Föstudagur 7.6.2013 - 19:35 - 3 ummæli

Alþingi og kyn

Alþingi skipaði í nefndir.  Enn á ný endurspeglar skipanin þá kynjaskiptingu sem er til staðar í íslensku samfélagi. Karlar eru líklegri til að fara í nefndir sem hafa með fjár-, atvinnu- og utanríkismál á meðan konur sitja frekar í nefndum sem fara með velferðar-, mennta- og dómsmál.

Ég hef áður bent á þetta og lýst yfir áhyggjum af þessu.  Mikilvægt er að þingflokksformenn allra stjórnmálaflokka fari yfir þetta þegar þing kemur aftur saman í haust og tali saman um skipan í nefndir, ekki aðeins út frá áhugasviðum þingmanna heldur líka út frá kynjasjónarmiðum.

Efast ég ekki um að það verði gert.

Þetta er okkur ekki auðvelt. Staðreyndin er sú að við erum með mjög kynskiptan vinnumarkað á Íslandi.  Konur eru líklegri til að velja menntun og starfssvið á sviði velferðarmála og starfa hjá hinu opinbera.  Karlar eru líklegri til að velja menntun á öðrum sviðum og starfa hjá einkafyrirtækjum.

Þessu þarf að breyta.

En það er ekki auðvelt.  Fyrir stuttu var frétt um að fjölgun hefði orðið í fjölda þeirra sem luku sveinsprófi í húsgagnasmíði.  Stór hluti fréttarinnar snérist ekki um þá gleðilegu staðreynd, heldur að einn af sveinunum (áhugavert orð út frá kynjagreiningu) var kona sem var komin að fæðingu.

Það hvernig við metum störf karla og kvenna endurspeglast ekki bara í virðingu starfsins heldur líka hvernig við greiðum fyrir þau.  Eitt af því sem ég hef rekið mig á þann stutta tíma sem ég hef verið ráðherra er munurinn á greiðslum fyrir nefndar- og stjórnarsetur eftir sömu kynjuðu skiptingunni.

Eitt mest sláandi dæmið er t.d. munurinn á greiðslum fyrir stjórnarsetu í Fjármálaeftirlitinu og Tryggingastofnun ríkisins. Stjórnarformaður FME fær 600.000 kr. á mánuði, á meðan stjórnarformaður Tryggingastofnunar ríkisins fær greiddar 60.000 kr.  Eru verkefni FME virkilega 10 sinnum erfiðari eða virðingarmeiri en verkefni Tryggingastofnunar?  Nei, ég held nú síður.

Það er löngu kominn tími til að við áttum okkur á að velferðarmálin eru ekki neinn mjúkur málaflokkur.  Það er ekkert mjúkt við þá staðreynd að tæplega helmingur af útgjöldum ríkisins er í höndum Velferðarráðuneytisins.  Það er ekkert mjúkt við þá staðreynd að Tryggingastofnun greiðir út árlega ríflega 120 milljarða króna í bætur til aldraðra og öryrkja .  Það er svo sannarlega ekkert mjúkt og sætt við þá staðreynd að Íbúðalánasjóður sem tilheyrir mínum málaflokki er með efnahagsreikning upp á 900 milljarða króna og í mjög erfiðri stöðu. Það er ekkert  mjúkt við þá staðreynd að þúsundir Íslendinga eru í greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara eða allir þeir sem eru á vinnumarkaði eru á mínu borði í gegnum m.a. Vinnumálastofnun, Atvinnuleysistryggingasjóð, Ábyrgðarsjóð launa, Fæðingarorlofssjóð og Ríkissáttasemjara.

Konurnar og karlinn sem taka sæti í velferðarnefnd Alþingis undir styrkri stjórn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur gera sér væntanlega grein fyrir þessu.

Og eru tilbúin að axla þá þungu ábyrgð með mér.

Vonandi verða líka fleiri karlar tilbúnir til þess í haust.

Uppfært 7. júní 2013 kl. 22.37: Nákvæmlega þá fær stjórnarformaður TR greiddar 63.180 kr. á mánuði samkvæmt mínum upplýsingum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.6.2013 - 18:23 - 8 ummæli

Álit umboðsmanns skuldara komið

Ég óskaði eftir því að umboðsmaður skuldara myndi vinna álit um dóm Hæstaréttar um Landsbankann og Plastiðjuna.  Álitið liggur nú fyrir og er hægt að nálgast það á vef Velferðarráðuneytisins.

Þar kemur fram að umboðsmaður skuldara telur ljóst af niðurstöðu dómsins að endurreikna beri meginþorra skammtímalána í samræmi við uppgjörsaðferð Hæstaréttar í máli nr. 464/2012. Í því felst að afborganir af höfuðstól lánssamnings, sem inntar hafa verið af hendi til og með þess tíma er viðkomandi samningur var endurreiknaður, komi að fullu til frádráttar upphaflegum höfuðstól, sem ber hvorki gengistryggingu né verðbætur af öðrum toga.

Fjárhæð greiddra vaxta hefur þar ekki áhrif, enda teljast þeir að fullu greiddir vegna þessa tímabils.

Ég vænti því þess að fjármálastofnanir muni nú hefja endurútreikninga tafarlaust og gera það fljótt og vel.

Jafnframt vil ég benda á að á vef embættis umboðsmanns skuldara er reiknivél sem byggir á uppgjörsaðferð Hæstaréttar.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.5.2013 - 20:37 - 7 ummæli

Landsbankinn metur dóminn…

Landsbankinn  hefur nú hafið vinnu við að meta áhrif nýfallins dóms þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki væri heimilt að reikna seðlabankavexti afturvirkt á skammtímalán.

Það er mín afstaða að það er ekki bara hlutverk fjármálafyrirtækja að meta niðurstöðu dóma sem falla þeim í óhag, heldur stjórnvalda líka.  Ein af mínum undirstofnunum er umboðsmaður skuldara.  Hlutverk umboðsmanns skuldara er skv. lögum að gæta hagsmuna og réttinda skuldara og veita þeim aðstoð þegar við á.

Því mun ég óska eftir áliti umboðsmanns um dóminn út frá þessu hlutverki stofnunarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.5.2013 - 18:45 - 13 ummæli

Fundur með Landssambandi eldri borgara

Landssamband eldri borgara hafði samband við mig í gær og óskaði eftir fundi til að ræða málefni aldraðra.  Ég fagnaði því enda er eitt af okkar áherslumálum að aldraðir njóti öryggis og velferðar í samfélaginu.

Fyrsta skrefið verður að afnema þær skerðingar sem aldraðir, sem og öryrkjar máttu sæta á síðasta kjörtímabili.  Ég vil einnig sjá að frekari breytingar feli í sér minni tekjutengingar.  Þannig munum við vonandi vinna að breytingum á lífeyriskerfinu í góðu samráði við aldraða og aðila vinnumarkaðarins, fara í gegnum þær tillögur sem voru undirbúnar á síðasta kjörtímabili og skoða hvort þær séu í samræmi við stefnu stjórnarinnar.

Mér er sérstaklega umhugað að kerfið tryggi sem virkasta þátttöku aldraðra í samfélaginu.  Þannig eigum við að horfa til þess hvað hver og einn getur gert, en ekki til þess hvað hann getur ekki m.a. með sveigjanlegri starfslokum.

Það er best fyrir alla að vera sem virkastir þátttakendur í samfélaginu, og kerfið á ekki að vinna gegn því.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.5.2013 - 16:48 - 7 ummæli

„Allar upplýsingar liggja fyrir…“

Orð Sigmundar Davíðs um að staða og horfur ríkissjóðs séu mun verri en áður hafi komið fram hafa fallið í grýttan jarðveg.   Katrín Júlíusdóttir, fráfarandi fjármálaráðherra, sagði í viðtali við RÚV: „Það var enginn blekktur, allar upplýsingar liggja fyrir og það komu engar nýjar upplýsingar fram í kynningu fjármálaráðuneytisins til þeirra.“

Í ljósi þessara orða er ágætt að rifja upp jafnlaunaátak ríkisstjórnarinnar sem Katrín og Guðbjartur Hannesson, fráfarandi velferðarráðherra kynntu í byrjun þessa árs.   Byrjað var á heilbrigðisstofnunum, enda hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum að því komnir að ganga út vegna óánægju með launastefnu ráðherrans og stjórnenda spítalans.

Í Morgunblaðinu í mars kom fram hjá fjármálaráðuneytinu að ekki væri búið að áætla kostnað við verkefnið.

Nú um miðjan maí veit væntanlega enginn hver heildarkostnaðurinn verður.  Ekki einu sinni hvað varðar allar heilbrigðisstofnanir.   Ein ástæðan er t.d. að ákveðið var að hækka fjárframlög til heilbrigðisstofnana í rekstri ríkisins, en svo sleppt að gera ráð fyrir hækkun til stofnana sem reknar eru með þjónustusamningum.  Þar má nefna til dæmis stóran hluta öldrunarstofnana á landinu.

Kannski þarf bara ekki að jafna laun þeirra starfsmanna?

En eflaust má halda áfram að halda því fram að allar upplýsingar hafi legið fyrir.

Einhver staðar.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.5.2013 - 09:49 - 4 ummæli

Eigið húsnæði og atvinnuleysi

Íslenski draumurinn hefur verið að eignast eigið húsnæði.  Ekki bara íslenski draumurinn heldur líka sá bandaríski, breski, írski, spænski, danski, norski og svo framvegis.

Ég skal viðurkenna að þetta hefur verið minn draumur líka.  Draumurinn um lítið, fallegt timburhús með stóru eldhúsi og bílskúr fyrir eiginmanninn.

Eigið húsnæði átti að þýða öryggi fyrir fjölskylduna og samfélagið.

Ýmislegt hefur þó valdið því að brestir eru komnir í draumsýnina um eigið húsnæði.  Nú síðast birtist grein í NY Times um rannsókn sem tengir hækkandi hlutfall eigin húsnæði við hærra langtímaatvinnuleysi í Bandaríkjunum.

Því fleira fólk sem átti eigið húsnæði, því fleira fólk án atvinnu.

Í rannsókn hagfræðinganna Blanchflower og Oswald er því ekki haldið fram að húseigendur séu líklegri til að missa vinnuna en leigjendur. Hins vegar er líklegt að á svæðum með hátt eða hækkandi hlutfall eigin húsnæði er minni sköpun nýrra starfa, minni sveigjanleiki í atvinnulífinu og fólk ferðast lengra á milli vinnu og heimilis.

Hreyfanleiki fólks minnkar, það flytur ekki þangað sem störfin eru, heldur keyrir frekar á milli.  Afleiðingin er kostnaður fyrir fyrirtækin og starfsmennina og aukinn umferðarþungi.  Jafnframt velta þeir því upp hvort skipulagsmál geta skipt þar máli, þar sem samfélög með hátt hlutfall af eigin húsnæði eru hugsanlega líklegri til að vilja ekki ný fyrirtæki sem gætu skapað störf (svokölluð „not in my backyard“ áhrif).

Aðrar rannsóknir virðast styðja þessar niðurstöður.  Í finnskri rannsókn kom t.d. fram að þótt húseigendur sem einstaklingar væru ólíklegri til að missa vinnuna þá eykur hækkandi hlutfall eigin húsnæðis atvinnuleysi á viðkomandi svæði.

Þannig virðast þessar rannsóknir segja að draumahúsið er jákvætt fyrir mig sem einstakling, en stjórnvöld eiga ekkert sérstaklega að hvetja mig áfram í því að eignast það ef þau vilja styðja við atvinnusköpun.

En hvað segir þetta um Ísland?

Var hreyfanleiki minni hér vegna hás hlutfalls eigin húsnæðis?  Hefðu fleiri farið af landi brott ef fólk hefði ekki átt húsnæði í kreppunni?  Hefðu fleiri flutt út á land og leitað vinnu þar í útflutningsgreinunum ef þeir hefðu verið í leiguhúsnæði? Átt auðveldara með að komast í leiguhúsnæði út á landi ef allir byggju ekki í eigin húsnæði þar? Skiptir sú staðreynd að við búum flest á SV-horninu máli?

Eða eiga þær einfaldlega ekki við?

Veit ekki, – en það væri áhugavert að heyra ykkar skoðanir á þessu.

Vinsamlegast athugið að ég samþykki athugasemdir inn. Því getur tekið tíma fyrir þær að birtast.  Ég áskil mér jafnframt allan rétt til að hafna birtingu athugasemda sem eru ómálefnalegar, nafnlausar eða ósannar.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.5.2013 - 11:52 - 5 ummæli

Viðræður og staðfestan

Stjórnarmyndunarviðræður ganga vel.   Formaður Sjálfstæðisflokksins segir  að hann standi fastur á loforðum flokksins um skattalækkanir.  Jafnframt að hann sé tilbúinn að axla ábyrgð á málaflokkum sem standa fyrir stórum hluta útgjalda ríkisins. Hann ítrekar þetta aftur í viðtali á Sprengisandi í dag.

Framsóknarmenn hafa lýst sig tilbúna að skoða hugmyndir Sjálfstæðismanna.

Samt virðist Bjarni Benediktsson telja ástæðu til að mæta á fundi og í útvarpsviðtöl til að ítreka staðfestu sína.

Ég treysti mínum formanni til að ná sem bestri niðurstöðu fyrir land og þjóð í viðræðunum.  Líka formanni Sjálfstæðisflokksins.

Það er löngu tímabært að sjálfstæðismenn treysti sínum formanni.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.5.2013 - 12:17 - 1 ummæli

Íslenskar fjölskyldur

Þegar ég ólst upp fannst mér fjölskyldutengsl annarra aldrei flókin.  Reynslan af því að eiga eitt alsystkin, sex hálfsystkin og slatta af stjúpsystkinum hafði vanið mig snemma við að skilja hratt og vel fjölbreytt fjölskyldutengsl.   Vorkenndi jafnvel vinum mínum sem áttu ekki nema eitt alsystkin og það skrítnast af öllu: Foreldra sem bjuggu enn saman.

Staðreyndin er nefnilega að íslenskar fjölskyldur eru af öllum stærðum og gerðum.

Ísland er ekki einsdæmi hvað það varðar.  Í pistli á Eyjunni í dag er fjallað um 37 skilgreiningar dönsku Hagstofunnar á fjölskyldugerðum.  „Til dæmis er möguleiki á föður og móður, móður og sammóður (lesbískt samband), móður og stjúpföður, eingöngu föður, eingöngu móður o.s.frv.  Eru alsystkin í fjölskyldunni eða hálfsystkin? Er hjónabandið númer eitt, tvö eða þrjú? Er fólk í sambandi en býr hvort á sínum staðnum? Eiga börnin tvo eða fjóra hálf- eða alforeldra? Kannski er pabbinn bara vinur mömmu eða jafnvel númer úr sæðisbankanum.“

Óháð stærð eða gerð fjölskyldunnar þá er hún og verður meginstoð og hornsteinn íslensks samfélags.  Þar fáum við sem einstaklingar og ekki hvað síst börnin okkar, öryggi og tækifæri til að þroska eiginleika okkar til hins ýtrasta.  Þar byggjum við upp okkar nánustu tengsl í sorg og gleði.

Í þeim erfiðleikum sem dunið hafa yfir okkur á undanförnum árum er því fátt mikilvægara en gott samspil fjölskyldu og samfélags til að tryggja heilbrigða samfélagsþróun.

Rannsóknir hafa sýnt að það eru ekki hvað síst einstæðir foreldrar og barnafjölskyldur sem hafa fundið mest fyrir kreppunni.  Baráttan við skuldirnar er því barátta fyrir fjölskyldur þessa lands.

Árið 1997 var samþykkt þingsályktun um sérstaka fjölskyldustefnu.

Sextán árum seinna held ég að aldrei hafi verið mikilvægara að fylgja eftir ályktuninni.

Í henni er talað um að tryggja grundvallaröryggi fjölskyldunnar efnahagslega ásamt rétti hennar til öryggis í húsnæðismálum.  Þar er talað um meira jafnvægi á milli fjölskyldulífs og atvinnu. Um jafna ábyrgð foreldra á heimilishaldi og umönnun og uppeldi barna sinna.  Hvatt til þess að stofnanir samfélagsins starfi í samvinnu við fjölskylduna og taki mið af ábyrgð foreldra á börnunum sínum.  Að fjölskyldstefna eigi að beita sér gegn misrétti, m.a. á grunni kynþáttar, trúarbragða, fötlunar eða kynhneigðar.  Um vernd gegn ofbeldi í nánum samböndum og þar sem fjölskyldur njóta verndar og stuðnings gagnvart ofneyslu áfengis og annarra fíkniefna.

Þar sem við setjum fjölskylduna raunverulega í fyrirrúm.

Allar fjölskyldur í sinni fjölbreyttu mynd.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.4.2013 - 16:46 - 2 ummæli

Að loknum kosningum

Niðurstöður kosninga liggja fyrir.  Við framsóknarmenn eru gífurlega þakklátir og stoltir yfir því trausti sem okkur hefur verið sýnt.  Þingflokkurinn hefur meira en tvöfaldað stærð sína.  Ég er ekki hvað síst ánægð með niðurstöðu okkar í Suðvesturkjördæmi, en þar  tvöfölduðu við nær fylgi okkar.  Óhætt er að fullyrða að nú má finna flesta framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi 🙂

Kosningabaráttan var mjög skemmtileg.  Við hittum íbúa kjördæmisins fyrir utan verslanir og á vinnustöðum.  Síðustu dagana var gengið á milli nær 5000 heimila og var það sérstaklega gefandi.

Ég þakka kærlega öllum þeim sem komu að kosningabaráttunni með einum eða öðrum hætti fyrir þeirra framlag.

Án ykkar hefði þetta ekki tekist.

Nú sækjum við öll fram fyrir Ísland 🙂

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.4.2013 - 18:36 - 8 ummæli

Hagsmunir úrtölumanna?

Síðustu vikur hafa öll spjót staðið á okkur framsóknarmönnum vegna þeirrar stefnu okkar að bæta heimilunum að hluta þann forsendubrest sem þau urðu fyrir við hrunið. Í upphafi voru áætlanir okkar um að ganga fram af hörku gagnvart vogunarsjóðunum úthrópaðar sem ómögulegar og óframkvæmanlegar. Nú snýst umræðan ekki um hvort svigrúmið sé til staðar, heldur hvað eigi að gera við peningana.

Enn hljóma þó úrtöluraddir og einna háværastar eru þær í nokkrum dagblöðum.

Þar hafa leiðarasíður verið undirlagðar, dag eftir dag, af hamfaralýsingum sem virðast hafa það eina markmið að telja almenningi trú um að hér muni allt fara á versta veg ef vogunarsjóðunum verði ekki tryggður hámarkshagnaður af eignum sínum.

Nú síðast var vitnað í Lars Christensen, forstöðumann greiningardeildar Danske Bank, sem varar við því sem hann kallar „upptöku ríkisins á eignum þrotabúa gömlu bankanna“. Orð hans fá aukið vægi þegar bent er á að hann hafi varað við stöðu íslensks efnahagslífs fyrir hrun, án þess að á hann væri hlustað.

Ekki ætla ég að gera lítið úr Lars, en þó má benda á að annar hagfræðingur, sem einnig varaði við ósjálfbærri skuldasöfnun fjármálakerfisins, hefur einmitt hvatt til þess að gengið verði hart fram gegn vogunarsjóðunum og gangverki efnahagslífs sé komið af stað með því að létta byrðum af heimilum og fyrirtækjum. Sá hagfræðingur er Paul Krugman, sem jafnframt hefur nóbelsverðlaun í hagfræði umfram Lars.

Helstu rök Lars eru þau að uppgjör við kröfuhafa, þar sem þeir þyrftu að gefa eftir hluta hagnaðar síns eftir hrun, myndi kalla á harkaleg viðbrögð alþjóðlegra fjárfesta. Þessi sömu rök voru hávær í Icesave deilunni, en reyndust rökleysa þegar á reyndi. Einnig má velta fyrir sér hvort eðlilegt sé að bera vogunarsjóði saman við hefðbundna fjárfesta, líkt og þá sem við teljum æskilegt að fjárfesti í íslensku atvinnulífi.

Vogunarsjóðir byggjast upp á gríðarlegum sveiflum hagnaðar og taps, þar sem áherslan er á skammtímahagnað. Þar er um miklar fjárhæðir að tefla og til samanburðar má nefna að laun stjórnenda 15 stærstu vogunarsjóða Bandaríkjanna voru árið 2006 þreföld heildarlaun allra 80.000 kennara New York borgar. Því er ljóst að gríðarlegir hagsmunir eru í húfi.

Því veltir maður óneitanlega fyrir sér hverra hagsmuna úrtölumenn eru að gæta.

Tæplega íslensks almennings.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur