Miðvikudagur 2.10.2013 - 12:20 - 6 ummæli

Heimili í forgrunni

Forgangsmál ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er að gera íslenskum heimilum og fyrirtækjum kleift að vaxa og dafna. Það endurspeglast ekki hvað síst í nýju fjárlagafrumvarpi.  Þar er lagt upp með að stoppa skuldsetningu ríkissjóðs með fyrstu hallalausu fjárlögunum í sex ár og auka kaupmátt heimilanna. Samhliða því er hugað að verðlagsáhrifum til að margfalda ekki skuldir heimilanna og stór skref tekin til að afnema skerðingar síðustu ára.

Jóhanna Sigurðardóttir, fv. forsætisráðherra, skrifaði nýlega að forgangsröðun núverandi ríkisstjórnar gæti ekki verið ólíkari síðustu ríkisstjórn.

Þó ég sé ekki fyllilega sammála er þó að minnsta kosti einn reginmunur þar á.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar mun ætíð standa með íslenskum heimilum, íslensku þjóðinni gegn fjármagnseigendum, erlendum sem innlendum.  Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar mun ekki berjast um á hæl og hnakka til að tryggja að íslenska ríkið ábyrgðist hundruðir milljarða króna í erlendri mynt til að gæta hagsmuna erlendra kröfuhafa.  Erlendir fjármagnseigendur munu ekki njóta sérkjara í boði ríkisstjórnarinnar, á borð við undanþágu frá bankaskatti sem lagður var á einmitt í þeim tilgangi að standa undir kostnaði vegna bankahrunsins.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.9.2013 - 08:58 - 9 ummæli

„Pólitískt sjálfsmorð“ ekki á dagskrá

Hörður Ægisson, Morgunblaðinu: „Staðan er þessi.  Fulltrúar erlendu kröfuhafanna munu á næstunni halda því fram, byggt á ósannfærandi greiðslujafnaðargreiningum sem þeir hafa sjálfir framkvæmt, að það sé ekkert sem standi í vegi fyrir því að hægt sé að ljúka uppgjöri föllnu bankanna – og þeir fái aðgang að erlendum eignum búanna. Samtímis verði hægt að vinna niður krónustabba föllnu bankanna yfir lengra tímabil – hugsanlega tíu til tuttugu ár – með útgáfu ríkisskuldabréfs í erlendri mynt.

Slík nálgun tekur engu tali.  Mikil óvissa ríkir um spár Seðlabanka Íslands um þróun viðskiptajafnaðar.  Ekki ríki eining um þær tölur innan Seðlabankans.  Þrátt fyrir fjármagnshöft þá hefur Seðlabankanum ekki tekist að byggja upp neinn óskuldsettan gjaldeyrisforða að ráði síðustu misseri.  Það er í miklu ósamræmi við þær væntingar sem uppi voru þegar efnahagsáætlun AGS var samþykkt á sínum tíma – og endurspeglar þá staðreynd að flestar spár um gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins hafa reynst of bjartsýnar.

Íslensk stjórnvöld fá aðeins eitt tækifæri til að sjá til þess að uppgjör föllnu bankanna fari fram á þann hátt að tryggt sé að fjármálastöðugleika verði ekki ógnað – og um leið að ekki verði grafið smám saman undan lífskjörum þjóðarinnar til langframa.  Þau stjórnvöld sem hyggjast taka þá ákvörðun að veita erlendum kröfuhöfum forgang að þeim takmarkaða gjaldeyri sem þjóðarbúið skapar – fram yfir íslensku heimili, fyrirtæki og lífeyrissjóði – munum á stundinni fremja pólitískt sjálfsmorð.

———-

Þessi ráðherra telur bjart framundan enda situr hún í ríkisstjórn sem er tilbúin að ganga alla leið til að verja hagsmuni íslenskra heimila, – íslensku þjóðarinnar.

Þjóðin treysti okkur til þeirra verka og við munum standa undir því trausti.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 16.9.2013 - 10:17 - 2 ummæli

Hjónaband og stjórnarsamstarf

Það getur verið erfitt að gera öllum til hæfis.  Nýjasta dæmið er umræðan um „ærandi“ þögn Sjálfstæðismanna.  Ekki er langt síðan umræðan var um gagnrýni einstakra Sjálfstæðismanna.

Eflaust á þetta sér eðlilegar skýringar.  Fjölmiðlar þurfa fréttir.

Staðreyndin er sú að stjórnarsamstarf er ekki ólíkt hjónabandi.  Þar koma saman tveir ólíkir einstaklingar sem ætla að vera saman,  en sameinast ekki í einn einstakling.  Forsenda hjónabandsins er virðing og vilji til að leysa málin sameiginlega.

Það breytir því ekki að parið getur haft ólíka sýn.

Til dæmis klóra ég mér stundum í kollinum yfir trú Sjálfstæðismanna á mikilvægi þess að lækka skatta.  Alla skatta.  Auðlegðarskatturinn er ágætt dæmi, en  fjármálaráðherra hyggst ekki framlengja hann.  Ég tel að lækkun ýmissa annarra skatta henti betur til að auka verðmætasköpun í samfélaginu en ég skil ómöguleika Sjálfstæðismanna í að viðhalda skattinum.

Það væri einfaldlega gegn því sem þeir standa fyrir.  Því sem þeir ályktuðu.

Ég veit að þeir velta stundum vöngum yfir áherslum samvinnu- og framsóknarmanna, en sem hluti af „hjónabandinu“ hlusta þeir og virða afstöðu okkar á grunni stjórnarsáttmálans.

Því sem við lofuðum.  Því sem við ályktuðum.

Munurinn á stjórnarsamstarfi og hjónabandi er kannski sá að í flestum hjónaböndum er ekki heilt klapplið fyrir því að illa gangi.  Þar sem menn jafnvel vona að illa gangi.  Geta fyllt heila þætti og leiðarasíður dagblaða á grunni þeirrar vonar.

Að lokum vil ég nefna hversu góð samskiptin eru á milli formanna þessara tveggja flokka.  Upphafsmanna „hjónabandsins“.

Því forsenda þess að leysa ágreiningsmál er að tala saman.

-Svo skemma að vísu ekki góðar pönnukökur …

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 8.9.2013 - 14:58 - 6 ummæli

Að reyna á eigin skinni

Hjón komu til mín fyrir stuttu.  Þau vildu deila með mér sögu sinni af samskiptum við fjármálafyrirtæki í slitum.  Í lok samtalsins ræddum við um hversu miklu máli oft skiptir að hafa upplifað hlutina, til þess að öðlast betri skilning.

Ég gæti ekki verið meira sammála. Þetta er ástæða þess að ég tel fátt mikilvægara en að á Alþingi setjist fólk með fjölbreyttan og ólikan bakgrunn, ungir sem aldnir, mikið og lítið menntaðir, ríkir sem fátækir, konur og karlar.  Aðeins þannig fáum við löggjöf sem endurspeglar fjölbreytni samfélagsins.

Áhugi minn á lána- og húsnæðismálum endurspeglar þetta ágætlega.  Ég hef verið vel upp alin í íslenskum lánamálum.  Mitt fyrsta lán var tekið í kringum tvítugt þegar ég fékk mitt fyrsta kreditkort.  Fyrsta verðtryggða lánið (og yfirdráttur) var í boði Lánasjóðs íslenskra námsmanna og viðskiptabankans, svo Íbúðalánasjóðs við kaup á fyrstu fasteigninni.  Seinna meir voru það gengistryggð lán í boði bankans og fjármögnunarfyrirtækjanna.

Þar af leiðandi upplifði ég líkt og stór hluti Íslendinga bæði forsendubrestinn og gengishrunið og þá rússíbanareið sem hefur fylgt því að vera fasteignaeigandi á Íslandi.

En ég hef líka verið leigjandi. Um nokkurt skeið bjuggum við í 40 fm2 bílskúr,  stækkuðum svo við okkur í 50 fm2 tveggja herbergja íbúð og fengum því létt víðáttubrjálæði þegar við vorum komin í fjögurra herbergja íbúð, – vildum helst öll fjögur vera í sama herbergi fyrstu dagana.  Þetta hefur kennt mér margt um íslenskan leigumarkað.  Eitt er óöryggið sem getur fylgt því að leigja, þegar aðstæður eiganda breytast skyndilega og þarf að losa húsnæðið.  Annað er hvers konar ferill það er fyrir húsnæðiseiganda að breyta húsnæði sínu úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði.  Það er ekki einfalt, hvorki fyrir eigandann né sveitarfélagið þótt góður vilji sé til staðar.

Og það þótt skortur sé á leiguhúsnæði.

Eflaust telja einhverjir að ráðherrar geti ekki hafa upplifað það sama og stærstur hluti almennings.  Hafi aldrei þurft að velta fyrir sér hvernig eigi að borga næsta gjalddaga eða leiguna eða láta matarpeningana duga út mánuðinn.

Aldrei hafað skuldað.  Aldrei stressað sig yfir því hvar fjölskyldan ætti að búa.  Aldrei legið vakandi og velt fyrir sér hvort við héldum húsinu eða íbúðinni.

En á hverjum degi þakka ég fyrir þessa reynslu.

Hún er hvatinn, trúin og hugrekkið til að breyta, til að gera betur.  Hún og þær reynslusögur sem hjónin og fjöldi annarra hafa deilt með mér.

Og fyrir það þakka ég daglega.

PS. Ég samþykki inn athugasemdir.  Því getur tekið tíma fyrir athugasemdir að birtast.  Áskil ég mér rétt til að birta ekki athugasemdir sem eru ómálefnalegar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.9.2013 - 12:17 - 5 ummæli

Jafnrétti í lífeyrissjóðum

Framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða kvartar undan nýjum lögum um kynjahlutfall í stjórnum lífeyrissjóða og annarra félaga.

Það getur verið erfitt að framfylgja lögum,  en það eru ekki rök í sjálfu sér fyrir að breyta þeim.  Mun nær væri að stjórnendur lífeyrissjóðanna myndu hvetja til að dregið verði úr kynjaskiptingu á vinnumarkaði og launamun kynjanna.

Þar með gætu þeir gert sitt til að styðja við aukið jafnrétti í samfélaginu.

Lífeyrissjóðum hefur gengið vel að jafna kynjahlutfall í stjórnum sínum og ég treysti því að þeir haldi áfram á réttri braut.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 8.7.2013 - 11:02 - 16 ummæli

Að gefnu tilefni :)

„Heimilin eru undirstaða og drifkraftur þjóðfélagsins.

Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði. Beita má fjárhæðartakmörkum vegna hæstu lána og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða.

Í ljósi þess að verðtryggðar skuldir hækkuðu og eignaverð lækkaði, m.a. vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins, er rétt að nýta svigrúm, sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna, til að koma til móts við lántakendur og þá sem lögðu sparnað í heimili sín, rétt eins og neyðarlögin tryggðu að eignir þrotabúanna nýttust til að verja peningalegar eignir og endurreisa innlenda bankastarfsemi. Ríkisstjórnin heldur þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná markmiðum sínum.“

Fyrir áhugasama þá er hægt að kynna sér stjórnarsáttmálann betur með því að smella á þennan tengil.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.6.2013 - 11:16 - 4 ummæli

Konur og peningar

Nýlega fjallaði ég um hvað kyn virðist hafa mikið með gildi okkar og verðmætamat að gera.  Þetta virðist endurspeglast m.a. í því hvaða nefndir Alþingis eru taldar eftirsóknaverðar af körlum og hverjar af konum og hversu mikið við borgum fyrir stjórnarsetur í velferðarmálum annars vegar og fjármálum hins vegar.

Í samtali fyrir stuttu var mér bent á að þetta ætti hugsanlega ekki aðeins við um nefndir og stjórnir.  Kyn og gildismat gæti líka spilað inn í viðbrögð við ummælum karla og kvenna þegar kæmi að fjármálum.

Fyrir nokkru stoppaði Kauphöll Íslands viðskipti með skuldabréf Íbúðalánsjóðs vegna ummæla formanns velferðarnefndar.  Virtust stjórnendur Kauphallarinnar telja að formaðurinn, kona, hafi verið full yfirlýsingaglöð varðandi málefni sjóðsins.

Efnislega sagði hún þó fátt annað en þegar hafði komið fram í umræðum á Alþingi.

Fjármálageirinn stóð þó á öndinni í sólarhring eða svo.

Stuttu eftir að ég settist í ráðherrastólinn var ég spurð um málefni sjóðsins.  Í ljósi reynslunnar var ég gætin í orðvali.  Lagði ég áherslu á ríkisábyrgð á skuldabréfum sjóðsins, að vandinn væri mikill og þá pólitík sem ég vil standa fyrir um samráð og samvinnu við alla hagsmunaaðila. Fréttin var varla farin í loftið þegar menn fóru á límingunum. Kauphöllin fór með stækkunargleri yfir orð nýja ráðherrans og komst að þeirri niðurstöðu að ekkert nýtt kæmi fram í orðum mínum.

Föðursýkin virtist þó til staðar og greiningardeild Arionbanka fékk eilitla útrás fyrir hana í stuttum pistli.

Stuttu síðar tjáði fjármálaráðherra sig um málefni Íbúðarlánasjóðs.

Viðbrögðin voru nánast engin.

Af hverju er það?  Eru konur taldar líklegri til að missa eitthvað út úr sér?  Eða er okkur einfaldlega ekki treystandi fyrir fjármálum?

Hugsanlega kunna viðbrögð markaðsaðila að endurspegla ákveðin sjónarmið gagnvart konum og peningum.  Enda kannski ekki skrítið.  Þegar ég sat í efnahags- og viðskiptanefnd var mjög áberandi að oft mættu bara karlar fyrir nefndina.  Langar raðir af yfirleitt jakkafataklæddum körlum.   Iðulega frekar stressuðum körlum.

Ég tel því rétt að menn slaki aðeins á þótt konur komi að ákvörðunum um fjármál.

Við þurfum að gera ansi stór mistök til að komast með tærnar þar sem karlar hafa hælana hér á landi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.6.2013 - 08:22 - 4 ummæli

Innflytjendur gefa til samfélagsins

Ný skýrsla OECD sýnir að fá OECD ríki græða jafnmikið á innflytjendum og Ísland.  Þeir auka landsframleiðslu hér um tæpt eitt prósent.

Ég tel þetta staðfesta enn á ný mikilvægi virkrar þátttöku innflytjenda í atvinnulífinu og samfélaginu í heild.  Að vinna er og verður forsenda vaxtar og velferðar í samfélaginu, óháð uppruna.

Þessu til viðbótar er ég þeirrar skoðunar að dvöl í öðru landi við nám eða störf er eitt af því mest gefandi sem nokkur einstaklingur getur upplifað.  Það er eitthvað sem væntanlega nánast öll ríkisstjórnin getur tekið undir en við höfum mörg dvalið langtímum erlendis við nám eða störf.

Ég var sjálf tvisvar skiptinemi í Bandaríkjunum og stundaði mitt háskólanám við Stokkhólmsháskóla auk þess sem ég starfaði í Svíþjóð um tíma.  Ég var innflytjandi, – þótt ég hafi sjaldan hugsað út í það að ég væri slíkur.

Í Svíþjóð kynntist ég fjölda annarra erlendra nema og sumir af þeim ílengdust í Svíþjóð á meðan aðrir snéru aftur til síns heima, – reynslunni ríkari.

Þessi reynsla hefur sannarlega nýst mér vel.  Rétt áður en ég kom heim aðstoðaði ég móður mína við að stofna fyrirtæki sem hefur boðið ungu fólki af EES-svæðinu að koma til landsins og starfa tímabundið í landbúnaði, ferðaþjónustu og öðrum tilfallandi störfum.  Hundruð ef ekki þúsundir ungmenna hafa því komið til landsins á hennar vegum, flestir snúið aftur heim en einhverjir ílengst, farið í nám eða kynnst sínum maka hér.  Árið 2007 vann ég svo með henni að því að bjóða ungum Íslendingum að fara erlendis til vinnu eða sjálfboðastarfa víðs vegar um heim.

Fátt hefur sannfært mig betur en þetta hversu mikinn þátt snerting við aðra menningarheima, önnur lönd á í að auka víðsýni og umburðarlyndi, – sem og veitt mér innsýn í hversu mikill Íslendingur ég er.

Því tel ég að við eigum að vinna að því að ungir Íslendingar geti farið sem víðast til að kynnast öðrum löndum og sömuleiðis að taka vel á móti innflytjendum hér á landi.

Við njótum öll góðs af því.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.6.2013 - 12:37 - 18 ummæli

Dorrit og lögheimilið

Töluvert hefur verið fjallað um lögheimilisskráningu Dorritar Moussaieff, forsetafrúar okkar.  Það sem ég hef saknað úr þeirri umræðu er umfjöllun um lögin um lögheimili (nr. 21/1990).  Ættum við ekki að spyrja okkur að því hvort tími sé kominn til að endurskoða lögin út frá auknum fjölbreytileika fjölskyldna í nútíma samfélagi?

Það skal viðurkennast að lög um lögheimili eru ekki á mínu málasviði sem ráðherra, en það eru málefni fjölskyldunnar og því get ég ekki orða bundist.

Í umræðu um stefnuræðu forseta gerði ég að sérstöku umtalsefni áherslur nýrrar ríkisstjórnar á fjölskylduvænt samfélag.  Fjölskylduvænt samfélag fyrir allar fjölskyldur í sinni fjölbreyttustu mynd.

Því spyr ég mig hvort fjölskyldur séu aðeins fjölskyldur ef þær eiga sameiginlegt heimili?

Í þingsályktun um mótun opinberrar fjölskyldustefnu frá 1997 var fjölskylda skilgreind sem „…hópur einstaklinga sem á sameiginlegt heimili þar sem þeir deila tómstundum, hvíld, tilfinningum, efnahag, ábyrgð og verkefnum.  Meðlimir eru oftast fullorðnar manneskjur af báðum kynjum, eða einstaklingur, ásamt barni eða börnum (þeirra).  Þeir eru skuldbundnir hvorum öðrum í siðferðilegri gagnkvæmri hollustu.“

Við hjónin höfum verið gift í 13 ár og stóran hluta af þeim tíma höfum við verið búsett á sitthvorum staðnum.  Ég verið í námi erlendis eða starfað uppi á landi á meðan eiginmaður minn bjó ásamt dætrum okkar í Eyjum.  Á tímabili hefði ég gjarnan viljað búa áfram í Eyjum á meðan eiginmaðurinn og dæturnar hefðu viljað vera búsettar upp á landi.  Lögheimilisskráning okkar endurspeglaði ramma laganna frekar en þennan veruleika.

Við vorum þó alltaf fjölskylda, tengd djúpum tilfinningaböndum, óháð því hvort við deildum í raun sameiginlegu heimili.

Ég hef líka heyrt af öðrum pörum sem hafa búið við sambærilegar kringumstæður, þar sem annar makinn vinnur langdvölum annars staðar á landinu eða erlendis.  Í Vestmannaeyjum fyrir hrun var þetta svo algengt að talað var um að vera í fjarbúð, frekar en sambúð.  Sama hafa margar fjölskyldur upplifað eftir hrun þegar fólk hefur leitað út fyrir landsteinana til að hafa í sig og á, – og átt í erfiðleikum með lögheimilisskráninguna.

Foreldrar sem deila forsjá hafa einnig rætt töluvert um lögheimilisskráningu.  Í vinnslu nýrra barnalaga var nánast ekkert rætt um sameiginlega forsjá (enda mikil sátt um hana sem almenna reglu), heldur fyrst og fremst lögheimilisforsjá (annað nýyrði) og rétt dómara til að dæma um forsjá og þar með líka lögheimilisforsjá.

Það sem flækir þetta er að fjölmörg réttindi og skyldur eru tengd lögheimili líkt og komið hefur fram í umræðunni um forsetafrú okkar.  Skoða þyrfti það samhliða breytingum á lögum um lögheimili.

Kannski eftir einhver ár munum við geta horft til baka og þakkað Dorrit og hennar háöldruðu foreldrum fyrir að opna umræðuna.  Óháð því þá snýst þetta í mínum huga ekki um fjölskyldu forsetans, heldur hvers konar samfélag  og þar af leiðandi lög viljum við hafa.

Ég vil lög sem endurspegla fjölskylduvænt samfélag.

Fyrir allar fjölskyldur, í  allri sinni fjölbreyttu mynd.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 9.6.2013 - 10:29 - 7 ummæli

Létt á ríkissjóði

Við höfum lofað skattlækkunum og að skerðingar á kjörum aldraðra og öryrkja verði afturkallaðar. Fjármálaráðherra hefur þegar lagt fram frumvarp um afnám hækkunar vsk á gistingu sem kostar 1,5 milljarða á ársgrundvelli og sjávarútvegsráðherra boðar breytingar á lögum um sérstakt veiðigjald.  Frumvarp mitt um afnám skerðinga til aldraðra og öryrkja er svo í kostnaðarmati hjá Fjármálaráðuneytinu.

Allt eru þetta dýrar aðgerðir og munu kosta ríkissjóð fleiri milljarða króna.

Ég hef því nokkra samúð með fjármálaráðuneytinu nú þegar beiðnir um milljarða króna tekjuskerðingar og útgjöld streyma frá ráðherrum.  Standa verður við loforð, en mikilvægt er að draga úr halla á ríkissjóði.

Því tel ég brýnt að sem allra fyrst verði lagður á sérstakur skattur á skuldir allra þeirra fyrirtækja sem starfa undir lögum um fjármálafyrirtæki, líka fjármálafyrirtæki í slitum.  Þau lög eru þegar til staðar, nr. 155/2010 og því einfalt að breyta þeim.

Markmið laganna er annars vegar að afla ríkinu tekna til að mæta þeim mikla kostnaði sem fallið hefur á ríkissjóð vegna hruns íslenska fjármálakerfisins og hins vegar að draga úr áhættusækni fjármálafyrirtækja með því að leggja sérstakan skatt á skuldir þeirra.

Af einhverri ástæðu töldu menn ekki rétt að leggja þennan skatt á fjármálafyrirtæki í slitum, þrátt fyrir að þeirra sé mesta ábyrgðin á þeim kostnaði sem fallið hefur á ríkissjóð vegna hruns fjármálakerfisins.  Í raun þjóðarbúið í heild sinni.

Ég teldi einnig rétt að hækka skattinn í 0,3-0,4% og leyfa fjármálafyrirtækjum að draga frá skattinum gjald vegna greiðslu í Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta.  Skoða mætti einnig að lækka hugsanlega fjársýsluskattinn, en hann leggst á launagreiðslur fjármálafyrirtækja.

Skuldir þeirra lögaðila sem starfa undir lögum um fjármálafyrirtæki eru um 10 þúsund milljarðar króna og ætti skattur á þær því að geta skilað um 30-40 milljörðum króna árlega í ríkissjóð, – sem ætti vel að dekka fyrirhugaðar skattalækkanir og aukin útgjöld þar til þær aðgerðir fara að skila sér í auknum umsvifum.  Það sem er umfram er hægt að nýta til að fjármagna sérstakan afskriftasjóð vegna skuldaleiðréttingar til að byrja með.

Forsætisráðherra hefur þegar bent á ójafnræðið sem felst í að flest fjármálafyrirtæki greiða oft á tíðum há gjöld og skatta, en þau sem eru í slitum greiða lítið sem ekki neitt, – þótt þau séu undir sama lagabálknum. Það sama gerðu frambjóðendur okkar í kosningabaráttunni.

Skatturinn gæti einnig hugsanlega virkað hvetjandi á slitastjórnir að ljúka slitum og segja skilið við ofurlaunin sín. Aldrei að vita…

Ég tel einnig mikilvægt að auka eftirlit og aðhald til að tryggja að réttar upphæðir skili sér í ríkissjóð og að réttir einstaklingar fái útgreiðslur. Þar mætti fjármálaráðuneytið beina  sérstaklega sjónum að virðisaukaskattinum.  Ég hyggst sjálf óska eftir auknum eftirlits- og upplýsingaheimildum fyrir Tryggingastofnun til að tryggja réttari útgreiðslur og draga úr bótasvikum.

Þannig getum við öll tekið höndum saman og létt á áhyggjum okkar af stöðu ríkissjóðs.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur