Miðvikudagur 9.11.2011 - 13:12 - 14 ummæli

Yfirlýsing frá þingflokki framsóknarmanna: Villandi og meiðandi umfjöllun

Þingflokkur Framsóknarmanna fordæmir villandi og meiðandi umfjöllun um Framsóknarflokkinn sem birt var á bls. 46 í Fréttatímanum helgina 4.-6. nóvember undir yfirskriftinni „heimurinn“, og er skrifuð af Eiríki Bergmann Einarssyni dósent við Háskólann á Bifröst og fyrrverandi varaþingmanni Samfylkingarinnar. Eiríkur fjallar þar í nokkrum greinum um ýmsar þjóðernisöfgahreyfingar í Evrópu og blandar Framsóknarflokknum í þá umræðu með afar undarlegum hætti. Tilefni tengingarinnar við Framsóknarflokkinn er að á flokksþingi framsóknarmanna fyrr á þessu ári hafi íslenski fáninn og fánalitirnir verið áberandi og sýnd hafi verið íslensk glíma. Loks er því haldið fram að merki flokksþingsins (sem Eiríkur virðist telja að sé merki flokksins) hafi fasíska skírskotun. Framsóknarmenn geta ekki setið undir ósönnum aðdróttunum um þjóðernisöfgar og útlendingahatur, aðdróttunum sem settar eru fram í pólitískum tilgangi og á fráleitum forsendum. Ekkert í stefnu flokksins réttlætir slíka umfjöllun, þvert á móti, enda víkur Eiríkur ekki einu orði að stefnu flokksins í skrifum sínum. Þingflokkurinn telur mjög alvarlegt að fulltrúi háskólastofnunar leyfi sér að koma fram á þennan hát

1.       Í greininni „Þjóðleg gildi og andstaða við innflytjendur“ er gefið sterklega í skyn að Framsóknarflokkurinn tengist hatursfullri öfgaþjóðernishyggju og andúð á innflytjendum sem fjallað er um í sömu grein. Gengið er svo langt að tengja Framsóknarflokkinn við fasisma beinum orðum. Þessar ósönnu aðdróttanir eru greinarhöfundi, Fréttatímanum og Háskólanum á Bifröst til minnkunnar. Óásættanlegt er að dósent við Háskólann á Bifröst skrifi á þennan hátt í nafni skólans um pólitíska andstæðinga sína. Ljóst er af umfjölluninni að ekki er unnt að líta á Eirík Bergmann Einarsson sem óháðan álitsgjafa um stjórnmálaleg álitaefni.

2.       Framsetning umfjöllunarinnar og mynda sem henni fylgja er mjög villandi og í raun með hreinum ólíkindum. Framsetningin verður ekki skilin á annan hátt en að henni sé ætlað að skapa bein hugrenningatensl hjá lesendum milli formanns Framsóknarflokksins annars vegar og öfgasamtaka og hryðjuverkamanna hins vegar. Slíkt er þekkt og ófyrirleitið áróðursbragð.

3.       Uppsetning greinarinnar „Þjóðleg gildi og andstaða við innflytjendur“ er mjög  villandi. Við fyrstu sýn virðist vera um að ræða grein eftir formann Framsóknarflokksins. Engan veginn er augljóst fyrir lesendur að Eiríkur Bergmann sé höfundur greinarinnar. Kannanir sýna að stór hluti lesenda dagblaða lítur aðeins á fyrirsagnir og myndir. Því er þessi framsetning mjög skaðleg og til þess fallin að villa um fyrir lesendum hvað varðar stefnu og málflutning Framsóknarflokksins.

4.       Skrif Eiríks Bergmann um Framsóknarflokkinn í umfjölluninni gefa því miður til kynna að hann hafi litla sem enga þekkingu á stefnu Framsóknarflokksins, hvorki grunnstefnu hans né ályktunum flokksþinga. Hvergi ber Eiríkur stefnu Framsóknarflokksins saman við stefnu þeirra erlendu öfgaflokka eða innlendu öfgasamtaka sem hann fjallar um. Slíkur samanburður hlýtur að teljast hluti af eðlilegum vinnubrögðum fræðimanns í umfjöllun um fræðasvið sitt og hefði strax leitt í ljós að ekkert í stefnu Framsóknarflokksins á nokkuð skylt við þjóðernisöfgar eða stefnu öfgaflokka. Í staðinn kýs Eiríkur að leggja til grundvallar skrifum sínum ályktanir dregnar af skemmtiatriði á flokksþingi og notkun íslenska fánans, m.a. í flokksþingsmerki. Ætla mætti að fræðimaður á hans sviði þekkti áratuga löng tengsl Framsóknarflokksins við Ungmennafélag Íslands, en glíma og þjóðfáninn skipa mikilvægan sess í sögu og athöfnum UMFÍ. Stjórnmálafræðingur ætti einnig að vera kunnugur þeirri löngu hefð í starfi íslenskra stjórnmálaflokka og félagasamtaka að nota fánaliti í merkjum sínum og á fundum. Má þar t.d. benda á Sjálfstæðisflokkinn og Alþýðuflokkinn. Að telja það merki um öfgafulla þjóðernishyggju er nýstárleg stjórnmálafræðikenning. Sú staðhæfing Eiríks að merki flokksþingsins vísi í „klassísk fasísk minni“ er óskiljanleg því að rísandi sól (sem merkið sýnir) er einmitt þvert á móti klassískt andfasískt tákn um framsækni og bjartar vonir. Slík merki eiga sér áratuga langa hefð á Íslandi, m.a. hjá ungmennafélögum, verkalýðsfélögum og vinstriflokkum.

Þingflokkur framsóknarmanna fordæmir þessa villandi og meiðandi umfjöllun og framsetningu. Allar aðdróttanir um öfgafulla þjóðernishyggju og andúð á innflytjendum í Framsóknarflokknum eru ósannar og eiga sér enga stoð í stefnu og málflutningi flokksins heldur þjóna pólitískum markmiðum viðkomandi. Þingflokkur framsóknarmanna leggur til að Fréttatíminn og Háskólinn á Bifröst geri upp við sig til framtíðar hvað þau telja samboðið virðingu sinni að birta opinberlega í sínu nafni. Ósannar ásakanir og villandi framsetning, að því er virðist í pólitískum tilgangi, rýra verulega trúverðugleika beggja aðila.

Þingflokkur framsóknarmanna vekur athygli á Grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins sem byggir á frjálslyndi, samvinnu, jöfnuði og virðingu fyrir mannréttindum.

Gunnar Bragi Sveinsson formaður þingflokks Framsóknarmanna

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins

Birkir Jón Jónsson varaformaður Framsóknarflokksins

Eygló Harðardóttir ritari Framsóknarflokksins

Ásmundur Einar Daðason alþingismaður

Höskuldur Þórhallsson alþingismaður

Sigurður Ingi Jóhannsson alþingismaður

Siv Friðleifsdóttir alþingismaður

Vigdís Hauksdóttir alþingismaður

Grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi.

I. Þjóðfélagsgerð
Við viljum áfram byggja upp þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar.

II. Mannréttindi
Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.

III. Jafnræði þegnanna
Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag.

IV. Mannauður
Við viljum efla mannauð með því að sérhver einstaklingur fái örvun og tækifæri til að þroskast og vaxa í leik og starfi.Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni svo margbreytileiki þjóðlífs og einstaklinga fái notið sín.

V. Stjórnarfar
Við viljum að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og handhafar valdsins stjórni aðeins í umboði hennar. Við vinnum ötullega að réttlátu stjórnarfari, opnum stjórnarháttum og valddreifingu.

VI. Hagkerfi
Við viljum byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls.

VII. Alþjóðasamfélagið
Við höfum ríkum skyldum að gegna varðandi samvinnu við aðrar þjóðir um lausn sameiginlegra verkefna. Við viljum að þátttaka okkar í alþjóðlegum samskiptum eigi að byggjast á viðurkenningu á rétti þjóða til sjálfstæðis og sjálfsákvörðunar.

VIII. Náttúrugæði
Við viljum skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaði ekki hagsmuni komandi kynslóða. Við teljum að allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta íslenskri stjórn.

IX. Búsetuskilyrði
Við teljum það til grundvallarréttinda að fólki verði gert kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs. Greiðar samgöngur, alhliða fjarskipti, fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu eru þættir sem jafna búsetuskilyrði.

X. Stjórnmálin
Við byggjum á frjálslyndri hugmyndafræði og teljum því farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð er á hófsemi og heiðarleika.

Samþykkt á 26. flokksþingi 16.-18. mars 2001

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 6.11.2011 - 11:58 - 10 ummæli

Sambandsríki Evrópu?

Evrópusambandið er í mikilli krísu.  Æ fleiri telja nauðsynlegt að gera róttækar breytingar á samstarfi þjóðanna til að tryggja að það lifi af.

Willem Buiter, aðalhagfræðingur Citigroup, er einn þeirra.  Hann sagði að við skyldum vona að ESB og evran lifi af krísuna. Síðan skyldum við vona að það tæki upp sameiginlegt fjármálakerfi, efnahagsstjórnun, fjármálaeftirlit og innstæðutryggingu.

Í  Free Dictionary er fullvalda þjóð skilgreind á eftirfarandi máta:  Fullveldi er vald ríkis til að gera allt það sem nauðsynlegt er til stjórna sér sjálf, þar á meðal búa til, framkvæma og beita lögum; leggja á og innheimta skatta; fara í stríð og semja frið; og gera samninga eða eiga í viðskiptum við önnur ríki.  (e. „Sovereignty is the power of a state to do everything necessary to govern itself, such as making, executing, and applying laws; imposing and collecting taxes; making war and peace; and forming treaties or engaging in commerce with foreign nations.“)

Ef Buiter verður að ósk sinni, er þá ekki búið að mynda Sambandsríki Evrópu?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 5.11.2011 - 09:22 - 3 ummæli

Bjarni og Hanna Birna

Áhugamenn um stjórnmál hafa loksins fengið svar við vangaveltum sínum um hvort Hanna Birna Kristjánsdóttir myndi bjóða sig fram gegn sitjandi formanni Bjarna Benediktssyni.

Bjarni tók við Sjálfstæðisflokknum í miklum sárum eftir bankahrunið.  Niðurstaða síðustu þingkosninga voru þær verstu í sögu flokksins og það hlýtur að ergja hann hve erfiðlega hefur gengið að toga fylgið upp, – þrátt fyrir mjög ósamstæða og veika ríkisstjórn.

Hvort Hanna Birna geti snúið þeirri staðreynd við er óvíst.

Það verður ekki einfalt að stjórna stærsta stjórnarandstöðuflokknum utan þings, með fyrrv. formann og stuðningsmenn hans í þingflokknum. Ræðustólinn í ráðhúsinu er ekki sá sami og ræðustóll Alþingis. Mikill þrýstingur verður á kosningar, – eða að fara í ríkisstjórn og tryggja þannig formanninum ráðherrastól.

Eitt er þó alveg ljóst – að íslensk stjórnmál halda áfram að vera lífleg.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 4.11.2011 - 08:50 - 14 ummæli

Einelti

Mikil umræða hefur verið um einelti í skólum.  Foreldrar og börn hafa komið fram opinberlega og sagt frá sárri reynslu af einelti.  Starfsmenn skóla hafa staðið hljóðir hjá og lítið getað tjáð sig. Í gær barst fréttatilkynning frá formanni Skólastjórafélags Íslands og varaformanni Félags grunnskólakennara.  Þar gagnrýndu þær umræðu um einelti í fjölmiðlum og vildu að umræða um tilfelli eineltis haldist innan skóla eða sveitarfélaga, en ekki í fjölmiðlum.

Ég er mjög hugsi yfir þessu.

Einelti er ofbeldi.  Í skilgreiningu vinnuhóps á vegum Velferðar- og menntamálaráðuneytis var einelti skilgreint sem endurtekin ótilhlýðileg og ámælisverð háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.  Kynferðisleg áreitni og annað endurtekið andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að ábyrgðin á ofbeldi er fyrst og fremst þeirra sem beita ofbeldi.  Ábyrgðin okkar hinna er bregðast við og gera það sem við getum til að koma í veg fyrir það.

Umfjöllun fjölmiðla um einelti hefur vakið mig til umhugsunar.  Ég hef velt fyrir mér hvað ég geti gert sem þingmaður til að draga úr líkum á að nokkurt barn þurfi að upplifa þann sársauka sem fylgir einelti.  Ég hef velt fyrir mér hvað ég og félagar mínir á Alþingi geta gert til að hjálpa starfsmönnum skólanna til að fást við þetta erfiða vandamál.

Kannski ekkert…- og þó.

Í samtölum mínum við kennara hafa þeir rætt um hjálparleysið sem þeir upplifa með þau úrræði sem eru til staðar. Afleiðingin er oft að fórnarlambið þarf að flytja sig um skóla. Er möguleiki á að við getum breytt nálguninni, líkt og við gerðum hvað varðar fórnarlömb heimilisofbeldis?  Að í stað þess að fórnarlambið fari þá þurfi sá sem beitir ofbeldinu að flytja sig um set.

Fyrsta skrefið hlýtur að vera að ræða um mögulegar tillögur.

Því hef ég óskað eftir opnum fundi í allsherjar- og menntamálanefnd um einelti í skólum.  Hef ég óskað eftir að ræddar verði tillögur til úrbóta.  Ég lagði jafnframt fram spurningar fyrir bæði velferðarráðherra og menntamálaráðherra um eftirfylgni við tillögur um einelti í skólum og vinnustöðum frá 2010.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.11.2011 - 08:50 - 5 ummæli

Hagkvæmara að gefa

Fyrir hrun trúðu margir á sýnina um að sífellt væri hægt að stækka kökuna með því að ýta undir græðgi einstaklinganna. Þetta endurspeglaðist í að skattaívilnanir stjórnvalda beindust m.a. fyrst og fremst að fyrirtækjum sem voru á markaði í hagnaðarskyni.

Samhliða hallaði sífellt á starfsemi sem rekin var á grundvelli ákveðinna hugsjóna, svo sem frjáls félagasamtök og samvinnufélög.  Má þar nefna afnám ákvæða um frádrátt frá skattskyldum tekjum einstaklinga vegna gjafa til góðgerðafélaga árið 1979, ákvörðun um að félagasamtök skyldu greiða fjármagnstekjuskatt árið 1996 og álagningu erfðafjárskatts á gjafir til líknarfélaga vorið 2004.

Frjáls félagasamtök gegna mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi.  Þau sinna fræðslu almennings, efla menningar- og listalíf, inna af hendi margs konar samfélagsþjónustu og halda á lofti málstað einstakra þjóðfélagshópa.  Hver kannast ekki við Öryrkjabandalag Íslands, Krabbameinsfélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands og Rauða Kross Íslands sem daglega starfa í almannaþágu, til heilla fyrir okkur öll?

Íslensk félagasamtök njóta þó ekki sömu skattaívilnana og algengt er í samanburðarlöndunum, t.d. undanþágu frá greiðslu fjármagnastekjuskatts, erfðafjárskatts og endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðföngum.  Stærsti munurinn felst þó í því að einstaklingum hér á landi er ekki leyfilegt að draga gjafir til góðgerðafélaga frá skattskyldum tekjum sínum líkt og almennt er heimilt í löndum Evrópu og Norður-Ameríku.  Einnig hafa frjáls félagasamtök greitt fullan erfðafjárskatt af dánargjöfum sem þeim hefur verið ánafnað.

Það geta ekki verið rétt skilaboð til samfélagsins að hagkvæmara sé að græða sjálfur en að gefa náunganum, að auðdýrkun og fésýsla sé metin meira en vinnan, þekkingin og framtakið og maðurinn sjálfur.

Því hef ég lagt fram frumvarp sem leggur til skattaívilnanir í þágu frjálsra félagasamtaka.  Einstaklingi verði heimilt draga gjafir til félagasamtaka frá skatti.  Einnig að slíkum samtökum verði ekki gert að greiða erfðafjárskatt af arfi, gjafaarfi, dánargjöfum og fyrirframgreiddum arfi sem þeim áskotnast.

Nýtt Ísland verður að setja manngildi ofar auðgildi.

(Birtist fyrst í FBL 3. nóv. 2011)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.11.2011 - 09:13 - Rita ummæli

Opinn fundur í efnahags- og viðskiptanefnd

Efnahags- og viðskiptanefnd verður með opinn fund kl. 9.30 um dóm Hæstaréttar nr. 282/2011  um fjármögnunarleigusamninga að beiðni Birkis J. Jónssonar.

Í dómnum var komist að þeirri niðurstöðu að samningarnir væru lán, en ekki leiga.  Því væri gengistryggingin ólögmæt.  Fjármögnunarleigufyrirtækin hafa haldið fast í að samningarnir séu aðeins lán í skilningi laga um vexti og verðtryggingu.

Að þeirra mati eru þetta enn þá leigusamningar hvað öll önnur lög varðar.

Því er athyglisvert að í dómnum reyndi einnig á lög um virðisaukaskatt.  Niðurstaða Hæstaréttar var að þar sem þetta sé lán þá sé auðvitað ekki vsk. skv. lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Skyldu fjármögnunarleigufyrirtækin halda því nú fram að samningarnir séu aðeins lán í í skilningi laga um vexti og verðtryggingu og virðisaukaskatt, – en ekki hvað önnur lög varðar 😉

Eða bara lög sem sem byrja á „V“?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.10.2011 - 07:55 - 2 ummæli

Björgum bönkunum…

Pétur Blöndal segir á Facebook síðu sinni um stækkun björgunarsjóðs ESB í 1.300 milljarða evra: „Vonandi skilur Merkel töluna? Íbúafjöldi Evrulands er 333 milljónir. Þetta eru 3.900 evrur á hvern íbúa eða 620 þkr. eða 2,4 mkr. á hverja 4 manna fjölskyldu. Á öllu svæðinu, ríkar fjölskyldur og fátækar.“

Um allan heim safnast fólk saman á götum úti til að reyna að fá stjórnmálamenn til að leiða hugann að almenningi, en ekki aðeins að þeim sem hefur tekist að sanka að sér stærstum hluta fjármagnsins í heiminum. Og hver eru viðbrögð stjórnmálamannanna?

Jú, að leggja frekari álögur á almenning til að safna í sjóði til bjargar bönkunum.

Hvað með okkur hin? Hvað með 99 prósentin?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.10.2011 - 12:59 - 13 ummæli

Evrugrín hjá RÚV

Uppröðun frétta hjá RÚV sýnir stundum að þar hafa menn góða kímnigáfu.

Í hádegisfréttunum var fyrst haft eftir Gylfa Arnbjörnssyni að hann vildi taka einhliða upp evruna.  Krónan væri búin að vera.  Evran væri framtíðin.  Vandi hennar væri aðeins tímabundinn og ESB yrði að styðja okkur í þessu framtaki.

(… bara um leið og þeir eru búnir að redda evrunni).

Næsta frétt var svo að líkur á samkomulagi um björgunaraðgerðir vegna evrunnar og skuldavanda ESB ríkja á næsta fundi væru taldar hverfandi.  Líkurnar væru jafnvel taldar svo litlar að norska olíufélagið Statoil hefði gripið til varúðarráðstafana vegna yfirvofandi hruns evrunnar.

Já, stundum er gráglettni betra en ekkert.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.10.2011 - 11:07 - 7 ummæli

Bjartar vonir brostnar

Þann 6. október 2008 sat ég ásamt manni mínum í sófanum heima og hlustaði á ávarp Geirs H. Haarde. Eftir að orðunum Guð blessi Ísland sleppti sátum við og horfðum hvort á annað og veltum fyrir okkur hvað maðurinn átti eiginlega við. Hvað var að gerast?

Öll vitum við hvað gerðist í framhaldinu. Hrunið var staðreynd. Um 95% af íslenska bankakerfinu fór í þrot, 60% af fyrirtækjum landsins og þriðjungur íslenskra heimila þurftu á fjárhagslegri endurskipulagningu að halda og íslenska ríkið varð að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að geta staðið við skuldbindingar sínar.

Íslenskur almenningur sat eftir í brunarústum óhefts kapítalisma. Hin ósýnilega hönd hins frjálsa markaðar var eftir allt saman ekkert ósýnileg, hún var hreinlega ekki til. Sýnin um að sífellt væri hægt að stækka kökuna með því að ýta undir græðgi einstaklinganna reyndist vera tálsýn, fals eitt þar sem engin raunveruleg verðmæti voru sköpuð.

Þetta eru staðreyndir sem munu hafa áhrif á okkur öll um ókomna framtíð.

Um mánuði síðar var ég orðin alþingismaður og var þar með kastað inn í hringiðu daglegra mótmæla Búsáhaldabyltingarinnar á Austurvelli, þar sem kallað var eftir nýju Íslandi.

Íslandi þar sem allt skyldi vera upp á borðum, spillingu væri úthýst og réttlæti og lýðræði virt. Ríkisstjórnin yrði að víkja og boða þyrfti til kosninga. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks féll undan þrýstingi fólksins og við tók minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna sem studd var með hlutleysi Framsóknarmanna.

Skilyrði Framsóknarmanna fyrir stuðningi var að strax yrði farið í aðgerðir til varnar heimilum og fyrirtækjum, komið yrði á stjórnlagaþingi til að breyta stjórnarskránni og að boðað yrði til kosninga. Kosningarnar urðu 29. apríl og allir stjórnmálaflokkar lofuðu bót og betrun og að tekið yrði af festu á vanda heimila og fyrirtækja. Mikil endurnýjun varð meðal þingmanna og fyrsta hreina vinstri stjórnin tók við völdum undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur.

Nú skyldi svo sannarlega tekið til.

Nýtt Ísland?

Af hverju er almenningur þá enn þá að mótmæla? Getur verið að ástæðan sé að fátt eitt hafi í raun breyst? Að í stað þess að nýtt Íslandi risi eins og fuglinn Fönix úr brunarústunum hafi stjórnvöld einhent sér í að endurreisa frekar gamla Ísland?

Út um allan heim er fólk að mótmæla. Það er að mótmæla sömu hlutunum og við mótmæltum í Búsáhaldabyltingunni og mótmælum enn ósanngirni, óréttlæti og ójöfnuði.

Fyrir hrun hrósuðu við okkur af því að hér þrifist engin spilling og bentum á erlendar rannsóknir því til stuðnings. Síðustu mánuðir og ár hafa berlega sýnt hversu illa við blekktum okkur sjálf. Daglega hafa komið fram nýjar upplýsingar um starfshætti íslensku bankanna og útrásarvíkinga sem sýna hvernig þræðirnir liggja út um allt samfélagið og inn í stjórnkerfið.

Rætur spillingar eru oftast taldar fjórar. Í fyrsta lagi þarf tækifæri. Í öðru lagi verða að vera litlar líkur á að upp komist vegna lélegs eftirlits og lítils gagnsæis. Í þriðja lagi þarf að vera ávinningur af spillingunni og í fjórða lagi þurfa aðstæður og almennt viðhorf að hvetja venjulegt fólk til að hunsa lög og reglur.

Þessar aðstæður voru til staðar fyrir hrun og virðast því miður enn vera til staðar. Ef eitthvað er, þá er ljóst að sú upplausn sem ríkt hefur í samfélaginu getur verið jafnvel enn meiri gróðrastía spillingar og vinargreiða en var fyrir hrun.

Þannig hefur fólki ofboðið þegar tugmilljarða skuldir útrásarvíkinga eru felldar niður með einu pennastriki án þess að hróflað sé við lífstíl þeirra á meðan fulltrúar skilanefndanna og nýju bankanna segja okkur að þetta komi okkur ekkert við.

Ósanngirnin og ójöfnuðurinn eru sláandi. Fólk sem gerði ekkert nema reyna að koma sér þaki yfir höfuðið er sagt hafa farið „óvarlega“ í fjármálum og keypt of mikið af flatskjám. Einu úrræðin sem þessu fólki eru boðin eru 110% leiðin eða sértæk félagsleg greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara.

En er hrunið almenningi að kenna? Ekki segja tölurnar okkur það. Vandamálið var ekki of mikil einkaneysla á lúxusvarningi hjá íslenskum almenningi. Það voru einhverjir aðrir sem sáu um það. Opinberar tölur um neysluhlutföll sýna að þættir líkt og Fatnaður, Hótel og veitingastaðir og Raftæki stóðu nánast í stað eða drógust jafnvel saman. Liðurinn Húsnæði, hiti og rafmagn jókst hins vegar umtalsvert, en hann fór úr því að vera um 21,3% af útgjöldum heimilanna árið 2002 í 28% árið 2007. Kreditkortaskuldir jukust einnig mikið. Á sama tíma urðu skuldir heimilanna við lánakerfið 124% af vergum þjóðartekjum, en almennt er hagkerfi talið gjaldþrota þegar skuldir nema 100%.

Fjármagnseigendur fengu því æ stærri hluta af tekjum fólks í gegnum vexti og verðbætur, enda sterk krafa um ríkulega ávöxtun fjármagnsins. Markmiðið var að hámarka hagnaðinn í þeirri von að nokkrir brauðmolar myndu nú hrynja af borðum hinna fáu útvöldu til almúgans.

Hvað með 99 prósentin?

Fólk mótmælir einnig stjórnmálamönnum sem það telur vera bundna á klafa stórfyrirtækjanna og fjármálakerfisins. Trúin á að lýðræðið virki og eitthvað réttlæti sé að finna dofnar stöðugt. Þetta endurspeglast í að Alþingi Íslendinga mælist með 12-13% traust.

Man einhver eftir hugmyndum um samvinnurekstur í heilbrigðisþjónustu, skólakerfinu eða bönkunum? Skólum sem reknir væru af kennurum og foreldrum? Heilsugæslu þar sem læknar og sjúklingar sameinuðust um reksturinn? Eða lánastofnunum þar sem markmiðið væri að lána peninga til félagsmanna á sanngjörnum kjörum?

Á næstu vikum og mánuðum mun samþjöppun og fákeppni aukast á íslenskum bankamarkaði, allt í nafni hagræðingar og arðsemi eigin fjár. Litlu sparisjóðirnir munu renna saman við stóru bankana þrjá. Samfélagslegt hlutverk fjármálastofnana mun víkja fyrir blindri trú á hagkvæmni stærðarinnar og aukna arðsemi. Almenningur mun ekki eiga neitt val. Ríkisstjórnin fer þarna með ferðina og virðist önnum kafin við að framfylgja þeirri hugmyndafræði sem olli hruninu.

Um allan heim safnast fólk saman á götum úti til að reyna að fá stjórnmálamenn til að leiða hugann að almenningi, en ekki aðeins að þeim sem hefur tekist að sanka að sér stærstum hluta fjármagnsins í heiminum. Og hver eru viðbrögð stjórnmálamannanna? Jú, að leggja frekari álögur á almenning til að safna í sjóði til bjargar bönkunum.

Hvað með okkur hin? Hvað með 99 prósentin?

Ég vonaði innilega að menn meintu eitthvað með því að vilja endurreisa nýtt Ísland, þar sem við myndum ætíð setja manngildi ofar auðgildi. Nýtt Ísland sem hefði samvinnu, sjálfsábyrgð, sjálfshjálp, lýðræði, jafnrétti, sanngirni og samstöðu að leiðarljósi.

Því miður eru þær vonir að bresta.

(Greinin birtist fyrst á visir.is 21. október 2011)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.10.2011 - 10:30 - 1 ummæli

Ekkert týnd

Hópur áhugamanna um bættar samgöngur auglýsir eftir þingmönnum Suðurkjördæmis í Morgunblaðinu í dag.

Þar segir að lítið sé vitað um ferðir þingmanna síðan í aðdraganda síðustu þingkosninga í Eyjum, og þeir sem getið gefið upplýsingar um ferðir þeirra eru beðnir um að hafa samband við íbúa Vestmannaeyja.

Ég er eflaust týnd í mörgu en ekki þessu.

Í lok ágúst fór ég ásamt starfsmönnum Herjólfs/Eimskips á fjölda vinnustaða í Eyjum.  Þar ræddum við flest allt það sem viðkom ferjusiglingum til Eyja.  Þar á meðal þá staðreynd að ef ekki yrði dælt í Landeyjahöfninni á meðan Herjólfur væri í slipp myndi höfnin lokast.

Ekkert var dælt og höfnin lokaðist, – skilst mér að Baldur hafi verið farinn að taka niður.

Því spurði ég ráðherra um sanddælinguna og hvort það væri ætlunin að halda höfninni opinni í vetur eða ekki.

Í fyrrakvöld ályktaði svo aðalfundur Framsóknarfélags Vestmannaeyja gegn hækkun á fargjöldum.

Ég tel vel koma til greina að hitta hópinn í næstu viku og hef lagt það til við þingmenn Suðurkjördæmis.

Spurning væri hvort þeir sem fara svo með þessi mál; innanríkisráðherra, undirstofnanir og bæjarfulltrúar sæju sér fært að mæta líka.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur