Fimmtudagur 29.9.2011 - 08:43 - 6 ummæli

Að lesa

Ný könnun sýnir að fjórðungur 15 ára drengja í grunnskólum Reykjavíkur skilur ekki það sem þeir lesa.  Þeir geta stafað og lesið orðin, en þeir skilja ekki samhengi orðanna.  Hlutfall stúlkna er töluvert lægra, eða um 9%.

Fyrir stuttu rakst ég á frétt frá Noregi þar sem áætlað var að um 300 000 Norðmenn væru í sömu sporum, eða um tæp 10% af íbúum landsins. Þar var einnig bent á að 1/3 af ungu fólki heldur ekki áfram námi af einhverri ástæðu, væntanlega margir vegna þess að þeir skildu ekki námsefnið.

Lesskilningur er forsenda þess að við getum tekið þátt í nútímasamfélagi.  Án hans getum við ekki tekið bílpróf, lesið leiðbeiningar á lyfseðlum, átt í samskiptum við hið opinbera eða nýtt okkur möguleika vefsins.

Afleiðingin getur verið atvinnuleysi, einangrun og vanlíðan.

Þetta er eitthvað sem sagnaþjóðin verður að taka á.

PS. Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á Facebook. Ummæli eru samþykkt inn þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast. Ég áskil mér rétt til að birta ekki ummæli sem eru ómálefnalega.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 28.9.2011 - 17:31 - 8 ummæli

Þeim er sama

Fólk mótmælir víða um heim. Mótmælin beinast gegn skuldum, atvinnuleysi, niðurskurði og spillingu, Það sem sameinar mótmælendur er skortur á trú og trausti á hefðbundin stjórnmál. Sannfæringin um að stjórnmálamönnum sé í raun sama um umbjóðendur sína.

Hér á landi höfum við séð mikla grósku í grasrótarhreyfingum, – á meðan fólk talar um hefðbundna stjórnmálaflokka sem lokaðar klíkur ákveðinna hagsmunahópa.

Það er sorglegt.

Einhvern veginn verðum við sem störfum í stjórnmálum að ná aftur trausti almennings.

Það gerum við aðeins með því að gera það sem við segjum og segja það sem við gerum. Með því að taka á skuldavandanum, atvinnuleysinu, fjármálakerfinu og spillingunni.

Með því að sýna að okkur er ekki sama um fólkið okkar.

PS. Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á Facebook. Ummæli eru samþykkt inn þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast. Ég áskil mér rétt til að birta ekki ummæli sem eru ómálefnalega.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.9.2011 - 10:32 - 17 ummæli

Hjörð vitleysingja?

Óánægja með störf stjórnmálamanna er mikil. Í síðustu könnun Fréttablaðsins vildi helmingur aðspurðra ekki svara til um afstöðu sína til stjórnmálaflokka. Í nýrri könnun MMR kom fram að 13% væru ánægðir með störf ríkisstjórnarinnar en aðeins um 7% með störf stjórnarandstöðunnar. Í annarri könnun MMR hefur einnig komið fram að stór hluti kjósenda hyggist kjósa Besta flokkinn, eða “eitthvað annað” á landsvísu.

Í leiðara DV er fjallað um þetta: “Það blasir við flestum hugsandi mönnum að álit þjóðarinnar á stjórnmálamönnum lýðveldisins er í lágmarki. Ofboðsleg þreyta er meðal venjulegs fólks með framgöngu þeirra sem eiga að fara fyrir þjóð sinni af visku og forsjá. Þingheimur er í dag að sumu leyti eins og þar hafi tekið sér bólfestu hjörð vitleysingja þar sem hver æpir upp í annan og málefnin fjúka út í veður og vind undan hrakviðri slagorðanna.”

Mikill órói hefur verið í landspólitíkinni og átök inn á Alþingi. Á síðasta kjörtímabili í Reykjavík var ástandið á margan hátt sambærilegt. Afleiðingin var að öllum þeim flokkum sem fyrir voru í borgarstjórn Reykjavíkur var refsað harkalega og Besti flokkurinn tók við stjórnartaumunum (í nánu samstarfi við Samfylkinguna).

Skýring þeirra sem kusu þá var oft að Besti gæti ekki gert verr en hinir flokkarnir.

Fólk kaus þá til að refsa hinum.

Þegar Davíð Oddsson var í minnihluta í borgarstjórn lagði hann áherslu á að gagnrýna allt sem kom frá meirihlutanum, jafnvel það sem hann var þó sammála. Aðlatriðið var að koma meirihlutanum frá, hugmyndir, hugsjónir og stefnumál skiptu þar minna máli.

Ég er ekki viss um að þessi aðferð virki í núverandi ástandi. Það er ekki nóg að vera bara á móti, til þess að vera á móti. Stjórnarandstaða verður að grundvallast á hugmyndafræði og stefnu, ekki því einu að vilja koma ríkisstjórninni frá völdum. Það er ekkert óeðlilegt við að þingmenn takist á, en þau átök verða að vera málefnaleg. Við eigum öll að bera hag þjóðarinnar fyrir brjósti, þó okkur greini á um hvernig best sé að tryggja hann. Þjóðin virðist bara ekki trúa því að svo sé.

Núverandi staða er því mikið áhyggjuefni.

Hvernig getum við sýnt íslensku þjóðinni að okkur er ekki sama?

Að við viljum gera betur?

PS. Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á Facebook. Ummæli eru samþykkt inn þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast. Ég áskil mér rétt til að birta ekki ummæli sem eru ómálefnalega.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.9.2011 - 10:50 - 7 ummæli

Útlenska eða íslenska fjárfesta?

Afstaða Íslendinga til erlendrar fjárfestingar er mér ofarlega í huga eftir að ég kom aftur úr heimsókn til Azerbaijan í tilefni 20 ára afmælis sjálfstæðis landsins.

Þegar landið fékk sjálfstæði var nær nær helmingur þjóðarinnar undir fátækra mörkum og erfiðleikarnir miklir. Árið 1994 tóku þeir ákvörðun um að gera samning við nokkur af stærstu olíufyrirtækjum heims um að byggja upp olíuiðnað í landinu.

Heydar Aliyev, þáverandi forseti landsins, lýsti því jafnframt yfir að erlendir fjárfestar væru velkomnir. Punktur.

Nú nær tuttugu árum seinna telja stjórnvöld að þetta hafi verið rétt ákvörðun, þrátt fyrir að 60-70% af olíutekjunum fari til erlendra fyrirtækja. Þeir benda á að það hefði tekið þá 20-30 ár að byggja upp olíuiðnaðinn sjálfir, að nú eru tæp 10% þjóðarinnar undir fátækramörkum og að fjármunirnir séu nýttir til að fjárfesta í innviðum landsins og mannauði.

(Skilst að vísu að kona núverandi forseta sé með ríkustu konum í heimi…)

Við stöndum nú frammi fyrir mörgum sambærilegum spurningum. Íslenska ríkið, fyrirtæki og heimili eru meðal þeirra skuldsettustu í heimi. Að sama skapi búum við yfir töluverðum eignum og auðlindum. Hvernig er best að nýta þessar eignir og auðlindir í þágu lands og þjóðar? Eigum við að fjárfesta sjálf t.d. með lífeyrissparnaðinum eða eigum við að fá útlendinga til að fjárfesta? Eru erlend lán betri en erlend fjárfesting sbr. fjármögnun Landsvirkjunar og HS orku?

Eftir seinni heimstyrjöldina fengu Íslendingar mikla fjármuni frá Bandaríkjamönnum til að byggja upp innviði landsins, sjávarútveginn og virkjanir í gegnum Marshall aðstoðina. Í staðinn fengu þeir að vera með herinn hér.

Hvar eru mörkin, – ferðaþjónusta, heilbrigðisþjónusta, landbúnaðarfyrirtæki, orkufyrirtæki, sjávarútvegur?

Eða bara ekki neitt?

PS. Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á Facebook. Ummæli eru samþykkt inn þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast. Ég áskil mér rétt til að birta ekki ummæli sem eru ómálefnalega.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 16.9.2011 - 12:00 - 4 ummæli

Íblsj.: Já, bílinn er aðfararhæf eign…

Í pistlinum Er bílinn aðfararhæf eign velti ég upp þeirri spurningu hvort Íbúðalánasjóður dregur frá andvirði bifreiðar frá mögulegri niðurfærslu lána í 110% leiðinni?  Skv. lögum er þeim skylt að draga frá aðfararhæfar eignir og þeir nota skattframtöl umsækjenda til að átta sig á því hvað er aðfararhæft og hvað ekki.

Á skattframtali flestra má finna fjölskyldubílinn.  Enda hafa skatturinn og fjármögnunarfyrirtækin samviskusamlega  tjáð sínum viðskiptavinum að þeir eiga að færa bíla á sk. kaupleigusamningum inn á skattframtöl sín.

Þegar ég fór að velta þessu fyrir mér hafði ég samband við starfsmenn Íbúðalánasjóðs.  Þeir tjáðu mér að verðmæti bíls á skattframtali væri notað til að færa niður niðurfærsluna.  Ef umsækjendur bentu á að ökutækið væri skráð á annan þá væri það leiðrétt.

En hvernig er það leiðrétt?  Ein ábending sem ég fékk var að aðeins væri dregið frá andvirði lánsins frá verðmæti bílsins, mismunurinn væri notaður til að lækka niðurfærsluna.

Er þetta rétt?

PS. Tala menn aldrei saman í stjórnsýslunni? Í þessu máli þá er skiptingin svona: Íbúðalánasjóður er undir Velferðarráðuneytinu, fjármögnunarfyrirtækin heyra undir Efnahags- og viðskiptaráðuneytið, RSK undir Fjármálaráðuneytið og Umferðarstofa undir Innanríkisráðuneytið.  

Öll þessi ráðuneyti eru staðsett nokkurn veginn í hnapp í 101, allir eru þeir með síma og tölvupósta og svo hittast ráðherrarnir víst nokkuð reglulega, – ekki satt?

Koma svo, tala saman!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 16.9.2011 - 08:29 - Rita ummæli

Að velja sér lagaumhverfi?

Einn af þeim sem hafði samband við mig í gær lýsti því hvernig hann hefði greitt inn á bílinn sinn meirihluta kaupaverðsins, og gert bílasamning um afganginn.  Þrátt fyrir þetta þá er lánveitandinn skráður eigandi bílsins í ökutækjaskrá, – og sá sem lagði fram meirihluta kaupverðsins skráður umráðamaður.  Óskir um að leiðrétta þetta hefði einnig verið synjað af Umferðarstofu.

Marinó G. Njálsson skrifar áhugavert blogg um þetta í gær.  Þar skrifar hann: „Skráður eigandi bifreiðar hefur mikið að segja um bifreiðina.  Eitt af því sem hann hefur rétt á er að veðsetja bifreiðina.  SP-fjármögnun gæti því ákveðið að setja veðbönd á bifreið Sigurðar Vilhelmssonar án þess að þurfa samþykki Sigurðar til þess.  Sigurður aftur gæti ekki veðsett bifreiðina nema með samþykki SP-fjármögnunar.  Samt hefur umrædd bifreið aldrei verið í umsjón SP-fjármögnunar og líklegast bara örsjaldan verið lagt nálægt fyrirtækinu.  Starfsmaður SP-fjármögnunar hefur mér vitanlega aldrei komið upp í bifreiðina og SP-fjármögnun lagði hvorki til að umrædd bifreið væri keypt né hafði nokkuð um kaupverðið að segja.“

Hann bendir einnig á að Hæstiréttur er búinn að segja að leigusamningurinn var lánssamningur, skatturinn færir bílinn (sjálfkrafa, einkar þægilegt) inn á skattframtalið hjá tug þúsunda lántökum sem eign, á meðan Umferðarstofa og lánveitandinn halda því fram að bílinn sé eign SP fjármögnunar, Ergo, Avant, Lýsingar o.s.frv.

Hvernig væri lífið nú ef við gætum ÖLL valið þau lög og reglur sem við viljum fara eftir, svona eftir efnum og aðstæðum, og stjórnsýslan myndi meira að segja hjálpa okkur við það?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.9.2011 - 18:06 - 7 ummæli

Kæri skráningu bílsins

Í morgun var lögð fram stjórnsýslukæra til innanríkisráðherra vegna synjunar Umferðarstofu um breytingu á skráningu bifreiðar fjölskyldunnar í ökutækjaskrá. Í ökutækjaskrá er eiginmaður minn Sigurður E. Vilhelmsson skráður umráðamaður fjölskyldubílsins en SP fjármögnun eigandi.

Ég óska jafnframt eftir að heyra frá fleirum sem hafa áhuga á að skýra eignarhald fjölskyldubílsins.  Hægt er að senda mér tölvupóst á eyglohardar@althingi.is.

Kæran er svohljóðandi:

Sigurður E. Vilhelmsson keypti bifreiðina RT337 af Heklu með bílaláni frá SP fjármögnun árið 2004. Í kjölfarið var Sigurður skráður umráðamaður bifreiðarinnar hjá ökutækjaskrá í gegnum Heklu.  Kaupin fóru þannig fram að Sigurður fór til Heklu, valdi sér bifreið og keypti af Heklu og samdi um greiðslukjör og verð við Heklu án þess að SP fjármögnun kæmi þar nokkuð nærri.

Sigurður fór fram á við Umferðarstofu sem fer með stjórnsýslu ökutækjaskrár, með tölvupósti dagsettum 2. ágúst 2011, að skráningu ökutækisins RT337 yrði breytt í samræmi við dóma Hæstaréttar nr. 153/2010 og 92/2010 og reglugerð nr. 751/2003, en í þeim dómum tók Hæstiréttur efni svokallaðra bílasamninga/kaupleigusamninga umfram form og dæmdi að um væri að ræða lán en ekki leigu.

Þannig hafi SP fjármögnun ekki verið aðili að kaupunum og hafi því ranglega verið skráður eigandi bifreiðarinnar. Jafnframt er það skilningur Sigurðar að bifreiðin sé ekki skráð í efnahagsreikning SP fjármögnunar, heldur aðeins krafan á Sigurð.

Þegar Sigurður fór fram á að skráning ökutækisins væri færð í samræmi við dóma Hæstaréttar, lög og reglugerð um skráningu ökutækja var því hafnað.

Í tölvupósti dagsettum þann 11. ágúst 2011 hafnaði XX, lögfræðingur Umferðarstofu að breyta eigendaskráningu bifreiðarinnar.  Rökstuðningur Umferðarstofu var að í Hæstaréttardómunum hafi ekki verið véfengt að eigandi bifreiðar sé fjármögnunarfyrirtækið sjálft þegar um bíla- og kaupleigusamninga ræðir. Í dómunum hafi jafnframt verið viðurkennt að önnur ákvæði en þau sem lúta að gengistryggingu og vöxtum standi óbreytt á milli aðila.  Greiðsla endurgjalds fyrir afnot bifreiðarinnar í umsaminn tíma og kaupverð í lok samningstíma sé grundvallarforsenda þess að eignarréttindin geti færst yfir til kaupanda.

Því sé umrædd skráning í samræmi við þann samning sem liggi til grundvallar lögskiptum aðila og engar forsendur til þess að breyta þeirri skráningu fyrr en greiðsla endurgjalds og umsamið kaupverð hafi verið innt af hendi.

Slík breyting myndi fara gegn hinni ólögfestu meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga, ásamt því að brjóta gegn eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Þessu hafnar Sigurður og kærir ákvörðun Umferðarstofu til Innanríkisráðuneytisins.

Ákvörðunin sé efnislega röng og hana beri að leiðrétta.

Viðeigandi réttarheimildir

Í dómum Hæstaréttar nr. 153/2010 og 92/2010 var komist að þeirri niðurstöðu að bílasamningarnir/kaupleigusamningarnir hafi í raun verið lánasamningar, en ekki leigusamningar. Þetta var síðar staðfest enn frekar með lögum nr. 151/2010.

Í dómi nr. 92/2010 þar sem SP fjármögnun var aðili að var deilt um þrjú atriði.  Í fyrsta lagi hvort samningur málsaðila frá 5. maí 2007 hafi verið lánssamningur eða leigusamningur, hvort samningurinn hafi verið skuldbinding í erlendri mynt eða íslenskum krónum, sem bundnar séu gengi erlendra gjaldmiðla og loks hvort slík gengistrygging, sé um hana að ræða sé heimil að lögum.

SP fjármögnun hélt því fram að samningurinn frá 5. maí 2007 væri ekki lán, heldur leiga, og félli þar af leiðandi ekki undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001 um verðtryggingju lánsfjár.  Af þeim sökum hefði verið frjálst að semja um gengistrygginguna án tillits til þeirra, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í máli nr. 98/1978.

Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að bílasamningurinn hafi ekki verið leiga, heldur lán.  Rökstuðningur fyrir því er rakinn:

1) Í texta samningsins tekið fram að hann sé um kaupleigu, en allt að einu var þó í niðurlagi hans sagt að leigutaki gerði sér grein fyrir því að „lántaka í erlendum gjaldmiðli“ væri áhættusöm, því gengisbreytingar gætu leitt til „hækkunar á höfuðstól á lánstíma og þar með hækkun á afborgun höfuðstóls og vaxta.“

2) Í greiðsluyfirliti var jafnframt rætt um afborganir og sýnt hverjar yrðu „eftirstöðvar“ eftir hverja greiðslu. Í skilmálum, sem fylgdu samningnum, voru ákvæði um vexti, sem greiða skyldi samhliða afborgunum, en slíkt tíðkast í lánssamningum og á engan veginn við í leigusamningum.

3) Þá var þar jafnframt gengið út frá því að við vanefndir gæti stefndi rift samningi og allt að einu krafið gagnaðila um fullar greiðslur til loka samningstímans, en við riftun leigusamnings fellur niður eðli máls samkvæmt skylda leigutaka til áframhaldandi greiðslu á leigu, þótt leigusali geti eftir atvikum krafið hann um bætur vegna missis leigutekna að því afstöðnu.

4) Í samningnum var þessu til viðbótar gengið út frá því að áfrýjandi yrði eigandi bifreiðarinnar gegn greiðslu á 1.000 krónum eftir að hafa innt af hendi 84 mánaðarlegar afborganir, sem svo voru nefndar bæði í greiðsluyfirliti og greiðsluseðlum frá stefnda.

5) Auk alls þessa verður að gæta að því að eftir gögnum málsins leitaði áfrýjandi ekki eftir því að taka á leigu frá stefnda bifreið, sem sá síðarnefndi átti þá þegar, heldur valdi áfrýjandi bifreiðina og samdi um kaup hennar, þar á meðal um verð og greiðslukjör, án þess að stefndi kæmi þar nærri.

Segir í dómnum: „Þegar þetta allt er virt verður að líta svo á að stefndi hafi í raun veitt áfrýjanda lán til kaupa á bifreið, sem stefndi kaus í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings í stað þess að kaupa af áfrýjanda skuldabréf, sem tryggt væri með veði í bifreiðinni.

Af þessum sökum lagði Hæstaréttar til grundvallar að hér hafi verið um að ræða lánssamning í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001. Í framhaldinu komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að lánið væri í íslenskum krónum og að gengistrygging lánsins væri ólögmæt.

Í dómi Hæstaréttar nr. 153/2010 var tekist um nánast sömu deiluatriði og komist að sömu niðurstöðu.

SP fjármögnun ásamt öðrum fjármögnunarfyrirtækjum hafa farið í gegnum lánasöfn sín og greint hverjir samningar eru í raun lánssamningar og hverjir eru leigusamningar og fylgt þannig fordæmi Hæstaréttar og lögum nr. 151/2010.  Sönnun fyrir því er endurútreikningur á lánssamningi Sigurðar við SP fjármögnun og áréttað á vef umboðsmanns skuldara 21. febrúar og 19. maí sl.

Endurútreikningur jafngildir því að um lánasamning sé að ræða. Enginn endurútreikningur hlýtur að jafngilda því að fyrirtækið hafi metið svo að um leigusamning væri að ræða.

Þar sem SP fjármögnun var ekki aðili að kaupunum á RT 337 sbr. framangreinda atvikalýsingu og um að ræða lánssamning gagnvart SP fjármögnun sbr. dóma Hæstaréttar getur fyrirtækið ekki haft neinn stjórnarskrárvarinn eignarrétt.  Siguður hefur því réttmæta ástæðu til að líta svo á að hann sé raunverulegur eigandi bifreiðarinnar RT337. Skattaleg og bókhaldsleg meðferð bifreiðarinnar ætti einnig að staðfesta það, hvað varðar framtal til skatts og færsla í efnahagsreikningi fyrirtækisins.  Þar er aðeins krafan eignfærð en ekki bifreiðin, vaxtatekjur færða til tekna en ekki leigutekjur.  Í ársreikningum SP fjármögnunar er einnig ítrekað vísað til lántaka, útlána, lánsáhættu, lánaregla, lánveitinga o.s.frv.  Ekki er talað um leigu eða leigugreiðslur.

Skráning í ökutækjaskrá ætti að sjálfsögðu að endurspegla raunverulegt eignarhald bifreiðarinnar sbr. 4. gr. rg. nr. 751/2003.

Óásættanlegt er að röng skráning ökutækis í ökutækjaskrá sé notuð til að réttlæta ólögmætar  vörslusviptingar. Má þar benda á dóm Hæstaréttar í máli nr. 315/2010 þar sem fram kemur í héraðsdómi sem Hæstiréttur staðfesti: „Samkvæmt framlagðri útprentun úr ökutækjaskrá er gerðarbeiðandi skráður eigandi framangreindra ökutækja en gerðarþoli skráður umráðamaður þeirra.“  Ekki var deilt í málinu um þessi gögn og tók því dómurinn ekki afstöðu til lögmætis gagnanna.

Eignarréttarfyrirvari  er því þýðingarlaus enda í ósamræmi við 8. gr. og 9. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og lögum nr. 57/2005.

Hvað varðar ólögfesta meginreglu samningsréttar um skuldbindingargildi samninga þá er hún engan veginn frávikalaus og meðal annars er lögfest sú regla í 8. gr. laga nr. 57/2005 að viðskiptahættir eru óréttmætir ef þeir brjóta í bága við góða viðskiptahætti gagnvart neytendum og raska verulega eða eru líklegir til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda.  Í 9. gr. laganna er tilgreint að þar falli m.a. undir rangar upplýsingar um eðli vöru eða þjónustu, helstu einkenni vöru eða þjónustu, t.d. notkun, samsetning eða árangur sem vænta má af notkun hennar sem og lögbundin réttindi neytanda.

Í 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga segir jafnframt að samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.  Við mat á þessu skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.  Í 36. gr. a segir að þetta gildir um samninga, m.a. samningsskilmála sem ekki hefur verið samið um sérstaklega enda séu samningarnir liður í starfsemi annars aðilans, atvinnurekanda, en í meginatriðum ekki liður í starfsemi hins aðilans, neytanda.  Í 36. gr. b segir jafnframt að ef vafi kemur upp um merkingu samnings skal túlka samninginn neytandanum í hag.

Fullyrða má að allt þetta eigi við um ákvæði lánasamnings SP fjármögnunar og þeirrar þjónustu sem þeir buðu kæranda við fjármögnun á kaupum bifreiðarinnar þar sem Sigurður varð fórnarlamb tilrauna fyrirtækisins til að koma sér markvisst undan m.a. lögum um vexti og verðtryggingu, bókhald, skuldabréf og skattalög.

Kröfur

Kærandi kefst þess að Innanríkisráðuneytið fjalli um ákvörðun Umferðarstofu frá 11. ágúst 2011 sl. þess efnis að synja beiðni hans um að vera skráður eigandi bifreiðarinnar RT337 í ökutækjaskrá stofnunarinnar.  Jafnframt er þess krafist að ráðuneytið fjalli um efnislegt lögmæti ákvörðunarinnar.

Kærandi krefst þess jafnframt að Innanríkisráðuneytið beini því til kærða að kærandi verði skráður eigandi að bifreiðinni RT337.   Jafnframt áskilur kærandi sér rétt til að fá bætt það fjárhagslega tjón sem kærandi kann að hafa orðið fyrir vegna aðgerða eða aðgerðaleysis Umferðarstofu.

Kærandi áskilur sér rétt til að bæta við kröfur sínar, falla frá þeim að hluta eða breyta þeim á síðari stigum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.9.2011 - 06:44 - 2 ummæli

Fórnfýsi ráðherra

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, situr í ríkisstjórn sem fer gegn grunnhugsjónum hans í stjórnmálum.

Nú síðast telur hann ríkisstjórnina vera að veikja Alþingi með því að leggja til að forsætisráðherra geti ákveðið skipan mála í stjórnarráðinu sbr. 15. grein stjórnarskrárinnar.

Þar áður hafði ríkisstjórnin sótt um aðild að Evrópusambandinu, þangað sem Jón ætlaði aldrei að ganga inn.

En  Jón heldur fast í stólinn, – tilbúinn til að fórna sér í þágu lands og þjóðar.

Af hverju eru ekki fleiri eins og Jón?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.9.2011 - 08:03 - Rita ummæli

Græn súpa og hafragrautur

Velferðarvaktin vakti í vikunni athygli sveitarstjórna á mikilvægi þess að halda verði á skólamáltíðum niðri.  Staða barna sem áttu í vanda fyrir hrun er síst minni nú.  Því þyrfti að tryggja öllum börnum í leik- og grunnskóla hádegisverð alla skóladaga.

Tilraunir ýmissa skóla með hafragraut í morgunmat eru einnig athyglisverðar.

Við eigum að geta tryggt að öll börn fái að borða enda forsenda fyrir velferð þeirra og getu til að læra.

Umræða um skólamat er víðar en hér á landi. Vinsældir Kristin Halvorsen, norska menntamálaráðherrans og flokks hennar Sosialistisk Venstreparti, hafa minnkað mjög m.a. vegna þess að hún hefur ekki staðið við loforð um heitar skólamáltíðir. Kokkurinn Jamie Oliver hefur m.a. byggt feril sinn á baráttu sinni fyrir betri og hollari skólamat.  Nýlega rakst ég svo á þennan pistil um skólamáltíðir í Frakklandi.  Þar segir að mikið sé spjallað um gæði matarins, hversu hollur hann er, stærð skammta og úrval… yepp, – úrval.

Í skóla dætra minna hefur Krúska tekið völdin og ég fæ tilkynningar um græna súpu og linsubuff. „Er maturinn vondur?“ spurði ég.  „Nei, nei, – linsubuffið var meira að segja ágætt.“ var svarið.  Á föstudaginn var svo smalabaka með salati og ávöxtum í eftirrétt.

Á frönsku skilst mér að það myndi hljóma Hachis parmentier en salade et fruits.

Hljómar einhvern veginn betur, ekki satt?

Flokkar: Matur

Sunnudagur 11.9.2011 - 13:11 - Rita ummæli

Smalað í Skaftárhreppi

Gærdagurinn var mögnuð upplifun sem hófst í Skaftárréttum.  Sauðfé er þá fjölmennara þar en mannfólkið. Eftir að búið var að draga í dilka var lagt af stað með hóp nokkurra hundruða kindna og á þriðja tug tvífætlinga yfir hraunið í átt að Hraunkoti.

Sólin skein, útsýnið var stórkostlegt og félagsskapurinn skemmtilegur.  Gosið í Grímsvötnum og askan minntu þó æ meira á sig eftir því sem leið á fjögurra tíma gönguna. Ég var komin með ágætis yfirvaraskegg og hökutopp,- auk þess sem Marilyn Manson hefði örugglega öfundast út í „augnmálninguna“.

Maturinn bragðaðist sérstaklega vel í Skaftárhreppnum, – kjötsúpan og grafna lambið hennar Sigurlaugar í Hraunkoti, hjónabandssælan hennar Bubbu, ísinn frá Fossi í Mýrdal og Klausturbleikjan á Icelandair Hótel Klaustri.

Ísland eins og það gerist best.

Flokkar: Matur

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur