Þriðjudagur 17.5.2011 - 16:56 - Rita ummæli

Þjóðareign á auðlindum

Í ályktun flokksþings Framsóknarmanna um sjávarútvegsmál segir: „Tryggja verður sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni m.a. með ákvæði í stjórnarskrá sbr. lög nr. 116 frá 2006. – 1.gr. – Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign þjóðarinnar.“

Þessi áhersla Framsóknarmanna á að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar er ekki ný. 

Helsta gagnrýnin sem við höfum fengið á þetta er að erfitt sé að skilgreina hvað sé sameign þjóðarinnar eða þjóðareign. Því getur verið ágætt að rifja upp frumvarp sem þingflokkur Framsóknarmanna flutti á 135. og 136. löggjafarþingi um breytingar á stjórnarskrá Íslands. 

Þar segir í 1. gr.: „…Náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ríkið fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.
    Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.
    Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.“ 

Í greinargerðinni er m.a. fjallað um álitsgerð Sigurðar Líndal og Þorgeirs Örlygssonar, lagaprófessora þess efnis að ekkert er því til fyrirstöðu að innkalla úthlutaðar veiðiheimildir í áföngum á lengra tímabili og endurúthluta þeim, að því tilskildu að þeir, sem fengið hafa úthlutað slíkum heimildum í núverandi kerfi og öðlast hafa á þeim grundvelli stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi fái sanngjarnan og hæfilegan frest til að laga rekstur sinn að breyttu laga- og rekstrarumhverfi.

Þessi áhersla okkar kom einnig fram í tillögu til breytinga á stjórnarskránni sem við stóðum að ásamt Samfylkingunni, Vinstri Grænum og Frjálslynda flokknum fyrir síðustu alþingiskosningar.

Niðurstaða síðasta flokksþings Framsóknarmanna byggði m.a. á þessari hugsun.  Lagt er til að gerður verði nýtingarsamningur til u.þ.b. 20 ára á grunni aflaheimildar á hvern bát innan núverandi kvótakerfis (ca. 91% af aflaheimildunum).  Samningurinn yrði endurskoðanlegur á fimm ára festi með möguleika á framlengingu til fimm ára í senn. Svigrúm til breytinga á samningunum yrði takmarkað.  Jafnframt myndi nýtingarsamningurinn innihalda ákvæði um veiðiskyldu og takmarkað framsal. Heimild til óbeinna veðsetninga yrði takmarkað og greitt yrði fyrir nýtingarréttinn árlegt veiðigjald sem myndi byggjast á afkomu greinarinnar.

Útgerðarmenn myndu vita að hverju þeir ganga næstu 20 árin í nýtingu á sameign þjóðarinnar, sjávarauðlindinni.Von mín er að þeir nýti auðlindin sem við treystum þeim fyrir á sem hagkvæmastan máta og á grundvelli sjálfbærar þróunar.

Á móti verðum við að tryggja að arði af auðlindinni verði varið til að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 15.5.2011 - 10:06 - 3 ummæli

Nýtt húsnæðislánakerfi, – án verðtryggingar

Almenn verðtrygging inn- og útlána og launa var lögbundin árið 1979.  Með lagasetningunni varð ætlunin að ná betri tökum á efnahagsmálum og verðbólgu. Fátt hefur þó verið umdeildara í íslensku efnahagslífi en verðtryggingin.

Kostir og gallar verðtryggingar

Talið er að verðtrygging skapi hvata til útlána, ekki síst þegar eftirspurn eftir lánsfjármagni er mikil, þar sem lánveitandinn er varinn fyrir verðbólguskoti.  Eftir efnahagsáfall skapar verðtrygging misvægi launa og lána, því lán halda sjálfkrafa verðgildi sínu án tillits til þess hvort laun og eignaverð halda í við verðbólguna. Í hinu íslenska verðtryggða kerfi er verðbótaþáttur lengst af tekinn að láni og bætist sífellt við höfuðstól.  Þetta fyrirkomulag dregur úr áhrifum peningamálastefnunnar hvað varðar aðgerðir Seðlabankans draga úr verðbólgu.

Fyrirkomulag verðtryggðra jafngreiðslulána tryggir léttari greiðslubyrði í upphafi, miðað við óverðtryggð lán. Ástæðan er að verðbætur eru ekki staðgreiddar með vaxtagreiðslunni heldur bætast við höfuðstól lánsins. Þær dreifast yfir allan lánstímann og greiðslubyrði verður jafnari, en jafnframt hækkandi lengst af.  Léttari greiðslubyrði verðtryggðra lána fyrstu árin hvetur því til skuldsetningar og dregur úr eignamyndun.

Þrátt fyrir þessa „kosti“ eða eiginleika verðtryggðra lána er breytt fyrirkomulag verðtryggingar nauðsynlegt til að koma á meiri stöðugleika.  Koma verður á umbótum sem tryggja að allir hafi sameiginlega ábyrgð og hagsmuni af lágri verðbólgu, auka skilvirkni efnahagsstjórnar, og auka fræðslu um neytendalán.  Á sama tíma getum við ekki litið fram hjá því að fjöldi heimila er í greiðsluerfiðleikum og afnám verðtryggingar getur fyrst um sinn leitt til þyngri greiðslubyrði.

Nýtt húsnæðislánakerfi

Tillaga okkar er að innleitt verði óverðtryggt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd og ný verðtryggð lán verði ekki lengur í boði.  Í nýju kerfi verði boðin óverðtryggð húsnæðislán með endurskoðunarákvæðum vaxta á ákveðnum tímabilum (0, 3, 5 eða 7 ára fresti), í stað verðtryggðra jafngreiðslulána. Íbúðalánasjóði verði strax veitt skýr lagaheimild til þess að bjóða lán á þessum kjörum. Lánastofnunum verði sett almenn skilyrði um lánstíma og  veð hverrar lánveitingar  takmarkað við veðandlag. Vanda þarf útlán og greiðslumat. Ný íbúðabréf verði boðin út í samræmi við breytt fyrirkomulag útlána og jafnvægi tryggt á milli einstaks húsnæðisláns og íbúðabréfs. Ríkissjóður styðji við virkan markað fyrir óverðtryggð skuldabréf til að skapa sem hagstæðastan vaxtagrunn fyrir lánveitendur, og þar með lántakendur. Flutningur í nýtt kerfi verði auðveldaður með því að fella niður gjaldtöku við skilmálabreytingu og endurfjármögnun.  Jafnframt þarf að taka upp viðræður við lífeyrissjóði um endurfjármögnun útistandandi skuldabréfa Íbúðalánasjóðs til að flýta kerfisbreytingu.

Aðgerðir vegna eldri lána

Fræðin segja að raunvextir verðtryggðra lána eigi almennt að vera lægri en vextir óverðtryggðra lána, þar sem verðtrygging eyðir óvissu lánveitandans um verðbólgu  á lánstímanum. Athyglisvert er að raunvaxtastig hefur þó verið hærra hér en í löndum þar sem verðtrygging hefur litla sem enga útbreiðslu og sparnaður í formi sjóðsmyndunarkerfis er mun minni að umfangi.

Lækkun á raunvöxtum niður í til dæmis 3% væri á við 20% lækkun höfuðstóls lána samkvæmt útreikningum sérfræðingahóps um skuldavanda heimilanna. Því leggjum við til að allt verði gert til að ná fram raunvaxtalækkun, þar með talið að setja þak á álag á útlán og endurskoða ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna.

Stór hluti verðbreytinga hefur orðið vegna gengisþróunar. Þrýstingur er á gengi krónunnar til lækkunar. Verðbólguskot myndi þýða að þúsundir heimila myndu lenda í vanskilum með lán sín.  Því leggjum við til að sett verði þak á verðtryggingu núverandi lána sem miðist á ársgrundvelli við 4% hámark, sbr. tillögu Framsóknarflokksins haustið 2009. Jafnframt verði samið við lánveitendur um að hækka ekki vegna þaksins annan lánakostnað lántakenda á meðan unnið er að afnámi verðtryggingar.

Við munum í annarri grein fjalla um tillögur okkar um almennar aðgerðir til að draga úr vægi verðtryggingar  og tryggja fjármálalegan stöðugleika.

Eygló Harðardóttir, formaður verðtryggingarnefndar

Arinbjörn Sigurgeirsson, fulltrúi þinghóps Hreyfingarinnar

Hrólfur Ölvisson, fulltrúi þingflokks Framsóknarflokks

Lilja Mósesdóttir, fulltrúi þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs

(Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. maí 2011)

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.5.2011 - 08:32 - Rita ummæli

Verðtrygging

Verðtryggingarnefnd skilar skýrslu sinni til efnahags- og viðskiptaráðherra í dag kl. 9.00.  Hlutverk hennar var að kanna forsendur verðtryggingar á Íslandi og meta kosti og galla þess að draga úr vægi verðtryggingar í íslensku fjármálakerfi án þess að fjármálastöðugleika væri ógnað. 

Í nefndinni sátu fulltrúar allra þingflokka, efnahags- og  viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis, auk áheyrnarfulltrúa frá Seðlabanka Íslands en ég var skipuð formaður af efnahags- og viðskiptaráðherra.

Samstarfið innan nefndarinnar var einkar ánægjulegt þrátt fyrir skiptar skoðanir og er mikilli vinnu lokið. 

Nú er bara að kynna niðurstöðurnar.

Skýrslan verður birt eftir fund með ráðherranum á síðu nefndarinnar undir vef ráðuneytisins.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.5.2011 - 22:08 - Rita ummæli

Að eltast við belju

Menn hafa töluvert rætt beljur síðustu daga.  Ég hef verið kölluð belja af misjafnlega skynsömum mönnum og hef aldrei skilið af hverju þetta orð er skammaryrði.  Kýr eru yndislegar skepnur,  skapgóðar og umburðarlyndar gagnvart mannskepnunni.

Aðeins einu sinni óskaði ég kúm alls ills, og þá voru það léttlyndar kvígur.

Ég og vinnukonan sáum um mjaltirnar á bænum, – allt frá því að reka þær að fjósinu, þrífa og mjólka og losa þær út.  Töluvert var af kvígum í hjörðinni og ekki hafði verið gætt nægilega vel að grindverkinu við fjósið.  Því hafði það gerst að 1-2 liprar kvígur sluppu frá okkur þegar verið var að reka inn í fjósið.  Enda lokkuðu grænar og grösugar slétturnar.

Síðan var hlaupið hring eftir hring á eftir þeim.

Við komum sótrauðar af reiði inn á bæinn og kvörtuðum sáran yfir erfiðum samskiptum og móðir mín skellihló yfir óförum okkar.

Allt þar til að hún þurfti sjálf að reka hópinn!

Stuttu seinna sást til makans vera að berja niður girðingarstaura…

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 7.5.2011 - 10:56 - Rita ummæli

Þú ert klikkuð!

Viku 1 er lokið samkvæmt plani og ég hljóp/gekk samtals 16 km. Æfingarplanið var sunnudagur 4, 8 km á 40 mín (hljóp og gekk), mánudagur 40 mín á skíðavél, þriðjudagur 4,8 km á 36 mín (þurfti að ganga e 20 mín aðeins) og miðvikudagur 40 mín á skíðavél og æfingar fyrir efri hluta líkamans.  Fimmtudagurinn var tekinn í hvíld sem hentaði ágætlega þar sem mikið var að gera í þinginu og opinn fundur í Þingborg með Sigmundi Davíð og Sigurði Inga um kvöldið. 

Í gær var svo vaknað snemma til að ná að hlaupa 6,4 km áður en lagt var í ferð um gossvæðið undir Eyjafjöllunum og það tókst á 51,40 mín. Í kringum 30 mín dofnaði hægri fóturinn en það lagaðist ca. 10 mín. seinna.  Er algengt að fá nálardofa á hlaupum? Ástandið á skrokknum var þokkalegt eftir á. Smá eymsli fyrir neðan annað hnéð, í mjaðmagrindinni og bakinu.

Engar harðsperrur þegar vaknað var í morgun. Dagurinn í dag á að fara í hvíld. Sama plan í næstu viku nema með sprettum til að auka hraðann og æfingum til að styrkja fæturna.

Viðbrögðin hafa verið áhugaverð. Allt frá „þú ert klikkuð!“ og það nýjasta frá Baldri Kristjánssyni sem lofar að taka mig upp í ef ég skyldi þurfa far eftir hlaupin…

Hmmm… 😉

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.5.2011 - 14:14 - 1 ummæli

Að hlaupa 21,1 km

Ég hef ákveðið að hlaupa 21,1 km í Reykjavíkurmaraþoninu þann 20. ágúst nk.  Þetta var ekki auðveld ákvörðun þar sem ég er ekki neinn íþróttagarpur, – þoldi ekki leikfimi í grunnskóla og fór ekki að hreyfa mig fyrr en ég var komin á þrítugsaldurinn og þá með hléum.

En stundum verður maður að leggja eitthvað á sig fyrir verðugt verkefni.

Tilgangurinn með hlaupinu er að vekja athygli á og styðja við Samtök kvenna með endómetríósu. Draumur þeirra er að fræða um sjúkdóminn og stofna göngudeild fyrir konur með sjúkdóminn við kvennadeild Landspítalans.

Áætlað er að 5-10% kvenna sé með endómetríósu. Endómetríósa (ísl: legslímuflakk) er krónískur, sársaukafullur sjúkdómur sem orsakast af því að frumur úr innra lagi legsins finnast á öðrum stöðum í kviðarholinu og valda þar bólgum og blöðrumyndun. Undir venjulegum kringumstæðum fara þessar frumur út úr líkamanum við blæðingar. Helstu einkenni sjúkdómsins eru mikill sársauki við og fyrir blæðingar, miklar og/eða óreglulegar blæðingar, verkir í kviðarholi milli blæðinga, sársauki við egglos, samfarir og þvaglát.  Rannsóknir hafa sýnt að á milli 30-40% kvenna sem leita aðstoðar vegna ófrjósemi reynast vera með endómetríósu.

Ég er þegar komin með loforð frá flottu fólki um að taka þátt í hlaupinu með mér til stuðnings samtökunum og vonast eftir að fleiri vilji taka þátt. Það er hægt að gera með því að hafa samband við endo@endo.is eða skrá sig á Hlaupastyrkur frá og með lok maí.

Því verða á næstu vikum ekki bara pistlar á blogginu um pólitík, fréttir og Framsókn, heldur einnig hlaup, harðsperrur, hlaupaleiðir og endómetríósu 🙂

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.5.2011 - 09:33 - Rita ummæli

Falið fylgi…

Í fyrrakvöldi birti RÚV niðurstöður Capacent könnunar um fylgi flokka.

Aðalfréttin varað Framsóknarflokkurinn mælist með 16% fylgi, að Vinstri Grænir eru með 15% og fylgi stjórnarflokkanna heldur áfram að minnka.

Því var  hálf fyndið að fylgjast með fjölmiðlum fela þessa frétt.  RÚV birti niðurstöðurnar í seinni fréttum (á vefnum 22.26), ég hef aldrei séð jafn litla frétt um skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Morgunblaðinu og í gær og ég fann ekkert um þetta í Fréttablaðinu…

En við sáum þetta, við finnum þetta og við gleðjumst 🙂

Koma svo!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.5.2011 - 10:43 - Rita ummæli

Heimskt er heimaalið barn

Íslenska orðið heimskur á uppruna sinn í heimaalinn, sbr. heimskt er heimaalið barn. Því hefur það lengi verið talið vera kostur að ferðast út fyrir landsteinana, kynnast nýjum menningarheimum og mennta sig erlendis. Æ meiri áhersla varð þó i íslenska menntakerfinu á að bjóða upp á sem fjölbreyttast nám hér heima. Nýjar námsbrautir spruttu upp eins og gorkúlur sem og jafnvel heilu háskólarnir.

En er það rétt?

Ég hef talið það vera til mikilla hagsbóta að Íslendingar sæki sér menntunar sem víðast. Ljóst er að 300 þús. manna þjóð getur aldrei orðið sérfræðingur í öllu. Hlutverk menntakerfisins á að vera að tryggja gott grunnnám og úrvals framhaldsnám í þeim fögum sem við höfum sérþekkingu.

Samhliða eigum við að gera fólki kleift að sækja nám erlendis.

Það þýðir að við verðum að endurskoða námslánakerfið, bæði til framfærslu og skólagjalda sem og uppbyggingu og skipulag háskólanna á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.5.2011 - 12:17 - Rita ummæli

Osama drepinn

Í nótt var tilkynnt um dráp á Osama bin Laden og fögnuður Bandaríkjamanna virðist vera mikill.

Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn?

Ég vil frekar huga að fórnarlömbum þessara átaka, – í Bandaríkjunum, Afghanistan og Írak.

Og hvernig eitt dráp réttlætir ekki annað.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.5.2011 - 07:59 - Rita ummæli

Stjórnmál Davíðs?

Ég var hugsi eftir leiðarann Áróðurstækni Davíðs.  Þar skrifar Jón Trausti Reynisson:

„Vandi íslenskrar umræðuhefðar verður varla betur greindur en með orðum Davíðs Oddssonar um sjálfan sig í bókinni Í hlutverki leiðtogans, eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur. „Ég gerði öll mál tortryggileg og fylgdi þeirri reglu veiðimannsins að maður má ekki einungis kasta flugu sem manni finnst falleg því að maður veit aldrei hvaða flugu laxinn tekur,“ sagði Davíð og játaði síðan: „Ég tók því upp öll mál, jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim, og hjólaði í þau…“

Þannig lýsti Davíð störfum sínum í stjórnarandstöðu í borgarstjórn Reykjavíkur. Orð hans gefa einstaka innsýn inn í áróðurstækni, sem eimir enn sterklega af í stjórnmálum dagsins í dag. Til grundvallar er viðhorfið að almenningur sé eins og laxar og starf stjórnmálamannsins sé að láta fólk bíta á agn. Þar með verður það mikilvægara í hlutverki stjórnmálamanns að koma höggi á andstæðinga sína og upphefja sjálfan sig, en að breyta rétt og heiðarlega. Þetta eru eins konar iðnaðarstjórnmál.“

Með þetta í huga er athyglisvert að skoða ummæli Ólafar Nordal, varaformanns Sjálfstæðisflokksins á Bylgjunni þar sem hún talar um ákvörðun Bjarna Benediktssonar og meginþorra þingflokks Sjálfstæðismanna að styðja Icesave: „Formaður flokksins stígur það skref, sem er mjög óvenjulegt tel ég, fyrir foringja í stjórnarandstöðu að standa bara nákvæmlega fyrir því sem hann telur rétt fyrir þjóðina og af því finnst mér hann hafa stækkað.“

Stjórnarandstaðan á þannig að vera alltaf á móti, og stjórnarliðar alltaf með?

Svo refsum við harkalega þeim sem víkja af þessari línu…

Eru stjórnmál þá eins og sería í Survivor?  Sá sem svíkur og plottar og lofar öllu fögru stendur eftir sem sigurvegari á meðan sá sem er trúr sjálfum sér er sendur heim í miðri seríu?

Og hver er afraksturinn?

Iðnaðarstjórnmálamenn að hætti Davíðs Oddssonar…

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur