Miðvikudagur 20.07.2016 - 07:21 - 2 ummæli

Sanngjarnan stuðning frekar en skuldir

Fyrir stuttu hafði fjölskyldufaðir með fjögur börn á framfæri samband við mig. Þau hjónin voru með 600 þús. kr. ráðstöfunartekjur á mánuði og bjuggu í hóflegu húsnæði. Hann hafði verið að fara yfir fjármál fjölskyldunnar og sá enga leið færa aðra en að endurfjármagna og lengja í húsnæðislánum fjölskyldunnar til að lækka mánaðarlega greiðslubyrði þeirra.

Á þessu kjörtímabili hef ég lagt áherslu á að auka stuðning við fjölskyldur. Því hef ég barist fyrir því að húsnæðisstuðningur í gegnum húsaleigu- og vaxtabótakerfi, yrði sameinaður í eitt húsnæðisbótakerfi þar sem byggt yrði á efnahag fjölskyldunnar frekar en að umbuna þeim sem geta tekið sem hæst lán líkt og vaxtabótakerfið gerir. Því miður náðist ekki samstaða um það og lög um nýtt húsnæðisbótakerfi sem taka gildi um áramótin taka aðeins til leigjenda en ekki allra heimila. Þar er þó stuðningur við fjölskyldur með lágar og meðaltekjur aukinn verulega.

Stefán Ólafsson, prófessor við HÍ, bendir á að vaxtabætur hafa rýrnað mikið frá árinu 2013. Vaxtabætur lækkuðu um 25 prósent á árinu 2015 og þeim sem fá þær fækkaði um 21 prósent. Sömuleiðis fækkar þeim sem fá barnabætur greiddar. Í fjármálaáætlun fjármálaráðherra til næstu fimm ára er boðað að draga eigi enn frekar úr barnabótum og vaxtabótum. Slík forgangsröðun fjármálaráðuneytisins var ástæða þess að ég setti alvarlega fyrirvara við þessa áætlun þegar hún var samþykkt í ríkisstjórn.

Ég tel því mikilvægt að opna umræðu um að færa stuðning við heimili landsins yfir til velferðarráðuneytisins, þar sem velferð frekar en skattar er í fyrirrúmi. Sameina ætti vaxtabætur nýju húsnæðisbótakerfi og taka stuðning við barnafjölskyldur til gagngerrar endurskoðunar. Þar hefur verkalýðshreyfingin bent á tillögur um barnatryggingar þar sem barnalífeyrir almannatrygginga og barnabætur yrðu sameinaðar.

Ísland á að vera fjölskylduvænt samfélag þar sem veita á fólki sanngjarnan stuðning, en ekki þvinga það til skuldsetningar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. júlí 2016.

Flokkar: Fjármálakerfið · Húsnæðismál

«
»

Ummæli (2)

  • ingibjörg kr jóhannesdóttir

    Kæra Eygló!
    Hér þarf líka að hækka laun.Það gæi kannsi leyst einhvern vanda þeirra sem ekki eiga fyrir leigu og mat.Kær kveðja Ingibjörg Kr Jóhannesdóttir

  • Guðmundur Edgarsson

    Áttu þessi hjón bíl eða bíla? Var þá hægt að selja annan bílinn eða fá sér ódýrari? Kom til greina að fara í minna húsnæði eða flytja í ódýrara hverfi? Mátti spara við sig í utanlandsferðum? Hvað með að leigja út eitt herbergið? Var hægt að fá sér aukavinnu eða aðra vinnu betur launaða? Eða var bara hringt beint í ráðherra?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur