Laugardagur 29.4.2017 - 08:00 - Rita ummæli

Þarf pung til að byggja hús?

Við hjónin erum að byggja hús.  Í þessu verkefni tókum við ákvörðun um að ég myndi sjá um samskipti við hönnuði, iðnaðarmenn og flesta birgja.  Ég vissi fyrir að byggingarbransinn væri mjög karllægur.  Í skýrslu sem ég lagði fram á Jafnréttisþingi kom fram að konur eru aðeins um 3% í starfsstétt iðnaðarmanna og sérhæfðs verkafólks árið 2014, og hafði hlutfallið lækkað úr 10% árið 1991.

Hversu karllægur bransinn var endurspeglaðist í samsetningu þeirra sem mættu á fundi sem ég hélt um húsnæðismál sem fyrst og fremst karlar sóttu, ólíkt Jafnréttisþingi sem fyrst og fremst konur sóttu.  Þetta endurspeglaðist einnig sterklega í viðbrögðum sem ég fékk þegar ég fór að tjá mig um hagkvæmar húsbyggingar og skipti þar engu hvort karlarnir sem tjáðu sig voru til hægri eða vinstri í stjórnmálunum.

Ég er reyndar ekki sú eina sem hef fengið álíka gusur ef ég hef hætt mér inn á ímyndað verksvið karlanna. Það virðist vera ansi vinsælt hér á landi að hnýta í og jafnvel hæðast að konum sem tjá sig um verklegar framkvæmdir, fjármál eða efnahagsmál.

Þess vegna hefðu kannski ekki átt að koma á óvart hinar „penu“ spurningar sem ég hef reglulega fengið þegar ég hef leitað tilboða eða upplýsinga í byggingarferlinu. Þær virðast meira og minna snúast um að fá að tala við einhvern annan en mig. Einhvern sem hefur væntanlega meira vit á þessu en ég (lesist: karl).  Verkefnisstjóri húsbyggingarinnar er nefndur reglulega, byggingarstjórinn að sjálfsögðu, eiginmanninn eða bara einhver annar.

Að sjálfsögðu gildir þetta ekki um alla, – og allra síst þann frábæra hóp iðnaðarmanna og hönnuða sem eru að vinna þetta með okkur.

En miklu fleiri en ég hef kynnst í öðrum verkefnum.

Því spyr ég: Þarf pung til að byggja hús?

Flokkar: Húsnæðismál · Jafnrétti

Þriðjudagur 18.4.2017 - 09:00 - 2 ummæli

Stafrænar myndir og sýslumaðurinn

Fyrir ekki löngu síðan átti ég tvö erindi til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.  Annars vegar að endurnýja vegabréf okkar hjónanna og hins vegar að sækja um ökuskírteini fyrir eldri dótturina.  Vakti það athygli mína hversu mikill munur var á umsóknarferlinu á þessum tveimur tegundum af skilríkjum.  Við móttöku umsókna okkar hjónanna um vegabréf var allt ferlið meira og minna rafrænt og var m.a. boðið upp á að tekin væri stafræn mynd af okkur á staðnum. Þegar ég kom stuttu seinna ásamt eldri dótturinni að sækja um ökuskírteini var hins vegar töluverður munur á, ekki hvað síst þar sem við þurftum að rjúka aftur út til að leita að ljósmyndasjálfsala þar sem krafa var gerð um að ljósmynd fylgdi umsækjanda á ljósmyndapappír.

Það var því ánægjulegt að fá skýrt svar frá Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, þegar ég spurði hana af hverju þessi munur væri á útgáfu þessara tveggja skírteina og hvað hún ætlaði að gera til að einfalda og tæknivæða umsóknarferlið hjá sýslumönnum.

Helsta ástæðan var samkvæmt svari ráðherrans að reglugerð um útgáfu ökuskírteina hefði ekki fylgt tækniþróun undanfarinna ára líkt og ákvæði laga og reglugerða um vegabréf.  Fullt tilefni væri því til að endurskoða þetta verklag og heimila töku stafrænna mynda af umsækjendum um ökuskírteini á starfsstöðvum sýslumanna í góðu samráði við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra en reglugerðin um ökuskírteini heyrir undir hann eftir að ráðuneytinu var skipt upp.

Kannski ekki stórmál, en breytingin myndi sannarlega spara ungmennum og öðrum þeim sem þurfa að sækja um ökuskírteini sporin og gera allt umsóknarferlið um þennan mikilvæga áfanga einfaldara og skilvirkara.

Svona meira í anda 2000 kynslóðarinnar 🙂

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.4.2017 - 12:00 - 1 ummæli

Hola verður til

Fyrsta skóflustungan að fyrsta húsinu sem við hjónin byggjum sjálf var tekin í síðustu viku.   Í dag erum við því stoltir eigendur að stórri holu, sem verður fyllt með frostfríu efni á næstu dögum.

Gleðin var mikil enda langur aðdragandi að þessari fyrstu skóflustungu.

Lóðin var keypt fyrir ári síðan.  Ég hringdi í leigusalann minn eftir að kaupin á lóðinni lágu fyrir og sagði honum að við myndum væntanlega flytja út á næstu 6-9 mánuðum.  Við værum að fara byggja, ætluðum að gera það hratt, vandað og hagkvæmt.

Eftir smá þögn sagði leigusalinn minn, reynslubolti í húsasmíða- og fasteignabransanum: „Er ekki best að við sjáum hvernig þetta gengur?  Engin ástæða til að flýta sér neitt að flytja út.“

Og hló svo.

Ég skil hann miklu betur núna sem stoltur eigandi holu.  Skil hann miklu betur eftir að hafa farið í gegnum skipulags- og hönnunarferlið á húsinu, sökklinum, rafmagninu, pípulögnum og að sjálfsögðu gólfhitanum.  Skil hann miklu betur eftir að hafa farið í gegnum samþykktarferli heildaruppdráttar og leitina miklu að góðum hópi af iðnaðarmönnum. Plús eftir að hafa skilað inn 30-40 verkteikningum á hvítum pappír þar sem aðeins má kvitta undir með bláu bleki til byggingarfulltrúa ásamt yfirlýsingu frá byggingarstjóra og iðnmeisturum.

Skil svo miklu betur af hverju byggingarbransinn talar aftur og aftur um skipulags- og hönnunarferlið sem tímafrekasta hluta þess að byggja húsnæði.

Nú er stefnt að því að flytja inn í haust, 1 ári og 9 mánuðum eftir að við kvittuðum undir kaupin á lóðinni.

„Töluvert raunhæfara í þetta sinn,“ sagði leigusali minn þegar ég upplýsti hann um ný áform.

Og hló ekki.

 

 

 

 

Flokkar: Húsnæðismál · Óflokkað

Þriðjudagur 11.4.2017 - 08:55 - 2 ummæli

#Þaðerhægt

Auglýsingum Íslandsbanka (viðskiptabanki minn), um að með því að skipuleggja og gera áætlanir sé hægt að eignast húsnæði, hefur víða verið tekið illa. Þetta eru sömu viðbrögð og þegar ég skrifaði pistil fyrir nokkru um að lán væri ekki lukka. Á sama tíma segir umboðsmaður skuldara að umsóknum um greiðsluaðlögun frá ungu fólki á leigumarkaðnum hafi fjölgað.

Fyrir marga er mögulegt að skipuleggja sig, leggja til hliðar, fá hjálp frá mömmu og pabba og Nonna frænda eða Gunnu frænku til að eignast húsnæði.  En fyrir marga er það ekki mögulegt og verður ekki mögulegt að eignast húsnæði.

Þess vegna var almenna íbúðakerfinu komið á, til að þeir sem eru með lágar tekjur geti einnig eignast heimili.

Leiguheimili.

Í kjarasamningum 2015 samdi Alþýðusamband Íslands um nýtt félagslegt íbúðakerfi sem fól í sér styrki eða svokölluð stofnframlög frá ríki og sveitarfélögum fyrir allt að 2300 Leiguheimili.  Í tilefni 100 ára afmælis ASÍ var svo Bjarg íbúðafélag stofnað en það hyggst byggja 1150 leiguíbúðir á næstu árum, – og byrja að afhenda eina blokk á mánuði frá og með áramótunum 2018/2019.

En Bjarg er ekki eina félagið sem getur sótt um styrki til ríkis og sveitarfélaga.  Einhverjir aðrir verða að byggja hinar 1150 íbúðirnar á móti ASÍ.

Það gæti verið þú og þínir félagar.

Ríki og sveitarfélög hafa þegar úthlutað til byggingar eða kaupa á 509 Leiguheimilum. Í ár er hægt að sækja um 3 milljarða í stofnframlag ríkisins.

Og hvað þarf til?  Þú þarft að fá með þér 14 félaga þína til að stofna húsnæðissjálfseignarstofnun.  Tólf fara í fulltrúaráð, þrír í stjórn, 1 milljón króna í stofnfé og saman þurfið þið að útbúa vel rökstudda umsókn um af hverju sveitarfélagið þitt og ríkið ættu að veita ykkur styrk til byggingar eða kaupa á leiguhúsnæði.  Svo þarf að byggja og reka félagið, – og gera það vel.

Fyrir ykkur.  Því þetta yrði ykkar Leiguheimili.

Íbúðalánasjóður sér um úthlutun stofnframlaga ríkisins og má sjá nánari upplýsingar um Leiguheimilin hér.

Hafið endilega samband við sjóðinn til að fá nánari upplýsingar.

Ég skal einnig aðstoða áhugasama, ef þess er óskað.

#Þaðerhægt.

——————–

„Anything‘s possible if you´ve got enough nerve.“ J.K. Rowling

Ljósmyndirnar sem eru með pistlinum er af almenbolig íbúðum í Danmörku, en almenna íbúðakerfið byggir á danska kerfinu.

 

Flokkar: Húsnæðismál

Sunnudagur 9.4.2017 - 09:22 - 1 ummæli

Viltu lækka blóðþrýstinginn?

Getur jákvætt viðhorf bætt heilsu okkar og lífsgæði, jafnvel þegar við erum að takast á við mjög erfiða sjúkdóma?  Það sýna æ fleiri rannsóknir skv. þessari grein í NYTimes.   Þannig getur jákvæðni hugsanlega leitt til lægri blóðþrýstings, færri tilvika af hjartasjúkdómum og betri stjórn á þyngd og blóðsykri.

Í greininni er einnig fullyrt að þótt fólk sé misjafnlega jákvætt að eðlisfari þá geta allir aukið jákvæðni sína með einföldum æfingum. Því er ráðlagt að læra að nota þrjár af neðangreindum leiðum dagsdaglega:

  • Þakkaðu fyrir eitt jákvætt atvik á hverjum degi.  (E. Recognize a positive event each day.)
  • Leyfðu þér að njóta þessa jákvæða atviks og skrifaðu það niður eða segðu einhverjum frá því. (E. Savor that event and log it in a journal or tell someone about it.)
  • Gerðu það að venju að skrifa í þakkardagbók á hverjum degi. (E. Start a daily gratitude journal.)
  • Listaðu persónulega hæfni og skráðu hvernig þú nýttir þennan hæfileika þinn. (E. List a personal strength and note how you used it.)
  • Settu þér markmið sem þú getur náð og skráðu hvernig þér gengur að ná markmiðinu. (E. Set an attainable goal and note your progress.)
  • Skráðu niður tiltölulega minniháttar álagspunkt eða stress og listaðu upp leiðir til að endurmeta það sem gerðist á jákvæðan máta. (E. Report a relatively minor stress and list ways to reappraise the event positively.)
  • Vendu þig á að gera lítil góðverk daglega (E. Recognize and practice small acts of kindness daily.)
  • Iðkaðu núvitund, þar sem þú einbeitir þér að núinu frekar en fortíðinni eða framtíðinni. (E. Practice mindfulness, focusing on the here and now rather than the past or future.)

Koma svo 🙂

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.4.2017 - 11:54 - Rita ummæli

Fjármálaáætlun 2018-2022: Loforð og áherslur.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartar framtíðar kynnti fjármálaáætlun sína fyrir árin 2018 til 2022 fyrir helgi.

Í skjalinu sem þingflokkar allra stjórnarflokka hafa samþykkt að leggja fram má finna öll þeirra helstu áform út kjörtímabilið og þá fjármuni sem hver og einn ráðherra hefur fengið í sína málaflokka.  Við síðustu framlagningu fjármálaáætlunar var það einmitt þarna sem ég þurfti að taka slag fyrir auknum framlögum í almannatryggingar.

…við misjafnlega mikla ánægju ýmissa.

Þess vegna sætir það nokkurri furðu hversu litla athygli nýja áætlunin hefur fengið.

Hér eru nokkur atriði sem hafa þó vakið athygli mína við fyrstu sýn.

Í fyrsta lagi er ekki komið að fullu til móts við kröfur háskólanna um auknar fjárveitingar.  Rektor HÍ hefur þegar bent á þetta.  Hins vegar hef ég ekki enn þá heyrt í framhaldsskólunum þar sem gert er ráð fyrir að fjárveitingar dragist saman ár frá ár, – ólíkt háskólunum þar sem fjárveitingar virðast aukast þótt það sé ekki jafn mikið og menn voru að vonast eftir.

Í öðru lagi er lítið, mjög lítið fjallað um húsnæðismálin í áætluninni og fjárveitingar munu dragast saman (bls 70).  Þannig virðist áætlunin endurspegla vel stjórnarsáttmálann.  Húsnæðisstuðningur á að dragast saman og stofnframlög til nýja leiguíbúðakerfisins sem ég samdi við verkalýðshreyfinguna um munu dragast saman verulega þegar líður á tímabilið.

Í þriðja lagi liggur fyrir tímasett áætlun um hækkun fæðingarorlofs í 600 þús. kr. á næstu þremur árum (bls 331).  Árið 2018 verða hámarksgreiðslur 520 þús. kr., 560 þús. kr. árið 2019 og 600 þús. kr. árið 2020.  Þakið er núna 500 þús. kr.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir miklum breytingum á bótakerfi öryrkja (bls 69)  Tekið verður upp starfsgetumat í stað læknisfræðilegs örorkumats.  Samhliða verður bótakerfið einfaldað þar sem bótaflokkar verði sameinaðir og útreikningar einfaldaðir.  Aukin áhersla verður á starfsendurhæfingu og að fólk geti verið lengur á endurhæfingarlífeyri.  Áhersla verður einnig á réttar greiðslur, bæði of- og vangreiðslur.  Áætluð gildistaka virðist vera 2019.  Gert er ráð fyrir 2,7 milljörðum kr. í breytingarnar það ár og svo 3,9 ma.kr   á ári þegar breytingarnar eru að fullu komnar til framkvæmda.

Í fimmta lagi er nefnt að ætlunin er að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) (bls 69).  Hins vegar fann ég ekkert um fjármögnun lögfestingarinnar né hversu margir samningarnir verða.  Að meðaltali var kostnaður ríkisins vegna staks NPA samnings árið 2014 rúmar 11 milljónir kr. að meðaltali.  Síðan þá hefur kostnaður aukist og kostnaðarþátttaka ríkisins farið úr því að vera 20% í 25%.  Í árslok 2014 voru 4.830 einstaklingar skráðir sem þjónustuþegar hjá Hagstofunni.  Þetta hlýtur að skýrast, – og svo er aldrei að vita nema sveitarfélögin bjóðist til að borga lögfestinguna?

Í sjötta lagi segir fjármálaáætlunin að helsta aðgerð stjórnvalda í fjölskyldumálum í baráttunni gegn fátækt verður heildarendurskoðun á stuðning við barnafjölskyldur.  Þannig verður hugsanlega til ein tegund barnabóta í stað almennra barnabóta, barnalífeyris almannatrygginga, mæðralauna, barnabóta atvinnuleysistryggingakerfisins auk annarra bóta frá ríki til barnafjölskyldna.

Svo má að lokum benda á grein Guðjóns Brjánssonar um heilbrigðismálin í Fréttablaðinu í morgun. Þar kemur fram að meginskýringin á auknum útgjöldum til heilbrigðismála er nýr Landspítali.  Lítið verður gert sem snýr að rekstri á næsta ári og óskýrt er hvort ríkisstjórnin ætlar að standa við loforð um lægra greiðsluþak sem var ein af forsendum afgreiðslu Alþingis á nýju greiðsluþátttökukerfi.

Hvet því sem flesta til að lesa þetta athyglisverða skjal í leit að loforðum og áherslum nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 31.3.2017 - 11:13 - Rita ummæli

Svik, blekkingar og lygar

Hvenær er í lagi að svíkja, blekkja og ljúga?   Er það í lagi þegar gróðavonin er 1000 krónur eða 1 milljón króna en ekki þegar það er 1 milljarður króna?

Er í lagi að halda fram hjá makanum, rispa bílinn í bílastæðinu við hliðina og láta ekki vita, að selja dóp til ungmenna eða gefa ekki upp leigutekjur, – af því að einhver annar sveik og blekkti þjóðina við kaup á banka?

Má ég af því að Ólafur Ólafsson mátti?

Mitt svar er nei.

Rétt skal vera rétt.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.3.2017 - 07:48 - Rita ummæli

Heimilin lækka skuldir sínar

Yfirdráttarlán heimila við fjármálafyrirtæki hafa lækkað stöðugt frá árinu 2012, þrátt fyrir á sama tíma hafi einkaneysla aukist, skv. Viðskiptablaðinu.  Þetta var sannarlega gleðifrétt.

Heimilin skulduðu 79,3 milljarða króna í yfirdráttarlán og greiðslukortaskuldir í janúar síðastliðnum og höfðu þau lækkað um rúmlega 25% frá því fyrir fimm árum síðan á föstu verðlagi.   Í lok síðasta árs nam árstíðabundin einkaneysla u.þ.b. 303,5 milljörðum króna, en frá lok árs 2012 hafði hún vaxið um 16,1% og var á svipuðum stað og um mitt ár 2007. Yfirdráttarlánin höfðu hins vegar ekki verið lægri síðan sumarið 2009.

Æ fleiri virðast þannig leggja áherslu á að eiga fyrir einkaneyslunni.  Að spara fyrir þvottavélinni og sumarfríinu í stað þess að setja allan pakkann á greiðslukort eða yfirdráttarlán.  Ég vona sannarlega að það sama muni gilda um fasteignina, að heimilin leggi áfram áherslu á að borga niður skuldir vegna kaupa á íbúðarhúsnæði, – og nýti til þess séreignasparnaðarleiðina og fyrstu fasteign.

Aðeins þannig getum við varist betur framtíðaráföllum og dregið samhliða úr líkum á að þau verði.

Munum að lán er ekki lukka.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.3.2017 - 11:26 - Rita ummæli

Lækkum vexti með takmörkun lána?

Íbúðalánasjóður bendir á áhugaverða norska leið til að draga úr eftirspurn á húsnæðismarkaði.  Reglugerð hafi verið breytt þannig að einstaklingar sem kaupa viðbótarhúsnæði í Ósló, umfram lögheimili sitt, verði sjálfir að leggja fram 40 prósent af kaupverðinu en ekki 30 prósent eins og áður var. Lánshlutfallið lækkar þar með úr 70 prósentum af kaupverði í 60 prósent.

Þetta er einnig hægt að gera hér á landi og þarf ekki lagabreytingu til, heldur aðeins reglugerð um leið og nýsamþykkt lög um fasteignalán til neytenda taka gildi þann 1. apríl nk.

Þar segir í 25. gr.:   „Fjármálaeftirlitinu er heimilt, að fengnu áliti fjármálastöðugleikaráðs, að ákveða í reglum hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána. Hámark veðsetningarhlutfalls í reglum settum skv. 1. mgr. getur numið 60–90% og getur verið mismunandi eftir tegundum lána og hópum neytenda. Í reglum settum skv. 1. mgr. skal heimilað aukið svigrúm við veitingu fasteignaláns til fjármögnunar kaupa á fyrstu fasteign.  Lánveitanda er óheimilt að veita fasteignalán til neytanda ef það leiðir til þess að veðsetningarhlutfall viðkomandi fasteignar fer yfir hámark í reglum settum skv. 1. mgr.“

Í fjármálastöðugleikaráðinu situr fjármálaráðherra, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og seðlabankastjóri.

Ákvæðið er hugsað sem þjóðhagsvarúðartæki sem Seðlabankinn hefur mjög kallað eftir til að styðja við peningastefnu bankans.

Með því að takmarka lánveitingar gæti skapast svigrúm til að lækka vexti.

Þetta gæti því komið betur út fyrir bæði þau heimili sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign og þá sem eiga fyrir fasteign.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 19.3.2017 - 15:48 - 1 ummæli

Íbúðaskortur og töfralausnir?

Árin 2018 / 2019 verða væntanlega árin sem byggingariðnaðurinn verður farinn að framleiða þann fjölda íbúða sem þarf til að mæta árlegri þörf markaðarins skv. áætlun Samtaka iðnaðarins.  Árin 2018/2019 eru einnig árin sem Bjarg íbúðafélag, nýtt leigufélag í eigu ASÍ og BSRB, áætlar að fyrstu leigjendurnir muni flytja inn í íbúðir þeirra.  Á sama tíma mun Félagsstofnun stúdenta og Háskólinn í Reykjavík taka í notkun fjölda nýrra stúdentaíbúðanna og það sama má væntanlega segja um Byggingafélag námsmanna.

En hvað með þangað til?

Í viðtali við Konráð Guðjónsson, sérfræðing hjá greiningardeild Arionbanka, bendir hann á að það sé engin töfralausn, engin augljós gallalaus lausn á húsnæðisvandanum nema að fjölga íbúðum.  Unga fólkið muni því áfram búa í heimahúsum, í bílskúrum og í iðnaðarhúsnæði þangað til, – og jafnvel þeim valkostum fer fækkandi eftir því sem eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði eykst einnig.

Á fésbókarsíðum Íslendinga er lausna hins vegar leitað.

Á nýlegum spjallþræði hjá Smára McCarthy, þingmanni Pírata, um leigjendamarkaðinn voru helstu tillögurnar þak á leiguverð, nýtt hagnaðarlaust leiguíbúðakerfi, lækkun skatta á langtímaleigu og bann á Airbnb.

Þak á leiguverð:  Þak á leiguverð myndi hjálpa þeim sem eru þegar í leiguíbúðum, en til lengri tíma litið getur þakið leitt til minna framboðs og að fleiri leigusalar myndu horfa til skammtímaleigu til ferðamanna.  Reynsla Dana af leiguþaki sýnir einnig mikilvægi þess að banna jafnframt uppsögn á leigusamningum ef aðeins er hægt að hækka leigu með nýjum leigusamningi.  Hér fjallar t.d the Economist um þak á leiguverð.  Svo má spyrja hversu miklar líkur eru á að ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins vilji banna hækkanir á leigu.

Nýtt verkamannabústaðakerfi:  Þetta er þegar orðið til.  Nýja hagnaðarlausa leiguíbúðakerfið byggir á lögum um almennar íbúðir frá síðasta vori og eru 3 milljarðar króna til úthlutunar í ár fyrir 18% stofnframlög ríkisins.  Sveitarfélög eiga að koma með 12% á móti.  Einnig er hægt að sækja um viðbótarframlag fyrir svæði þar sem skortur er á leiguhúsnæði, erfitt að fjármagna húsnæði og fyrir námsmenn og öryrkja.  Í fyrra var úthlutað í fyrsta sinn í kerfinu, m.a. til Bjargs íbúðafélags og Háskólans í Reykjavík vegna byggingar námsmannaíbúða við skólann.  Til að stofna leigufélagið þarf að lágmarki 1 milljón kr. í stofnfé og 15-20 manns í fulltrúaráð og stjórn félagsins.  Vonandi eru sem flestir hópar leigjenda að spyrja sig hvort þeir vilji stofna sitt eigið leigufélag.  Hér eru nánari upplýsingar. 

Lækkun skatta á langtímaleigu:  Hluti af samkomulagi við Alþýðusambandið um húsnæðismál var lækkun skatta á langtímaleigu ef um einstaklinga er að ræða.  Skatturinn er því núna 10%.  Þegar reiknuð er skattlagning og gjöld á skammtímaleigu til ferðamanna og langtímaleigu þá kemur langtímaleiga betur út fyrir leigusalann.  Þrátt fyrir þetta var 169% aukning á útleigu til ferðamanna.  Af hverju er það?

Bann á Airbnb:  Víða um heim í vinsælum ferðamannaborgum hafa menn brugðist við mikilli aukningu á íbúðum í skammtímaleigu til ferðamanna.  Nýlega steig bæjarstjóri Kópavogs fram og lagði til tímabundið bann á útleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna.  Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar taldi að krefja ætti Airbnb að afhenda yfirvöldum upplýsingar um þá sem eru að leigja út íbúðir en að öðrum kosti banna starfsemi þeirra.  Viðbrögð viðskiptaráðherra og umhverfisráðherra við ummælum Gríms gáfu ekki til kynna að ráðherrarnir væru áhugasamir um bann á Airbnb.  Kannski getur Airbnb gert það sama fyrir okkur og þeir gerðu í London?

Hvað með aðrar lausnir? Hvað með þá sem vilja eiga eigið húsnæði, – ekki leigja.

Hverjar eru töfralausnirnar fyrir þau heimili?

Flokkar: Húsnæðismál · Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur