Við hjónin erum að byggja hús. Í þessu verkefni tókum við ákvörðun um að ég myndi sjá um samskipti við hönnuði, iðnaðarmenn og flesta birgja. Ég vissi fyrir að byggingarbransinn væri mjög karllægur. Í skýrslu sem ég lagði fram á Jafnréttisþingi kom fram að konur eru aðeins um 3% í starfsstétt iðnaðarmanna og sérhæfðs verkafólks árið 2014, og hafði hlutfallið lækkað úr 10% árið 1991.
Hversu karllægur bransinn var endurspeglaðist í samsetningu þeirra sem mættu á fundi sem ég hélt um húsnæðismál sem fyrst og fremst karlar sóttu, ólíkt Jafnréttisþingi sem fyrst og fremst konur sóttu. Þetta endurspeglaðist einnig sterklega í viðbrögðum sem ég fékk þegar ég fór að tjá mig um hagkvæmar húsbyggingar og skipti þar engu hvort karlarnir sem tjáðu sig voru til hægri eða vinstri í stjórnmálunum.
Ég er reyndar ekki sú eina sem hef fengið álíka gusur ef ég hef hætt mér inn á ímyndað verksvið karlanna. Það virðist vera ansi vinsælt hér á landi að hnýta í og jafnvel hæðast að konum sem tjá sig um verklegar framkvæmdir, fjármál eða efnahagsmál.
- Sbr. Björt Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra
- Sbr. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar
- Sbr. ég og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, fv. formaður velferðarnefndar
Þess vegna hefðu kannski ekki átt að koma á óvart hinar „penu“ spurningar sem ég hef reglulega fengið þegar ég hef leitað tilboða eða upplýsinga í byggingarferlinu. Þær virðast meira og minna snúast um að fá að tala við einhvern annan en mig. Einhvern sem hefur væntanlega meira vit á þessu en ég (lesist: karl). Verkefnisstjóri húsbyggingarinnar er nefndur reglulega, byggingarstjórinn að sjálfsögðu, eiginmanninn eða bara einhver annar.
Að sjálfsögðu gildir þetta ekki um alla, – og allra síst þann frábæra hóp iðnaðarmanna og hönnuða sem eru að vinna þetta með okkur.
En miklu fleiri en ég hef kynnst í öðrum verkefnum.
Því spyr ég: Þarf pung til að byggja hús?