Fimmtudagur 11.06.2009 - 00:30 - 4 ummæli

Safakúrinn

Hakan á mér skall harkalega í gólfið þegar ég gekk inn í bókabúð um daginn og sá nýja megrunarbók í stöflum út um allt. Safakúrinn. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum. Ég sem hélt í einfeldni minni að fólk væri orðið svo lífsreynt í megrunarbröltinu að það þýddi ekkert að bjóða upp á svona öfgakúra lengur.

Safakúrinn er brenndur öllum þeim merkjum sem einkenna öfgafulla megrunarkúra. Hann boðar mikið þyngdartapi á skömmum tíma. Hann einkennist af einhæfu fæði og mikilli takmörkun hitaeininga. Hann byggist á skyndiáhlaupi en ekki heilsusamlegri lífsstílsbreytingu. Höfuðáherslan er á útlit og boðskapurinn er að það sé fyllilega réttlætanlegt að svelta sig til þess að passa í uppáhalds kjólinn eða líta vel út á ströndinni.

Höfundurinn bókarinnar veit samt greinilega upp á sig skömmina því í upphafi er því lýst yfir að eflaust verði margir til þess að afskrifa þessa bók sem bull og vitleysu, en ekkert mark sé takandi á slíku tuði þar sem án efa séu á ferðinni brjóstumkennanlegir skyndibitasjúklingar að réttlæta eigið neyslumynstur. Strax í byrjun er því dregin upp svart-hvít mynd af „hinum réttlátu“ (þeim sem stunda öfgafullt líferni í von um félagslega viðurkennt útlit) og „hinum syndugu“ (þeim sem liggja í glannalegu sukki án tillits til afleiðinganna). Meðalvegurinn, venjulegt fólk sem borðar fjölbreyttan mat, hreyfir sig hæfilega og lifir ágætis lífi, er ekki til.

Bókin byggir á þeirri hugmynd að líkaminn sé eins og vél eða tæki, sem safnar ryki og óhreinindum, og þarf því að þvo reglulega, bæði að utan sem innan. Þetta er í raun aldagömul pæling nema hvað í gamla daga voru innahreinsanir framkvæmdar með bænahaldi og iðrun í þeim tilgangi að færast nær guði. Í dag felst hreinsunin í því að sjá eftir því sem maður hefur borðað og lofa að gera það aldrei aftur til þess að færast nær ríkjandi staðalmyndum.

Í upphafi bókarinnar er tekið fram að nauðsynlegt sé að innbyrða nægilegt magn hitaeininga til þess að forða því að líkaminn fari í sveltisástand þar sem hann reynir að halda í fituna og safna forða í stað þess að grennast. Mikið rétt. Síðan er því haldið fram að kúrinn innihaldi einmitt nógu margar hitaeiningar til þess að koma í veg fyrir þetta. Það er alrangt. Dagskammtar safakúrsins eru um 1000 til 1400 hitaeiningar. Eðlileg orkuþörf fullorðinna er í kringum 2000 hitaeiningar á dag og því nokkuð ljóst að kúrinn fullnægir ekki þeim þörfum. Það eru engir töfrar á bak við þennan kúr frekar en aðra – ef þú borðar of lítið þá léttistu – og það er ekki vegna þess að þú ert að „hreinsa þig“ eða losna við óæskileg eiturefni, heldur vegna þess að líkami þinn fær ekki nóga orku til daglegra starfa.

Einmitt þetta kveikir á þeim líffræðilegu varnarviðbrögðum sem kúrinn lofar að sneiða hjá. Þegar við fáum ekki nóg að borða fer ósjálfrátt í gang ferli sem miðar að því að hámarka afkomulíkur þrátt fyrir fæðuskort. Þessi kúr sneiðir ekki hjá þeim vanda frekar en aðrir. Þarna er einnig komin ástæða þess að megrun virkar ekki þegar til lengri tíma er litið. Það er ekki tilviljun að flestir þyngjast aftur. Það er náttúrulögmál.

Þegar líkaminn telur að hungursneið sé skollin á – sem gerist óhjákvæmilega þegar við fáum helmingi til þriðjungi minna að borða en við þurfum – þá bregst hann við með því að draga úr orkueyðslu og reyna hvað hann getur að auka orkuneyslu. Þetta er ekkert öðruvísi en þegar efnahagskreppa skellur á samfélögum, þá verður óhjákvæmilega samdráttur. Sem sagt, það hægist á efnaskiptum (við eyðum minni orku í daglegar athafnir og líkamsstarfsemi), líkamshiti lækkar (okkur verður kalt) og hugarstarfsemi dregst saman (við verðum pirruð, þröngsýn og eigum erfiðara með að einbeita okkur og taka ákvarðanir). Auk þess eykst matarlyst og við eigum erfiðara með að hætta að borða. Við hugsum stöðugt um mat og dreymir jafnvel um mat. Það sem áður vakti lítinn áhuga virkar nú syndsamlega lokkandi og allt matarkyns bókstaflega æpir á mann. Þarna eru að verki sterk og frumstæð öfl sem hafa haldið lífi í mannfólkinu frá örófi alda. Það er beinlínis kjánalegt að ætla sér að sigrast á þessum öflum með viljastyrknum einum saman.

Það að grennast og þyngjast aftur er fyrirsjáanleg útkoma allra megrunarkúra. Það er niðurdrepandi, sérstaklega þegar maður hefur eytt tugum þúsunda í safapressur og rándýrt grænfóður (bókin útheimtir kaup á 22 tegundum af ávöxtum og 15 grænmetistegundum fyrir þessa einu viku sem kúrinn á að gera sitt kraftaverk) en það er ekki það versta. Safakúrinn getur auðveldlega orðið olía á eld þeirra sem eru viðkvæmir fyrir því að þróa með sér átröskun, enda allur fókus á grannan vöxt, hitaeiningar og hratt þyngdartap. Útlitsþráhyggjan er í algjöru fyrirrúmi og talað um bikiní og þröngar gallabuxur við hvert tækifæri. Uppskriftirnar heita „hvetjandi“ nöfnum, eins og ber fyrir flatan maga og grænt og grannt, og gefnar eru hugmyndir að líkamsæfingum og fjölda hitaeininga sem þær eiga að brenna. Síðan er mælt með því að fólk haldi áfram að fylgja kúrnum um helgar og vegi upp á móti „slysum“ eins og að fá sér léttvínsglas eða smá bita af súkkulaði með því að skipta einni máltíð út fyrir safa úr kúrnum. Manneskja sem getur ekki notið minnstu lífsnautna án þess að þurfa að bæta fyrir syndir sínar er ekki heil á sál og líkama-og lífsvenjur hennar eru síst til eftirbreytni.

Þessi bók er dapurlegt innlegg inn í megrunarmenningu sem þegar hefur lagt líf margra í rúst. Þarna er ekki verið að boða heilbrigt líf heldur megrunaráráttu af verstu sort. Fylgjendur safakúrsins geta í besta falli vænst skammvinns þyngdartaps með fyrirsjáanlegri þyngdaraukningu. Í versta falli hrindir kúrinn af stað átröskunarmynstri sem einkennist af áframhaldandi fæðutakmörkun eða sveiflum milli aðhalds og ofáts. Megrun er nefnilega ein besta leiðin til þess að missa tökin á mataræðinu og læra reglubundið ofát. Sömuleiðis er það að vera sífellt að telja líkama sínum trú um að það sé komin hungursneið einkar árangursrík aðferð til að hvetja hann til óhóflegrar fitusöfnunar. Eða hvað gerum við þegar við teljum að vöruskortur sé yfirvofandi? Við hömstrum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

 • There’s a sucker born every minute segir einhversstaðar. Og meðan þeir fæðast seljast svona bækur, það er bara ekki flóknara en það.

  (Ég veit meira að segja um sæmilega skynsamt fólk sem er tilbúið að kaupa svona skyndilausnir, þannig að þessi björn verður sennilega seint unninn).

 • Jóna Ingibjörg Jónsdóttir

  Ég tók líka eftir þessari bók, liggjandi við innganginn í Máli og Menningu og varð hissa. Er virkilega fólk sem gleypir við þessum áróðri? Jú það virðist vera sbr. dextox heilaþvottinn sem sumir „gleypa“.

  Það sem þú segir í pistlinum eru orð í tíma töluð – en sem líka þarf að endurtaka hvað eftir annað. Fólk virðist gleyma því reglulega að skyndimegrunarlausnir virka ekki heldur einmitt þveröfugt.

  Ég er ánægð með pistlana þína og það starf sem þú hefur unnið í gegnum tíðina með skynsemina að leiðarljósi. Ekki síst að vera rödd sem syndir móti straumnum. Af nógu er að taka þegar megrunariðnaðurinn er annars vegar.

 • Sigrún Snorradóttir

  Þakka þér fyrir góð skrif. En það sem ég sakna eru heilbrigðar lausnir fyrir fólk sem á við vandamál að stríða vegna ofþyngdar/offitu. Forvarnir eða meðferðir hjá heilbrigðiskerfinu okkar virðast ekki vera til staðar nema fyrir einstaklinga sem komnir eru með fylgikvilla ofþyngdar/offitu.
  Með kveðju
  Sigrún.

 • Elva Björk

  ohhh var búin að skrifa heilmikið hér en kom síðan upp villa !!!
  Nenni hreinlega ekki að skrifa allt aftur.. En vona bara að margir láti nú ekki plata sig í að kaupa bók um það að drekka safa í 7 daga þegar margir hverjir eiga varla pening fyrir safa nú til dags.

  Finnst þessar bækur poppa upp reglulega, og held ávallt að um sömu bókina sé að ræða. Megrunarkúrar eru bara ekkert annað en peningaplokk og því mikilvægt að halda áfram að benda fólki á það og á þá staðreyndir að þeir virka ekki !

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com