Fimmtudagur 19.11.2009 - 23:11 - 13 ummæli

Af hverju höfum við fitnað? Fyrri hluti

Í umræðu um vaxandi offitutíðni á Vesturlöndum er gjarnan hamrað á tvennu: Við borðum meira og hreyfum okkur minna. Þessi söngur hefur heyrst svo oft að hann er orðinn að sjálfsögðum sannindum í hugum flestra og því kann að koma mörgum á óvart hve lítill raunstuðningur býr þar að baki. Í besta falli ætti að líta á ofát og hreyfingarleysi sem einar af mögulegum skýringum hins meinta offitufaraldurs, frekar en sem sannreyndar orsakir, hvað þá einu orsakir, hans.

Vandamálið við rannsóknir á hreyfingu er að fáum datt í hug að fylgjast vel með hreyfingu almennings áður en fólk fór að fitna. Því liggja fá gögn til samanburðar við hreyfimynstur okkar nú á dögum og virðast staðhæfingar um aukna kyrrsetu oft meira vera byggðar á rómantískum hugmyndum um fortíðina en haldbærum gögnum. Vissulega hafa orðið breytingar á atvinnuháttum þannig að fleiri stunda kyrrsetustörf nú en áður og svo hafa menn tínt til aukna bílaeign til merkis um að fólk keyri meira og gangi minna. Það má vel vera rétt en við þetta bætist að fleiri taka nú þátt í skipulögðu íþróttastarfi og hreyfing í frístundum hefur aukist til muna, bæði meðal karla og kvenna. Áður fyrr tíðkaðist það hreinlega ekki meðal fullorðinna að hreyfa sig í frístundum. Það var lítt þekkt að venjulegt fólk færi í langa hjólatúra, gengi á fjöll eða færi í ræktina eftir vinnu. Margar konur voru heimavinnandi og ekki endilega hægt að ganga út frá því að þær hafi hamast þar við erfiðisvinnu. Öll helstu heimilistæki voru komin á markað löngu áður en þessi blessaði offitufaraldur hófst.

Úr æsku minni fyrir sirka 30 árum man ég eftir konum sem fóru oft í heimsókn til hverrar annarrar, drukku kaffi og reyktu.  Þær saumuðu og prjónuðu, snýttu börnum, löguðu til og elduðu matinn en stóðu samt ekki sveittar við það. Flestir menn sem ég þekkti unnu á skrifstofu og keyrðu í vinnuna. Yfirleitt man ég eftir fullorðnu fólki sitjandi. Það var horft á sjónvarpið á kvöldin, lesið eða saumað. En ég var náttúrulega borgarbarn. Það var meira um líkamlega vinnu í sveitum og sjávarplássum. Engu að síður finnst mér ekki ósennilegt að við höfum miklað fyrir okkur þá hreyfingu sem á að hafa átt sér stað í daglega lífinu í gamla daga.

Ég efast einnig um að mataræði okkar hafi versnað frá því sem áður var. Þegar fólk hugsar til baka man það helst eftir því að allir tóku lýsi og það var fiskur á borðum oft í viku. Annað hefur gleymst, eins og að í gamla daga var settur sykur út á allt. Það var sykurkar á hverju eldhúsborði sem stráð var úr yfir seríósið, hafragrautinn, slátrið, skyrið og stundum rúgbrauðið. Kaffitíminn haldinn hátíðlegur á hverjum degi og yfirleitt var bakkelsi á borðum. Sumir höfðu líka kvöldkaffi með smurðu brauði og kökum. Það voru engar fitu- eða sykurskertar matvörur til. Við borðuðum mikið af unnum kjötvörum (bjúgu, slátur, lifarpylsu og kæfu), Vilko súpur og franskbrauð með osti, súrmjólk með púðursykri, skyr með rjóma og grjónagraut með kanilsykri. Allt þetta þótti hollur og kjarngóður matur. Djús var blandað úr vatni og Egils þykkni. Allt var steikt upp úr smjörlíki og auka feiti var stundum sett út á matinn. Það voru hamsar með fiskinum. Það var ekki mikið um grænmeti og ávexti, fyrir utan kartöflur og ORA baunir. Jú, og kokteilávexti á sunnudögum. Með rjóma. Fullorðnir drukku kaffi og börn nýmjólk. Ég man ekki til þess að hafa drukkið eitt einasta glas af vatni í æsku.

Niðurstöður síðustu skýrslu Manneldisráðs staðfesta að mataræði þjóðarinnar hefur farið batnandi á undanförnum árum. Árið 1990 var vatn fjórði algengasti drykkur landsmanna, á eftir kaffi, mjólk og gosi. Árið 2002 var vatn hins vegar algengasti drykkur þjóðarinnar og kaffidrykkja hafði minnkað. Fæðumynstur landsmanna hafði almennt færst nær ráðleggingum um æskilegt mataræði, þótt enn væri ýmislegt sem mætti bæta, eins og óhófleg gosneysla og sykurát. En neysla harðrar fitu hafði minnkað og neylsa grænmetis og ávaxta aukist.

Flokkar: Stríðið gegn fitu · Þyngdarstjórnun

«
»

Ummæli (13)

  • Skil ekki þetta lúxus vandamál….að yfir höfuð að spá í þetta þegar verið er að taka okkur í rassgatið..en endilega veltið ykkur upp úr lúxus vandamálum!

  • Máske er megrunarkúrum um að kenna því þeir hægja víst á brennslu líkamans, Ég er ein þeirra sem hef orðin bústin með árunum. Nýlega kom í ljós að ég er með kæfisvefn og hef sennilega haft hann um árabil. Ein af afleiðingunum er sífellt orkuleysi og þá er nærtakt að grípa til aukabitanna svo hægt sé að hækka blóðsykurinn smá og fá aðeins úthald.

    Nú eru liðnir 2 mánuðir síðan ég fékk öndunaraðstoð. Ég er að fá aukna orku of finn nánast aldrei fyrir því orkuleysi sem var svo algengt áður. Hvort þetta mun svo leiða til þess að ég fari að léttast á svo eftir að koma í ljós, en ég hef stóraukið hreyfinu og get núna hreyft mig án vandræða í fyrsta skipti í mörg ár.

  • Jon Eggert

    Fjandi góður pistill

  • Vandamálið er diet vörur. Þær voru ekki til þá en núna þarf að leita með logandi ljósi til að finna eitthvða ætt sem ekki er merkt „diet“, „fitusnautt“ eða „sykurlaust“.
    Fólk lætur mata sig á þessarri óhollustu í það endalausa.

  • Hver er þá þín skýring á þessu?

  • Ég skil ekki alveg konseptið bakvið þetta blogg. Ég er ekki að tala um færsluna sem slíka heldur efnistök bloggsins „Líkamsvirðing“.

    Blogg sem fjallar um skakka líkmams upplifun eða þvíumlíkt. En er um leið stefnt gegn anórexískum pælingum osfr.

    Þetta minnir mig á forsíðurnar hjá kvennablöðunum sem alltaf skarta einhverjum anórexíum á forsíðu, en efni téðra blaða er oftar en ekki upplýsingar hvernig ekki að verða forsíðustúlkan….

    Kannski er erfitt að fjalla um málefnið á sama hátt og t.d um sjálfsmorð, en þau aukast jú við alla umfjöllun.

    Ég er ekki að gagnrýna eða þvíumlíkt, heldur aðeins að velta fyrir mér konseptinu á bakivið bloggið. ég vona að enginn móðgist og skilji punktinn sem ég er að reyna að setja fram.

    kv. Teitur.

  • Dagný Daníelsdóttir

    Teitur, tetta blogg á ad vekja fólk til umhugsunnar um sýn okkar á heilsu, fitu, líkama og því tengda hluti, sem tví midur er ordin ansi skökk í okkar samfélagi í dag. Eins og ég les þetta er verid ad reyna ad fá fólk til að hugsa öðruvísi, og ef til vill meira gagnrýnið, og ekki gleypa við öllum þeim (misjafna) áróðri sem er í gangi. Svona tek ég þessu allavega.

  • Anna Pála

    Frábær pistill og góðir punktar! Hlakka til að lesa seinni hlutann!

  • Það hefur einnig verið talað um það að tækniframfarir séu orsakir offitu. tækniframfarir valda því að fólk eyðir minni tíma í eldamennsku (t.d. örbylgjumatur), sem bæði er næringarlega verri en heimtilbúinn matur og einnig er fáum hitaeiningum brennt við það að útbúa matinn (það þarf ekki að skera, hræra o.s.frv.)

  • Af því að við borðum of mikið.

  • Ég fékk bara nostalgíukast við að lesa um matinn í „gamla“ daga. Ég held líka að hraðinn í þjóðfélaginu geri það að verkum að það eru endalausar skyndilausnir. Horfði á þátt á Stöð tvö í gær með einhverri Gillian, bresk kelling sem tók 2 fitubollur eins og hún kallaði þær og fékk þær til að huga betur að því hvað þær voru að borða, en shit, vonandi fær enginn að tala svona við eða um mig, þátturinn gekk útá að þessum vesalings konum vantaði bara viljastyrk , það skein í gegn að þessar konur væru viðbjóðslegar, bara mjög sorglegt dæmi. En þetta selur, ég horfði jú á þáttinn á enda…………

  • Páll Jónsson

    Ágætur pistill en svolítið óljós… Ef það er hvorki hreyfingin, magn matar né kaloríufjöldinn sem hefur breyst, hvað þá?

    Erum við að þyngjast vegna galdra? Þú skrifar þig svolítið út í horn.

  • Sæl Sigrún
    Þörf umræða og gott framtak að huga að þessu efni, en ég er ekki viss um að þú sért á réttri braut í greiningu þinni á orsökum offitu. Ég er læknismenntaður og hef menntað mig mikið í orsökum og meðferð offitu í Bandaríkjunum og hérlendis.
    Mér sýnist að Páll Jónsson hér að ofan bendi í vandamálið í skrifum þínum Sigrún.
    Það er alveg sama hvernig við veltum þessu upp með mataræðið eða hreyfinguna, það er í raun bara nokkrar mögulegar skýringar á því hvers vegna við höfum fitnað í heildina:

    a) Við borðum meira en áður og hreyfum okkur svipað mikið í heildina.
    b) Við hreyfum okkur minna en áður, en borðum svipað magn
    c) Við borðum enn meira en við höfum aukið hreyfinguna.
    d) Við bæði borðum meira og hreyfum okkur minna en áður.

    Það er rétt að nákvæm gögn skortir um hreyfingu og mataræði fyrr og nú og því erfitt að segja með vissu hvað af a)-d) hér að ofan á best við.
    Eins og þú bendir á, þá er aukin hreyfing í frístundum, en það er ekki víst að hún vegi upp á móti minnkaðri líkamlegri vinnu sem stóð í 8-12 klst. á dag, en frítímaæfingar eru 1-2 klst. á dag.

    Það er alveg ljóst þó að við borðum meira í dag að meðaltali (þó hollar samt, því kransæðasjúkdómum hefur fækkað) miðað við þá hreyfingu sem við fáum, hvort sem að hún er meiri, jöfn eða minni en áður. Öðru vísi getur þjóð að meðaltali ekki fitnað.

    Það þarf svo að skoða báða megin þættina, þ.e. ofátið og skort á hreyfingu, nánar. Orsakirnar á bak við ofát og hreyfingaleysi eru það sem málið snýst um.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com