Fimmtudagur 10.09.2009 - 13:28 - 7 ummæli

Fituhatur


Önnur fín grein úr Newsweek um fituhatur Bandaríkjamanna. Áhugaverð klemma kemur fram í lokin varðandi hvernig hægt er að berjast gegn offitu án þess að ýta undir fitufordóma. Ekkert svar er gefið enda er þetta eitthvað sem fræðimenn eiga í mesta basli með. En það er kannski af því þeir neita að hugsa út fyrir kassann.

Það er og verður illmögulegt að berjast gegn offitu án þess að það bitni á feitu fólki. En ef við beinum spjótum okkar að lífsvenjum í stað líkamsþyngdar þá erum við ekki að sigta neinn út og þurfum þar af leiðandi ekki að hafa áhyggjur af því að aðgerðir okkar ýti undir fordóma.

Almenn heilsuskilaboð eiga að vera skýr og beinast að hegðun en ekki því sem fólk hefur minni stjórn á. Þetta er ekki annað en heilbrigð skynsemi. Til dæmis er ekki gagnlegt að skipa börnum að fá góðar einkunnir – skilaboðin eru óskýr og kenna þeim ekkert um góðar námsvenjur. Einkunnir eru útkoma margra þátta en við höfum ekki stjórn á nema sumum þeirra. Það er hægt að vera óheppinn á prófi þrátt fyrir að vera vel lesinn. Auk þess er hægt að fá háar einkunnir með svindli ef því er að skipta.

Lýðheilsuskilaboðin „haltu kjörþyngd“ eru af svipuðum toga. Við höfum enga beina stjórn á því hvað við erum þung – þyngd er útkoma margra samverkandi þátta og við höfum ekki stjórn nema á sumum þeirra. Auk þess er hægt að halda kjörþyngd með ýmsum óheilbrigðum leiðum, s.s. reykingum, svelti, óhóflegri líkamsrækt og neyslu ýmissa vafasamra efna.

Ef fókusinn er á líkamsþyngd er hættan einnig sú að við sendum fólki, sem lifir heilbrigðu lífi en er samt ekki innan kjörþyngdarmarka, þau óheppilegu skilaboð að það sé að gera eitthvað vitlaust. Ef við skömmum barnið okkar fyrir að gera sitt besta í námi bara af því að einkunnirnar eru ekki nógu háar, þá er hættan sú að barnið hætti að leggja sig fram. Við eigum að hrósa fyrir æskilega hegðun óháð því hver útkoman verður. Þannig festist hegðunarmynstrið í sessi og fólk verður stolt af því að standa sig vel.

Flokkar: Fitufordómar · Heilsa óháð holdafari · Stríðið gegn fitu

«
»

Ummæli (7)

  • Guðmundur Guðmundsson

    Þetta er bráðsnjöll grein og þyrfti að fara víða. Við eigum að hvetja til heilbrigðra lífshátta. „Stríðið við offituna“ er óvinnandi. Það skilar engum árangri en gerir feitt fólk að annars flokks borgurum.

  • Patrekur Súni

    Frábær grein. Sammála Guðmundi

  • „Lýðheilsuskilaboðin “haltu kjörþyngd” eru af svipuðum toga. Við höfum enga beina stjórn á því hvað við erum þung – þyngd er útkoma margra samverkandi þátta og við höfum ekki stjórn nema á sumum þeirra.“

    Þetta er algjör vitleysa. Fólk veit alveg hvenær það er of þungt vegna of mikillar líkamsfitu. Fólk veit líka að í langflestum tilvikum er það vegna ofáts.

  • Bjarki Guðlaugsson

    „Þetta er algjör vitleysa. Fólk veit alveg hvenær það er of þungt vegna of mikillar líkamsfitu. Fólk veit líka að í langflestum tilvikum er það vegna ofáts“

    Þetta er einhver grunnhyggnasta athugasemd sem ég hef lesið lengi um þetta mál. Lágmark að fólk kynni sér fræðin áður en það fer að básúna um hvað sé rétt og hvað sé rangt.

    Líklegasta ástæða þess að flestir sem eru of feitir í dag eru það er ekki vegna þess að þeir borða of mikið. Ég veit um fjölmörg dæmi þess að fólk borðar jafnvel minna en þeir sem eru í þessari margrómuðu „kjörþyngd“ en er samt í yfirþyngd. Af hverju? Ef horft er á vísindalegu hliðina á þessu þá blasir svarið við.

    Það er vísindalega sannað að neysla kolvetnaríkum vörum framkallar insúlin svörun í líkamanum (var sannað formlega í kringum 1960 þegar insúlínið uppgötvaðist en kenningar um þetta eru til alveg frá því á 19. öld). Það er vitað mál að framleiðsla insúlins lækkar blóðsykur ásamt því að valda söfnun á fitu í fitufrumunum. Þetta væri ekki mikilvægt nema vegna þess að insúlinsvörun fólks er ekki sú sama. Þeir sem eru með litla svörun þ.e. framleiða lítið insúlin þegar þeir innibyrða kolvetnaríkan mat og komast fljótt í jafnvægi aftur eru í lang flestum tilfellum grannir. Þeir sem eru með mikla svörun (svo kallað insúlin ónæmi sem leiðir í sumum tilfellum til sykursýki 2) framleiða insúlin í mjög miklu magni og eru lengi að ná jafnvægi eftir inntöku. Þessir aðilar geta nánast fitnað af hvaða kolvetnaríku fæði sem er og nánast í hvaða magni sem er. Svo eru að sjálfsögðu til fólk sem fellur í hvorugan flokkinn og á við önnur heilsufarsvandamál að stríða sem orsakar yfirþyngd.

    Ef við lítum á söguna þá fór fólk að fitna upp úr 1970. Ástæða þess er sú að hjartaverndunarsamtök í USA komust að þeirri mjög svo lítið rannsökuðu niðurstöðu að fita væri slæm fyrir hjartað og æðarnar (þetta hefur aldrei verið sannað). Fljótlega eftir það fór að bera á svokölluðum „diet“ vörum í búðum og við vitum öll hvernig þyngd Bandaríkjamanna hefur þróast síðan. Þessi rangi „hallelúja“ söngur um að fita sé slæm og neysla á kornvörum sé góð hefur verið sunginn svo lengi að þó að nýjar (eða gamlar) staðreyndir komi fram eru þær hunsaðar og fólk heldur áfram að hjakka í sama hjólfarinu haldandi það að magnið sé það sem skiptir öllu máli.

    Svo að lokum vil ég benda á það að verðlag í búðum hefur sitt að segja um fæðuval einstaklinga, kolvetnaríkar vörur (snakk, nammi, hrísgrjón, pasta o.s.frv.) eru alltaf á útsölu á meðan kjöt, ostar, fiskur, hollar olíur og ferskt grænmeti eru á uppsprengdu verði.

  • Það er merkilegt hvað fólk að trúir því að feit fólk borði minna en grannt fólk.

    Það var viðtal við ungan mann áStöð 2 í gærkveldi (Ísland í dag), sem var orðinn tæplega 160 kíló. Hann léttist um 40 kíló með því að borða minna og reglulega ásamt því að stunda líkamsrækt.

    Ef kauði fer í sama far og áður, þ.e. neita að viðurkenni offitu sína sem sjálfskaparvíti, mun hann þyngjast aftur og verða ósjálfbjargandi fitubolla.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com