Mánudagur 28.09.2009 - 18:40 - 4 ummæli

Áfram Lýðheilsustöð!

Í dag voru kynntar niðurstöður skýrslu um þróun líkamsþyngdar Íslendinga frá árinu 1990 til 2007 sem unnin var á vegum Lýðheilsustöðvar. Þar kom fram að talsverð þyngdaraukning hafði átt sér stað á þessu tímabili og hafði hlutfall þeirra sem teljast of feitir (BMI ≥30) aukist um rúman helming, þannig að nú teljast um 20% fullorðinna Íslendinga of feitir.

Við framsetningu skýrslunnar lögðu höfundar sérstaka áherslu á tvennt: 1. Að ekki skyldi nota þessar niðurstöður til þess að herja frekar á feitt fólk og ala á neikvæðum viðhorfum í þeirra garð og 2. Að nota skyldi þessar niðurstöður sem hvata til þess að skapa almenningi betri tækifæri til að lifa heilbrigðu og góðu lífi. Starfsfólk Lýðheilsustöðvar lagði skýra áherslu á það að horfa ætti á lífsvenjur frekar en líkamsþyngd og tók fram að ekki væri hægt að sjá á vigtinni hversu heilsuhraust fólk væri. Ennfremur væri það á ábyrgð samfélagsins, ekki síður en einstaklinga, að skapa öllum tækifæri til þess að hreyfa sig, borða hollan mat og lifa góðu lífi. Möguleikinn á því að lifa heilbrigðu lífi á ekki að vera bundinn við stétt eða stöðu. Við viljum hollan mat í skólana og nægan frítíma fyrir fullorðna til þess að geta sofið vel, eldað góðan mat og farið í hjólatúra með börnunum sínum – eða bara einir og sér.

Stórkostlegt að sjá slíka afstöðu hjá jafn áhrifamikilli stofnun og Lýðheilsustöð. Eins og það hefði verið auðvelt að nota þetta tækifæri til þess að blása rækilega í herlúðrana gegn offitu og hvetja alla til að fara í megrun. En nei, það var meira að segja sérstaklega tekið fram að fólk ætti ekki að fara í megrun, því megrun er fitandi. Engin læti, engin dramatík, engar heimsendaspár. Bara heilbrigður fókus á jákvæða lífshætti og manngildi, óháð holdafari. Það lá við að ég táraðist.

Flokkar: Heilsa óháð holdafari · Samband þyngdar og heilsu

«
»

Ummæli (4)

  • Allt gott og blessað með hólið á Lýðheilsustofnun, en best væri ef allir fíklar fengu sama skilning og offitusjúklingar sem eru margir orðnir öryrkjar og eru þar af leiðandi á framfæri almennings og eiga eftir að verða ansi dýrir fyrir heilbrigðiskerfið með alla þá sjúkdóma sem herja á þá.

  • Það mætti vel blása í einhverja lúðra og hvetja fólk til heilbrigðara lífernis til þess að það verði ekki offitunni að bráð. Þetta er ægileg þróun og sömuleiðis sorglegt ef einhverjir telja megranir vera lausn á vandanum.

    Offita er alvarlegt vandamál en líkt og þú segir er hún ekki bundin við þyngd eina saman.

    Hreyfa sig meira, borða betur og í sumum tilfellum minna.

    Þetta er fyrst og fremst á ábyrgð einstaklinga, en við sem þjóðfélag megum byrja að hamra betur á þessu. Hætta megrunartali, hætta að draga fram afsakanir fyrir óheilbrigðu líferni og upphefja það (vannæringu sem ofnæringu).

    Það þarf enga stofnun til þess að við áttum okkur á þessu og þetta er sannarlega ekki eitt af því sem skólum verður kennt um.

  • Dagný Daníelsdóttir

    Frábært framtak hjá lýdheilsustofnun og ædislegt ad sjá ad tad er verid ad taka á vandanum á skynsamlegan og heilbrigdan hátt. Og ad verid sé ad koma med „guidelines“ eda réttara sagt kynda undir hugsunarhátt sem vid oll getum notid góds af. Mun mannlegri approach en hefur verid tekin hingad til í málum vardandi offitu.

  • Af hverju dæmirðu að Lýðheilsustöð sé áhrifamikil? Ég held einmitt að Lýðheilsustöð sé akkúrat alls ekki áhrifamikil, frekar að þetta sé enn ein máttlaus ríkisstofnunin með of mikið af fólki að leggja kapal og spila bubbles í vinnunni.

    Sumir eru kannski á Facebook eða jafnvel msn.

    Ef heimasíða stofnunarinnar er skoðuð ætti öllum að vera ljóst að þetta er einstaklega máttlaus stofnun. Skora á þig að kynna þér málið.

    Hitt er annað mál að öfgakennd umræða um feitt fólk er ekki af hinu góða og alveg rétt hjá þér. Þó er feitt fólk ekki yfir gagnrýni hafið frekar en reykingamenn eða maraþonhlauparar einsog þú hefur líka bent á:D

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com