Sunnudagur 29.11.2009 - 15:02 - 9 ummæli

Af hverju höfum við fitnað? Seinni hluti

Um daginn var fjallað um þyngdaraukningu undanfarinna áratuga og bent á að þrátt fyrir endurteknar upphrópanir um ofát og hreyfingarleysi sem helstu, jafnvel einu, orsakir þeirrar þróunar, þá byggja slíkar fullyrðingar á veikum grunni. Ekki er verið að halda því fram að mataræði og hreyfing hafi örugglega ekki átt neinn þátt í þeirri þyngdaraukningu sem orðið hefur, heldur frekar verið að benda á að ástæðurnar eru að mestu ókunnar. Engar skýringar hafa beinlínis verið staðfestar. Engu að síður hefur kerfisbundið verið einblínt á mataræði og hreyfingu þrátt fyrir að margar aðrar skýringar komi til greina. Í þessum pistli verður fjallað um þær.

Árið 2006 kom út grein í International Journal of Obesity eftir hóp fræðimanna sem hafa verið áberandi í offitustríðinu. Þeir halda því einmitt fram að þessar tvær mögulegu skýringar hafi fengið óhóflega athygli á kostað annarra, sem hafi þar af leiðandi ekki verið rannsakaðar eins vel. Vísindamennirnir benda á tíu aðrar mögulegar orsakir fyrir vaxandi þyngd almennings, sem hafa þó fengið takmarkaða skoðun. Meðal þeirra eru:

  • Svefnskortur. Fólk sefur minna nú en áður og svefnvandamál hafa aukist. Rannsóknir sýna að þeir sem sofa minna hafa tilhneigingu til að fitna.
  • Mengun. Vaxandi mengun getur haft áhrif á hormónastarfsemi líkamans, sem leikur lykilhlutverk við þyngdarstjórnun.
  • Hitastig. Vegna hitastjórnunar (ofna og loftræstingar) innanhúss þarf líkaminn síður að brenna hitaeiningum til að hita sig upp eða kæla sig niður daglega.
  • Reykingar. Fólk reykir mun minna nú á dögum en fyrir nokkrum áratugum. Reykingar draga úr matarlyst og auka brennslu (þetta getur hins vegar átt þátt í að skýra þá „þversögn“ sem við okkur blasir: Við höfum fitnað en lifum lengur).
  • Lyfjaneysla. Mörg lyf hafa áhrif á líkamsþyngd og hefur lyfjaneysla stóraukist á undanförnum árum.

Margar af þessum skýringum koma vel til greina og eru eitthvað sem við ættum að skoða nánar í stað þess að einblína gagnrýnislaust á ofát og hreyfingarleysi. Þær benda á að ef til vill er ástæðan fyrir vaxandi þyngd meira tengd ýmsum umhverfis- og þjóðfélagsbreytingum sem orðið hafa á undanförnum áratugum en vaxandi leti og matgræðgi almennings, og þessar breytingar eru ekki endilega alslæmar þótt þær hafi ýtt undir einhverja þyngdaraukningu. Gott dæmi um það eru reykingar.

Ég tók samt eftir því að þarna vantar einn grunsamlegan sökudólg, sem virðist alltaf sleppa undan fránum augum offituvísindanna. Kannski er það af því að hann er á mála hjá sjálfu vísindasamfélaginu? Þessi sökudólgur er auðvitað megrun.

Fjöldi rannsókna sýnir að megrun tengist þyngdaraukningu þegar fram í sækir, frekar en þyngdartapi, og hafa megrunartilraunir reynst auka áhættu á offitu meðal unglinga. Hér er auðvitað aðeins um tengslarannsóknir að ræða, þar sem ekki er hægt að álykta um orsakir, en engu að síður hefur megrun reynst spá fyrir um ofát og átköst þegar fram í sækir, sem ýtir undir þyngdaraukningu, auk þess sem hún hægir á efnaskiptum líkamans. Margt bendir til þess að megrun ýti líkamanum út í einskonar sveltisástand þar sem hann aðlagar efnaskipti og notkun næringarefna með það að marki að missa sem minnst af fituforða. Á sama tíma breytist hugarstarfsemi þannig að viðkomandi verður sífellt sólgnari í mat, hugsar um mat öllum stundum og líkur á því að missa sig í ofát aukast. Þetta er meðal annars talin ástæða þeirrar hröðu þyngdaraukningar sem oft verður í kjölfar þyngdartaps.

Fleiri skýringar koma auðvitað til greina. Við erum alin upp við gríðarlega ytri stýringu á mataræði. Börn eru ýmist hvött til að klára matinn sinn eða bannað að fá sér meira, nammi er bara leyfilegt á laugardögum, matarauglýsingar og tilboð eru úti um allt í bland við megrunarboðskap heilsu- og líkamsræktargeirans og svo mætti lengi telja. Rannsóknir sýna að þeir sem fara eftir ytri skilaboðum (t.d. megrunarráðleggingum, hversu mikið er eftir á disknum eða nýjustu KFC auglýsingunni) um hvenær og hversu mikið þeir borða, eru almennt þyngri en þeir sem hlusta á skilaboð líkamans, hungur og saðningu.

Einnig má telja til þá staðreynd að við drekkum núna meira gos og áfengi en við gerðum. Mikil aukning hefur orðið í neyslu bjórs og léttvína á undanförnum árum og má gera ráð fyrir að fólk sé að taka inn fleiri hitaeiningar í vökvaformi. Ýmsar rannsóknir benda til þess að líkamanum gangi verr að stýra matarlyst og þyngd ef hitaeininga er neytt í fljótandi formi. Með öðrum orðum, ef við borðum máltíð sem inniheldur 500 hitaeiningar þá verðum við saddari heldur en ef sama hitaeiningafjölda er neytt í formi t.d. bjórs. Orka í vökvaformi virðist ekki „skrásetjast“ með sama hætti og matur í líkamanum – hugsanlega vegna þess að vökvi inniheldur oft ekki það sem helst ýtir undir seddutilfinningu, s.s. prótein, fitu og trefjar.

Lokaniðurstaða: Við höfum engar staðfestar skýringar á því af hverju við höfum fitnað að undanförnu. Óhóflega hefur verið einblínt á ofát og hreyfingarleysi sem helstu skýringar á þessari þróun þrátt fyrir takmarkaðan raunstuðning og hefur það ef til vill leitt til þess að viðbrögð okkar hafa gert illt verra.

Flokkar: Stríðið gegn fitu · Þyngdarstjórnun

«
»

Ummæli (9)

  • Skýringin er afar einföld og hana er að finna í mataræði og lífsstíl landsmanna.

    Í hvert skipti sem ég keyri fram hjá Metro (áður McDonald’s) við Turninn í Kópavogi, þá er alltaf örtröð jafnt inni sem úti. Það eru engin geimflaugavísindi að þegar við tökum upp sömu lifnaðarhætti og kaninn, þ.e. stíga upp úr skrifstofustólnum og setjast upp í bíl til þess eins að koma við í bílalúgunni og panta okkur hamborgara og franskar, sem er síðan skolað niður með gosdrykk, þá leiðir það til offitu.

  • Páll Jónsson

    Höfundur eyðir 2000 orðum í að draga í efa hvort mataræði og lífstíll séu jafnmiklir höfuðþættir og flestir halda og fær svarið: „Skýringin er afar einföld og hana er að finna í mataræði og lífsstíl landsmanna.“

    Ég er ekki alveg að kaupa þetta hjá henni en fyrsta kommentið er svo ódýrt að það hálfa væri hellingur.

  • Sigurbjörn Sveinsson

    Þetta er bara spurning um umframhitaeiningar. Ekkert dularfullt við það. Ekki einu sinni dularfullt hvers vegna við étum meira en við þurfum.

    Það er dýrið í okkur. Mylur undir sig hvenær sem tækifæri er til.

    Það sannar bólan og hrunið.

  • Elva Björk

    Ef þetta væri bara spurning um umframhitaeiningar… hvernig getum við þá túlkað niðurstöður rannsókna sem sýna að fólk fitnar mismikið eða grennist mismikið við sama hitaeiningafjöld ? Hér áður fyrr voru rannsóknir gerðar sem kannski í dag þykja frekar siðlausar, en fólki var meinað að borða annað en smotterí til að halda sér gangandi og kom í ljós að sumir grenntust meðan líkamar annarra breyttust ekkert. Því er ekki hér um einfalt reikningsdæmi að ræða, kalóírur inn og kalóríru út… Heldur mun flóknara ferli að ræða og því sérkennilegt hvað auðvelt virðist vera að álykta sem svo að við fitnum BARA vegna umframhitaeininga.

  • Historiker

    umframhitaeiningar og hreyfingarleysi … það þarf ekkert frekari rannsóknir. Senda krakkana út að leika sér, spara ruslfæðið og málið er dautt. Þeir sem þjást af arfgengri fitu og verulega hægum metabólisma verða bara áfram feitir eins og þeir hafa alla tíð verið.

  • Vilhjálmur Ari Arason

    Til hamingju með flota síðu og umræðu Sigrún.
    Græðgin á sér eingin takmörk eins og Sigurbjörn komst að orði. Við getum litið á þetta vandamál í víðara samhengi og með tilliti til hvernig góðærið fór með geðræna heilsu landsmanna eins og Landlæknir bendir nú á. Ekki síður alvarlegt er hvaða áhrif „góðærið“ hafði á heilsu barnanna okkar. Ofita meðal þeirra aldrei algengari, tannheilsa hvergi lélegri í hinum vestræna heimi og sýklalyfjanotkun líklega hvergi meiri, sennilega allt vegna TÍMALEYSIS.

  • Ágætur pistill og vekur til umhugsunar. Fyrir það vil ég þakka þér Sigrún.

    Annað sem er umhugsunarvert hvað sumu fólki finnst erfitt að höndla þá tilhugsun að einfaldar skýringar á þyngdaraukningu eru líklega ekki til!

    Þegar kafað er dýpra kemur annað í ljós eins og þú hefur verið dugleg að benda á. Vildi óska að fleiri skrifuðu álíka skynsama pistla.

  • Frábærir pistlar hjá þér. Sérstaklega finnst mér áhugaverður punkturinn um megrunarkúrana. Áhrif endurtekinna öfgakenndra megrunarkúra á meltingarhraða, efnaskipti og þar af leiðandi á yfirþyngd eru nefnilega gríðarleg. Líkaminn hækkar svokallað „setpoint“ eftir því sem oftar er jójóað fram og til baka í þyngd. Hann staðnar í hærri þyngd en fyrir megrunarkúrinn og erfiðara verður að ná sér niður í fyrri þyngd.

  • Andri Haraldsson

    Þetta er ágætis umræða, en ég held að höfundur taki heldur sterklega til orða þegar hún segir:

    ‘Við höfum engar staðfestar skýringar á því af hverju við höfum fitnað að undanförnu.’

    Það er kannski rétt að við höfum ekki tæmandi skýringar á öllu því sem viðkemur offitu. Einstaklingar eru mjög mismunandi og líkamar þeirra bregðast ekki allir eins við matarræði, lyfjum, hreyfingu, etc.

    En það er afar ólíklegt að grunnbrennsla þjóðfélagsins hafi að meðaltali stórminnkað á nokkurra ára tímabili. En meðalþyngd þjóðarinnar hefur svo sannarlega aukist.

    Ég hef ekki haldbærar íslenskar rannsóknir sem sanna að meðalkaloríuneysla hefur aukist og að meðalhreyfing hefur minnkað (t.d. vegna þess að færri landsmenn vinna líkamlega erfiða vinnu, og þó að fleiri stundi líkamsrækt, þá eru það ekki allir, og fáir gera það svo klukkutímum skipti hvern dag). En það hefur verið satt alls staðar annars staðar í heiminum að þegar tekjur aukast hratt og ruslmatarverð lækkar (líkt og gerðist mjög hressilega árin 2003-2008 á Íslandi), þá fitnar fólk.

    Mín niðurstaða af því að lesa þessa grein (og aðrar hér hjá Sigrúnu) er að það sé gott og þarft að halda uppi umræðum um heilsufar og holdafar. Sérstaklega er gott að draga fram í dagsljósið hversu slæm fyrirmynd tískuheimurinn er fyrir heims og sjálfsmynd ungs fólks. En ég held að umræðunni sé lítið gagn gert með því að draga úr áhrifum ofneyslu og ónógrar hreyfingar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com