Mánudagur 31.08.2009 - 09:38 - 25 ummæli

Maraþon

Maraþonhlaup hafa verið áberandi í sumar eins og venjulega. Mér finnst gaman að hlaupa og hleyp í kringum 10 km. á viku þannig að ég hef alls ekkert á móti hlaupum. En ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg þessa blindu aðdáun á maraþonhlaupum. Af hverju heldur fólk að það sé  svona hollt að hlaupa maraþon og að fólk sem stundar slíkt sé endilega heilbrigðasta fólk í heimi?

Maraþonhlaup draga nafn sitt af frægu langhlaupi grísks hermanns sem hljóp með skilaboð um að Persar hefðu verið sigraðir við borgina Maraþon alla leið til Aþenu, en vegalengdin þar á milli á að hafa verið 42, 195 kílómetrar, þótt um það sé reyndar deilt. Við komu á leiðarenda á þessi hermaður að hafa hnigið örendur niður eftir að hafa stunið upp: „Við unnum!“.

Það er merkilegt að þetta glæfralega athæfi, með jafn alvarlegum afleiðingum, skuli hafa verið tekið til eftirbreytni í stað þess að vera álitið víti til varnaðar. Eðlilegra hefði verið að draga þá ályktun að langhlaup gætu verið varasöm. En maraþonhlaup hafa kannski minna með heilsu að gera heldur frekar löngun til afreka og aðdáunar. Mjög fáir eru í nógu góðu standi til að hlaupa 42 kílómetra og má deila um hvort það sé nokkrum hollt að leggja svo mikið álag á líkama sinn.

Eins skrýtið og það nú er, þá virðist það vera aukaatriði hvort hlaupin séu holl eða ekki. Sjaldan er talað um neikvæðar hliðar langhlaupa (eða íþrótta almennt) þótt þær geti verið margar. Hlauparar þjást t.d. gjarnan af liðverkjum enda fara hlaupin oft illa með liði sem verða fyrir mestum höggþunga, s.s. ökkla, hné og mjaðmir. Eftir því sem kappið og álagið eykst aukast líkur á meiðslum þannig að stundum verður úr varanlegur skaði. Það er lítið grætt á því að hlaupa sér til heilsubótar ef maður endar síðan með ónýt hné.

Mér er sagt að í hefðbundnu maraþonhlaupi sé álagið svo mikið og langvarandi að líkaminn sé nánast rústir einar á eftir, jafnvel þótt hlauparinn sé í góðu formi. Það tekur fólk margar vikur að jafna sig og þess vegna er ekki mælt með því að fólk hlaupi maraþon nema einu sinni til tvisvar á ári.

Annað atriði sem sjaldan heyrist er að í stórum hlaupum erlendis er nokkuð algengt að fólk hljóti sömu örlög og gríski hermaðurinn ólánsami. Til dæmis létust þrír í New York maraþoninu árið 2008, þar af tveir eftir að hafa lokið hlaupi. Tölur frá Chicago maraþoninu síðasta áratuginn sýna að dauðsföll hafa að jafnaði orðið annað hvert ár og hinir látnu verið á aldrinum 22-45 ára. Samt ríkir einhver furðuleg sátt um þetta og maraþonhlaup eru áfram álitin hinir mestu heilsuviðburðir.

Það sem er varasamt þegar heilsurækt og keppnisandi fara saman, er einmitt að fólk gleymi heilsu og velferð. Hætti að hlusta á líkama sinn og þarfir hans heldur gangi sífellt lengra og fari að lokum yfir þau mörk sem líkaminn þolir. Þá er fólk auðvitað ekki lengur að byggja sig upp og styrkja líkamann heldur að brjóta hann niður.

Þetta óhugnanlega myndskeið sýnir til dæmis tvo hlaupara sem algjörlega neita að hlusta á skilaboð líkama síns heldur misþyrma sjálfum sér í nafni íþróttanna. Sérlega hrollvekjandi er að heyra hvernig hlaupararnir eru hvattir áfram, í stað þess að einhver stökkvi til þeim til bjargar, og svo hrósað í lokin fyrir að hafa nærri gengið af sér dauðum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (25)

 • Dofri Hermannsson

  Undarlegar fullyrðingar um hættu á liðaskemmdum og örkumlum af völdum langhlaupa. Hef lesið nokkra svona pistla sem allir eiga sammerkt að vera skrifaðir af fólki sem greinilega þekkir lítið til langhlaupa sem íþróttagreinar eða heilsuræktar.
  Auðvitað má finna dæmi um fólk í þessari grein sem hefur farið offari, látið metnað eða þráhyggju draga sig á asnaeyrum og jafnvel eyðilagt á sér liðamót. Það má finna í öllum íþróttagreinum ein eins og allir vita er á hverjum degi verið að slíta krossbönd, sprengja liðþófa, togna á öxl, detta á hausinn o.s.frv.
  Hættulegast af öllu er þó að gera ekki neitt, einkum ef fólk er of þungt. Það fer skelfilega með liðamót og hrygg og líklega er engin líkamsfötlun jafn útbreidd á vesturlöndum og offita.
  Auðvitað þarf að fara varlega af stað þegar verið er að æfa fyrir maraþon. Fólk sem hefur grunn sem skokkarar ættu t.d. að byrja á að æfa fyrir 10 km eða hálft maraþon. Það er gott að ætla sér ekki um of en flestar æfingaáætlanir miða við að fólk þjálfi í margar vikur fyrir slíkar vegalengdir og auki smám saman fjölda kílómetra. Þetta er einmitt til að stoðkerfið, sinar og liðamót hafi tíma til að styrkjast og venjast álaginu. Mæli með að áhugasamir byrji á http://www.hlaup.is en http://www.runnersworld.com er líka góð síða. Smám saman, eftir því sem hlauparinn styrkist er hægt að auka álagið og taka stefnu á heilt maraþon. Eða Laugaveginn sem er yfir 50 km fjallvegur. Eða 100 km hlaup eins og stundum eru haldin hér. Gunnlaugur Júlíusson hljóp um 330 km á 48 tímum og var langt í frá örkumla þegar ég sá hann ganga léttan í spori til vinnu sinnar á föstudaginn var.
  Hættulegasta hlaupagreinin er að hlaupa í spik.

 • Kristján Sveinsson

  Er ekki sjaldgæft að því sé haldið fram að hollt sé fyrir líkamann að hlaupa maraþon? Það held ég. Annað mál er að það er ekki slíkt skaðræði sem þú lýsir hér. Veltur auðvitað allt á formi þess sem hleypur. Einstaklingur í góðu formi er búinn að ná sér alveg eftir tvo til þrjá sólarhringa. Raunin er sú að andlegur undirbúningur og andlegt álag er a.m.k. jafn stór þáttur og sá líkamlegi. Athugaðu að flestir iðka þessi hlaup sér til skemmtunar. Margir hafa gaman að því að reyna á sig, kljást við erfið verkefni. Sú reynsla getur sannarlega einnig komið að haldi á öðrum sviðum. Og dómgreindin ætti líka einnig að þjálfast. Spurningarnar: get ég þetta, vil ég þetta? koma óhjákvæmilega upp. Og einnig kúnstin að finna kjarkinn til að gefast upp þegar það er nauðsynlegt. Ekki tekst öllum það alltaf þegar við á. Það segir meira um ófullkomleika mannanna en hlaupið. Fólk deyr skyndilega við ýmsar aðstæður. Þar á meðal í almenningshlaupum. En einnig í gönguferðum, veiðiferðum, á knattspyrnuvöllum … . Menn eru dauðlegir. Það eru skilmálarnir. Ekkert fær því breytt.

 • Maraþonhlaupari

  Haha! Þú ert einbeitt í því að rífa niður fólk sem hefur áhuga á að vera ekki í ofþyngd og í nógu frábæru formi til að hlaupa erfitt hlaup. Sem bæði eflir andann og líkamann skv. ýmsum rannsóknum.

  Ótrúlegt að lesa þessa vitleysu í þér, þú hefur ekkert vit á hlaupum og hvað þá maraþonhlaupum. Það er þó þitt mál, leiðinlegt samt þegar þú ræðst á íþróttafólk, fólk sem nennir að fara út og hreyfa sig. Þú vilt sennilega að allir séu heima að horfa á raunveruleikaþætti á skjá einum og borða snakk. Það er svo hollt að vera svolítið feitur:)

 • Kannski rétt að taka fram að konurnar á myndskeiðinu voru búnar að synda 4km og hjóla 180km beint áður en þær ákváðu að hlaupa 42km.

  Það má deila um hversu hollt það er 😉

 • Máni Atlason

  Það er nú bara þannig að ef maður ætlar alltaf að hugsa um hvað sé slæmt við að maður geri þetta eða hitt, þá er hætt við að maður geri frekar fátt.

  Það að klára eitthvað takmark sem maður hefur sett sér, eins og t.d. maraþonhlaup, er í fyrsta lagi ekki líkamlega óhollt nema maður fari of geist eða geri eitthvað rangt og í öðru lagi er það svo hollt fyrir sálina að það vinnur upp alla mögulega líkamlega óhollustu.

  Það jafnast fátt á við tilfinninguna þegar maður kemur í mark eftir erfitt hlaup.

 • Ef fólk er að pína sig í að hlaupa Maraþonhlaup upphefðarinnar vegna get ég vel ímyndað mér að slík manneska lendi í vandræðum. Flestir sem hafa hlaupið Maraþon líta á það sem skemmtun og er þá keppnin sjálf aðeins endapunktur á skemmtilegu æfingaferli sem oft hefur staðið yfir mánuðum og jafnvel árum saman.

 • Það er ekkert sérlega hollt að hlaupa maraþon en það er mjög hollt að geta það!

 • Góð og gagnrýnin grein. Pælingar sem eiga rétt á sér.
  Vert væri að rannsaka hvort maraþonhlauparar séu viðkvæmari fyrir gagnrýni en aðrir íþróttamenn 😉

 • Þetta gerðist ekki eftir venjulegt maraþonhlaup heldur svokallað ofurmaraþon þar sem fyrst var synt svo hljólað svo hlaupið maraþon.

 • Það er hægt að lesa um þetta hér. http://archives.starbulletin.com/1998/10/02/sports/story1.html

  Wendy synti einmitt hraðast.

 • Dagný Daníelsdóttir

  Kæri „Maratonhlaupari“ skemmtilegt hvad tú stillir fólki í 2 hópa: Maraton hlauparana tig og vini tína sem er „ædra“ fólkid sem hugsar um heilsuna og svo hina sem vita ekkert í sinn haus og „leggjast á tad plan“ ad sitja heima med snakk og horfa á raunveruleikasjónvarp (sem er almennt séd talid „ódýr“ skemmtun). Furda mig hreinlega á ad tú nennir ad eyda tíma í ad lesa sídu slíka sem tessa tar sem er verid ad koma med ONNUR!!(ekki endilega tau einu!!) sjónarmid á hlutunum tar sem ad tad er nokkud klárt á ummæli tínu ad tad er ekki pláss í tínum heimi fyrir adra en tig og tá sem eru á somu skodun og tú.

 • Ég hef farið í nokkur hálfmaraþon og það hefur oft vaknað sú spurning hvað sumt af þessum hlaupurum er að gera sjálfum sér, af hverju hleypur það ekki bara styttra. Sumir eru engan veginn í stakk búnir auk þess að vera alltof þungir. Hef æft vel alla ævi og þjálfað einstaklinga, þetta fer ekki framhjá neinum. Í þessum tilvikium ekki hollt það er ljóst.

 • Elísabet

  Furðulegt að manneskja sem hefur enga reynslu né þekkingu á langhlaupum skrifi grein um keppnir í maraþoni. Greinin er stútfull af vafasömum fullyrðingum án heimilda. Hvet fólk sem stundar langhlaup sér til heilsubótar og stefnir jafnvel á maraþon í framtíðinni, að taka ekki mark á þessum skrifum heldur fari eftir leiðsögn og ráðum fagaðila.

 • Ég stundaði keppnisíþróttir þangað til undir þrítugt og er með margt bölið í skrokknum eftir þau átök. Sama má segja um lang flesta sem æfðu með mér.

  Hlaupin reyndust samt engum hættuleg – nema hvað flestum þótti þau drepleiðinleg. Álagsmeiðslin var hægt að rekja til afstrakt hreifinga og óábyrgrar meðferðar á skrokknum í keppni. Ekkert sem hafði með hlaupin að gera.

  Sá sem er tilbúinn í maraþonhlaup, andlega og líkamlega, er ekki að skemma sig. Hins vegar er með þrjósku og heimsku hægt að skemma skrokkinn á langhlaupum.

 • Máni Atlason

  „En maraþonhlaup hafa auðvitað lítið með heilsu að gera heldur frekar löngun til afreka og aðdáunar…“

  Þetta er galin staðhæfing – mín reynsla er sú að maraþonhlauparar eru einhver hógværasta stétt íþróttamanna sem hægt er að finna. Mögulega tengist þetta löngun til afreka, en löngun til aðdáunar…það leyfi ég mér að efast um.

 • Þetta sjónarmið á svo sannarlega rétt á sér.

  Öfgar eru sjaldan til góðs.

  Það er kannski ekkert að því að hlaupa langar vegalengdir hafi maður æft skynsamlega, hafi skrokkinn í það o.s.frv.

  Hættan er sú að fólk sperri sig um of og hlusti ekki á hvað líkaminn þolir og þá koma álagsmeiðslin fram.

 • Þessi grein dæmir sig sjálf. Hún er skrifuð af öfund og neikvæðni út í hlaupara og er álíka marktæk og grein um barnauppeldi eftir Steingrím Njálsson.

 • Dagný Daníelsdóttir

  ..skrifud af ofund?? ég á erfitt med ad lesa tad úr greininni. En eitt er tó ljóst af ollum tessum kommentum, ad hlauparar sem stétt gefa af sér einkum horundsárt vibe…:)

 • Ég veit ekki um líkamlegu afleiðingarnar en miðað við þessar athugasemdir hér þá virðast langhlaup stuðla að ofurviðkvæmu sálarlífi.

 • Dagný Daníelsdóttir

  Sammála sídasta rædumanni!

 • Hlaupari

  Öllum íþróttum fylgir álag á líkamann, maraþon þar ekkert undanskilið frekar en pallatímar í næstu líkamsræktarstöð.

  Það hefur hinsvegar verið viðvarandi undanfarin ár að taka hlaup út fyrir sviga og segja að þau valdi alvarlegum meiðslum og eitthvað fleira bull. Hef verið með hlaupahóp og það hefur verið viðvarandi að fólk sem byrjar er með þessar þjóðsögur á heilanum um að það fái í hnén o.s.frv. Síðan endar það á að rúlla maraþon nokkrum mánuðum síðar allsælt með afrekið og án verkja eða vandamála.

  Hversvegna fólk ræðst alltaf á hlaupin er mér hulin ráðgáta, líklega vegna þess að hlaup eru mörgum framandi og í stað þess að kynna sér þau þá lætur fólk sér gamlar mýtur duga.

  Í dag var ég að horfa á myndband frá fótboltaleik þar sem annar leikmaðurinn stekkur á hinn og mölbrýtur á honum löppina. Í fótbolta eru slík meiðsl alkunna og foreldrar senda börnin miskunnarlaust í hakkavélina (fótboltafélögin) sem skila þeim út um tvítugt með krossbönd, liðbönd slitin og liðþófa ónýta. Um tvítugt taktu eftir því Sigrún. Krakkarnir eru ónýtir um tvítugt eftir fótbolta leik!!

  Í hlaupum slítur þú ekki liðbönd eða krossbönd.

  Heldur þú Sigrún að það sé einhver séns á að þú myndir setjast niður og gagnrýna fótboltann sem rústar fótunum á ca. 1000 manns árlega hér á landi? Eða læturðu þér bara nægja að gera það sem auðveldast er, að gagnrýna hlaupin af því að allir aðrir gera það ??

 • Kæri hlaupari, hvaðan hefur þú þær upplýsingar um að ca 1000 manns eyðileggi á sér fæturnar við knattspyrnu iðkun hér á landi. Ef þú ætlar að fara að bera eitthvað svona saman þá verður þú líka að líta til iðkenndafjölda sem er ekki sambærilegur í þessu dæmi. Og það að halda því fram að knattspyrnufélög hér á landi séu einhverja hakkavélar sem að skili bara af sér fólki með slitin liðbönd og fleir um tvítugt sýnir klárlega bara hversu mikið eða í raun lítið þú veist um allt það sem að knattspyrnufélögin hafa uppá að bjóða.

  Ég held líka að það hafi aldrei verið rætt í þessari grein að hlaupa ein og sér væru neitt slæm, þvert á móti tekur Sigrún fram að hún sjálf hlaupi og hafi gaman af því sem heilsubót. Frekar er hún að tala um það að fólk sem pínir sjálft sig til þess að ná einhverju marki, í þessu tilviki að hlaupa 42 kílómetra á sem bestu tíma, sé ekki endilega að gera sér það til heilsubótar heldur í einhverjum öðrum tilgangi.

  Ég er líka nokkið viss um það að maraþonhlauparar æfa sig ekki fyrir maraþon með því að hlaupa maraþon 1-2 í viku eða eitthvað slíkt, nei heldur gera þeir uppbyggilegar æfingar svo að þeir geti mögulega staðist það gríðarlega álag sem sett er á líkama og sál við að taka þátt í slíku hlaupi. 100 metra hlauparar eða langstökkvarar æfa sig með því að framkvæma keppnisgreinina aftur og aftur í þeim tilgangi að bæta sig.

  Það hlýtur að segja eitthvað til um það hversu erfið og átakanleg reynsla það er að hlaupa maraþon fyrst það er ekki einu sinni hægt að æfa það heldur þarf að æfa sig smátt og smátt til að vonandi ná að koma líkamanum í það stand að hann þoli þessa „misþyrmingu“.

  Verð svo líka að taka undir það að mér finnst alveg stórmerkilegt hvað margir sem hafa kommentað hér og virðast vera miklir hlauparar séu einstaklega hörundsárir. Mér skildist að það þyrfti einmitt mikinn sálfræðilegan styrk til að hlaupa maraþon. Fólk sem að lætur svona grein æsa sig þetta mikið upp býr greinilega ekki yfir þeim styrk.

  Takk fyrir skemmtilegt blogg Sigrún og láttu þessa „maraþonhlaupara“ ekki draga úr þér dugnaðinn.

 • Kjánalegt að taka sérstaklega út maraþonhlaup í þessu samhengi. Það gildir um öfgar í öllum íþróttagreinum að það getur ekki talist hollt að gera meira en líkaminn þolir og er þjálfaður til. Mjög margir geta hlaupið maraþon eða þaðan af legnra án þess að vera að skaða sjálfan sig.

  Það virðist skrifað hér af sérstökum fórdómum í garð langhlaupara – umfram annað íþróttafólk. Hvort það er af persónulegri óvild eða einhverju öðru er ekki gott að segja. Því verður höfundur bloggsins að svara.

 • Ég held að fitubollur hafi ekki gott af því að lesa þessi skrif þín Sigrún. Þvílíka meðvirkni hef ég aldrei séð.

 • Gunnlaugur

  „Vínberin eru súr“ sagði refurinn þegar hann sá að hann gat ekki náð í þau.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com