Þriðjudagur 31.03.2009 - 19:17 - Rita ummæli

Röntgenaugu


Hér er áhugaverð grein um hvað þyngd er flókið fyrirbæri. Þarna eru sett fram spurningamerki við það að stimpla alla sem mælast yfir ákveðinni þyngd miðað við hæð „of þunga“ eða „of feita“ án tillits til lífsvenja eða heilsufarsmælinga. Talsverður hluti þeirra sem eru „of feitir“ samkvæmt skilgreiningu reynast vera fullkomnlega heilsuhraustir við nánari athugun. Af hverju ætti að líta á þennan hóp sem sjúkan ef ekkert er að honum? Sömuleiðis glímir talsverður hluti þeirra sem eru í kjörþyngd við „offitutengd“ vandamál á borð við háþrýsting og hækkaðar blóðfitur. Hvers vegna ekki að skilgreina heilbrigði út frá raunverulegum mælingum á heilsufari í stað þess að láta vigtina ráða? Það er ekki hægt að sjá það utan á fólki hvort það er heilbrigt eða lifir heilbrigðu lífi. Mjög mikið af veiku fólki er fullkomlega heilbrigt á að líta.

Heilbrigðu feitu fólki (metabolically healthy obese) var fyrst lýst á níunda áratug síðustu aldar. Þessi hópur á það sameiginlegt að hafa verið feitur frá unga aldri, hafa hlutfallslega litla fitu um miðju líkamans, sérstaklega af þeirri tegund sem sest í kringum innyflin, og hreyfa sig mikið. Fyrsta atriðið bendir til þess að þessi hópur sé í sinni náttúrulegu þyngd, sem ætti að útskýra að einhverju leyti af hverju honum stafar ekki hætta af þyngd sinni. Þetta fólk er ekki feitt af því það liggur fyrir framan sjónvarpið með súkkulaði í annarri hendinni og kokteilsósu í hinni, heldur af því líkamar þeirra eru þannig gerðir frá náttúrunnar hendi. Síðari atriðin tvö snúa meira að lífsvenjum. Rannsóknir sýna að það er helst sú fita sem safnast í kringum líffæri okkar sem hefur skaðleg áhrif á heilsu. Hreyfing vinnur stórlega gegn uppsöfnun slíkrar fitu.

Grannt fólk getur borið hlutfallslega mikla innyflafitu án þess að vita af því. Sömuleiðis getur feitt fólk haft lítið af þessari fitu þrátt fyrir að bera mikla fitu utan á sér. Báðir hópar geta hins vegar dregið verulega úr hættu á alvarlegum sjúkdómum með því að lifa heilbrigðu lífi. Hin augljósa niðurstaða ætti því að vera: Hvetjum alla til að lifa heilbrigðu lífi, óháð þyngd, og hættum að þykjast vera með röntgenaugu (að geta séð utan á fólki hversu heilbrigt það er).

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com