Miðvikudagur 15.2.2012 - 17:05 - 15 ummæli

Dómur Hæstaréttar um endurútreikning lána

Dómur um endurútreikning gengistryggðu lánanna féll í dag. Hæstiréttur segir að greiðslutilkynningar og fyrirvaralaus móttaka greiðslu jafngildi fullnaðarkvittun.  Hann segir að sá vaxtamunurinn sem varð vegna hinna ólögmætu gengistryggðu lána verði lánveitandinn að bera.  Öll leiðrétting verði að vera til framtíðar. Ekki sé hægt með almennum lögum að hrófla með afturvirkum hætti þessum réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt.

Á þetta bentu umboðsmaður skuldara og Ása Ólafsdóttir fyrir efnahags- og skattanefnd þegar verið var að vinna lög nr. 151/2010.  Undir þetta tók ég í ræðu á Alþingi (þann 18. des. 2010 kl. 00:43) að í túlkun efnahags- og viðskíptaráðherra á dómum Hæstaréttar fælist afturvirkni til skaða fyrir þann sem minni máttar var í þessum málum, lántakinn.

„Síðan velti ég upp spurningum varðandi afturvirknina sem mér finnst liggja í niðurstöðu Hæstaréttar. Það á eflaust eftir að reyna á úrskurð Hæstaréttar í vaxtaágreiningnum, hvort sú niðurstaða, sem að mínu mati er afturvirk og var til skaða fyrir þann sem er minni máttar í málinu, varðar líka, eins og var bent á í umsögnum, við alþjóðleg mannréttindaákvæði og það sem greina má í ákvæðum í okkar eigin stjórnarskrá, þ.e. að ekki eigi að beita afturvirkri löggjöf til skaða fyrir þann sem verður nema einhverjar bætur komi í staðinn.“

Enginn vilji var til að bíða með málið.  Enginn vilji var til að fá frekari skýringar á dómum Hæstaréttar.  Enginn vilji var til að hlusta á miklar athugasemdir umsagnaraðila. Enginn vilji var til að vera viss um að það væri skýrt hvernig ætti að túlka þessa sérreglu eða reikna skv. þessum lögum.

Á þessu máli bera fv. efnahags- og viðskiptaráðherra, ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis fulla ábyrgð.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.2.2012 - 09:32 - 64 ummæli

Réttur Snorra til rangra skoðana?

Ég hef hikað við að tjá mig um orð Snorra Óskarssonar og viðbrögð bæjaryfirvalda á Akureyri við þeim.  Ástæðan er ekki að ég hafi ekki skoðanir á þeim, heldur vegna þess hversu eldfimt þetta mál er.  Ég hef verið hrædd við að skoðanir mínir séu hugsanlega ekki í samræmi við pólitískan rétttrúnað.

Ég er nefnilega ósammála bæði Snorra og bæjaryfirvöldum á Akureyri. Ég tel samkynhneigð ekki vera synd, ekki frekar en að vera með stór eyru eða stuðningsmaður L-listans.  Ég velti hins vegar fyrir mér hvort trú kennara og skoðanir þeirra eigi að vera tilefni til brottrekstrar.

Hlýtur ekki eitthvað meira að þurfa að koma til?

Inn í þetta mál blandast réttur okkar til að vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.  Það snertir einnig rétt okkar til að trúa og að trú okkar verði ekki til að við missum af borgaralegum og þjóðlegum réttindum sbr. 64. gr. stjórnarskrárinnar.  Í 74. gr. segir jafnframt að allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.  Hver maður á rétt að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi.  Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má ekki aldrei í lög leiða.  Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggi ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Hvar liggja mörkin?  Er nóg að hafa sagt eitthvað, tjáð sig á bloggsíðu eða Facebook, nýtt sér tjáningarfrelsið og trúfrelsið til að missa starfið?  Eða ætti maður ekki að þurfa gera eitthvað í starfi sem brýtur á réttindum eða mannorði annarra?

Einn af frambjóðendum til biskups vill ekki vígja samkynhneigða og hefur lýst því opinberlega yfir.  Er ekki ástæða til þess að víkja honum úr starfi?  Kennari í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu lýsir ítrekað yfir andúð sinni á feminístum og kvenfrelsisbaráttunni.  Er ekki rétt að vísa honum líka úr starfi? Hvað með þá sem lýsa yfir andúð sinni á börnum fæddum utan hjónabands eða þeim sem eru fráskildir? Eða Framsóknarmönnum?

Ég vil nefnilega standa vörð um mannréttindi, ekki bara sumra heldur líka þeirra sem ég er ósammála.

Rétt fólks að hafa skoðanir, rétt fólks til tjáningar og rétt fólks til að trúa.

Meira að segja tómri vitleysu.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.2.2012 - 12:17 - 6 ummæli

Hálfleikur, líka á Íslandi

Ein magnaðasta auglýsing sem ég hef séð er Clint Eastwood auglýsingin Hálfleikur.

Er ekki ansi auðvelt að yfirfæra hana líka á okkur Íslendinga og spyrja hvernig viljum við að okkar seinni hálfleikur verði?

(Mín þýðing á textanum:

Það er hálfleikur.  Bæði liðin eru í búningsherbergjunum og ræða hvað þau þurfa að gera til að vinna leikinn í seinni hálfleik.

Það er líka hálfleikur í Ameríku.  Fólk er án vinnu og á í erfiðleikum.  Og allir eru að velta fyrir sér hvað þeir þurfa að gera til að snúa leiknum sér í hag.  Og við erum öll hrædd, vegna þess að þetta er ekki leikur.  Fólkið í Detroit þekkir þetta.  Það tapaði næstum því öllu.  En við náðum að snúa hlutunum við, nú er Bílaborgin risin upp á ný.

Ég hef farið í gegnum erfiðleika, farið niður á við í mínu lífi.  Og á stundum skildum við ekki hvort annað.  Stundum virtist eins og við hefðum tapað samkenndinni.  Þegar þoka ágreinings, átaka og ásakana gerði okkur erfitt að sjá það sem lá framundan.

En eftir alla þessa erfiðleika tókum við höndum saman um það sem var rétt og stóðum saman sem ein heild.  Því það er það sem við gerum.  Við fundum leið í gegnum erfiðleikana og ef við gátum ekki fundið leiðina, þá bjuggum við hana til.

Allt það sem máli skiptir er það sem framundan er.  Hvernig getum við komið okkur yfir í leiknum, þrátt fyrir að vera núna undir?  Hvernig getum við spilað saman?  Og hvernig getum við unnið?

Detroit sýndi okkur hvernig þetta er hægt. Og það sem á við um Detroit á við um hvert og eitt okkar.

Þetta land verður ekki ekki rotað með einu höggi.  Við stöndum strax aftur upp og þegar við gerum það mun heimurinn heyra öskur véla okkar.

Jamm, það er hálfleikur Ameríka.  Og seinni hálfleikur okkar er rétt að byrja. )

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.2.2012 - 10:17 - 2 ummæli

Hlustað á reiðina?

Góð kona, traust og heiðarleg sagði við mig  nýlega að hún væri reið.  Hún væri reið yfir óréttlætinu, ábyrgðarleysinu, – að þeir sem hún hefði treyst væri sama um velferð hennar.

Hún er ekki ein.

Fréttablaðið birtir nýja skoðanakönnun sem endurspeglar vel þessa reiði.  Þessa tilfinningu fólks fyrir óréttlætinu.

Þar kemur fram að 21, 3% segjast vilja styðja Samstöðu, nýjan flokk Lilju Mósesdóttur.  Ný framboð nefna tæplega 30%.  Fjöldi óákveðinna er enn þá töluverður. Fólk sem tvístígur enn, veltir fyrir sér hvort það vilji almennt kjósa.

Veltir fyrir sér hvort einhver sé að hlusta.

Alþingismenn, ráðherrar, bankastjórar, lífeyrissjóðsforkólfar, verkalýðsleiðtogar, forystumenn atvinnurekenda…

Eftir logninu á undan storminum?

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.2.2012 - 11:39 - 6 ummæli

Tillaga um rannsókn á lífeyrissjóðunum

Ég hef unnið tillögu að þingsályktun um rannsókn á lífeyrissjóðunum frá 1997 til dagsins í dag, sem er svohljóðandi:

Tillaga að þingsályktun um rannsókn á lífeyrissjóðunum frá 1997 til 2011

Alþingi ályktar, í samræmi við lög um rannsóknarnefndir (68/2011), að skipa þriggja manna rannsóknarnefnd er rannsaki starfsemi lífeyrissjóðanna frá 1997 til 2011.

Rannsóknarnefndin skal varpa sem skýrustu ljósi á starfsemi lífeyrissjóðanna á þessu tímabili: þ.m.t. fjárfestingarstefnu, stjórnun, stefnumótun, ákvarðanatöku, áhættumat, endurskoðun, eftirlit, markaðsáhrif, tryggingafræðilega stöðu og tengsl við atvinnulífið, verkalýðshreyfinguna og stjórnmálamenn.

Nefndin beri saman laga- og starfsumhverfi íslenska lífeyrissjóðakerfisins við lífeyrissjóði í nágrannalöndunum og leggi fram tillögur til úrbóta, þ.m.t. laga- og reglugerðarbreytingar.

Lagt verði mat á ábyrgð og aðkomu stjórnsýsluaðila og ábyrgð og aðkomu einstakra ráðherra að einstökum ákvörðunum og/eða eftirliti með lífeyrissjóðunum.

Nefndin geri eftir atvikum ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur leikur á refsiverðri háttsemi eða brotum á starfsskyldum og geri jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu sinni til Alþingis.

Rannsóknarnefndin skal skila forseta Alþingis skýrslu um rannsóknina eigi síðar en 1. janúar 2013 ásamt þeim samantektum og úttektum sem nefndin ákveður að láta vinna í þágu rannsóknarinnar.

Greinargerð

Í ályktun Alþingis um skýrslu þingmannanefndar var lagt til að sjálfstæð og óháð rannsókn færi fram á vegum Alþingis á starfsemi lífeyrissjóða á Íslandi frá setningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum. Í kjölfar þess skyldi fara fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi lífeyrissjóðanna.

Landssamtök lífeyrissjóða samþykktu þann 24. júní 2010 að fara af stað með úttekt á fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og lagalegu umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins 2008.  Nefndin sem Landssamtökin skipuðu skilaði af sér skýrslu 3. febrúar 2012.  Í nefndinni sátu Hrafn Bragason, lögfræðingur og fv. hæstaréttadómari sem var formaður nefndarinnar, Guðmundur Heiðar Frímannsson, siðfræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri og Héðinn Eyjólfsson viðskiptafræðingur. Nefndinni var falið að fjalla einkum um hvernig staðið var að stefnumótun, ákvarðanatöku og áhættumati við fjárfestingar í aðdraganda bankahrunsins.  Sérstaklega skyldi skoða hvernig gildandi fjárfestingastefnu sjóðanna var fylgt eftir síðustu tvö árin fyrir hrun.  Nefndin skyldi einnig taka til umfjöllunar þau atriði sem beinast sérstaklega að lífeyrissjóðum i skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og sérstaks vinnuhóps um starfshætti og siðferði um aðdraganda og orsakir falls bankanna.

Í skýrslu nefndar Landssamtaka lífeyrissjóða kom fram að rannsóknarheimildir nefndarinnar hafi byggst á samþykkt stjórnar og varastjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða frá 24. júní 2010.  Störf nefndarinnar voru þannig háð því að einstakir sjóðir, stjórnir þeirra og starfsmenn ynnu með nefndinni á þann hátt að þeir afhentu henni gögn og gæfu henni skýringar.  Jafnframt aflaði nefndin sér gagna og upplýsinga frá opinberum stofnunum, fjármálafyrirtækjum og einkafyrirtækjum.

Nefndin hafði þannig ekki viðlíka valdheimildir til að krefjast þess að gögn, upplýsingar eða skýringar kæmu fram líkt og rannsóknarnefndir Alþingis hafa skv. lögum um rannsóknarnefndir (68/2011). Eftirlitsstofnanir með lífeyrissjóðunum gátu borið fyrir sig þagnarskyldu í ríkum mæli, ekki var hægt að kveða fólk til skýrslutöku vildi það ekki gefa skýrslu né heldur gat nefndin gert rannsóknir á starfsstað.

Við afgreiðslu ályktunar Alþingis um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis lá fyrir að Landssamtökin hygðust setja af stað sjálfstæða úttekt á starfsemi lífeyrissjóðanna.  Þrátt fyrir það ályktaði Alþingi, á grunni þeirra upplýsinga sem fram komu í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, að sjálfstæð og óháð rannsókn skyldi fara fram á starfsemi lífeyrissjóðanna allt til 1997 þegar lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997 voru sett. Niðurstöður nefndar Landssamtaka lífeyrissjóðanna staðfesta enn frekar að fullt tilefni er til að sú rannsókn fari fram og í framhaldi þess verði farið í heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi sjóðanna.

Því er lagt til að Alþingi álykti um að sú rannsókn fari fram í samræmi við lög um rannsóknanefndir og ályktun Alþingis um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.2.2012 - 13:20 - 2 ummæli

Alþingi rannsaki lífeyrissjóðina

Í ályktun þingmannanefndar sem samþykkt var 63-0 segir að fara skal fram óháð og sjálfstæð rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna frá 1997.  Í framhaldinu skal fara fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi lífeyrissjóðanna.

Þegar þetta var samþykkt lág fyrir að lífeyrissjóðirnir ætluðu sjálfir í óháða rannsókn.  Þrátt fyrir það samþykkti Alþingi að fara sjálft í rannsókn.

Nefnd Landssamtaka lífeyrissjóða skýrir það best sjálf af hverju.  Rannsóknarnefnd á vegum lífeyrissjóðanna getur aldrei haft sömu valdheimildir og rannsóknarnefnd á vegum Alþingis.  Eftirlitsstofnanir gátu borið fyrir sig þagnarskyldu, ekki var hægt að kveða fólk til skýrslutöku vildi það ekki gefa skýrslu og nefndin gat ekki gert rannsóknir á starfsstað.

Ég ítreka því afstöðu mína að Alþingi þarf að fara að eigin ályktun og setja á stað rannsóknarnefnd um lífeyrissjóðina.

Þar þarf að fara yfir starfsemi og stefnu sjóðanna frá 1997 þegar lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda voru sett til dagsins í dag.

Þar þarf að bera saman laga- og starfsumhverfi lífeyrissjóðanna við sjóðakerfi nágrannalanda okkar.

Þar þarf að skoða hugsanlega ábyrgð; stjórnenda, stjórnarmanna, endurskoðenda, eftirlitsaðila, stjórnmálamanna og ráðherra.

Strax.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.2.2012 - 14:52 - 2 ummæli

Dómsúrskurður og vörslusviptingar?

Í júní 2011 setti innanríkisráðherra fram tilmæli um að dómsúrskurður þyrfti að liggja fyrir áður en vörslusvipting fer fram.  Þrátt fyrir það er enn verið að svipta fólk bifreiðum án dómsúrskurðar.

Því hef ég lagt fram eftirfarandi spurningar til ráðherrans.

  1. Hvernig rökstyður ráðherra þá afstöðu sína sem fram kom í svari við fyrirspurn (þskj. 719, 311. mál) að dómsúrskurður sé nauðsynlegur vegna vörslusviptingar? Óskað er eftir að í rökstuðningi ráðherra sé vísað til þeirra gagna sem afstaðan byggist á.
  2. Af hverju hafa sýslumenn og lögreglan ekki unnið í samræmi við þessa afstöðu ráðherra á undanförnum mánuðum?
  3. Hvernig fer fram sú vinna ríkislögreglustjóra að setningu verklagsreglna um vörslusviptingar sem minnst er á í áðurgreindu svari og hvenær má gera ráð fyrir að vinnunni ljúki?

Ég tel sérstaklega brýnt að fá svör við því af hverju lögreglan hefur ekki unnið í samræmi við afstöðu ráðherra.

Er það vegna þess að það er ekki lagastoð fyrir þeim?

Ef svo, af hverju hefur ráðherrann ekki lagt til að lögum verði breytt?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.1.2012 - 10:22 - Rita ummæli

Kjararáð hunsar jafnrétti

Fyrir 25 árum kom móðir mín nær orðlaus heim úr vinnunni sinni.  Yfirmaður hennar (kona) hafði tilkynnt henni að þvi miður gæti hún ekki fengið þá yfirvinnu sem hún hafði óskað eftir.  Ástæðan var að samstarfsmaður hennar (karl) þyrfti á meiri yfirvinnu að halda, „…enda hefði hann fyrir fjölskyldu að sjá.“ Móðir mín var þá einstæð móðir með þrjú börn á framfæri.

Þessi saga rifjaðist upp, enn á ný, þegar ég las í Fréttatímanum að konur sem heyra undir Kjararáð virðast fá lægri laun en karlar, – einfaldlega vegna þess að þær eru konur. Það virðist fyrst og fremst vera gert í gegnum ákvarðanir ráðsins um föst yfirvinnulaun.

Grunnlaun kvenna sem stýra fyrirtækjum og stofnunum sem eru í meirihlutaeigu ríkisins eru að meðaltali með um 654.092 kr. fyrir dagvinnu en 698.355 hjá körlum.  Þegar kemur að meðalheildarlaunum eru konur með 731.936 kr. en karlar með 878.083 kr.

Dæmi um þetta er launaákvörðun Ástu Dísar Óladóttur, forstjóra Fríhafnarinnar en þar lækkaði Kjararáð hana í launum miðað við forvera hennar.  Kjararáð hefur nú tekið aftur ákvörðun sína, eftir að Ásta Dís kærði ákvörðunina til Jafnréttisstofu og hækkaði hana í launum.  Til samanburðar er bent á fyrirtækið Tern System sem er einnig dótturfyrirtæki Isavia, líkt og Fríhöfnin.  Tern System er töluvert minna umfangs bæði hvað varðar veltu og starfsmannafjölda.

Þrátt fyrir það fær framkvæmdastjóri Tern sömu dagvinnulaun og forstjóri Fríhafnarinnar en um fimmtíu þúsund krónum hærri föst yfirvinnulaun.

Ó, já og forstjóri Tern System er karl.

Ásta Dís er kona, og þarf væntanlega ekki að sjá fyrir fjölskyldu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.1.2012 - 10:00 - 3 ummæli

Hvað er best við þorrann?

Niðurstaða síðustu spurningakönnunar var að sjálfsögðu að þar sem enginn Framsóknarmaður var í Silfrinu (hvorki um síðustu helgi né þessa) hafi enginn toppað sig.

Nýjasta spurningakönnunin fer nú í loftið.

Þar er spurt þeirrar djúpu spurningar…

Vinsamlegast svarið, deilið, dreifið eða gerið athugasemdir fram til 5. febrúar.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.1.2012 - 08:00 - Rita ummæli

Nammidagur…

Einu sinni var stungið upp á laugardegi sem nammidegi.  Nammidagurinn átti að bæta tannvernd og draga úr sykurneyslu.

Eitthvað hefur þetta skolast til hjá okkur.

…var hugsun mín þegar ég stóð  í röð kl. 20.30 á laugardagskvöldi ásamt æsku þessa lands við nammibarinn í Hagkaup.

 

 

 

Flokkar: Matur

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur