Þingflokkur Framsóknarmanna fordæmir villandi og meiðandi umfjöllun um Framsóknarflokkinn sem birt var á bls. 46 í Fréttatímanum helgina 4.-6. nóvember undir yfirskriftinni „heimurinn“, og er skrifuð af Eiríki Bergmann Einarssyni dósent við Háskólann á Bifröst og fyrrverandi varaþingmanni Samfylkingarinnar. Eiríkur fjallar þar í nokkrum greinum um ýmsar þjóðernisöfgahreyfingar í Evrópu og blandar Framsóknarflokknum í þá umræðu með afar undarlegum hætti. Tilefni tengingarinnar við Framsóknarflokkinn er að á flokksþingi framsóknarmanna fyrr á þessu ári hafi íslenski fáninn og fánalitirnir verið áberandi og sýnd hafi verið íslensk glíma. Loks er því haldið fram að merki flokksþingsins (sem Eiríkur virðist telja að sé merki flokksins) hafi fasíska skírskotun. Framsóknarmenn geta ekki setið undir ósönnum aðdróttunum um þjóðernisöfgar og útlendingahatur, aðdróttunum sem settar eru fram í pólitískum tilgangi og á fráleitum forsendum. Ekkert í stefnu flokksins réttlætir slíka umfjöllun, þvert á móti, enda víkur Eiríkur ekki einu orði að stefnu flokksins í skrifum sínum. Þingflokkurinn telur mjög alvarlegt að fulltrúi háskólastofnunar leyfi sér að koma fram á þennan hát
1. Í greininni „Þjóðleg gildi og andstaða við innflytjendur“ er gefið sterklega í skyn að Framsóknarflokkurinn tengist hatursfullri öfgaþjóðernishyggju og andúð á innflytjendum sem fjallað er um í sömu grein. Gengið er svo langt að tengja Framsóknarflokkinn við fasisma beinum orðum. Þessar ósönnu aðdróttanir eru greinarhöfundi, Fréttatímanum og Háskólanum á Bifröst til minnkunnar. Óásættanlegt er að dósent við Háskólann á Bifröst skrifi á þennan hátt í nafni skólans um pólitíska andstæðinga sína. Ljóst er af umfjölluninni að ekki er unnt að líta á Eirík Bergmann Einarsson sem óháðan álitsgjafa um stjórnmálaleg álitaefni.
2. Framsetning umfjöllunarinnar og mynda sem henni fylgja er mjög villandi og í raun með hreinum ólíkindum. Framsetningin verður ekki skilin á annan hátt en að henni sé ætlað að skapa bein hugrenningatensl hjá lesendum milli formanns Framsóknarflokksins annars vegar og öfgasamtaka og hryðjuverkamanna hins vegar. Slíkt er þekkt og ófyrirleitið áróðursbragð.
3. Uppsetning greinarinnar „Þjóðleg gildi og andstaða við innflytjendur“ er mjög villandi. Við fyrstu sýn virðist vera um að ræða grein eftir formann Framsóknarflokksins. Engan veginn er augljóst fyrir lesendur að Eiríkur Bergmann sé höfundur greinarinnar. Kannanir sýna að stór hluti lesenda dagblaða lítur aðeins á fyrirsagnir og myndir. Því er þessi framsetning mjög skaðleg og til þess fallin að villa um fyrir lesendum hvað varðar stefnu og málflutning Framsóknarflokksins.
4. Skrif Eiríks Bergmann um Framsóknarflokkinn í umfjölluninni gefa því miður til kynna að hann hafi litla sem enga þekkingu á stefnu Framsóknarflokksins, hvorki grunnstefnu hans né ályktunum flokksþinga. Hvergi ber Eiríkur stefnu Framsóknarflokksins saman við stefnu þeirra erlendu öfgaflokka eða innlendu öfgasamtaka sem hann fjallar um. Slíkur samanburður hlýtur að teljast hluti af eðlilegum vinnubrögðum fræðimanns í umfjöllun um fræðasvið sitt og hefði strax leitt í ljós að ekkert í stefnu Framsóknarflokksins á nokkuð skylt við þjóðernisöfgar eða stefnu öfgaflokka. Í staðinn kýs Eiríkur að leggja til grundvallar skrifum sínum ályktanir dregnar af skemmtiatriði á flokksþingi og notkun íslenska fánans, m.a. í flokksþingsmerki. Ætla mætti að fræðimaður á hans sviði þekkti áratuga löng tengsl Framsóknarflokksins við Ungmennafélag Íslands, en glíma og þjóðfáninn skipa mikilvægan sess í sögu og athöfnum UMFÍ. Stjórnmálafræðingur ætti einnig að vera kunnugur þeirri löngu hefð í starfi íslenskra stjórnmálaflokka og félagasamtaka að nota fánaliti í merkjum sínum og á fundum. Má þar t.d. benda á Sjálfstæðisflokkinn og Alþýðuflokkinn. Að telja það merki um öfgafulla þjóðernishyggju er nýstárleg stjórnmálafræðikenning. Sú staðhæfing Eiríks að merki flokksþingsins vísi í „klassísk fasísk minni“ er óskiljanleg því að rísandi sól (sem merkið sýnir) er einmitt þvert á móti klassískt andfasískt tákn um framsækni og bjartar vonir. Slík merki eiga sér áratuga langa hefð á Íslandi, m.a. hjá ungmennafélögum, verkalýðsfélögum og vinstriflokkum.
Þingflokkur framsóknarmanna fordæmir þessa villandi og meiðandi umfjöllun og framsetningu. Allar aðdróttanir um öfgafulla þjóðernishyggju og andúð á innflytjendum í Framsóknarflokknum eru ósannar og eiga sér enga stoð í stefnu og málflutningi flokksins heldur þjóna pólitískum markmiðum viðkomandi. Þingflokkur framsóknarmanna leggur til að Fréttatíminn og Háskólinn á Bifröst geri upp við sig til framtíðar hvað þau telja samboðið virðingu sinni að birta opinberlega í sínu nafni. Ósannar ásakanir og villandi framsetning, að því er virðist í pólitískum tilgangi, rýra verulega trúverðugleika beggja aðila.
Þingflokkur framsóknarmanna vekur athygli á Grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins sem byggir á frjálslyndi, samvinnu, jöfnuði og virðingu fyrir mannréttindum.
Gunnar Bragi Sveinsson formaður þingflokks Framsóknarmanna
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins
Birkir Jón Jónsson varaformaður Framsóknarflokksins
Eygló Harðardóttir ritari Framsóknarflokksins
Ásmundur Einar Daðason alþingismaður
Höskuldur Þórhallsson alþingismaður
Sigurður Ingi Jóhannsson alþingismaður
Siv Friðleifsdóttir alþingismaður
Vigdís Hauksdóttir alþingismaður
Grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins
Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi.
I. Þjóðfélagsgerð
Við viljum áfram byggja upp þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar.
II. Mannréttindi
Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.
III. Jafnræði þegnanna
Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag.
IV. Mannauður
Við viljum efla mannauð með því að sérhver einstaklingur fái örvun og tækifæri til að þroskast og vaxa í leik og starfi.Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni svo margbreytileiki þjóðlífs og einstaklinga fái notið sín.
V. Stjórnarfar
Við viljum að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og handhafar valdsins stjórni aðeins í umboði hennar. Við vinnum ötullega að réttlátu stjórnarfari, opnum stjórnarháttum og valddreifingu.
VI. Hagkerfi
Við viljum byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls.
VII. Alþjóðasamfélagið
Við höfum ríkum skyldum að gegna varðandi samvinnu við aðrar þjóðir um lausn sameiginlegra verkefna. Við viljum að þátttaka okkar í alþjóðlegum samskiptum eigi að byggjast á viðurkenningu á rétti þjóða til sjálfstæðis og sjálfsákvörðunar.
VIII. Náttúrugæði
Við viljum skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaði ekki hagsmuni komandi kynslóða. Við teljum að allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta íslenskri stjórn.
IX. Búsetuskilyrði
Við teljum það til grundvallarréttinda að fólki verði gert kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs. Greiðar samgöngur, alhliða fjarskipti, fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu eru þættir sem jafna búsetuskilyrði.
X. Stjórnmálin
Við byggjum á frjálslyndri hugmyndafræði og teljum því farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð er á hófsemi og heiðarleika.
Samþykkt á 26. flokksþingi 16.-18. mars 2001