Föstudagur 29.4.2011 - 13:46 - Rita ummæli

Lygin og Jónas

Jónas Kristjánsson, fv. ritstjóri og bloggari endurtekur rangfærslur Kristins H. Gunnarssonar í pistlinum Framsókn styður kvótagreifa og passar sig á að bæta um betur gagnvart Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni Framsóknarflokksins og fjölskyldu hans.

Í bókinni The Truth eftir Terry Pratchett sem fjallar um blaðaútgáfu og tjáningarfrelsi segir: „A lie can run round the world before the truth has got its boots on.“*

Ritstjórinn í þeirri bók gerði þó sitt besta til að koma sannleikanum á framfæri.

Ólíkt Jónasi sem virðist einna helsta vera í að hvetja lygina áfram…

*Ísl. þýðing: Lygin getur hlaupið í kringum hnöttinn áður en sannleikurinn kemst í stígvélin.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.4.2011 - 11:27 - Rita ummæli

Kristinn og LÍÚ

Á stundum verður maður sleginn yfir þeirri ósanngirni og ósannindum sem fólk leyfir sér að viðhafa um Framsóknarflokkinn, ekki hvað síst þegar um fyrrum flokksmenn er að ræða.

Kristinn H. Gunnarsson skrifar pistil undir fyrirsögninni Framsókn gengin í LÍÚ og fjallar þar um nýja sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins.  Þar fullyrðir hann:  „Hin nýja forysta hefur gengið lengra í því en þeir sem ýtt var til hliðar gerðu að gera flokkinn að verkfæri fyrir fáeina eignamenn og sérhagsmunaaðila.“

Þetta er einfaldlega ósatt.

Framsóknarflokkurinn hefur beitt sér af einurð fyrir almannahagsmunum, ekki hvað síst í skuldamálum heimila og fyrirtækja og Icesave málinu á síðustu tveimur árum.  Það sama viljum við gera í sjávarútvegsmálum.

Söguleg sátt náðist á flokksþinginu um stefnu í sjávarútvegsmálum. Inn á flokksþingið komu drög að tveimur ályktunum, önnur frá sjávarútvegsnefnd flokksins og hin frá Sambandi ungra Framsóknarmanna. Niðurstaðan varð að sameina þessar tillögur og taka það besta úr þeim báðum. Megintillagan er að aflaheimildum verði skipt í tvo potta. Í pott 1 verði gerður nýtingarsamningur til 20 ára á grunni aflaheimildar á hvern bát. Samningurinn verði endurskoðanlegur á fimm ára fresti, með möguleika á framlengingu til fimm ára í senn.  Ekkert segir um að samningurinn verði sjálfkrafa framlengdur. Gerð verður krafa um veiðiskyldu og takmörkun á framsali.  Jafnframt þarf að takmarka óbeinar veðsetningar aflaheimilda til að draga úr skuldsetningu greinarinnar. Pottur 2 færi til fiskvinnslu, ferðaþjónustuveiða, nýsköpunarverkefna og strandveiða og vaxi í allt að 15 % af einstökum tegundum samhliða stofnstærðaraukningu.

Um þessar tillögur skrifaði Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri Grænna og varaformaður endurskoðunarnefndar ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistjórnunarkerfið: „Framsóknarflokkurinn samþykkti á landsfundi sínum á dögunum tillögur í sjávarútvegsmálum sem falla vel að niðurstöðum endurskoðunarhópsins og því frumvarpi sem er í undirbúningi.“

LÍÚ sagði sig frá starfi endurskoðunarnefndarinnar og hefur barist hatrammlega gegn því frumvarpi sem er í undirbúning, m.a. með því að stöðva gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Hvernig getum við þá verið að gæta sérhagsmuna þeirra?

Okkar hlutverk er og verður að vega og meta hagsmuni heildarinnar. Það samræmist ekki hagsmunum heildarinnar að rústa lykilatvinnugreinum, ekki frekar að það samræmist almannahagsmunum að útgerðarmenn njóti alls ágóðans af sjávarauðlindinni.

Markmiðið er að finna sanngjarna niðurstöðu fyrir samfélagið og það teljum við að ný sjávarútvegsstefna Framsóknarmanna geri.

Menn skulu einnig varast að kasta steinum úr glerhúsi.  Kristinn H. Gunnarsson sat í fjöldamörg ár á Alþingi, m.a. sem formaður þingflokks Framsóknarmanna og varaformaður sjávarútvegsnefndar í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarmanna.

Þar studdi hann við óbreytt kerfi.

Með þeim rökstuðningi sem Kristinn setur fram mætti þá spyrja hvort hann sé þá loksins að tilkynna að hann hafi sagt sig úr LÍÚ?

Eða ekki?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 27.4.2011 - 13:55 - Rita ummæli

Sarkozy og bónus

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, kynnti nýlega hugmyndir sínar um að skilyrða arðgreiðslur fyrirtækja við bónusgreiðslur til starfsmanna.  Hann bendir á að þegar erfiðlega gengur hjá fyrirtækjum þurfa starfsmenn að taka á sig launaskerðingar og minnkun vinnutíma og því sé sanngjarnt að þeir njóti einnig góðs af því þegar betur gengur.    Bónusreglan ætti aðeins að gilda fyrir fyrirtæki sem eru með fleiri en 50 starfsmenn.

Mér finnst þetta áhugaverð hugmynd.

Ég hef mikið talað fyrir hugmyndafræði samvinnunnar, þar sem fólk tekur sig saman til að vinna að sameiginlegum verkefnum og uppsker í samræmi við þeirra framlag við atvinnurekstur. Foreldri vinnur á leikskóla einn dag í viku eða mánuði og borgar leikskólagjöld í samræmi við sitt framlag eða aðstoðar í matvöruverslun sinni og nýtur afsláttar í samræmi við vinnuframlag.

Hugmynd Sarkozy er í áttina, – að tengja betur á milli hagsmuna eigenda, starfsmanna og viðskiptavina.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.4.2011 - 11:18 - Rita ummæli

Þingkonur, þingkarlar og RÚV

Ég er að skoða svör sem Tryggvi Þór Herbertsson fékk um viðmælendur í frétta- og þjóðlífsþáttum RÚV út frá kynjahlutföllum árið 2010.

Ég er eiginlega mjög hugsi yfir niðurstöðum útreikninganna, sem eru mínir. Það sem kemur á óvart er að Silfur Egils er eini þátturinn þar sem þingkonur og þingkarlar komu jafn oft fram. Þetta er þrátt fyrir, eða kannski vegna þess, að Egill Helgason hafi fengið hvað mesta gagnrýni fyrir að hafa of fáar konur í þætti sínum. Hlutföllin eru langverst í Speglinum, þar sem talað er við karla í 78,95% tilfella en konur í 21,05%. Síðan koma kvöldfréttir sjónvarpsins með 73,4% karlar en 26,6% konur. Sexfréttirnar og Kastljósið er nokkuð svipuð 69,49%/68,82% karlar og 30,51%/31,18% konur. Konur eru í dag 41% þingmanna.

Hluta til skýrist þetta væntanlega með því að formenn stjórnarandstöðuflokkanna eru karlar, – og því oft talsmenn flokkanna en þetta skýrir engan veginn niðurstöðuna hvað varðar Spegilinn.

Nú verða þáttastjórnendur frétta- og þjóðlífsþátta RÚV að hugsa sinn gang.

Hægt er að skoða skjalið hér.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 21.4.2011 - 10:44 - 2 ummæli

Fjölmiðlar og jafnrétti

Jakob Bjarnar Grétarsson skrifar grein í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni Fáránleg fjölmiðlalög þar sem hann ergir sig sérstaklega á áherslu fjölmiðlalaganna um jafnrétti.

Þar segir hann:

„Algerlega burtséð frá því hvað fólki finnst um femínisma í sinni róttækustu mynd – í þessu kristallast grundvallarmisskilningur á eðli fjölmiðla. Þarna er verið að fara fram á að þeir séu einhverskonar gerandi í þjóðfélaginu; að þeim beri að taka virkan þátt í að betra þegnana í samræmi við hugmyndir þingmanna. En ekki bregða upp mynd af þjóðfélaginu eins og það er…“

Ég get tekið undir að já, ég tel að fjölmiðlar séu gerendur í þjóðfélaginu, – gerendur í aðhaldi við stjórnvöld, gerendur í að miðla upplýsingum og gerendur í að efla umræðu í lýðræðissamfélaginu Íslandi.

Þeir eru einnig gerendur í að viðhalda kynjaskekkju í samfélaginu.

Í rannsókninni Konur og karlar í fjölmiðlum. Ísland í alþjóðlegir fjölmiðlavöktun kemur fram að í aðdraganda bankahrunsins þá voru karlar 97% viðmælenda en konur 3%.  Önnur rannsókn um umfjöllun fjölmiðla um stjórnmálafólk fyrir alþingiskosningar 2009  sýndi að stjórnmálakarlar fengu meiri umfjöllun en fjöldi þeirra á framboðslistum gaf tilefni til og stjórnmálakonur fengu minni umfjöllun en fjöldi þeirra og staða á framboðslistum gaf tilefni til.

Sama kom í ljós í svörum sem Tryggvi Þór Herbertsson fékk við spurningu um viðmælendur í fréttum og fréttatengdum þáttum hjá RÚV.

Fjölmiðlar eru þannig ekki að sýna spegilmynd af samfélaginu,  – skipað konum og körlum svona cirka til helminga, hófsömu fólki og fólki fullu af vandlætingum, fólki með hugmyndir og fólki sem er fullkomlega hugmyndasnautt og allur skalinn þar á milli.

Fjölmiðlar sýna heiminn alltof oft í samræmi við þá sem hafa hæst, garga mest, eiga mest eða hafa mest völd.

Þar verða því sjónarmið kvenna alltof oft undir, heyrast ekki og sjást ekki.

Spegilmyndin sem birtist af samfélaginu er því bjöguð.

Því vil ég breyta.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 21.4.2011 - 08:11 - Rita ummæli

Hugsjónir og hugrekki

Hugsjónir og hugrekki

Oft hef ég orðið fyrir vonbrigðum með skort á hugsjónum í stjórnmálum. 

Það sem hefur sviðið sérstaklega undan er hin háværa krafa um það eigi ekki að vera neinar hugsjónir í stjórnmálum.  Stjórnmálamenn eigi bara að fara í verkin og ljúka þeim. Ef þeir geta það ekki þá eigi bara að fá einhverja aðra.

Þetta viðhorf virðist byggjast á hugmyndinni um að það sé alltaf einhver ein rétt lausn fyrir hvert vandamál. Hugmyndinni um málamiðlun frekar en hugrekki til að standa fyrir það sem er rétt og sanngjarnt. 

Þessu er ég einfaldlega ósammála.

Ég tel að lausnir verði að byggjast á ákveðinni hugmyndafræði, ákveðinni  sýn og mati á því hvað við teljum vera rétt, sanngjarnt og gott samfélag.

Og við verðum hvert og eitt að hafa hugrekki til að standa fyrir okkar hugsjónir.

(Birtist fyrst 8.12.2010 á eyglohardar.blog.is)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.4.2011 - 09:10 - 1 ummæli

Skilaboð frá Eysteini

Árið 1965 gaf Félagsmálaráðuneytið út bækling um stjórnmálaflokka og stefnur þeirra.

Þar skrifaði Eysteinn Jónsson, fv. formaður Framsóknarflokksins:

„Framsóknarflokkurinn vill byggja upp á Íslandi sannkallað frjálst lýðræðis- og menningarþjóðfélag efnalega sjálfstæðra manna, sem leysa sameiginleg verkefni eftir leiðum samtaka, samvinnu og félagshyggju. Þjóðfélag, þar sem manngildi er metið meira en auðgildi, og vinnan, þekkingin og framtak er sett ofar og látið vega meira en auðdýrkun og fésýsla.“

Þessi orð eiga jafnvel betur við í dag en árið 1965.

Svona þjóðfélagi vil ég búa í.

(Þakka Björg Reehaug Jensdóttur kærlega fyrir að hafa komið þessu gullkorni á framfæri við  mig ).

PS. Birtist fyrst á eyglohardar.blog.is 28.1.2011)

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.4.2011 - 18:41 - 10 ummæli

Fjölmiðlalög: ritskoðun eða réttarbót?

Flestir þættir hins íslenska samfélags fengu falleinkunn í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis; stjórnmálin, viðskiptalífið, háskólasamfélagið og fjölmiðlar. Þar er talað um að almennt virtist vera litið á lög og reglur sem hindranir sem átti að sniðganga frekar en leiðbeiningar um vandaða starfshætti.   Ekkert skyldi leggja hömlur á frelsi manna til athafna og umsvifa.

Og við klöppuðum öll.

Svo fór sem fór og allir lofuðu að læra af fortíðinni.

Því er það áfall að hlusta á þá gagnrýni sem kemur fram á fjölmiðlalögin.

Í stað þess að fagna því að fjölmiðlum sé settur skýr lagarammi til að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði, gagnsætt eignarhald, vernd blaða- og heimildarmanna sem og aukna áherslu á jafnrétti og barnavernd, er litið á nýsetta löggjöf sem tilraun til ritskoðunar.

Svo er ekki.

Það er von mín að þetta sé aðeins fyrsta skrefið af mörgum sem tekin verða til að efla íslenska fjölmiðla og sjálfstæði þeirra.  Næstu skref þurfa að vera endurskoðun á lögum um RÚV, takmörkun á möguleikum dómstóla til að aflétta vernd heimildamanna, setning á skýrum reglum um eignarhald á fjölmiðlum og að tryggja stuðning við prentmiðla og staðbundna fjölmiðla.

Þannig verði íslenskir fjölmiðlar fjórða valdið í raun; sem veitir aðhald, miðlar upplýsingum og eflir umræðu í lýðræðissamfélaginu Íslandi.

Og aldrei aftur hluti af klappliðinu, sem birtir gagnrýnislaust fréttatilkynningar frá upplýsingafulltrúum okkar í stjórnmálunum eða viðskiptalífinu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.4.2011 - 11:32 - 3 ummæli

Hvirfilbylur og jarðskjálfti

Vorið 2001 var ég í Norman, Oklahoma og upplifði hvirfilbyl í návígi.

Þegar viðvörunarflauturnar fóru í gang var ég í símanum að tala við eiginmanninn heima á Íslandi.  Flauturnar heyrðust því skýrt og greinilega alla leið til Íslands.

Ég kvaddi í flýti, rauk yfir til nágrannanna og spurði hvað ætti að gera.  „Kveikja á sjónvarpinu,  fara í skó, ná sér í teppi og koma sér fyrir í baðkarinu.“ var svarið.  Enginn virtist vera með á hreinu hvar næsti kjallari eða neyðarskýli væri, þannig að ég tók þær á orðinu og stóð í baðherbergisgættinni með sængina og fylgdist með sjónvarpinu tilbúin að hoppa í baðkarið.

Í sjónvarpinu flökkuðu myndavélarnar á milli hvirfilbylsins sem nálgaðist óðfluga og alls fólksins sem hafði lagt bílunum sínum á hraðbrautinni og fylgdist spennt með.

Skyndilega datt allt í dúnalogn.  Hvirfilbylurinn hafði snúið og þulurinn taldi ólíklegt að hann myndi taka niður í Norman.

Síminn hringdi, maðurinn var að tékka hvort ég væri á lífi…

„Að hugsa sér að fólkið skuli búa við þetta árlega,“ sagði ég. 

„Við fáum allavega bara jarðskjálfta á nokkurra ára eða áratuga fresti heima.“

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.4.2011 - 09:27 - 8 ummæli

Hóra eða móðir

„Framkvæmdastjórn Landssambands Framsóknarkvenna lýsir yfir algjörri vanþóknun á skopmyndateikningu þá er birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 16. apríl síðastliðinn þar sem Siv Friðleifsdóttir, þingkona Framsóknar var teiknuð sem vændiskona.  Stjórnin telur teiknarann og Morgunblaðið hafa farið langt yfir velsæmismörk og vega með afar ósmekklegum hætti að þingkonunni.

Stjórnin fer jafnframt fram á það við ritstjórn Morgunblaðsins sem og teiknarann, Helga Sigurðsson, að biðja þingkonuna tafarlaust og opinberlega afsökunar á alvarlegu athæfi sínu.

Vændi er grafalvarlegt samfélagslegt vandamál sem eykst í kreppu vegna slæmrar stöðu kvenna og er alls ekkert grín.“

Ég tek undir þessa ályktun framkvæmdastjórnar LFK og harma hvernig Morgunblaðið hefur fallið í þá gryfju að viðhalda staðalímyndum um konur, – að við getum annað hvort bara verið hórur eða mæður.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur