Töluvert hefur verið fjallað um lögheimilisskráningu Dorritar Moussaieff, forsetafrúar okkar. Það sem ég hef saknað úr þeirri umræðu er umfjöllun um lögin um lögheimili (nr. 21/1990). Ættum við ekki að spyrja okkur að því hvort tími sé kominn til að endurskoða lögin út frá auknum fjölbreytileika fjölskyldna í nútíma samfélagi?
Það skal viðurkennast að lög um lögheimili eru ekki á mínu málasviði sem ráðherra, en það eru málefni fjölskyldunnar og því get ég ekki orða bundist.
Í umræðu um stefnuræðu forseta gerði ég að sérstöku umtalsefni áherslur nýrrar ríkisstjórnar á fjölskylduvænt samfélag. Fjölskylduvænt samfélag fyrir allar fjölskyldur í sinni fjölbreyttustu mynd.
Því spyr ég mig hvort fjölskyldur séu aðeins fjölskyldur ef þær eiga sameiginlegt heimili?
Í þingsályktun um mótun opinberrar fjölskyldustefnu frá 1997 var fjölskylda skilgreind sem „…hópur einstaklinga sem á sameiginlegt heimili þar sem þeir deila tómstundum, hvíld, tilfinningum, efnahag, ábyrgð og verkefnum. Meðlimir eru oftast fullorðnar manneskjur af báðum kynjum, eða einstaklingur, ásamt barni eða börnum (þeirra). Þeir eru skuldbundnir hvorum öðrum í siðferðilegri gagnkvæmri hollustu.“
Við hjónin höfum verið gift í 13 ár og stóran hluta af þeim tíma höfum við verið búsett á sitthvorum staðnum. Ég verið í námi erlendis eða starfað uppi á landi á meðan eiginmaður minn bjó ásamt dætrum okkar í Eyjum. Á tímabili hefði ég gjarnan viljað búa áfram í Eyjum á meðan eiginmaðurinn og dæturnar hefðu viljað vera búsettar upp á landi. Lögheimilisskráning okkar endurspeglaði ramma laganna frekar en þennan veruleika.
Við vorum þó alltaf fjölskylda, tengd djúpum tilfinningaböndum, óháð því hvort við deildum í raun sameiginlegu heimili.
Ég hef líka heyrt af öðrum pörum sem hafa búið við sambærilegar kringumstæður, þar sem annar makinn vinnur langdvölum annars staðar á landinu eða erlendis. Í Vestmannaeyjum fyrir hrun var þetta svo algengt að talað var um að vera í fjarbúð, frekar en sambúð. Sama hafa margar fjölskyldur upplifað eftir hrun þegar fólk hefur leitað út fyrir landsteinana til að hafa í sig og á, – og átt í erfiðleikum með lögheimilisskráninguna.
Foreldrar sem deila forsjá hafa einnig rætt töluvert um lögheimilisskráningu. Í vinnslu nýrra barnalaga var nánast ekkert rætt um sameiginlega forsjá (enda mikil sátt um hana sem almenna reglu), heldur fyrst og fremst lögheimilisforsjá (annað nýyrði) og rétt dómara til að dæma um forsjá og þar með líka lögheimilisforsjá.
Það sem flækir þetta er að fjölmörg réttindi og skyldur eru tengd lögheimili líkt og komið hefur fram í umræðunni um forsetafrú okkar. Skoða þyrfti það samhliða breytingum á lögum um lögheimili.
Kannski eftir einhver ár munum við geta horft til baka og þakkað Dorrit og hennar háöldruðu foreldrum fyrir að opna umræðuna. Óháð því þá snýst þetta í mínum huga ekki um fjölskyldu forsetans, heldur hvers konar samfélag og þar af leiðandi lög viljum við hafa.
Ég vil lög sem endurspegla fjölskylduvænt samfélag.
Fyrir allar fjölskyldur, í allri sinni fjölbreyttu mynd.