Föstudagur 11.12.2009 - 19:51 - 8 ummæli

Reikningsdæmið um þyngdarstjórnun


Þrátt fyrir að óvíst sé að þyngdaraukningu undanfarinna áratuga megi rekja til vaxandi leti og ofáts meðal almennings hefur lítið dregið úr þeirri sannfæringu í þjóðfélaginu. Í stað þess að endurskoða afstöðu sína syngja margir sama sönginn áfram og benda á að aðeins örlitlar breytingar í mataræði og hreyfingu þurfi til að hrinda af stað mikilli þyngdaraukningu. Þessi rök eru síðan notuð til þess að hvetja fólk til að gæta enn betur að mataræði sínu þar sem jafnvel smæstu breytingar á orkuneyslu geti haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér. Þessu til stuðnings er gjarnan bent á hið fræga kökudæmi: Ef maður tekur upp á því að borða aukaklega 2-3 kexkökur á dag (120 hitaeiningar) mun hann þyngjast um rúm tvö kíló á hálfu ári, þar sem eitt kíló jafngildir 7.000 kaloríum. Skilaboðin eru því ekki aðeins að fólk eigi að geta stjórnað líkamsþyngd sinni heldur að gæta þurfi ýtrustu nákvæmni þar sem hvergi megi út af bregða til þess að fólk hlaupi í spik.

Hugmyndin um að þyngdarstjórnun megi líkja við einfalt reikningsdæmi milli innbyrtrar og eyddrar orku hefur verið lífseig meðal jafnt lærðra sem leikra. Hún felur í sér að líkamsvöxtur sé einna helst spurning um persónulegt val og að allir geti orðið grannir ef þeir bara minnka fæðuinntöku og auka orkueyðslu. Þetta sjónarmið er engu að síður talsverð einföldun á því flókna samspili þátta er ákvarða líkamsþyngd. Rannsóknir sýna svo ekki verður um villst að holdafar stjórnast að miklu leyti af erfðum og benda tvíbura- og ættleiðingarannsóknir til þess að allt að 70% af breytileika líkamsþyngdar megi rekja til erfðafræðilegra þátta. Jafnframt sýna rannsóknir að fólk hefur sterka tilhneigingu til þess að viðhalda ákveðinni líkamsþyngd þrátt fyrir breytileika í innbyrtri og eyddri orku. Þetta bendir til þess að stjórn fólks yfir eigin líkamsvexti sé mun minni en almennt er talið og að strangar líffræðilegar hömlur séu á því hversu mikið hægt er að hafa áhrif á líkamsþyngd til langframa.

Viðmiðsgildiskenningin (set point theory) er ein áhrifamesta kenningin um þyngdarstjórnun hin síðari ár. Samkvæmt henni hafa allir fyrirfram ákveðna kjörþyngd (viðmiðsgildi) sem líkaminn reynir að viðhalda. Gert er ráð fyrir líffræðilegu viðgjafakerfi í heila sem stillir matarlyst og efnaskipti í samræmi við fæðuinntöku til þess að halda líkamsþyngd stöðugri. Rannsóknir þessu til stuðnings sýna að líkaminn eyðir stórum hluta þeirrar orku sem hann innbyrðir umfram þörf en hleður ekki endalaust inn í forðabúr sitt, eins og margir virðast halda. Rannsóknir á áhrifum sveltis sýna jafnframt að þegar líkaminn fær minni orku en hann þarf gerist hið þveröfuga. Undir þeim kringumstæðum einkennist öll líkamsstarfsemi af gífurlegum orkusparnaði og hugarstarfsemi beinist að því einu að komast í æti. Matarlöngun vex í samræmi við þyngdartap og tekur ekki að réna fyrr en upprunalegri þyngd hefur verið náð, jafnvel þótt þúsundum hitaeininga sé neytt í hverri máltíð.

Margt bendir til þess að viðmiðsgildi feitra sé hærra en annarra. Til dæmis sýna rannsóknir á músum að efnaskipti feitra músa eru alveg jafn eðlileg og grannra. Þegar þyngd feitra músa er hins vegar þvinguð niður með orkuskerðingu verða efnaskipti þeirra mun hægari en náttúrulega grannra músa í sömu þyngd. Þetta bendir til þess að það sé feitum músum jafn eðlislægt að vera feitar og það er grönnum músum að vera grannar – og það sé afbrigðilegt fyrir þær að vega jafnt þeim grönnu. Svipaðar niðurstöður hafa fengist hjá mönnum. Í rannsókn Leibel og félaga frá 1995 urðu nákvæmlega eins breytingar á efnaskiptum feitra og grannra við þyngdartap og þyngdaraukningu. Báðir hópar juku brennslu sína álíka mikið við fitun og drógu jafn mikið úr henni við megrun. Þetta bendir til þess að líkamar feitra séu í jafnvægi þegar þeir eru yfir meðalþyngd og þeir sporni gegn þyngdarbreytingum með sama hætti og aðrir. Þessar niðurstöður samræmast ekki hinu hefðbundna viðhorfi um að þeir sem eru feitir hljóti að borða „meira en þeir þurfa“, eins og oft er haldið fram. Þvert á móti er vel mögulegt að þeir sem eru feitir frá náttúrunnar hendi borði einfaldlega það sem þeir þurfa til þess að viðhalda sinni náttúrulegu kjörþyngd.

Flokkar: Megrun · Þyngdarstjórnun

«
»

Ummæli (8)

 • Góður pistill, og fróðlegur. Ég get alveg tekið undir þetta miðað við eigin reynslu.

 • Humm…Ég kaupi það alvega að sumir séu þyngri en aðrir frá náttúrunnar hendi og að ekkert sé að því. Fyrir það fólk er þessi megrunar, „sixpack“ kúltur auðvitað agalegur. Hins vegar getur ekki verið eðilegt að þyngjast og þyngjast, eða hvað? Er ekki bara málið að finna eitthvað þyngdarbil sem manni líður vel á og halda sig svo við það. Borða og hreyfa sig nægilega skynsamlega til að halda sig innan ákveðinna marka.

 • Sæl Sigrún
  Þú segir:

  Hugmyndin um að þyngdarstjórnun megi líkja við einfalt reikningsdæmi milli innbyrtrar og eyddrar orku hefur verið lífseig meðal jafnt lærðra sem leikra. Hún felur í sér að líkamsvöxtur sé einna helst spurning um persónulegt val og að allir geti orðið grannir ef þeir bara minnka fæðuinntöku og auka orkueyðslu.

  Fyrri setningin er rétt (lífseig kenning enda rétt) en seinni setningin – ályktun þín, er röng.

  Reikningsdæmið yfir þetta litla fæðismagn sem þurfi daglega umfram orkuþörfina til að þyngjast lýsir bara orkuefnafræðilegri forsendu þess að fitna, ekki því hvort að fólki er þetta sjálfrátt eða ekki. Það er ekki hægt að horfa fram hjá þessari jöfnu þegar að þyngdarstjórnun kemur, en lausnin á offituvandanum byggir auðvitað ekki á því einu að einblína á hana.

  Þú nefndir erfðafræðilega þætti og vissulega hafa þeir talsvert að segja, en ef að maður horfir á þann stutta tíma (um 30 ár) sem offitan hefur orðið að almennu vandamáli, þá er það ljóst að útskýringuna er ekki að finna í breytingum á genamengi okkar, heldur vegna erfðafræðilegs veikleika okkar fyrir því að lifa í allsnægtum. Þessi veikileiki hlýtur að hafa verið til staðar og sést það best á því hvernig það virðist forritað í mimunandi kynþætti hversu vel eða illa þeir þola hina vestrænu allsnægtarmenningu. Þetta er því samspil erfða og umhverfis, þar sem það er umhverfið sem hefur breyst, en erfðirnar ákaflega lítið.
  Set point kenningin sem Dr. Rudolph Leibel og nokkrir aðrir áttu heiðurinn af er athyglisverð og útskýrir aðlögunarhæfni líkamans við að viðhalda þyngd sinni og forðast orkuskort. Hún útskýrir að matarlyst og orkunotkun líkamans eru ekki algerlega fastar stærðir, heldur hafa ákveðna „autoregulation“ eftir næringarástandi, sem getur tímabundið brugðist við litlum sveiflum í fæðuinntöku til að viðhalda „set point“ þyngd.

 • Guðmundur Guðmundsson

  Þú segir:

  „Þrátt fyrir að óvíst sé að þyngdaraukningu undanfarinna áratuga megi rekja til vaxandi leti og ofáts meðal almennings hefur lítið dregið úr þeirri sannfæringu í þjóðfélaginu. “

  Ég er ekki viss um að dauðasyndirnar „leti“ og „ofát“ eigi erindi í umræðuna nema ætlunin sé að spyrða saman trúarofstækismenn og þá sem vara við afleiðingum offitu á heilsufar.

  Væri ekki nær að tala um að breyttir lífshættir hafi leitt til ósamræmis milli neyslu og brennslu? Mér virðist það lýsa betur afstöðu heilbrigðisyfirvalda a.m.k. Breyttar samgöngur, breyttir atvinnuhættir, breyttar tómstundir hafa dregið úr orkuþörf en á sama tíma hefur meðalorkuneysla lítið sem ekkert breyst. Þetta leiðir óhjákvæmlega til fitusöfnunar hjá heildinni þótt sumir sleppi.

  Það getur vel verið að erfir ráði mestu um það hverjir fitna og hverjir ekki. Upplýsingar um það ættu að draga úr sektarkennd þeirra sem eru feitir en þýðir það að við getum ekkert gert til þess að draga úr offitufaraldrinum? Það er augljóst að megrunarkúrar gera illt verra og fræðsla skilar litlum sem engum árangri hjá þeim sem þegar eru of feitir. En hvað með börnin? Eigum við ekki að reyna að stemma stigu við offitu meðal barna? Eða er það bara tímasóun?

 • Ég mæli með þú lesir um hormónið Ghrelin en það er hormón sem stjórnað svengdinni þinni og tengist kannski því sem þú ert að tala um .

  Talið er að hormón í maganum „forriti“ þyngdina þína og þegar þú léttir þig þá byggist þetta hormón upp og gerir allt sem það getur til að fá þig til að hætta þessu sultarástandi og reynir að fá þig til að borða…

  Ég bloggaði um þetta um daginn eftir að hafa farið í viðtal við lækni upp í Hjartavernd sem talaði um Þyngdarminni og þótti mér nokkuð merkilegt 🙂

  http://barbietec.com/subpage2.php?BloggID=2733

 • Þessi síða þín er snilld.

 • Dagný Daníelsdóttir

  Svanur, ég vil bara vera viss um ad ég sé ad skilja tig rétt. Meinar tú ad teir sem eru of feitir séu hreinlega veiklyndari einstaklingar sem geta ekki stadist freistingar allsnægtarsamfélagsins eins og tú kallar tad? Er tetta sem sagt bara spurning um viljastyrk?

  Mig langar einnig ad spyrja tig, Gudmundur. Tú segir á einum stad „Upplýsingar um tad ættu ad draga ú sektarkennd teirra sem eru feitir“…er tad tín skodun ad feitir ættu ad finna til sektarkenndar? ef svo er, hvers vegna?

  Gódur pistill og morg gód ummæli.

 • Guðmundur Guðmundsson

  Það er ástæðulaust fyrir feita að skammast sín fyrir holdarfarið en mig grunar að margir þeirra þjáist af sektarkennd.

  Mig langar að varpa fram spurningu. Hlutfall þeirra sem eru í mjög góðum holdum hefur farið hratt vaxandi á Vesturlöndum. Ert þú þeirrar skoðunar að eitthvað beri að gera til þess að vinna gegn þeirri þróun?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com