Sunnudagur 5.6.2011 - 19:46 - Rita ummæli

Sjómannadagsræða í Eyjum

Ágætu sjómenn, fjölskyldur og aðrir Eyjamenn.

Fiskur hefur alltaf leikið stórt hlutverk í fjölskyldu minni. Við höfum fengist við útgerð, eldi, veiðar, vinnslu, sölu, matreiðslu og í raun flest allt sem viðkemur fisk og sjávarútvegi. Þegar við hittumst, hvort sem er í fjölskylduboðum eða við eldhúsborðið, líður því sjaldan á löngu þar til umræðan er farin að snúast á einhvern hátt um fisk.

Því er mér mjög minnisstætt þegar fjölskylduvinur greip einhvern tímann fram í djúpar samræður um kosti og galla ólíkra veiðarfæra og sagði með mikilli alvöru í röddinni: „Hvaða rugl er þetta að vera endalaust að röfla um fisk?  Framtíðin liggur í sölu á hlutabréfum, fjármálamarkaðnum.  Þar eru peningarnir. Eftir örfá ár eigum við eftir að horfa til baka og velta fyrir okkur hvernig við nenntum að standa í því að eltast við fisk út um allan sjó.“ 

Varla þarf að minnast á að þetta var fyrir hrun og lítið hefur heyrst frá þessum kunningja fjölskyldunnar síðan þá.

Þó þetta viðhorf hafi verið ríkjandi á árunum fyrir hrun eru Íslendingar sem betur fer að átta sig á því að sjávarútvegur er hin raunverulega undirstaða lífskjara í landinu.  Án sjávarútvegsins væri íslenska þjóðin væntanlega enn þá meðal fátækustu þjóða Evrópu. Þúsundir Íslendinga hafa beint framfæri af sjávarútvegi og tugþúsundir byggja framfærslu sína á ýmissi þjónustu við greinina. Í fyrra var verðmæti útfluttra sjávarafurða um 220 milljarðar króna og hafði aukist um 10% frá árinu áður.

Það eru því engar ýkjur að segja að sjávarútvegurinn sé fjöregg þjóðarinnar.

Því er gríðarlega mikilvægt að sjávarútvegurinn fái að vaxa og dafna og að blómleg útgerð geti um ókomna framtíð tryggt vinnu, vöxt og velferð, ekki bara í sjávarbyggðunum, heldur í landinu öllu.

Það kerfi fiskveiðistjórnunar sem við búum við er á margan máta gott, en engin mannanna verk eru svo fullkomin að þau megi ekki bæta. Reyndar tel ég að stærsti vandi kerfisins og það sem mestri ósátt hefur valdið, sé ímyndarvandi. Örfáir einstaklingar og fyrirtæki hafa með hegðun sinni og umsvifum dregið upp ranga mynd af ofsagróða og óráðsíu íslenskra útgerðarmanna og hefur það því miður bitnað á greininni allri. Þó tel ég að á kvótakerfinu okkar séu vissulega ýmsir vankantar sem sníða þarf af.

Þannig lögðu Farmanna- og fiskimannasambandið, Sjómannasambandið og Félag vélstjóra og málmtæknimanna fram sameiginlega bókun við nýlega skýrslu nefndar um endurskoðun á sjávarútveginum. Þar leggja þessi fagfélög fram tillögur þar sem þeir:

  • Fallast á að svokölluð samningaleið verði farin þar sem samið verði við útgerðir um nýtingarrétt á auðlindinni, til uþb 15 ára.
  • Leggja áherslu á að ákvæði komi inn í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins um þjóðareign á auðlindinni.
  • Leggja til að framsal á veiðiheimildum frá skipi verði bannað.  Geti útgerð ekki nýtt veiðirétt sinn sjálf ber að skila umframrétti til ríkisins, sem síðan endurúthlutar réttinum til annarra eftir fyrirfram ákveðnum reglum.  Þó verði heimilt að flytja veiðiheimildir milli eigin skipa og skipta við aðrar útgerðir á veiðiheimildum í einstaka tegundum.
  • Hvetja til að allur óunninn afli sem landað er verði seldur á markaði eða markaðsverð á innlendum fiskmörkuðum verði látið ráða í beinum viðskiptum.
  • Leggja til að í lög verði sett ákvæði um fjárhagslegan aðskilnað milli veiða og vinnslu, þar sem óheimilt verði, út frá samkeppnissjónarmiðum, að nýta aflaheimildir til niðurgreiðslu á hráefni í eigin vinnslur.

Ég tek heils hugar undir þessar tillögur sjómanna og mun berjast fyrir í þeirri rimmu sem nú stendur á Alþingi um framtíð fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Við þurfum að tryggja að það fólk sem skapar verðmætin fái eðlilegan hlut í afrakstrinum. Ágóðinn af þessari mikilvægustu auðlind okkar á að skila sér í atvinnu og auknum lífsgæðum allra þeirra sem að nýtingu hennar koma.

Hlustum á raddir þeirra sem raunverulega skapa þau verðmæti sem samfélag okkar byggir á, þeirra sem leggja líf sitt að veði á degi hverjum í glímunni við Ægi svo við hin getum notið góðs af.

Sjómannanna sem við heiðrum hér í dag.

Því hvers virði er allur heimsins kvóti og öll heimsins skip ef við höfum ekki hinar sönnu hetjur hafsins til að bera fiskinn að landi?

Okkur ber ekki bara skylda til að tryggja þeim rekstrarlegt umhverfi til að sinna sínum störfum. Okkur ber skylda til að standa vörð um öryggi þeirra. Og öryggi sjómanna byggir á mörgum þáttum; góðum skipakosti, traustum öryggisbúnaði, reglulegum öryggisæfingum og nægri mönnun skipa.

En síðast en ekki síst byggir öryggi sjómanna á vel búinni Landhelgisgæslu.

Landhelgisgæslan hefur þurft að þola niðurskurð og þrengingar á síðustu misserum, líkt og við öll.  Skip Gæslunnar hafa verið í verkefnum erlendis til að reyna að fjármagna starfsemi hennar og óvíst er hvort nýtt og glæsilegt varðskip eigi eftir að nýtast sem skyldi, þar sem fé skortir til rekstrarins. Við höfum ekki efni á að skera öryggi sjómanna við nögl. Ef vel á að vera þurfa að vera hér fjórar þyrlur og þrjú varðskip í rekstri allt árið.

Þetta verður að tryggja sem og góða framtíðar starfsaðstöðu fyrir starfsemi Landhelgisgæslunnar.

Að lokum vil ég víkja að sjómönnum sem stundum gleymast í fiskveiðisamfélagi á borð við okkar hér í Eyjum. Það eru þeir sem tryggja okkur greiða leið til Norðureyjarinnar, hvort heldur er til vöruflutninga og viðskipta eða til að halda uppi straumi ferðamanna til Eyja og auðvelda okkur að sækja það sem við þurfum upp á land. Þar hefur áhöfn Herjólfs oft staðið í stafni í stórsjó, ekki hvað síst síðustu mánuði.  Áhöfn Herjólfs hefur að mínu mati unnið þrekvirki við mjög erfiðar aðstæður og staðið dyggan vörð um öryggi áhafnar og farþega.

Það ber að þakka og það ber að virða.

Að lokum óska ég sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn og þakka þeim kærlega fyrir að hafa lagt grunninn að því Íslandi sem við erum svo stolt af.

 (Ræða flutt á Stakkagerðistúni 5. júní 2011)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.6.2011 - 16:52 - Rita ummæli

Velkominn Ásmundur Einar

Ásmundur Einar Daðason gekk til liðs við Framsóknarflokkinn og þingflokk Framsóknarmanna í dag.

Þetta er ánægjuleg viðbót og mun efla okkur og styrkja flokkinn.

Hann rökstyður þessa ákvörðun með því að honum hafi hugnast málflutningur Framsóknarmanna á undanförnu þá sérstaklega afstaða okkar til skuldavanda heimila og fyrirtækja, baráttu okkar í Icesave, afstöðu til landsbyggðarinnar og stefnumörkun í Evrópusambandsmálum.

Þetta kom ekki á óvart, enda hafa þingmenn flokksins átt gott samstarf við hann á þinginu og kynnst vel skoðunum hans og afstöðu.

Ég býð hann velkominn heim í Framsóknarflokkinn 🙂

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.5.2011 - 18:53 - Rita ummæli

Að reikna RÉTT

Umboðsmaður skuldara kynnti niðurstöður sínar og Kristjáns Jónassonar og Stefáns Inga Valdimarssonar, stærðfræðinga við Raunvísindastofnun Háskólans um endurútreikning gengistryggðra lána.

Fyrst jákvæðu fŕettirnar. Útreikningar þeirra sýna að fjármálafyrirtækin kunna að leggja saman rétt. Bravó, klapp, klapp…

Hún staðfestir einnig að ekki er notuð saman aðferðafræðin hjá öllum fyrirtækjunum.  SP-fjármögnun, Lýsing og Íslandsbanki eru að reikna með öðrum hætti bílalánin sem gefur 3-5% hærri niðurstöðu en hin fyrirtækin.  Íslandsbanki virðist þannig vera að nota aðra aðferðafræði fyrir húsnæðislánin en bílalánin. Þessi fyrirtæki eru væntanlega með meginþorra bílalána á landinu.

En hver hefur ekki efni á því að lána þessum fyrirtækjum eins og nokkra þúsund kalla…

En hver skyldi vera skýringin? Umboðsmaður skuldara skrifar: „Helsti munurinn á aðferðafræði fjármálafyrirtækjanna er að flest fjármálafyrirtækin leggja vaxtavexti við höfuðstól einu sinni á ári. Þrjú síðasttöldu fyrirtækin leggja hins vegar vaxtavexti við höfuðstól bílalána við hvern áfallinn gjalddaga. Mismunurinn á þessum aðferðum virðist geta numið nokkrum prósentum af eftirstöðvum. Ef bílalánið var tekið fyrir 5-6 árum er munurinn líklega á bilinu 3-5% af upprunalegum höfuðstól. Af 3 milljón króna bílaláni gæti munað 100-150 þúsund krónum. Ef lánið var tekið síðar er munurinn minni en ef lánið var tekið fyrr er munurinn meiri.

Ok, – ég vann að vísu að þessu máli á Alþingi og man EKKI eftir að talað væri um að leggja ætti vaxtavexti við höfuðstól.  Við töluðum hvorki um einu sinni á ári né við hvern áfallinn gjalddaga. Reglan í 18. gr. laganna átti að vera tæmandi varðandi hvernig ætti að reikna lánin út.  Við tölum um 3.gr., 4.gr. og 10. gr. laganna en ekki orð um 12. gr. sem leyfir að leggja vaxtavexti við höfuðstól einu sinni ári. Enda bið ég menn um að benda mér á hvar tilvísun í 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu er að finna í 18. gr. laganna (lög nr. 151/2010)…

Niðurstöðurnar staðfesta að mínu mati gagnrýni Gunnlaugs Kristinssonar og útreikninga hans.

Ég er einnig undrandi yfir fréttaflutningi RÚV af niðurstöðu umboðsmanns skuldara. Þeir fullyrða að reikniaðferðin sé rétt, en hvar kemur það fram í niðurstöðum umboðsmanns skuldara? Það að geta reiknað 2+2 = 4 er ágætt en til lítils gagns ef þú átt að reikna 2-2 = 0.  Ég reyndi að nota þennan rökstuðning í gamla daga við stærðfræðikennarann minn, en það skilaði litlu …

Aðferðafræðin skiptir hér öllu máli og skýrar leiðbeiningar.

Að allri kaldhæðni sleppt, – þá verður efnahags- og viðskiptaráðherra að kippa buxunum upp um sig og taka af skarið.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.5.2011 - 11:43 - 1 ummæli

Framsal og veðsetning

Ein gagnrýnin (af mörgum) á frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um fiskveiðistjórnun er að það taki hagræðið úr kerfinu þar sem ekki verður lengur hægt að framselja aflaheimildir á milli fyrirtækja né að veðsetja óbeint.

En er það svo?

Í 7.gr. frumvarpsins segir: „Varanlegt framsal aflahlutdeilda er óheimilt. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er framsal aflahlutdeilda heimilt sem hér segir:
1.      Framsal aflahlutdeilda milli skipa í eigu sama aðila, einstaklings eða lögaðila.
2.      Framsal aflahlutdeilda milli ótengdra aðila er þó heimilt, með þeim takmörkunum að um jöfn skipti sé að ræða milli aðila í þorskígildum talið.
3.      Krókaaflamarkshlutdeild verður aðeins flutt til báts sem er undir 15 brúttótonnum, enda hafi hann veiðileyfi með krókaaflamarki. Aðrar aflahlutdeildir verða ekki fluttar til báta með krókaaflamark.“

Ég get ekki séð að þetta ákvæði komi í veg fyrir að fyrirtæki með nýtingarsamninga gangi kaupum og sölu.  Þótt ákvæði yrðu sett í nýtingarsamningana um að ekki mætti skipta um kennitölu á þeim, þá væri hægt að reka viðkomandi fyrirtæki áfram undir sömu kennitölu, með kaupandann sem móðurfélag eða renna þeim svo saman.  Við það tæki nýtt félag við öllum skuldbindingum. Ef fyrirtæki eða einstaklingur hættir rekstri mun nýtingarsamningurinn falla niður og aflaheimildum verða úthlutað aftur.

Ekki er hægt að banna að fyrirtæki skipti um eigendur, því það myndi þýða að við gætum aldrei skráð sjávarútvegsfyrirtæki á markað þar sem hlutabréf skipta um eigendur daglega.

Þá stendur eftir bannið við veðsetningunni, beinni og óbeinni í 8. gr frumvarpsins. Gagnrýnendur segja að bannið við óbeinu veðsetningunni muni leiða til þess að enginn vilji lána sjávarútvegsfyrirtækjum.

Þessu er ég ósammála.

Gallinn við veðsetningu á óveiddum afla er braskið og áhrif þess á efnahagslegan stöðugleika.  Óbeina veðsetningin við framsal leiddi til verðbólu á aflaheimildum. Ekki virtist skipta máli hvernig fyrirtækin voru rekin heldur fyrst og fremst hversu miklar aflaheimildir það hafði. Þetta endurspeglaðist ekki bara í lánveitingum fjármálafyrirtækja til sjávarútvegsfyrirtækja heldur einnig í öðrum lánveitingum sbr. öll skúffufélögin sem fengu lán til kaupa á hlutabréfum eða einstaka eignum.

Afleiðingarnar þekkjum við öll.

Mín von er að í framtíðinni muni lánveitingar til sjávarútvegsins og annarra greina byggjast á mati á verðmætasköpun viðkomandi fyrirtækja, hæfni stjórnendanna, viðskiptatengslum og raunverulegu tekjustreymi.

Ekki væntingum og spákaupmennsku.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.5.2011 - 09:36 - Rita ummæli

Veruleikafirrt fólk

Á flokksstjórnarfundi VG sagði Steingrímur J. Sigfússon: „Það hefur orðið mikill eignabruni, ekki samt hjá venjulegu fólki.“  Stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar fullyrðir að ríkisstjórnin hefði allan tímann staðið með almenningi, eða skuldurum í umfjöllun um gengistryggð lán.

Það er erfitt að viðurkenna mistök í pólítík, – en það hljóta samt að vera takmörk.

Krafa um almenna leiðréttingu skulda var afgreidd sem popúlismi og töfrabrögð.  Bönkunum var falið að fást við vanda hvers og eins með „sértækri skuldaaðlögun“.  Það var ekki fyrr en ríkisstjórnin, forsetinn og Alþingi var grýtt á þingsetningu að menn horfðust í auga við reiði almennings.  Samþykkt var að fara 110% leiðina. Ágreiningi um gengistryggð lán var vísað á dómstóla.  Ekki var tryggð flýtimeðferð, frysting á ólögmætri innheimtu né gjafsókn á fordæmisgefandi málum.  Ríkisstjórnin var gripin með allt niðrum sig þegar Hæstiréttur staðfesti ólögmæti lánanna. Þegar lög voru sett um endurútreikning gengistryggðra lána gátu menn ekki einu sinni komið sér saman um hvernig ætti að skilja ákvæði um endurútreikninginn né að ráðuneytið gæfi út leiðbeiningar þess efnis.

Á sama tíma hafa eignir fólks lækkað í verðmæti, skuldir hafa hækkað, sparnaður rýrnað, skattar hækkað, störf tapast og þjónusta verið skert.

Veruleikafirring í stjórnarráðinu virðist því vera mikil.

Enda væntanlega bara venjulegt fólk þar…

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 23.5.2011 - 08:18 - Rita ummæli

Gos og aska

Hugur minn er með fólkinu fyrir austan.  Það er aðdáunarvert hvað fólk hefur sýnt mikið æðruleysi.  Mikið af lambfénu var komið út og áhyggjur fólks snéru helst að þeim.

Í gærkvöldi byrjaði askan að falla í Heimaey. Dóttir mín hringdi og sagðist vera á leið til vinkonu sinnar.  „Það er stórt öskuský að nálgast,“ sagði hún og það dimmdi yfir.  Öllum gluggum var lokað og kettinum tilkynnt að hann yrði að vera inni á næstunni.

Rigningu er spáð í lok vikunnar.

Svo er að vona að gosið í Grímsvötnum taki enda sem fyrst.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.5.2011 - 13:27 - Rita ummæli

Verðtrygging – deyfilyf stjórnvalda

Á 9. áratugnum var verðtrygging launa lögð af vegna þess að hún var talin leiða til víxlverkunar launa og verðlags. Eftir að verðtrygging launa var afnumin hefur komið í ljós að verðtrygging útlána og lífeyrissparnaðar magnar upp sveiflur og óstöðugleika í efnahagslífinu.

Því er orðið tímabært að stjórnvöld einbeiti sér að baráttunni við verðbólguna frekar en að deyfa sig gegn áhrifum hennar með verðtryggingunni.

Heimatilbúinn vandi

Árið 2002 tóku íslensk stjórnvöld og Seðlabanki Íslands upp 2,5% verðbólgumarkmið með 1,5% efri og neðri þolmörkum. Árangurinn hefur verið slakur og verri en í öðrum ríkjum með sambærilegt fyrirkomulag. (Peningastefnan eftir höft, 2010) „Í alþjóðlegum samanburði sést að sveiflur í landsframleiðslu á Íslandi eru mun meiri en sveiflur í útflutningi og viðskiptakjörum gefa tilefni til; megnið af óstöðugleikanum er heimatilbúinn.“ (Friðrik Már Baldursson, 2011)

Því er forsenda þess að ná tökum á verðbólgu til framtíðar betri hagstjórn, draga úr sveiflum í eftirspurn og bæta virkni stjórntækja peningamála. Ríkissjóður, Seðlabanki Íslands, Íbúðalánasjóður, Bankasýsla ríkisins, sveitarfélög og aðrir verða að taka höndum saman við efnahagsstjórnun og framkvæmd og miðlun peningastefnunnar. Stjórnmálamenn verða að axla sína ábyrgð. Því leggjum við til að sett verði á stofn Þjóðhagsstofa hjá Alþingi og innleidd rammafjárlög til nokkurra ára í senn.

Virkni stýrivaxta

Ýmsir sérfræðingar hafa gagnrýnt að miðlun vaxtastefnu Seðlabankans hafi verið nær óvirk fyrir hrun vegna almennrar notkunar verðtryggingar og auðvelds aðgengis að lánsfé með mikilli erlendri lántöku og hjá Íbúðalánasjóði.  „Forsenda þess að peningastefnan beri árangur er að miðlun vaxtabreytinga seðlabankans frá skammtíma markaðsvöxtum til langtíma markaðs- og útlánavaxta og að lokum til raunhagkerfisins sé sæmilega kerfisbundin og fyrirsjáanleg. Töluvert hefur skort á að svo hafi verið hér á landi á undanförnum árum.“ (Peningastefnan eftir höft, 2010). Í hinu verðtryggða íslenska kerfi er verðbótaþáttur tekinn að láni og bætist við höfuðstól. Þetta fyrirkomulag dregur úr áhrifum peningamálastefnunnar við að draga úr verðbólgu.

Innleiðing óverðtryggðs húsnæðislánakerfis er mikilvægur þáttur í að tryggja skilvirka miðlun stýrivaxta Seðlabankans. Bankinn hefur kallað eftir svokölluðum þjóðhagslegum varúðartækjum og tökum við undir þá ósk. Þessar aðgerðir leiða væntanlega til lægra veðhlutfalls lána. Því er mikilvægt að hvetja til sparnaðar vegna fasteignakaupa og kaupa á búseturétti með skattaívilnunum. Einnig þarf að endurskoða fyrirkomulag fjármagnstekjuskatts.

Áhrif á lífeyri

Lífeyrissjóðirnir eru samkvæmt lögum skuldbundnir til að verðtryggja mánaðarlegan lífeyri. Hugsanlega skýrist mikil notkun verðtryggingar á húsnæðislánamarkaði af því að kaupendur íbúðabréfa Íbúðalánasjóðs eru lífeyrissjóðirnir. Ekki hefur reynt á hvort hægt er að bjóða óverðtryggð langtíma fasteignalán á grundvelli fjármögnunar lífeyrissjóðanna nema lagaleg skylda þeirra til að verðtryggja lífeyri verði afnumin.

Færa má rök fyrir því að ákvæði um verðtryggðan mánaðarlegan lífeyri sé óskhyggja. Á endanum stýrist fjárupphæð mánaðarlegs lífeyris af raunávöxtun eigna lífeyrissjóðanna, og því er eðlilegt að lagatextinn endurspegli þann raunveruleika. Því leggjum við til að fyrirkomulag lífeyrissparnaðar verði endurskoðað. Lagt verði af loforð um verðtryggingu lífeyris og almannatryggingakerfið styrkt þannig að lífeyrisþegar njóti lágmarkslífeyris. Jafna þarf lífeyrisréttindi starfsmanna á almennum og opinberum vinnumarkaði.

Aukin neytendavernd

Síðast en ekki síst þarf að stórbæta fjármálalæsi og upplýsingamiðlun til að tryggja neytendavernd þegar fólk tekur ákvarðanir um fjárhagslegar skuldbindingar. Við leggjum til að fjármálastofnanir verði skyldaðar til að sýna útreikninga miðað við mismunandi óvissuþætti, áður en fólk tekur ákvarðanir um fjárskuldbindingar. Eftirlit með neytendalánum verði aukið með neytendalánum og samræmt á milli eftirlitsstofnana. Nauðsynlegt er að setja lög um skuldabréf og ströng viðurlög ef ekki er farið að lögum um neytendavernd.

Þessar umbætur og breytt fyrirkomulag verðtryggingar eiga að tryggja að allir Íslendingar hafi sameiginlega ábyrgð og hagsmuni af lágri verðbólgu og skilvirkri efnahagsstjórnun.

Allt annað er ávísun á áframhaldandi þjóðhagslegt ójafnvægi og uppgjöf í baráttunni við verðbólguna.

Eygló Harðardóttir, formaður verðtryggingarnefndar

Arinbjörn Sigurgeirsson, fulltrúi þinghóps Hreyfingarinnar í verðtryggingarnefnd

Hrólfur Ölvisson, fulltrúi þingflokks Framsóknarmanna í verðtryggingarnefnd

Lilja Mósesdóttir, fulltrúi þingflokks VG í verðtryggingarnefnd

(Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. maí 2011)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.5.2011 - 11:36 - Rita ummæli

Ímynd og útvegsbændur

Ég er farin að heyra auglýsingar frá útvegsmannafélögum hringinn í landið.   Í auglýsingunum er bent á mikilvægi íslensks sjávarútvegs og fjölda þeirra starfa sem atvinnugreinin skapar.

Þetta er gott framtak hjá aðildarfélögum Landssambands íslenskra útvegsmanna.  Alveg bráðnauðsynlegt í ljósi slakrar ímyndar sambandsins og greinarinnar í heild, sérstaklega eftir mistökin í tengslum við síðustu kjarasamninga.

Við þurfum nefnilega að benda á það jákvæða í starfsemi íslensku sjávarútvegsfyrirtækjanna.  Þannig rökstyðjum við af hverju núverandi handhafar aflaheimilda eiga að fá nýtingarsamninga um rúmlega 90% af aflaheimildunum, og hlutdeild í framtíðaraukningu til a.m.k. 20 ára.

Því þau skapa störf, þau eiga framleiðslutækin, þau hafa þekkinguna, – og við viljum treysta þeim til að fara vel með sameign þjóðarinnar.

Það traust kemur með skilyrðum, en ég efast ekki um að þau munu standa undir þeim.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.5.2011 - 07:34 - Rita ummæli

Játning

Ég ætlaði að vera ægilega dugleg í síðustu viku og helst bæta tímann frá því vikunni áður.  Svo tóku við annir vegna skila á skýrslu verðtryggingarnefndar, – já, ég veit… afsakanir, afsakanir…

Þetta var planið:

Sunnudagur (hvíla), mánudagur (30-36 mín, 4,8 km), þriðjudagur (30-40 mín cross-train), miðvikudagur (30-36 mín, 4,8 km), fimmtudagur (30-40 mín cross-train), föstudagur (hvíla) og laugardagur (6,4 km).

Reyndin varð:

Sunnudagur (40 mín, 4,8 km), mánudagur (hvíla), þriðjudagur (40 mín, skíðavél), miðvikudagur og fimmtudagur (hvíla), föstudagur (38 mín, 4,8 km), laugardagur (30 mín hjól 10 km, 10 mín tröppur, 203 m).

Þessi vika: Náði að hlaupa 4 km á mánudag og  fór 50 mín á skíðavélinni á þriðjudag.

Nú er bara að hysja upp um sig enda markmiðið að hlaupa 8 km í lok vikunnar eða 18 km yfir vikuna.

Hey, – en ég er stolt af skýrslunni og ánægð með vinnu nefndarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.5.2011 - 20:24 - Rita ummæli

Fundur um verðtrygginguna

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið stendur fyrir morgunverðarfundi um verðtryggingu miðvikudaginn 18. maí kl. 8.30-10.00. Fundurinn fer fram í Háskólanum í Reykjavík, stofu M1.01 – Bellatrix.

Dagskrá fundarins:

  • Eygló Harðardóttir, alþingismaður og formaður nefndar um verðtryggingu, kynnir stuttlega niðurstöður nefndarinnar
  • Marinó G. Njálsson, framkvæmdastjóri Betri ákvarðana
  • Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir og fulltrúi Samfylkingar í nefnd um verðtryggingu
  • Pétur H. Blöndal, alþingismaður og fulltrúi Sjálfstæðisflokks í nefnd um verðtryggingu

Að framsögum loknum verða pallborðsumræður.

  • Friðrik Már Baldursson, forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík, stýrir fundi.

Endilega mæta!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur