Föstudagur 25.09.2009 - 20:44 - 13 ummæli

Um snakk og staðalmyndir

Það er rétt að árétta aðeins hvað hugtökin líkamsvirðing og heilsa óháð holdafari standa fyrir. Ég er oft sökuð um að hvetja til óheilbrigðra lifnaðarhátta, og þá sérstaklega til þess að fólk fái sér hamborgara og snakk. Þetta kemur mér alltaf spánskt fyrir sjónir því ég held að ég hafi aldrei á ævi minni hvatt neinn til að fá sér hamborgara. Ég er ekkert sérstaklega fyrir hamborgara. En líkast til er þarna verið að vísa til hinnar feitu staðalmyndar sem við höfum úr fjölmiðlum: Feitt fólk liggur uppi í sófa og étur snakk. Það er gert ráð fyrir því að þar sem ég er jákvæð í garð feitra þá hljóti ég að vera að hvetja til þess að fólk borði ruslfæði.

Enda þótt ég sé lítið fyrir skyndibita þá finnst mér skrýtið að það að borða pítsu, snakk og hamborgra skuli vera orðið það versta sem hægt er að gera sjálfum sér í hugum margra, því ég get ímyndað mér margt verra. Að reykja, misnota áfengi og lyf, stunda áhættusamt kynlíf, skrifa sms á meðan verið er að keyra og lifa kyrrsetulífi er meðal þess sem ég tel verra fyrir heilsuna en að borða snakk.

Ég hef auðvitað líka verið sökuð um að hvetja fólk til að lifa kyrrsetulífi þótt það hafi ég aldrei gert. Ég trúi því af öllu hjarta að regluleg hreyfing sé eitt það allra besta sem við getum gert fyrir líkama og sál, hvort sem við erum feit eða mjó. En það er ekki endilega þar með sagt að því meiri hreyfing sem stunduð er því betra. Líkaminn þarf á hvíld að halda og þarf að fá að jafna sig eftir áreynslu. Við þurfum líka að læra að hlusta á líkamann og virða þau merki sem hann gefur okkur, eitthvað sem margir eiga erfitt með að gera.

Það er ekki hægt að sjá utan á fólki hversu heilbrigt það er. Fullt af fólki hefur þetta dæmigerða heilbrigða útlit en þegar lífsvenjurnar eru skoðaðar nánar þá kemur í ljós að þær eru síður en svo til fyrirmyndar. Kannski þjáist manneskjan af átröskun, kannski lifir hún á ströngu megrunarfæði, kannski neytir hún alls konar fitubrennslu- og fæðubótarefna sem leggja álag á hjarta, lifur og nýru. Kannski reykir hún. Kannski liggur hún uppi í sófa á kvöldin og borðar snakk.

Líkamsvirðing felst í því að bera virðingu fyrir líkama sínum og hugsa vel um hann. Í stað þess að stjórna líkamanum með harðri hendi og þvinga hann til að vera og gera það sem við viljum, þá lifum við í sátt og samlyndi við líkama okkar. Við leyfum honum að leiða okkur áfram og hlustum þegar hann gefur okkur merki um það sem hann þarfnast. Við lítum á verki og vanlíðan sem skilaboð um eitthvað sem þurfi að laga. Á sama tíma sættum við okkur við ófullkomnleika líkamans og þykir vænt um hann eins og hann er.

Líkamsvirðing felst einnig í því að bera virðingu fyrir líkömum annarra. Að viðurkenna að líkamlegur margbreytileiki er eðlilegur hluti af tilverunni. Að viðurkenna að við getum ekki lesið neitt um mannkosti eða lífsvenjur fólks af vaxtarlagi þess.  Að gera sér grein fyrir að það að telja sig vita eitthvað um fólk eingöngu á grundvelli holdafars eru fordómar.

Heilsa óháð holdafari er tilraun til að nálgast heilsu á grundvelli líkamsvirðingar. Hugmyndin er sú að efla fólk til þess að taka ábyrgð á eigin heilsu og taka skref í átt að heilbrigðara og ánægjulegra lífi óháð því hvort það er feitt eða mjótt. Þessi nálgun miðar að hlutleysi hvað þyngd varðar. Í stað þess að líta svo á að grannur vöxtur sé eftirsóknarverður og það sé verst í heimi að vera yfir kjörþyngd, er viðurkennt að heilbrigð þyngd geti verið einstaklingsbundin. Það sem passar einum hentar kannski ekki öðrum. Heilbrigð þyngd er einfaldlega sú þyngd sem við viðhöldum áreynslulaust með því að lifa heilbrigðu lífi.

Flokkar: Heilsa óháð holdafari · Líkamsvirðing

«
»

Ummæli (13)

  • Það hlaut að koma að því að þér rataðist rétt orð á munn:) Lengi búinn að bíða eftir því.

  • Ég hætti að drekka kók og að borða snakk.
    Á 4 mánuðum hef ég lést um 11 kíló.

    Eftir 6 kíló í viðbót er ég kominn í kjörþyngd.

    Bara sorrí, en fitubollur eru latar druslur sem geta ekki náð sínum markmiðum.

    Þegar þú Sigrún, ert komin undir BMI25, þá skaltu kenna okkur hinum um mataræði og að í lagi sé að vera feitur. Þangað til hljómar þú líkt og dópistinn sem segir að það sé ekkert að því að komast í vímu.

  • Sólveig Anna

    en frábært blogg!
    björn I, þú ættir kannski að lesa færsluna aftur, ég held að þú hljótir að hafa misskilið eitthvað…

  • Sólveig Anna

    og hamborgarinn er ógeðslega girnilegur, ábyggilega heimatilbúin dásemd.

  • Íris Rut

    frábært blott hjá þér Sigrún

  • Íris Rut

    átti auðvitað að vera blogg en ekki blott

  • áhugavert 🙂

  • Nafnlaus gunga

    Auðvitað er þyngd einstaklingsbundin en það er nú samt bara þannig að þeir sem eru yfir kjörþyngd, að ég tali nú ekki um þá sem eru vel yfir kjörþyngd, er fólk sem borðar of mikið og hreyfir sig of lítið! Þetta er ekki rocket science – minna inn en út, allt gott í hófi, getur hreyft þig til að leyfa þér hamborgara o.s.frv.

    Aðeins og þung manneskja getur vissulega verið í betra formi en grönn manneskja, en alltof þungt fólk er og þungt af ástæðu og það er ekki hollt!

  • Björn I, láttu okkur vita hvernig staðan verður á þér eftir eitt ár. Og síðan líka eftir tvö ár. Hvað verðurðu þungur þá? Verðurðu þá ekki aftur byrjaður að borða snakk og drekka kók?

  • Björn, ég held að ég geti fullyrt að BMI stuðull Sigrúnar sé undir 25 (ekki það að það skipti neinu máli). Þarna opinberar þú fordóma þína laglega. Ég vona bara að líf þitt breytist til batnaðar þegar þú nærð BMI drauma þinna, elsku kallinn minn, hver veit, kannski finnur þú jafnvel sjálfsmynd einhvers staðar á leiðinni.

  • Snilldarfærsla hjá þér, Sigrún!

  • Takk fyrir gott blogg, margt áhugavert að finna á síðunum þínum. Mér finnst mjög jákvætt að einhver skuli (þora að) fjalla um þessi mál út frá öðru sjónarhorni, aldrei hollt að allir á sama máli (sjáið hvernig fór fyrir okkur í efnahagsmálunum 🙂

    Auðvitað er það heilsan sem skiptir öllu máli, ekki fjöldi kílóana einn og sér. Það þarf að setja þessa hluti í samhengi eins og allt annað. Og eins og alltaf, ekki bara svart eða hvítt heldur mismunandi grátt.

    Takk fyrir mig, held áfram að fylgjast með þér þó hafi ekki verið dugleg að kvitta hingað til.

  • Agnes Ósk

    Í öfgakenndri umræðu sem stýrist af billjóna dollara megrunariðnaði er SVO hressandi að lesa eitthvað sem skrifað er af skynsemi!
    Takk fyrir að halda úti þessarri blogsíðu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com