Mikið er rætt um húsnæðisvandann þessa dagana og ekki hvað síst vandann á almenna leigumarkaðnum. Eitt af því sem talið er hafa mikil og neikvæð áhrif á hann er leiga íbúða til ferðamanna á vefsíðum á borð við Airbnb. Fleiri hundruð herbergja, íbúða og húsa má finna til útleigu á vefnum og líklega gera flestir eigendur þessara eigna það í hagnaðarskyni. Þeir telja þannig að skammtímaleiga til ferðamanna gefi þeim meira í vasann en langtímaleiga til einstaklinga.
En er það svo?
Alexander G. Eðvardsson hjá KPMG bendir á í grein sinni í Morgunblaðinu að ekki sé sjálfgefið að útleiga húsnæðis til ferðamanna sé hagkvæmari kostur en að leigja einstaklingum í langtímaleigu. Útleiga til ferðmanna telst vera atvinnurekstur. Af því leiðir m.a. að sveitarfélögum er heimilt að miða álagningu fasteignagjalda við atvinnuhúsnæði, en sú álagning er þrefalt hærri en á íbúðarhúsnæði. Skattlagning tekna vegna atvinnureksturs er einnig mun hærri en skattlagning tekna vegna leigu til einstaklinga sem búsettir eru í viðkomandi húsnæði.
Þannig er skattlagning vegna langtímaleigu nú 10%, en skattlagning á hagnað af leigu til ferðamanna er eins og á aðrar launatekjur, eða um 37% til 46% eftir heildarlaunatekjum viðkomandi einstaklings. Því til viðbótar bætast reglur um virðisaukaskatt sem skila þarf af útleigu til ferðamanna. Engu skiptir þótt einstaklingur geri langtímaleigusamning um húsnæði við fyrirtæki, sem leigir það svo áfram til ferðamanna. Tekjur af slíkum samningi flokkast sem atvinnutekjur.
Því kann það að vera staðreynd að fyrir mjög marga er ekki hagkvæmara að leigja til ferðamanna.
Það er mikill skortur af húsnæði til langtímaleigu. Með því að skoða dæmið til enda gætir þú verið að hjálpa fjölskyldum í húsnæðisvanda og jafnframt endað með meiri pening í vasanum.
Það versta er að ungt fók er hrakið frá heimilum sínum vegna þess að húseigendur vilja frekar selja erlendum ferðamönnum aðgang að íbúðunum en fólki með lögheimili á landinu. Svo er það annað sem er þessu skilt. Þegar framtíðarstaðsetning Landspítalan við Hringbraut ákveðin árið 2002 var ein af forsendunum sú að í grennd við hann byggju margir starfmenn spítalans, einkum láglaunafólk, í leiguhúsnæði að mér skilst. Þetta fólk gat gengið til vinnu sinnar á spítalanum sem var mikið atriði að því er talið var. Nú hefur þetta fólk einnig verið hrakið á brott og býr á nú Völlunum í Hafnarfirði eða í ámóta fjarlægð frá spítalanum. Enda er fermetraverðið í grennd við spítalann farið að halla í á sjöunda hundrað þúsund fermetirinn. Þetta sér maður í fasteignaauglýsingum. Arðsemiskrafan er orðin svo há að ekki er hægt að legja þarna fyrir venjulega launþega. Þessi þróun er bara stjórnvöldum um að kenna. Einkum Reykjavíkurborgar. Skipulagsleysi og ístöðuleysi. Spítalann þarf að færa nær búsetuimiðjunni.
Hugsanlega ástæða þess að margir telja hagstæðara að leigja til ferðamanna er að þeir gefa það ekki upp til skatts og komast upp með það vegna þess að þeim lögum sem um það gilda er einfaldlega ekki framfylgt. Ef yfirvöld myndu hins vegar hysja upp um sig brækurnar, framfylgja lögunum eins og þau eiga að gera og loka þessari ólöglegu gististarfsemi, þá væri hægt að leysa hinn meinta húsnæðisvanda höfuðborgarsvæðisins á innan við einum mánuði. Vandinn stafar nefninlega ekki af skorti á húsnæði einum saman heldur að langstærstu leyti af vanrækslu yfirvalda á lögboðnu hlutverki sínu við að framfylgja lögum og gæta hagsmuna borgaranna. Það sorglega við þetta er að löngu áður en þessi vandi varð að veruleika var búið að vara sveitarfélögin við því að hann væri fyrirsjáanlegur vegna þess mikla fjölda fólks sem þá hafði verið gert heimilislaust af óbilgjörnum kennitöluflakkandi fjármálafyrirtækjum með fulltingi sýslumanna landsins. Þeim var líka bent á leiðir til að sporna við þessu ástandi, sem þau ákváðu öll sem eitt að hunsa, því miður.
http://www.heimilin.is/varnarthing/frettirhagsmunasamtokin/item/1649
http://www.heimilin.is/varnarthing/frettirhagsmunasamtokin/item/1653
Væri ekki ráð að taka á þessum málum að hætti berlínarbúa?