Þriðjudagur 26.7.2011 - 12:36 - 21 ummæli

Ofurlaun alþingismanna?

Nú er runninn upp sá árstími sem við getum öll kynnt okkur hvað nágranninn er með í laun.

Í tekjublaði DV er að finna laun 2.737 Íslendinga.

Skoðum aðeins menntamálaráðuneytið og yfirmenn ýmissa undirstofnana ráðuneytisins.

  • Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, 934.368 kr./mán.
  • Páll Magnússon, útvarpsstjóri RÚV, 1.109.338 kr./mán.
  • Egill Helgason, sjónvarpsmaður, 1.054.730 kr./mán.
  • Óðinn Jónsson fréttastjóri RÚV, 906.868 kr./mán.
  • Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ 1.605.188 kr./mán.
  • Baldur Gíslason, skólastjóri Tækniskólans – skóla atvinnulífsins, 1.248.388 kr./mán.
  • Bryndís Hlöðversdóttir, rektor Háskólans á Bifröst, 1.138.807 kr./mán.

Einnig er áhugavert að skoða innanríkisráðuneytið sem fer með dómskerfið, samgöngur og sveitastjórnarmál.

  • Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, 956.058 kr./mán.
  • Ingibjörg K. Benediktsdóttir, hæstaréttardómari, 1.163.382 kr./mán.
  • Markús Sigurbjörnsson, hæstaréttardómari,  1.077.746 kr./mán.
  • Karl Ágúst Ragnars, forstj. Umferðarstofu, 988.369  kr./mán.
  • Snorri Olsen, tollstj. í Reykjavík, 1.042.298 kr./mán.
  • Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, Flugstoða, 1.533.686 kr./mán.
  • Karl Sigurbjörnsson, biskup Ísl. 970.030 kr./mán.

Ég sá að ég var með 586.683 kr. á mánuði og tekjur flestra samstarfsmanna minna virðast vera ámóta. Þannig erum við á svipuðu róli og fréttamenn hjá RÚV, veðurfræðingar á Veðurstofu Íslands og fangapresturinn.

Sögulega er þekkt að þegar konum fjölgar í ákveðnum starfsstéttum þá lækka laun og virðing stéttarinnar, sbr. t.d. kennarar og prestar.

Það skyldi nú ekki vera að gerast í pólitíkinni?

PS:  Látið mig vita hvað ykkur finnst.  Hægt er að setja „like“ inn á Facebook eða setja inn ummæli. Athugið að ég áskil mér rétt til að eyða út grófum, ómálefnalegum og nafnlausum ummælum.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.7.2011 - 14:26 - 1 ummæli

Fyrirgefning,- ekki hatur?

Árið 2006 tók Charles Carl Roberts IV 10 stúlkur sem gísla í West Nickel Mines skólanum í Amish samfélaginu í Bart Township, Pennsylvaniu.  Hann endaði gíslatökuna með því að skjóta þær, þannig að Naomi Ebersol (7), Marian Fisher (13), Anna Stoltzfus (12), Lena Miller (8) og Mary Miller létust og framdi í kjölfarið sjálfsmorð.

Allar skotárásir eru hræðilegar.

Það sem var minnisstætt við þessa skotárás voru viðbrögð Amish samfélagsins eftir árásina.  Afi einnar af myrtu stúlkunum lagði áherslu á það við unga ættingja sína að þeir ættu ekki að hata morðingjann.  Um 30 meðlimir samfélagsins mættu í jarðarför hans og Marie Roberts, eiginkonu hans, var boðið í jarðarför eins fórnarlambsins.  Í framhaldinu skrifaði Marie opið bréf til Amish nágranna sinna þar sem hún sagði: „Your love for our family has helped to provide the healing we so desperately need. Gifts you‘ve given have touched our hearts in a way no words can describe.  Your compassion has reached beyond our family, beyond our community, and is changing our world, and for this we sincerely thank you.“

Margir áttu erfitt með að skilja þessi viðbrögð. Þessa áherslu á fyrirgefningu, án þess að fyrir lægi nokkur eftirsjá eða viðurkenning á sekt hjá ódæðismanninum.  Viðbrögð sem hunsuðu mannvonsku og hatur og lögðu áherslu á kærleika og nýtt upphaf.

Aðrir bentu á að fyrirgefning gerði ekki lítið úr voðaverki. Fyrirgefning afsakaði ekki hið óafsakanlega, en hún væri fyrsta skrefið í átt að vonbjartri framtíð.

Var þetta ekki kjarninn í skilaboðum Stine Renate Håhem, ungrar stúlku sem lifði af árásina á Útey, þegar hún sagði í viðtali á CNN: „Ef einn maður getur sýnt svo mikið hatur, hugsið ykkur hversu mikinn kærleika við öll getum sýnt saman.“?

Ég er ekki viss um að ég gæti brugðist svona við…, en ímyndið ykkur hvað heimurinn væri miklu betri ef við myndum öll hugsa á þennan máta.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 23.7.2011 - 13:12 - Rita ummæli

Sorg í hjarta / Sorg i hjertet

Hjarta mitt er fullt af sorg.  Árásin í Osló og Útey er hryllilegur atburður.

Hann er einnig sterk áminning.  Áminning um að standa vörð um allt það sem okkur þykir vænt um.  Áminning um hvað það er sem gerir Norðurlöndin að góðum samfélögum.

Áhersla okkar á lýðræði, frelsi, samvinnu, jafnrétti, sanngirni og rétt hvers og eins til að lifa góðu og réttlátu lífi.

Aldrei ofbeldi, aldrei hatur.

Ég votta aðstandendum og norsku þjóðinni samúð mína.

———————-

Sorg i hjertet

Mitt hjerte er fullt av sorg.  Angrepene i Oslo og Utøy er forferdelig.

De er også en stark påminnelse.  Påminnelse om hva det er som betyr noe for oss.  Påminnelse om hva det er som gjør de nordiske landene av gode samfunn.

Våre vekt på demokrati, frihet, samarbeid, likestilling, rettferdight og at alle har rett til et godt og rettferdig liv.

Aldri vold, aldri hat.

Mine kondolanser til pårørende og den norske nasjonen.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 21.7.2011 - 12:20 - 1 ummæli

58 ára, – og von á tvíburum

Ég las nýlega grein um Carole Hobson, 58 ára bresk kona sem átti von á tvíburum, -eftir tæknifrjóvgun með gjafaegg og gjafasæði.  Hún hafði farið nokkrum sinnum í gegnum tæknifrjóvgun á Bretlandi og Kýpur, en fór að lokum til Indlands eftir að hún var orðin of gömul skv. breskum lögum.  Tvíburarnir fæddust heilbrigðir.

Síðasta vetur fór fram töluverð umræða um staðgöngumæðrun.  Staðgöngumæðrun er enn þá ólögleg á Íslandi og börn sem fæðast erlendis í gegnum staðgöngumæðrun eru í lagalegu tómarúmi.

En hvað með sambærilega stöðu og lýst er að ofan?

Eiga konur að geta eignast börn löngu eftir breytingarskeiðið? Hver er ábyrgð viðkomandi einstaklings?  Hver er ábyrgð samfélagsins, innanlands og þess alþjóðlega?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 21.7.2011 - 09:32 - Rita ummæli

Er lögbrot tækniatriði?

Viðtal við Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, á Pressunni um söluferlið á Byr veldur mér nokkrum heilabrotum.

Þar segir: „Mikið hefur verið rætt um þá staðreynd að fjármálaráðuneytið fer með hlut slitastjórnar Byrs í sparisjóðnum sem er um 95% en lögum samkvæmt mega slitastjórnir ekki eiga ráðandi hlut.  Gagnrýnt hefur verið að fjármálaráðuneytið fari með þann hlut fyrir hönd slitastjórnar og sé með því að leppa hana.  Spurður [af blaðamanni Pressunar] hvort fjármálaráðuneytið sé ekki í raun ráðandi aðili í þessum samningum með þá staðreynd uppi á borðunum sagði Steingrímur að þar væri aðeins um tækniatriði að ræða.  Lögum samkvæmt á Bankasýsla ríkisins þó að fara með hluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum en ekki fjármálaráðuneytið. Útilokaði Steingrímur ekki að hægt yrði að gefa verðið á Byr upp áður en samþykki Fjármálaeftirlits, Samkeppniseftirlits og ESA lægi fyrir en ítrekaði að leita þyrfti til samningsaðila fyrst.“

Þarna virðist fjármálaráðherra vera að viðurkenna að farið sé á svig við lög og álit FME sem segja til um að slitastjórnir séu óhæfar til að fara með ráðandi hluti í starfandi fjármálafyrirtækjum.  Lög segja einnig til um að hann eigi ekki að fara með hlut ríkisins, heldur Bankasýslan.  Lög og stjórnarskráin krefjast þess jafnframt að hann fái samþykki Alþingis fyrir sölu á eignarhlut ríksins.

Eru lagabálkar og stjórnarskráin orðin að tækniatriði? Eða eru þetta bara „tæknileg mistök“ hjá Steingrími?

Flokkar: Fjármálakerfið · Óflokkað

Miðvikudagur 20.7.2011 - 12:30 - Rita ummæli

Þyrluferð = 600% vextir?

Auglýsingar smálánafyrirtækja hafa hljómað á öldum ljósvakanna á undanförnu. Lofað er þyrluferð og miðum á útihátíð sem staðfestir enn á ný að markaðssetning lánanna beinist fyrst og fremst að ungu fólki. Vextir hjá þessum lánum geta verið fleiri hundruð prósent á ársgrundvelli, eða allt að 600% og kostnaður fyrirtækjanna við þessar lánveitingar lítill.

Í frumvarpi efnahags- og viðskiptaráðherra um smálán er ákvæði þess efnis að við markaðssetningu neytendalána sem bera vexti eða kostnað á lánveitandi að veita upplýsingar um eftirfarandi atriði:

  • Vexti, þar með upplýsingar um hvort vextir eru bundnir eða breytilegir.
  • Lántökukostnað
  • Árlega hlutfallstölu kostnaðar, þ.e. heildarlántökukostnað, sem er lýst sem árlegri prósentu af upphæð höfuðstólsins.
  • Höfuðstól.
  • Lengd lánasamnings.
  • Heildarupphæð þá sem greiða skal, þ.e. samtölu höfuðstóls, vaxta og lánskostnaðar auk fjölda afborgana.

Ég tel að árleg hlutfallstala kostnaðar sé sérstaklega mikilvægi og hún verði að koma fram í auglýsingunum sjálfum.

Við þurfum að gæta að unga fólkinu okkar.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.7.2011 - 15:01 - 1 ummæli

Steingrímur og einkavæðingar 1 og 2

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hefur nú einkavætt fjóra banka.  Þeir eru Arionbanki, Íslandsbanki, NBI og Byr og boðar frekari einkavæðingu í gegnum forstjóra Bankasýslunnar. Í þessum fjórum tilvikum þótti ráðherra ekki ástæða til að upplýsa Alþingi sérstaklega mikið.   Ráðherrann virtist telja að ákvæði neyðarlaganna dygðu til að hann gæti ráðstafað eignarhlut ríkisins og ráðfærði sig hvorki við kóng né prest, – hvað þá Alþingi.

Alþingi ekki sammála.

Neyddist meirihluti fjárlaganefndar til að leggja sjálf fram frumvarp um heimild til sölu á Arionbanka, Íslandsbanka og NBI eftir ábendingar um stjórnarskrárbrot og brot á lögum um fjárreiður ríkisins. Engin skýr lagaheimild liggur fyrir hvað varðar sölu á Byr hf. og fjármálaráðherra neitar að upplýsa um söluverð og önnur skilyrði er varða söluna s.s. ríkisábyrgðir.

Ekki er vitað hverjir hinir raunverulegu eigendur eru, hvað þá hvort þeir séu hæfir til að fara með eignarhluti í bönkunum.  Meirihluti  Alþingis og fjármálaráðherra virðist þó ekki hafa miklar áhyggjur af því.

RNA ekki sammála.

Í umfjöllun Rannsóknarnefndar Alþingis um einkavæðingu ríkisbankanna á sínum tíma var gagnrýnt sérstaklega hversu opin heimildin var um að selja ríkisbankana.  Allt mat og stefnumörkun var í höndum framkvæmdarvaldsins þrátt fyrir að Alþingi hafi haft brýnar ástæður til að taka tillit til aðalatriða við sölu ríkisbankanna í lögum. Alltof skammur tími hafi verið ætlaður í ferlið og pólítísk markmið hafi verið látin ráða frekar en fagleg.  Lagði nefndin áherslu á að stjórnvöld verði að leggja sjálfstætt mat á kaupendur sem og sýna festu og eftirfylgni gagnvart fjármálamörkuðum.

Hmmm…

Þingmannanefndin tók undir gagnrýni RNA og lagði til að lögfest yrði rammalöggjöf um sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja og eftirlitshlutverk Alþingis tryggt þannig.  Ríkisstjórnir hvers tíma ættu einnig að marka opinbera stefnu um hvort og þá með hvaða hætti selja eigi og/eða einkavæða ríkisfyrirtæki.  Við bíðum enn þá spennt…

Í raun er hlægilegt til þess að hugsa hversu ötull Steingrímur hefur verið að gagnrýna einkavæðingu á fyrri tímum.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.7.2011 - 08:06 - Rita ummæli

Lagaheimild til að selja Byr?

Má fjármálaráðherra selja eins og eitt styrki Byr sísona? Í 40.gr. stjórnarskrár Íslands, nr. 33/1944, segir að ekki megi selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum ríkisins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.  Enn fremur segir í 29.gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, að ríkisaðilar í A-hluta skuli hverju sinni afla heimilda í lögum til að kaupa, selja, skipta eða leigja til langs tíma fasteignir, eignarhluta í félögum, skip og flugvélar, söfn og safnahluta sem hafa að geyma menningarverðmæti og aðrar eignir sem verulegt verðgildi hafa.

Í fjárlögunum 2011 segir þetta um kaup og sölu hlutabréfa:

„Kaup og sala hlutabréfa

5.1 Að selja hlut ríkisins í Endurvinnslunni hf.

5.2 Að selja hlut ríkisins í sparisjóðum sem ríkið hefur eignast hlut í á grundvelli 2. gr. l. nr. 125/2008, um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.

5.3 Að kaupa og selja hluti í innlendum sparisjóðum í tengslum við endurskipulagningu sparisjóðakerfisins.“

En er lagaheimildin þá til staðar? Vandinn er að nýi Byr var stofnaður sem hlutafélag með 900 milljón króna framlagi ríkisins.  Á mbl.is kemur fram að fjármálaráðherra hafi gert það til að komast hjá því að ríkið þyrfti að endurfjármagna bankann sem hefði þýtt mjög mikil viðbótarútgjöld.

Spara, spara,- er ekki sama og sparisjóður sbr. 61.gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Byr er hlutafélag. Því hljótum við að sjá strax á haustþingi frumvarp frá fjármálaráðherra, sambærilegt lögum nr. 138/2009 um heimild til að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf., til að heimila söluna á eignarhlut ríkisins á Byr.  Þar hljótum við einnig að fá upplýsingar um hvernig var staðið að sölunni, hvort það eru einhverjar ríkisábyrgðir og hvert söluverðið er.

Fjármálaráðherra taldi að vísu að lög nr. 138/2009 væru einnig ónauðsynleg enda óþarfi að vera trufla Alþingi mikið með sölu á eins og nokkrum bönkum…

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.7.2011 - 12:10 - Rita ummæli

SVÞ m/ dýrustu raftækin

Í leiðara Fréttablaðsins í gær tekur Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, upp málflutning Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) gegn íslenskum landbúnaði um að hér sé eitt hæsta búvöruverð á byggðu bóli úti í búð. Hans lausn er að koma á samkeppni, þannig að bændur og afurðastöðvar keppi við innflutning.

Skoðum aftur staðreyndir, frekar en fullyrðingar.

Í nýrri könnun Eurostat (Hagstofa Evópusambandsins) á verði á neytendavörum kemur eftirfarandi fram:

  • Sviss, Noregur, Danmörk, Finnland, Lúxembourg, Svíþjóð, Írland, Belgía og Frakkland eru með hærra matvælaverð en við.  Næst á eftir okkur í verðlagi eru ríki eins og Austurríki, Holland, Þýskaland, Ítalía og Bretland.
  • Við erum í fyrsta sæti hvað varðar dýrtíð á raftækjum, – langhæst raunar.
  • Við erum með næstdýrustu fötin, aðeins Noregur toppar okkur þar.
  • Við erum með fjórðu dýrustu farartækin.  Noregur er í fyrsta sæti, svo Danmörk og Portúgal.

Síðast þegar ég vissi þá var frjáls innflutningur og engar samkeppnishindranir í verslun á raftækjum, fatnaði og farartækjum.

Hvernig skyldi standa á því að hvorki ritstjóri Fréttablaðsins né SVÞ nefna þetta í pistlum sínum?

Hafa þau ekki áhyggjur af  því að gengið sé „…gróflega á frelsi og réttindi annarra þegna þessa lands.„?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.7.2011 - 23:32 - 3 ummæli

Hæsta landbúnaðarverð í heimi?

Margrét Kristmannsdóttir og Andrés Magnússon, forystumenn Samtaka verslunar og þjónustu skrifa grein í Fréttablaðið þar sem þau fullyrða að „… íslenskir skattgreiðendur [búa] við eitt dýrasta landbúnaðarkerfi í heimi og íslenskir neytendur við eitt hæsta landbúnaðarverð í heimi.“

Stundum borgar sig að tékka á staðreyndum þegar fullyrt er. Ég kíkti á verð á vefsíðum Sainsbury’s og Carrefour í dag og bar það saman við kassakvittun í Vöruvali (hverfisverslunin mín í Eyjum) frá 8.7.2011.

Nýmjólk:

  • Sainsbury’s British Whole Milk GBP 0,78/L = 146,59 kr.
  • Carrefour Lait entier €0,95/L = 156,95 kr.
  • Vöruval nýmjólk 1/L 130 kr.

Egg:

  • Sainsbury‘s Free Range Large Woodland Eggs x 12 GBP 3,00 (0,25 each x 10= 2,50 = 469,83 kr.
  • Carrefour 12 oeufs de poules élevées en plein air €3.14 (€2.62 pr. 10 egg) = 432,85 kr.
  • Vöruval egg stór 10 stk 438 kr.

Smjör:

  • Sainsbury’s slightly salted 250 gr. GBP 1.25 x 2 = GBP 2.50 = 469,83 kr.
  • Carrefour beurre demi-sel de Normandie 250 gr. €1.41×2 = €2.82 = 465.89 kr.
  • Vöruval saltað smjör frá MS 500 gr. 375 kr.

Þetta er ástæðan fyrir því að við sjáum ekki lengur samanburðarkannanir á verði á matvörum erlendis og hér heima.  Þetta er eitthvað sem Margrét og Andrés hefðu getað tékkað á með þokkalegri tölvu og nettengingu.

En kannski hentaði það ekki?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur