbúðum um 2300 á fjórum árum.

En hvað þýðir þetta í reynd?

Tökum dæmi.  Ekki er langt síðan fulltrúar Samtaka um kvennaathvarf bentu á að hluti þeirra kvenna sem leituðu til athvarfsins í neyð vegna ofbeldis í nánum samböndum ættu erfitt með að komast út úr athvarfinu og inn á leigumarkaðinn.

Ástæðurnar væru meðal annars að ekki væri búið að ganga frá skilnaði, þær ættu ekki rétt á húsaleigubótum, fjárhagur þeirra væri bágur, sem og að rannsóknir sýni að minni vilji sé til að leigja konum sem komi úr Kvennaathvarfinu.  Þetta bætist við þá erfiðu stöðu sem hefur verið á leigumarkaðnum, ekki hvað síst á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru konur af erlendum uppruna í sérstaklega veikri stöðu.

Hvernig gætu ný lög hjálpað þessum konum í neyð þeirra?

Atira_1

Í British Columbia í Kanada starfa félagasamtökin Atira Women‘s Resource Society sem vinna að því að binda enda á ofbeldi gegnum konum.  Það gera þau með beinni þjónustu og samfélagsfræðslu á feminískum grunni.  Samtökin voru stofnuð 1983 og opnuðu sitt fyrst athvarf, Durrant House árið 1987.  Síðan þá hafa samtökin keypt, byggt og þróað ýmis konar húsnæðisúrræði fyrir konur, t.d. athvarf fyrir konur með fíknivanda, konur eldri en 55 ára og millistigshúsnæði fyrir konur sem þurfa frekari stuðning en neyðarathvarf til að komast út úr ofbeldissambandi.

Nýjustu húsnæðisúrræðin eru Margaret‘s (Maggie´s) Housing for Elder Women og Oneesan Housing for Women.

contemporary-living-room

Atira Women‘s Resource Society á félag sem heitir Atira Property Management sem sér um og rekur húsnæðið fyrir félagið og veitir jafnframt öðrum félögum, bæði hagnaðarlausum og hagnaðardrifnum, þjónustu við að þróa húsnæðislausnir. Allur ágóði að rekstri Atira Property Management fer í að reka Atira Women‘s Resource Society.

index_banner2

Með lögum um almennar íbúðir er búinn til lagagrundvöllur fyrir sambærilegt félag hér á landi, til stuðnings eða í samstarfi við starfandi samtök.  Hér á landi gætu til dæmis sveitarfélög og frjáls félagasamtök á borð við kvennasamtök, hjálparsamtök, samtök innflytjenda, mannréttindasamtök og trúfélög gerst stofnaaðilar að íslenskri húsnæðissjálfseignarstofnun að fyrirmynd Atiru og sótt um stofnframlög til byggingar eða kaupa á almennum íbúðum fyrir konur sem vilja komast út úr ofbeldissamböndum.  Ríki og sveitarfélög koma svo með 30% stofnframlög og er gert ráð fyrir að afgangurinn (70%) verði fjármagnaður með lántöku frá lánastofnun að eigin vali.

Atira_3

Reksturinn yrði fjármagnaður með leigutekjum og væri hægt að nýta hugsanlegan rekstrarafgang til að fjölga íbúðum og til að sinna samfélagslegri fræðslu gegn ofbeldi í nánum samböndum.

Stofnunin yrði með sjálfstæðan efnahagsreikning og því væri áhætta stofnaðila hennar takmörkuð við það stofnfé sem þeir leggja inn.  Hægt væri að sækja um stofnframlög fyrir eina íbúð eða fleiri í senn.  Nýtt húsnæðisbótakerfi mun jafnframt styðja við einstaklinga og fjölskyldur á leigumarkaðnum til að lækka húsnæðiskostnað leigjenda.

Hægt er að fá nánari upplýsingar um stofnframlögin hjá Íbúðalánasjóði eða velferðarráðuneytinu.

PS Ljósmyndir eru af starfsemi á vegum Atira Women‘s Resource Society í Kanada og vefsvæði samtakanna.

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur