Miðvikudagur 5.9.2012 - 09:03 - 8 ummæli

„Nú getum við.“

Ragnheiði Elínu Árnadóttur hefur verið skipt út fyrir Illuga Gunnarsson sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Og ég er hugsi.

Við Ragnheiður Elín höfum verið ósammála í stórum málum. Hún er mjög ákveðin, og ekki allra – svo sem ekki frekar en ég.

En hún er hörkudugleg, vel gefin og leiðtogi í Suðurkjördæmi.  Í kosningunum 2009 náði hún næstbesta árangri Sjálfstæðismanna með 26,2% (aðeins Kraginn kom betur út) og samkvæmt skoðanakönnunum mun hún bæta verulega við sig í Suðurkjördæmi næst (fá væntanlega jafn mikið og Kraginn ef ekki meira).

Ástæða þess að ég er hugsi er ekki að ég telji ekki að Illugi verði flottur þingflokksformaður, heldur hvaða skilaboð þetta eru almennt til kvenna.

Ragnheiður Elín fékk traust til að leiða Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi í krísu.  Þegar karlarnir voru búnir að klúðra hlutunum svo algjörlega að það varð að hleypa konu að.

Hún varð þingflokksformaður þegar Illugi vék af þingi á meðan mál Sjóðs 9 voru í rannsókn.

Nú er hann kominn aftur og konan víkur.

Er þetta kannski bara reglan?  Konur fá séns þegar eldar loga alls staðar, – en svo þegar búið er að slökkva þá geta karlarnir tekið aftur við?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.8.2012 - 20:42 - 4 ummæli

Af hverju, Ögmundur?

Í kvöldfréttum sagði að Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra og fv. formaður BSRB, hefði gerst brotlegur við jafnréttislög við ráðningu sýslumanns á Húsavík.  Hann segir niðurstöðu sína vera rétta, og að huglægt mat hafi ráðið för.

Eftir sit ég og hugsa af hverju, Ögmundur?

Eru konur verri í að skera niður en karlar?  Eru  konur síðri í að stjórna starfsmönnum?

Af hverju?

Hann hlýtur að þurfa að skýra mál sitt betur.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.8.2012 - 18:13 - 4 ummæli

Vinstri Grænir og ESB

Vinstri Grænir vilja endurskoða aðildarumsóknina í ljósi þess að ferlinu verður ekki lokið fyrir kosningar.

Þetta hlýtur að þýða að ef Vigdís Hauksdóttir leggur aftur fram tillögu sína um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB umsóknina að Vinstri Grænir muni og þar með talið Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir styðja hana.

Allavega ef þau meina eitthvað með þessu…?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.7.2012 - 13:34 - 3 ummæli

Að gera ekki neitt

Slæmir hlutir gerast þegar gott fólk gerir ekki neitt.  Þessi orð komu upp í hugann eftir að ég las grein Arnar Gunnarssonar, formanns afrekssviðs ÍA á vefsíðunni fotbolti.net, þar sem hann fjallaði um málefni fótboltamannsins Mark Doninger sem spilaði áður með ÍA og nú með Stjörnunni.

Þar færir hann rök fyrir því að ástæðulaust sé fyrir íþróttafélag að grípa til aðgerða gegn hinum unga fótboltamanni þrátt fyrir að hans bíði hugsanlega dómur vegna tveggja líkamsárása gegn fyrrum kærustu sinni.  Þrátt fyrir að hann hafi þegar hlotið dóm vegna annarrar líkamsárásar, sem Örn gleymir þó af einhverri ástæðu að nefna í grein sinni.

Örn telur að íþróttafélag geti ekki fordæmt hegðun einstaklings né veitt samþykki sitt fyrir henni.  Gæta þurfi að mannréttindum þeirra ekki hvað síst er varðar rétt til atvinnu og réttlátrar málsmeðferðar og mikilvægt sé að styðja við íþróttamenn sem „lenda“ í þess háttar vanda.

Á endanum klikkir hann út með því að segja að íþróttahreyfingin sýni einmitt gott fordæmi með því að hjálpa viðkomandi einstaklingum og sleggjudómar megi ekki vera hluti af þeim skilaboðum sem hún tekur þátt í.

Gott fordæmi?

Þetta rifjaði upp gamlar óþægilegar minningar þar sem manneskja sem mér þótti vænt um þurfti að upplifa sambærilega hluti af hendi knattspyrnumanns.

Hversu jákvætt það þótti hversu aðgangsharður hann var í vörninni, kannski á grundvelli ofbeldishneigðar sinnar. Hversu mikill glamúr var yfir þessum pilti, alveg þar til vinkona mín fór ítrekað „að ganga á veggi“.  Hversu spennandi hann þótti í ljósi hæfileika sinna á knattspyrnuvellinum, alveg þar til hann sat af sér sinn fyrsta fangelsisdóm af mörgum.

Áfram hélt hann þó að spila fótbolta.

Hefði það breytt einhverju að hafa samband við íþróttafélagið? Miðað við skrif Arnar Gunnarssonar tuttugu árum seinna, virðist svarið vera nei.

Á þessum tuttugu árum virðist þó eitthvað hafa breyst.  Á vefsíðum bæði ÍA og Stjörnunnar má nú finna siðareglur félaganna sem samþykktar voru í fyrra.

Í kaflanum um eldri iðkendur má finna ákvæði um hvernig bæði eldri iðkendur og stjórnarmenn skuli haga sér innan íþróttahreyfingarinnar.  Eldri iðkendur skulu ávallt vera til fyrirmyndar varðandi framkomu, jafnt utan vallar sem innan og hafa hugfast að þeir eru fyrirmynd yngri iðkenda.  Þeir skulu aldrei samþykkja né sýna ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði.  Um stjórnarmenn segir að þeir skulu standa vörð um anda og gildi félagsins og sjá um að hvort tveggja lifi áfram meðal félagsmanna og þeir skulu taka alvarlega ábyrgð sína gagnvart félaginu og iðkendum.

Ekkert segir hins vegar um hvað gerist ef menn brjóta siðareglurnar, því væntanlega telst það að fá dóm fyrir líkamsárás að hafa sýnt ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði eða hvað?

Skilaboð samfélagsins

Við getum breytt þessu.  Skilaboð samfélagsins, skilaboð íþróttahreyfingarinnar sjálfrar, skilaboð hvers og eins skipta máli.  Við getum öll sagt hingað og ekki lengra.  Þessi hegðun er ekki ásættanleg, er ekki íþróttamannsleg og við viljum hana ekki.

Ekki í íþróttahreyfingunni, ekki í samfélaginu.

Gott dæmi um þetta er forvarnarhópur ÍBV. Eftir síðustu Þjóðhátíð var samfélagið allt enn á ný í áfalli eftir fjölda tilkynninga um nauðganir og margir veltu fyrir sér hvað væri hægt að gera.  Forsvarsmenn ÍBV fengu á sig mikla gagnrýni og kröfur voru á lofti um að leggja Þjóðhátíðina af.

Nokkrir frábærir einstaklingar ákváðu svo að gera eitthvað og tryggja að ofbeldismenn myndu ekki fá neitt skjól í þögn eða aðgerðaleysi íþróttahreyfingarinnar eða samfélagsins.  Verkefnið heitir Bleiki fíllinn. Bleiki fílinn er táknmynd þessa aðgerðaleysis, vanmáttar, þöggunar og kannski „sleggjudómsleysis“ okkar allra þegar við bregðumst ekki við ofbeldi.

Talsmaður hópsins orðaði þetta vel í viðtali: „Bleiki fílinn stendur náttúrulega fyrir frasann góðkunna um vandamál sem má ekki tala um, vandamál sem er lokað á. Þetta er samfélagslegt vandamál sem þarf að berjast gegn.  Auðvitað gerist þetta ekki bara á Þjóðhátíð en einhvers staðar verður maður að byrja.“

Ábyrgðin er ekki okkar á ofbeldinu, en við berum ábyrgð á aðgerðaleysi okkar, þögguninni, með því að bregðast ekki við eða jafnvel réttlæta tilvist bleika fílsins.

Hættum að vernda ofbeldismenn.

(Birtist fyrst í DV 30. júlí 2012)

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.7.2012 - 12:05 - Rita ummæli

Ég fíla samþykki

Það styttist í Þjóðhátíð okkar Eyjamanna.  Eftir síðustu Þjóðhátíð var samfélagið enn á ný í áfalli eftir fjölda tilkynninga um nauðganir og margir veltu fyrir sér hvað væri hægt að gera.

Ábyrgðin væri ætíð ofbeldismannanna, – en við hlytum að geta gert eitthvað til að gera þeim grein fyrir að þetta væri ekki liðið. Að við yrðum að gæta að vinum, félögum og gestum. Að við yrðum að tryggja að ofbeldismenn myndu ekki fá neitt skjól hjá okkur.

Nokkrir frábærir einstaklingar ákváðum svo að gera eitthvað.  Jóhanna Ýr Jónsdóttir, Birkir Thor Högnason og fleira gott fólk stofnuðu forvarnahóp ÍBV og ætla að beita sér af krafti á Þjóðhátíð með aðstoð okkar allra.

Einkennismerki hópsins er bleikur fíll sem táknar aðgerðaleysi og vanmátt samfélagsins til þess að bregðast við nauðgunarbrotum.

Markmiðið er að útrýma fílnum.

Í staðinn veljum við að segja að „Ég fíla samþykki“. Að það sé ekkert sem heitir þögult samþykki við kynlífi. Hópurinn ætlar að dreifa bolum, límmiðum og plakötum auk þess sem skilaboð munu birtast á milli atriða á stóra sviðinu á Þjóðhátíð.

Fjöldi vinnustaða í Eyjum hefur ákveðið að taka þátt með því að starfsfólk þeirra klæðist bolum með þessum skilaboðum og má þar nefna 900 Grillhús, Kakadú, Einsa Kalda og Herjólf.

Tökum höndum saman með forvarnahóp ÍBV og sendum skýr skilaboð.

Að við munum ekki líða nauðganir á Þjóðhátíðinni okkar.

PS. Hvet ég fólk til að like-a síðuna þeirra á Facebook, kaupa bolina þeirra og takast á við bleika fílinn! Bolina er hægt að kaupa á 1000 kr. með því að senda póst á johanna@yr.is og birkir.hognason@gmail.com eða með því að senda skilaboð á Facebook.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.7.2012 - 12:59 - 1 ummæli

Um lýðræði og samvinnu ’48

Góður félagi sendi mér nokkrar ályktanir frá þingi Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF) árið 1948.

Þær hljóma ágætlega í mín eyru árið 2012.

„Fjórða þing Sambands ungra Framsóknarmanna lýsir yfir því, að það telur höfuðnauðsyn að efla lýðræðið og treysta máttarstoðir þess svo sem verða má, svo sem rétt þegnanna til hugsanafrelsis, félagafrelsis, menntunar, atvinnu og lífsframfærslu og leggja áherzlu á skyldu þeirra til þess að inna af hendi hver þau þjóðnytjastörf, sem að kalla hverju sinni, og hlýðnast lögum og stjórnarskrá landsins.

Sambandsþingið telur, að andi þessarar stefnuskrár náist bezt á grundvelli samvinnustefnunnar þar sem hún sameinar ábyrga og réttmæta hluttöku einstaklingsins í stjórn og árði fyrirtækja og framleiðslu og fyrirbyggir óeðlilegt vald og gróða einstakra manna. Telur þingið höfuðskilyrði fyrir almennri velmegun og eðlilegum viðgangi atvinnuveganna, að þáttur samvinnunnar í verzlunarmálum og atvinnulífi þjóðarinnar verði efldur sem mest, og nái til sem flestra sviða þjóðlífsins.

Þinginu er ljóst að jöfnuður og gagnkvæmur skilningur og traust milli stétta og héraða er skilyrði vinnufriðar og samstarfs í landinu, en til þess að svo geti orðið er óhjákvæmilegt að afnema stórgróða og forréttindi einstakra manna og stétta og að jafna stjórnarfarslega og fjárhagslega aðstöðu hinna ýmsu landshluta og Reykjavíkur.“

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 11.7.2012 - 12:00 - 7 ummæli

Framsókn og skuldirnar

Íslensk heimili eru meðal þeirra skuldsettustu í heimi.  Því hefur eitt helsta baráttumál framsóknarmanna á þessu kjörtímabili verið að takast á við skuldavanda heimilanna, fara í almennar leiðréttingar á stökkbreyttum skuldum heimilanna og afnema verðtrygginguna í skrefum.

Almennar aðgerðir
Ólíkt flestum öðrum stjórnmálaflokkum töldum við mesta réttlætið liggja í almennum aðgerðum. Allir myndu sitja við sama borð og samskonar lán fengju sömu niðurfærsluna.  Þeir sem teldu sig ekki þurfa niðurfærsluna gætu hafnað henni og íslenska ríkið myndi nota skattkerfið til að jafna stöðu manna á grundvelli eigna og tekna.

Við höfum, aftur og aftur, lagt fram tillögur þessa efnis í þinginu.  Eftir að stjórnvöldum tókst að klúðra einstöku tækifæri til almennra leiðréttinga við uppgjör milli nýju og gömlu bankanna höfum við bent á aðrar leiðir á borð við skattlagningu á séreignasparnaði og skattafslætti til skuldsettra heimila, nú síðast með framlagningu þingmáls um aðgerðir í efnahagsmálum.

Um leið og tekið væri á núverandi skuldavanda töldum við nauðsynlegt að huga að nýju og betra húsnæðislánakerfi fyrir heimili landsins.

Afnám verðtryggingar
Undanfarna áratugi hafa íslensk heimili hlotið þann vafasama heiður að bera ein ábyrgð á efnahagslegri óstjórn og verðbólgu með því að bera nær allan kostnað af verðtryggingunni. Skuldir heimilanna hafa þannig aukist stjórnlaust og þessu viljum við breyta.

Flestir virðast sammála okkur í orði, ef marka má yfirlýsingar stjórnmálamanna. Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að draga eigi úr vægi verðtryggingar og stjórnarandstaðan hefur meira og minna tekið undir þessi markmið stjórnarflokkanna.  Miklar vonir voru bundnar við vinnu efnahags- og viðskiptanefndar á síðasta þingi við að leita leiða til að afnema verðtrygginguna frekar í skrefum en hver varð niðurstaðan?

Ekki náðist samstaða í nefndinni. Ekki um eina einustu tillögu.

Því lögðum við framsóknarmenn aftur fram frumvarp okkar um að strax skyldi setja 4% þak á verðtryggingu lána til almennings í kjölfarið yrði unnið að því að afnema hana til frambúðar.

Þar lögðum við einnig til að neytendum yrði heimilt að breyta verðtryggðu láni í óverðtryggt lán.  Lánveitanda yrði óheimilt að krefjast greiðslu lántökukostnaðar, innborgunar á höfuðstól eða lægra veðhlutfalls við breytinguna.

Á sínum tíma var verðtryggingin viðbragð við almennri óstjórn í efnahagsmálum, en hún var aðeins plástur. Hún tók ekki á vandamálinu sjálfu, efnahagsstjórninni. Margt bendir til að verðtryggingin auki jafnvel á vandann við efnahagsstjórnina. Hún geri stjórn efnahagsmála erfiðari og flóknari og geri stýrivexti nær gagnslausa til að koma böndum á verðbólguna. Einnig hefur samspil verðbólgu og verðtryggingar lítið verið rannsakað.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa bent á að hugsanlega sé verðtryggingin hreinlega olía á eld verðbólgunnar, þar sem verðbætur blási út efnahagsreikning bankanna. Verðbólga mælir fjármagn í umferð og þegar hún hækkar, hækka verðbætur sem bankarnir fá á útlánin sín og í kjölfarið aukast þeir peningar sem þeir geta lánað út aftur. Þannig myndist vítahringur sem nær ómögulegt sé að komast út úr við óbreytt ástand.

Til að bregðast við þessu lögðum við til aðgerðir til að lækka vaxtakostnað heimilanna og ná stjórn á verðbólgunni með bættri efnahagsstjórnun. Það viljum við t.d. gera með reglum um verðtryggingajöfnuð, hámark veðhlutfalla, lengd lánstíma, upptöku þjóðhagsvarúðartækja og endurskoðun á ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna.

Ekki má efast um mikilvægi þess að ná tökum á verðbólgunni og draga úr vaxtakostnaði heimilanna.  Án efa væri það besta leiðin til að ná fram loforði okkar framsóknarmanna um almennar aðgerðir til handa skuldsettum heimilum enda benti sérfræðingahópur um skuldavanda heimilanna á að lækkun á raunvöxtum niður í 3% væri á við 20% lækkun höfuðstóls lána.

Nýtt húsnæðislánakerfi
Í tillögum meirihluta verðtrygginganefndarinnar undir forystu okkar framsóknarmanna var lagt til að innleitt yrði óverðtryggt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd.  Í nýju kerfi yrðu boðin óverðtryggð húsnæðislán með endurskoðunarákvæðum í stað verðtryggðra jafngreiðslulána.  Lánastofnanir hafa þegar hafið að bjóða þess háttar lán og Alþingi hefur veitt Íbúðalánasjóði lagaheimild til þess að bjóða lán á þessum kjörum. Frekari lagasetning er þó þörf, m.a. til að auðvelda fólki að færa sig yfir í óverðtryggðu lánin og þar hafa framsóknarmenn lagt fram ítarlegar tillögur sem enn bíða samþykkis þingsins.

Skuldavandi heimilanna er stærsti vandinn sem íslensk samfélag stendur frammi fyrir. Forgangsmál okkar framsóknarmanna hefur alltaf verið að takast á við hann. Fyrir því höfum við barist og fyrir því munum við halda áfram að berjast.

(Birtist fyrst í DV 11. júlí 2012)

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.7.2012 - 12:44 - 3 ummæli

Auðlindstefna Framsóknar

Þann 22. júní sl. var haldið málþing um auðlindastefnu á vegum forsætisráðuneyti.  Þingflokkum var boðið að senda fulltrúa til að kynna stefnu viðkomandi stjórnmálaflokka og flutti ég við það tækifæri eftirfarandi ræðu um auðlinda- og umhverfisstefnu Framsóknarflokksins:

Fundarstjóri, ágætu gestir.

Ég þakka fyrir tækifærið að fá að ræða um afstöðu Framsóknarflokksins til auðlindamála.

Í grunnstefnuskrá Framsóknarflokksins segir að framsóknarmenn vilji skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaði ekki hagsmuni komandi kynslóða, auk þess sem allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta íslenskri stjórn. Því hafa Framsóknarmenn lengi talað fyrir því að auðlindaákvæði verði sett í stjórnarskrá og að lögfest verði eins og kostur er hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru. Það var áherslumál í ríkisstjórnarsamstarfi Framsóknarflokksins við Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1995-2007.  Því miður náðist ekki niðurstaða um það þrátt fyrir mikil átök fyrir kosningar 2007.

Því flutti þingflokkur framsóknarmanna tillögu þess efnis á Alþingi árið 2007. Lagt var til að auðlindaákvæðið væri svohljóðandi: „Náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ríkið fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.  Náttúruauðlindir og landréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila.  Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.  Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.  Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.“

Tillagan var endurflutt á 136. löggjafarþingi af þingflokki Framsóknarmanna auk þess sem þingflokkurinn studdi frumvarp til stjórnskipunarlaga sem flutt var af forystumönnum allra flokka á Alþingi fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn fyrir kosningar 2009.  Þar mátti finna nokkuð samhljóða ákvæði um auðlindir í þjóðareign og þingflokkur framsóknarmanna hafði lagt til.

Á flokksþingi framsóknarmanna árið 2011 var svo samþykkt ný auðlinda- og umhverfisstefna. Hún grundvallast á þeirri hugsun að nýting náttúruauðlinda og afrakstur þeirra sé í höndum samfélagsins og skuli stjórnast af heildarhagsmunum landsmanna til lengri tíma.  Allir landsmenn skuli njóta sanngjarns arðs af sameiginlegum auðlindum og þær verði að nýta af varúð og virðingu, með sjálfbærni að leiðarljósi.

Í henni má finna nokkur atriði sem ég vil nefna sérstaklega.

Í fyrsta lagi er lagt til að auðlindagjald verði lagt á nýtingu náttúruauðlinda og það geti verið breytilegt eftir auðlindum.

Í öðru lagi var stigið stórt skref með því að leggja til að virkjanir stærri en 5 MW skuli vera í eigu orkufyrirtækja sem eru í eign ríkis eða sveitarfélaga, að a.m.k. 2/3 hlutum.

Í þriðja lagi að kanna ætti af alvöru hvort lagning sæstrengs sem tengist orkumarkaði Evrópu sé hagkvæm með útflutning raforku í huga.

Í fjórða lagi nauðsyn þess að auka langtímasýn með stefnumörkun um landnotkun. Tryggja verði samhliða að ekki verði gengið á sjálfstæði sveitarfélaga og að skipulagsvaldið verði áfram á sveitarstjórnarstiginu.

Í fimmta lagi þurfi að gæta að almannarétti til umgengni um landið og að réttur til hóflegrar nýtingar sé ríkur.  Náttúruvernd á aðeins í undantekningartilvikum að útiloka fólk frá aðgengi.

Að lokum vil ég nefna mikilvægi þess að við samþykkt rammaáætlunar frá Alþingi verði horft til niðurstöðu faghópa um virkjanakosti, en ekki pólitískrar afstöðu einstakra stjórnmálaflokka.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.7.2012 - 12:47 - 11 ummæli

Að deila með sér

Kjarninn í samvinnuhugsjóninni er að við erum miklu sterkari þegar við vinnum saman, frekar en sitt í hvoru lagi, að menn eigi að deila með öðrum og gefa af sér.

Því tóku menn sig saman og stofnuðu kaupfélög, framleiðslufélög og sparisjóði.  Menn keyptu saman vinnuvélar og nýttu þær saman í sveitum landsins. Vinkona mín rifjaði eitt sinn upp hvernig fólk tók sig saman og byggði húsalengju hér í Eyjum.  Píparinn hjálpaði til við lagnir í öðrum húsum, á meðan aðrir hjálpuðu honum við steypuvinnu eða innréttingar.

Sama hugmyndafræði er að baki heimilisskiptum.  Þar deila menn með sér, treysta öðru fólki og fá tilbaka traust.  Við hjónin höfum tvisvar farið í heimilisskipti og notið lífsins í boði ókunnugs fólks.  Önnur fjölskyldan sendi okkur bíllykilinn sinn í pósti og svo heilsuðumst við sitthvoru megin við glerið á Standstead flugvelli.

Þau á leið til Íslands og við á leið til frönsku Alpanna.

Önnur útgáfa er couch-surfing þar sem fólk lánar sófann sinn.

Deilir með öðrum.

Samvinna.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.7.2012 - 12:15 - 4 ummæli

Þjóðarvilji ráði för

Þjóðin hefur kosið sér forseta. Ein sterkustu skilaboð kosninganna að mati Ólafs Ragnars Grímssonar voru sú lýðræðislega krafa fólksins í landinu að vilji þess ráði för. Ekki vilji ákveðinna stjórnmálaafla eða einstakra stjórnmálaleiðtoga, heldur vilji meirihluta þjóðarinnar þegar kemur að töku ákvarðana í mikilvægum málum.

Í haust mun þjóðin geta sent stjórnmálamönnum skýr skilaboð um breytingar á stjórnarskrá landsins. Þar verður spurt um hvort rétt sé að auka vægi beins lýðræðis, auka persónukjör, jafna vægi atkvæða, setja ákvæði um þjóðareign á auðlindum og hvort við viljum áfram hafa þjóðkirkju.

Samvinnu- og framsóknarmenn hafa lengi talað fyrir auknu beinu lýðræði og þjóðfélagi þar sem ákvörðunarrétturinn byggir á virku lýðræði, ekki aðeins kosningum til löggjafarþings og sveitarstjórna heldur og í fyrirtækjum, hagsmunasamtökum og skólum. Þetta endurspeglast m.a. í grunnstefnuskrá og kosningastefnuskrá 2009 um að heimildir til þjóðaratkvæðagreiðslu verði auknar og oftar leitað beint til þjóðarinnar.

Við viljum ákvæði um auðlindir í þjóðareign í stjórnarskrá. Það var áherslumál í ríkisstjórnarsamstarfi Framsóknarflokksins við Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1995-2007 og í þrígang hafa forystumenn flokksins lagt fram tillögu þess efnis á Alþingi án þess að hún hafi hlotið afgreiðslu.

Í forsetakosningunum kom forsetinn ítrekað inn á hversu lítið traust Alþingi hefur og nauðsyn þess að endurreisa trú fólks á stofnuninni sem hornsteini lýðræðis. Stór hluti af því er að auka áhrif kjósenda á val á kjörnum fulltrúum. Því ályktaði flokksþing Framsóknarmanna árið 2011 að flokkurinn væri hlynntur persónukjöri og teldi rétt að vægi atkvæða yrði jafnað eins og kostur er. Jafnframt höfnuðum við alfarið að landið yrði gert að einu kjördæmi. Samhliða þyrfti að tryggja valddreifingu og jafnræði til búsetu með ákvæði í stjórnarskrá sbr. grunnstefnu Framsóknarmanna.

Framsóknarmenn vilja áfram að ákvæði verði um þjóðkirkju á Íslandi og að stutt verði við öflugt starf þjóðkirkjunnar sem og annarra trúfélaga.

Eflaust mun þjóðin vera okkur ósammála í einhverjum þessara efna. En líkt og niðurstöður forsetakosninganna minna okkur á, þá á þjóðin að hafa æðsta ákvörðunarvaldið og við sem kjörnir fulltrúar að vinna í umboði hennar.

Því megum við aldrei gleyma.

(Greinin birtist fyrst í FBL 4. júlí 2012)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur